Hvað er skátastarf?


Skátastarf er alþjóðleg æskulýðshreyfing sem...

Mótar framtíð ungmenna og virkjar þau sem samfélagsþegna

Skátastarf stuðlar að vexti og þroska ungmenna, bæði sem einstaklinga og sem samfélagsþegna, með verkefnum og frumkvæði að leiðarljósi. Í skátahreyfingunni fá ungmenni tækifæri til að öðlast sjálfstæði, hafa frumkvæði, vera lausnamiðuð og verða góðir leiðtogar sem eru ávalt reiðubúnir að veita aðstoð og stuðla að jákvæðum breytingum í samfélaginu.

Byggir upp vináttur, upplifanir og færni sem fylgir skátanum út lífið

Skátastarf er í stöðugri þróun til að geta áfram stuðlað að vexti, þroska og framförum ungmenna. Sérstaða skátahreyfingarinnar er að ungmenni fá tækifæri til að læra í gegnum skemmtileg, ögrandi og þroskandi verkefni, útivist og samveru. Í þessum verkefnum öðlast þau sterkara sjálfstraust og hugrekki. Í gegnum skátastarfið mynda þau líka vinskap sem oft endist út lífið.

Hver skáti getur farið þá leið sem hentar hverju sinni, því hæfni og geta einstaklinga getur verið mismunandi. Skátastarfið ætti þó að vera vettvangur fyrir skátann til að spreyta sig á nýjum og ögrandi verkefnum. Skátastarfið tekur einnig mið af aldri skátanna og starfa þeir í viðeigandi aldursbilum. Með því er hægt að skipuleggja starfið með tilliti til þroska og getu.

Býður upp á ævintýri og samveru í náttúrunni

Skátastarf fer að miklu leyti fram utandyra. Áhersla er lögð á ævintýralega og krefjandi dagskrá þar sem skátum gefst tækifæri á að spreyta sig á verkefnum á borð við að kveikja varðeld, syngja skátalög, gista í tjaldi, fara í fjallgöngur og ratleiki, læra skyndihjálp, súrra hengirúm og svo margt fleira! Það getur verið ævintýralegt að njóta skátastarfs úti í náttúrunni jafnvel þó veðrið sé ekki upp á marga fiska, því oftast er það samveran og verkefnið sem skiptir mestu máli.

Hér er hægt að nálgast bókina "Hvað er skátastarf?" á PDF formi.

Spurt og svarað

Í skátastarfi takast skátarnir á við verkefni og áskoranir sem hæfa bæði aldri og þroska þeirra. Þetta geta verið verkefni á borð við að læra kveikja eld, læra leiki og söngva, búa til hengirúm, poppa yfir opnum eldi, takast á við verkefni sem hópur, læra skyndihjálp, læra að búa sig fyrir útivist, tálga, sigla á kajökum og margt fleira því viðfangsefnin eru jafn fjölbreytt og hugurinn girnist.

Í gegnum öll þessi verkefni öðlast skátinn reynslu og þekkingu sem mun nýtast honum í gegnum lífið. Í skátastarfi á skátinn að geta axlað ábyrgð á og lokið þeim verkefnum sem hann tekur að sér, lifað lífinu af ánægju og öðlast hugrekki til þess að láta drauma sína rætast og nýta tækifærin sem skapast.

Þú skráir þig í skátastarf í þínu hverfi eða bæjarfélagi.

Hér er hægt að sjá á korti hvar skátafélögin eru ásamt tengiliðaupplýsingum og fundartímum.

Einnig má hafa samband við skátamiðstöðina í síma 550 9800 eða skatarnir@skatarnir.is til að finna skátafélag.

Yes scouting is for everyone and anyone is welcome to join!

You can find a scout group in your neighbourhood here or contact our office for more information in this phone number 550 9800 or send us an email skatarnir@skatarnir.is

Our office is open as says on the bottom of the page.

In our office we have staff that will gladly answer your questions and guide you in the right direction to start your scouting adventure in Iceland.

Það kostar ekkert að koma og prófa skátastarf, t.d. með því að mæta á nokkra skátafundi. Ef ætlunin er að halda áfram þarf að skrá sig í skátafélagið og greiða félagsgjald.

Félagsgjöld eru greidd til þess félags sem skátinn er skráður í. Það getur verið misjafnt milli skátafélaga hvað er innifalið í félagsgjaldinu. Hjá sumum er allt innifalið en hjá öðrum eru útilegur og skátaferðir ekki innifalið og þá er greitt fyrir það sérstaklega þegar við á. Skátafélögin veita nánari upplýsingar um félagsgjald sitt og hvað er innifalið í því.

