Æskulýðsvetvangurinn

Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Ungmennafélags Íslands. Æskulýðsvettvangurinn hefur starfað frá árinu 2007 en formleg stofnun fór fram sumarið 2012.

Æskulýðsvettvangurinn vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi og stuðlar að heilbrigðum, uppbyggjandi, vönduðum og öruggum aðstæðum í slíku starfi. Tilgangur og markmið félagsins er að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna á sviði leiðtogaþjálfunar, fræðslu- og forvarnarmála, útbreiðslu og kynningar sem og á öðrum sviðum eftir því sem þurfa þykir. Tilgangi sínum og markmiðum hyggst félagið ná með því að standa fyrir námskeiðum, ráðstefnum og öðrum sameiginlegum verkefnum sem lúta að hagsmunum barna og ungmenna.

Æskulýðsvettvangurinn vinnur gegn einelti, kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi og/eða óæskilegri hegðun gagnvart börnum og ungmennum. Með fræðslu og forvörnum auk annarra verkefna er stuðlað að vitundarvakningu í samfélaginu og auknu öryggi barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Æskulýðsvettvangurinn telur mjög mikilvægt að öllum líði vel í leik og starfi innan Æskulýðsvettvangsins og að sá grundvallarréttur, að fá að vera óáreittur, sé virtur. Æskulýðsvettvangurinn leggur áherslu á að stuðla að jákvæðum samskiptum þar sem hver og einn er ábyrgur fyrir orðum sínum og gjörðum. Starfsfólk og sjálfboðaliðar eiga þannig að gæta vandvirkni og samvikusemi og koma fram af umhyggju, heiðarleika og virðingu gagnvart öllum þeim sem starfað er með og fyrir. Æskulýðsvettvangurinn leggur einnig ríka áherslu á að starfsfólk og sjálfboðaliðar séu fyrirmyndir þátttakenda og sýni góða hegðun og gott fordæmi, jafnt í starfi sem utan þess. Jafnframt telur Æskulýðsvettvangurinn mikilvægt að stuðlað sé að heilbrigðu, uppbyggjandi og vönduðu starfi með börnum og ungmennum

Heimasíða Æskulýðsvetvangsins

Á heimasíðu Æskulýðsvetvangsins er að finna upplýsingar um námskeið, verkfæri, eyðublöð og viðbragðsáætlanir. Þar er hægt að finna fræðsluefni um neteinelti í mismunandi birtingarmyndum, siðareglur, viðbragðsáætlun og upplýsingar um Verndum þau námskeið.


Viðbragðsáætlun

Viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf er landslæg áætlun vegna atvika og áfalla sem geta komið upp í félagsstarfi slíkrar starfsemi. Það eiga öll að geta gengið að því sem vísu að félagsstarf þeirra bjóði upp á öruggt umhverfi og að fólk fái að vera óáreitt í félagsstarfinu. Enn fremur eiga öll að geta gengið að því sem vísu að þegar atvik og áföll komi upp sé brugðist við á faglegan máta óháð því hvaða vettvangi sé starfað á. Skátarnir birtu sína fyrstu viðbragðsáætlun 2011, hún var uppfærð 2013 og aftur 2015, árið 2018 var hún svo tekin upp sem sameiginleg áætlun Æskulýðsvettvangsins. Sú áætlun lagði síðan grunn að þessari sameiginlegu áætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs og var unnin í sameiningu af Bandagalgi íslenskra skáta, KFUM/KFUK, Landsbjörgu, Ungmennafélagi Íslands, Íþróttabandalagi Reykjavíkur og Íþrótta og ólympíusambandi Íslands. Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs stýrði vinnunni og veitir aðilum í slíkri starfsemi aðhald í að fylgja henni eftir.


Siðareglur

Samskipti, rekstur og ábyrgð

Mikilvægt er fyrir alla sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Siðareglur þessar gilda fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða Æskulýðsvettvangsins. Þær snúa annars vegar að samskiptum og hins vegar að rekstri og ábyrgð.

Verklagsreglur um meðferð eineltismála

Hvert á ég að leita ef ég verð fyrir einelti eða annarri óæskilegri hegðun?
Það er mjög mikilvægt að öllum líði vel í leik og starfi og að sá grundvallarréttur, að fá að vera óáreittur, vera virtur. Því er mikilvægt að bregðast strax við málum sem koma upp í starfinu og leita allra leiða til þess að leysa úr þeim hratt og vel
Einelti er ekki liðið innan þeirra félaga sem saman mynda Æskulýðsvettvanginn

Verklagsreglur um meðferð kynferðisbrota

Hvert á ég að leita ef ég verð fyrir kynferðisroti?
Kynferðisbrot líðast ekki innan aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins. Allar tilkynningar um kynferðisbrot skal taka alvarlega og óheimilt er að afgreiða ætluð kynferðisbrot innan aðildarfélaga. Í því samhengi starfar fagráð sem tekur sérstaklega á kynferðisbrotum sem upp kunna að koma.


Verndum Þau

Það er mikilvægt fyrir alla þá sem starfa með börnum og unglingum að vera meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð, að geta lesið í vísbendingar um að vanræksla eða ofbeldi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt, eigi sér stað og vita hvernig bregðast á við ef slík mál skjóta upp kollinum.

Æskulýðsvettvangurinn hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinu Verndum þau fyrir þau félagasamtök sem saman mynda vettvanginn, aðildarfélög þeirra og aðra áhugasama. Námskeiðið er byggt á efni samnefndrar bókar og fjallar um hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og ungmennum.