Hvatakerfi


Við notum hvatakerfið til að hjálpa skátum að fá hugmyndir að verkefnum, að setja sér markmið og sjá árangur af starfinu.

Til dæmis getur skátinn eða flokkurinn valið sér færnimerki til að vinna að í 3-4 fundi eða skipulagt ferð þar sem markmiðið er að vinna sér inn hæða og stikumerki. Þeir skátar sem eru að ljúka sínu aldursbili geta valið að vera könnuðir og unnið að könnuðamerkjum og forsetamerkinu.

Merkin má svo sauma á skátapeysur, skátaskyrtur eða festa á tréskjöld til að hafa heima hjá sér eða í skátaheimilinu.


Færnimerki

Merkin eru þematengd og þrepaskipt. Skátinn getur bæði unnið að þeim sjálfur, með aðstoð foreldra eða á skátafundum, í útilegum og á námskeiðum. Allir skátar geta unnið sér inn færnimerki.

Silfurlituðu færnimerkin eru hæfnipróf þar sem skátinn sýnir fram á þekkingu á öryggisatriðum, og fær þar með leyfi til að nota ákveðin verkfæri eins og til dæmis hnífa eða axir.

Könnuðamerki

Skátar sem eru að ljúka aldursbili fá tækifæri til að vera könnuðir. Sem könnuðir þurfa þau að vinna að sérstökum verkefnum á síðasta árinu sínu.

Forsetamerki

Rekkaskátar geta unnið að forsetamerkinu séu þau áhugasöm um það og tekur vegferðin að forsetamerkinu rúmlega tvö ár. Rekkaskátar sem byrja að vinna að forsetamerkinu fá úthlutað sértilgert vegabréf til að halda utan um vegferðina.

Hæða- og stikumerki

Hæða- og stikumerkin eru áskoranir sem skátar geta unnið að í sínu starfi. Merkjunum er ætlað að hvetja til aukinnar útivistar í skátastarfi. Í hverri ferð er einungis hægt að fá annað hvort eitt stikumerki eða eitt hæðamerki. Það má vinna merkin inn í hvaða röð sem er.