Í öllum sveitarfélögum landsins má nýta frístundastyrk til að greiða félagsgjöldin. Það er þó ólíkt milli sveitarfélaga hvað frístundastyrkurinn er hár og fyrir hvaða aldur hann gildir. Hægt er að nálgast upplýsingar um styrkinn á vefsíðum sveitarfélaganna eða hjá viðkomandi bæjarskrifstofu. Skátafélögin geta einnig aðstoðað við upplýsingaöflun í þessum málum.

Kostnaður á þó ekki að vera fyrirstaða í skátastarfi og alltaf hægt að leita lausna í samstarfi við skátafélagið.

Nei! Eina skilyrðið til að vera með í skátunum er að vilja vera með!

Tungumálakunnáttu, líkamlegrar færni eða annarrar hæfni er ekki krafist.  Öll eiga að geta verið með í skátastarfi og er einmitt kosturinn við skátastarf hve auðvelt er að aðlaga það að hverjum þeim sem langar að taka þátt og taka þannig vel á móti fjölbreyttum einstaklingum með ólíkar þarfir.

BÍS leggur áherslu á að þau sem starfi sem sveitarforingjar í skátafélögum hafi farið á 12 tíma skyndihjálparnámskeið, Verndum þau námskeið og foringjanámskeið. Einnig þurfa öll fullorðin sem koma að skátastarfi að samþykkja að BÍS afli heimilda úr sakaskrá og skrifa undir sæmdarheit BÍS.

Almennt mætir skátinn sjálfur á skátafundi.

Foreldrum og aðstandendum barna í skátastarfi er boðið að leggja sitt af mörkum til að styðja við starfið í gegnum sjálfboðaliðastarf. Þátttaka foreldra, forsjáraðila eða annara aðstandenda í skátastarfinu getur til dæmis verið í formi þess að koma með og upplifa skátaferðir og skátaútilegur, hjálpa til á skátafundum, skipuleggja fjáraflanir, sinna viðhaldi í skátaheimilinu og margt fleira.

Þó er fjölskylduskátar undantekningin á þessu, þar sem fjölskyldan mætir saman á skátafundi í fjölskylduskátastarfi.

Skátahreyfingin er opin fyrir öll sem fylgja markmiðum hennar, Grunngildum og Skátaaðferðinni, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna. Lokaákvörðunin um að taka þátt eða ekki er í höndum hvers og eins. Skátahreyfingin er ekki hreyfing fyrir útvalda. Hins vegar er ljóst að skátahreyfingin getur aðeins tekið á móti einstaklingum með miklar sérþarfir þegar aðstæður og mannafli eru fullnægjandi til að mæta þörfum þeirra.

Skátastarf fer mikið fram utandyra og er nauðsynlegt að koma klædd eftir veðri í alla skátadagskrá hvort sem það er skátafundur, skátaútilega eða annar viðburður.

Þegar farið er í útilegur, mót eða aðra viðburði þurfa skátarnir oft að taka með sér svefnpoka og dýnu, bakpoka sem getur borið allt en einnig er gott að eiga minni bakpoka fyrir styttri göngur og/eða ferðir.

Oft er kostnaðarsamt að leggja út fyrir búnaði og þá getur verið gott að athuga hjá vinum eða ættingjum hvort einhver eigi til að lána eða gefa. Einnig getur verið sniðugt að kíkja í nytjamarkaði eða sölusíður á netinu til að athuga hvort hægt sé að kaupa notaðan búnað.

Skátaskyrtur og annan fatnað er hægt að kaupa í Skátabúðinni eða kaupa notað frá eldri skátum sem hafa mögulega stækkað upp úr sínum flíkum.

Hér er til dæmis facebook hópur tileinkaður sölu og skiptum á notuðum skátabúnaði.

  • Skátaheitið er loforð sem skátinn gefur sjálfum sér, eins konar persónuleg áskorun um að gera sitt besta. Þegar skátinn vinnur skátaheitið er hann að taka fyrsta meðvitaða skrefið á sjálfsnámsbrautinni til að verða sjálfstæður, virkur og ábyrgur samfélagsþegn.
  • Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar eru sett fram á skipulegan hátt í skátalögunum. Skátalögin eru þó miklu meira en bara skipulagskerfi hugmynda. Þau eru í raun hegðunarmynstur sem ungt fólk getur valið að fylgja og nota til að móta stefnu sína í lífinu. Til þess að vera sjálfum sér samkvæmur þarf hver einstaklingur að hugsa og haga sér í samræmi við eigin gildi.

Hér má sjá skátalögin, skátaheitið og bræðralagssöngin