Færnimerki


Í janúar 2018 hófst Dagskrárráð handa við að skoða grundvöll og áhuga sveitarforingja á því að innleiða hvatakerfi þar sem skátarnir gætu unnið sér inn merki með fyrirfram ákveðnum dagskrárgrun. Dagskrárráð setti niður helstu kosti sem slíkt hvatakerfi þyrfti að hafa og eftir rannsóknarvinnu komst ráðið að þeirri niðurstöðu að íslenskir skátar gætu vel nýtt hvatakerfi annarra skáta á Norðurlöndum og var talið að sænska hvatakerfið myndi henta okkur best að þessu sinni.

Færnimerkin hafa verið notuð frá hausti 2018 og notkun þeirra verður endurskoðuð á tveggja ára fresti. Grunnur að merkjunum mun þó ekki breytast þó svo að sennilega muni viðbætur sjást reglulega og seinna meir íslensk útgáfa.

Það er okkar von að með merkjunum verði auðveldara fyrir skátana að setja sér krefjandi markmið og fái viðeigandi umbun fyrir.

Notkun verkefnagrunns

Merkin eru þess eðlis að einstakir skátar geta unnið að þeim á eigin vegum en einnig flokkurinn í heild sinni eða skátasveitin. Flokkurinn getur til dæmis sett sér markmið að vinna að einu til tveimur merkjum á önn. Merkin henta vel til þess að skapa dagskrárhring með 3-4 fundum og við hvetjum ykkur til að kafa vel ofan í viðfangsefni merkisins, nýta það sem þema í útilegum, dagsferðum og á fundum. Sveitarforinginn hefur fullt svigrúm til að skapa umgjörð og bæta við verkefnum sem tengjast þemanu. Það er mikilvægt að skátinn finni að hann hafi virkilega unnið sér inn fyrir merkinu og geti borið það með stolti.

Pantanir

Skrifstofa BÍS tekur við pöntunum á merkjum og sér til þess að vinsæl merki séu alltaf til. Ef þörf er á miklu magni af einhverju merki getur verið 2ja-3ja vikna bið eftir merkjunum og því gott að panta þau með þeim fyrirvara.

Yfirlitsbæklingur

Hægt er að finna bækling gefinn út 2019 með yfirliti yfir fyrstu merkin sem gefin voru út ásamt leiðbeiningum um hvernig nýta á dagskrárgruninn. Benda má á að ný merki er að finna hér fyrir neðan, ásamt því að efni sumra merkja hafa verið uppfærð síðan útgáfu bæklings. Bæklinginn er hægt að sækja hér.

Færnimerki 2019 PDF