Hefjum störf!
VERKFÆRI FYRIR UPPHAF STARFSÁRS
Í UPPHAFI VEGFERÐAR
Á þessu vefsvæði hafa verið tekin saman allskonar verkfæri sem Skátamiðstöðin telur að komi skátafélögunum að gagni í upphafi starfsárs við skipulag og kynningu starfsársins.
Efnið er sett fram í sömu röð og gátlistinn hér til hliðar.
Hægt er að fara á milli kafla og velja hvaða verkfæri megi nýta í þágu þíns skátafélags og hvaða efni sé sniðugt að deila með öðrum sjálfboðaliðum og starfsfólki félagsins sem kemur að undirbúningi vetrarstarfsins svo að þið getið skipt með ykkur verkefnunum.
Stjórnendur skátafélaga geta og eru hvött til að leita ráðgjafar og aðstoðar Skátamiðstöðvarinnar sé þess þörf. Þá má alltaf senda okkur ábendingar um verkfæri sem vantar eða má bæta á þessu vefsvæði.
Mikilvægt er að staðfesta hvaða upplýsingar skátafélagið vill hafa á heimasíðu Skátanna. Hægt er að fylla út þetta form hér til þess að staðfesta réttar upplýsingar um stjórn félagsins, fundartíma og almennar upplýsingar um skátafélagið.
MÁLEFNI SKÁTAFORINGJA Í UPPHAFI STARFSÁRS
GERUM VEL SKILGREIND SAMKOMULÖG
Í upphafi starfsárs eru stjórnir og skátaforingjar hvött til að eiga samtal um gagnkvæmar skyldur og væntingar. Þá gefst öllum aðilum tækifæri til að segja frá helstu áskorunum og tækifærum í starfinu, óska eftir viðeigandi stuðning og aðstoð, setja fram skilyrði um mætingar í vissar ferðir, útilegur, fundi og fleira.
Skátafélög eru hvött til þess að nýta sniðmáta að sjálfboðaliðasamkomulagi við skátaforingja til að skilgreina á skipulegan máta gagnkvæmar skyldur og væntingar skátaforingja og skátafélagsins. Þannig er líka tryggt að öll innan félagsins gangi að sömu skilgreiningu um hvað foringjastarfið feli í sér. Hvert skátafélag getur síðan þróað áfram sína útgáfu af samninginum samkvæmt ríkjandi hefðum.
MUNUM EFTIR VIÐEIGANDI PAPPÍRUM
Skátaforingjum ber að veita BÍS heimild til öflunar upplýsinga úr Sakaskrá ríkisins í upphafi starfstímabils. Gott er að skátafélög geymi möppu með frumriti undirritaðra endurnýjanlegra heimilda allra sjálfboðaliða og starfsfólks sem starfa fyrir þau. Þá ber þeim samkvæmt reglugerð að skrifa undir sæmdarheit skátaforingja (áður drengskaparheit) samkvæmt reglugerð BÍS um hæfi skátaforingja.
TRYGGJUM GÓÐA ÞJÁLFUN
Sjálfboðaliðar í innra starfinu eiga að sækja verndum þau á fjögurra ára fresti hið minnsta og ber að þekkja siðareglur og viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins. Siðareglur Æskulýðsvettvangsins tóku breytingum í júní 2022, frekari upplýsingar um breytingarnar má nálgast hér.
Þá er fjöldi námskeiða haldin ár hvert fyrir skátaforingja. Skátafélögin eiga innistæðu fyrir námskeiðum og eru hvött til að tryggja að þeirra skátaforingjar sæki sér fræðslu og þjálfun.
FÉLAGSGJÖLD SKÁTAFÉLAGSINS
HVAÐ ER INNIFALIÐ Í GJALDINU?
Skátafélög skilgreina félagsgjald sitt á skipulagðan máta og gæta þess að öll séu meðvituð um hvað sé innifalið í þeim. Fólki finnst mikilvægt að vita hvað það greiðir fyrir. Það er líka mikilvægt fyrir okkur að geta svarað því þegar um það er spurt. Til dæmis hvort, félagsútilega, einkenni eða annað sé innifalið eða ekki.
Félagsgjaldamódelinu er ætlað að hjálpa skátafélögum að ákveða félagsgjöld en það getur líka nýst til að áætla hvernig fyrirfram ákveðnu félagsgjaldi skuli skipta á milli fyrirséðra kostnaðarliða í skátastarfi.
Skátafélög eru beðin upplýsa Skátamiðstöðina um félagsgjöldin.
GÆTUM MEÐALHÓFS
Varist að félagsgjöld standi ekki í stað í mörg ár í röð en ríghækki svo eitt árið. Þótt góðar ástæður geti verið að baki slíkum hækkunum getur samt verið flókið að útskýra það fyrir foreldrum og umsjónarfólki frístundarstyrkja. Á sama tíma er ekki æskilegt að þurfa að hækka eða lækka verð á hverju ári. Best er hafa stefnu um hvert félagsgjaldið stefni innan nokkurra ára og þynna breytingar í átt að því yfir nokkurra ára skeið.
STENDUR FÉLAGSSTARFIÐ UNDIR SÉR?
Skátafélög eru hvött til að áætla félagsgjöld út frá þeim kostnaði sem þau eiga að þekja. Æskileg fjárhagsstaða skátafélags er þegar félagsgjöld auk opinbers fjárstuðnings stendur undir félagsstarfinu. Þegar svo er ekki og fjöldi þátttakenda þykir sæmilegur gæti þurft að endurskoða hvort félagsgjöld séu of lág.
HVERNIG ER SAMANBURÐUR VIÐ ÖNNUR FÉLÖG?
Það er mikilvægt að skátafélögin þekki verðlagningu á öðru íþrótta- og æskulýðsstarfi á þeirra starfsvæði en svo er líka gott að félagið kynni sér félagsgjöld annarra skátafélaga. Það getur verið áskorun fyrir foringjaráð og/eða stjórnir sem ákveða félagsgjöldin að rýna í pottinn hjá öðrum og geta sér til um hvað kunni að valda verðmuninum. Verja önnur félög meiri fjármunum í dagskrá, ferðir, mannauð, einkenni, aðstöðu eða annað?
Skátafélög eru hvött til að skoða yfirlit um félagsgjöld 2022-2023 og sjá hvar þeirra félagsgjöld standa í samanburði við önnur skátafélög.
STARFSMANNAMÁL Í UPPHAFI STARFSÁRS
AUGLÝSUM STÖRFIN VEL
Skátafélög sem ráða til sín starfsfólk geta auglýst starfið á starfstorgi skáta, hægt er að sjá sniðmát að auglýsingu með að smella hér. Þegar auglýsingar birtast eingöngu á samfélagsmiðlum og í lokuðum hópum getur verið erfitt að finna auglýsinguna aftur og auglýsingin birtist oft ekki í leitarvélum. Því auðveldar það margt að auglýsingin birtist á vefsíðu þar sem hægt er að vísa í slóðina og auðveldar fólki að finna auglýsinguna aftur og hún skilar sér í niðurstöðum leitarvéla.
VERUM TIL FYRIRMYNDAR
Mikilvægt er að starfsfólk skátafélaganna hafi góða mynd af starfi sínu og að enginn vafi leiki á um laun, starfstímabil eða skyldur starfsfólks. Skátafélög eru því beðin um að nýta sér sniðmát fyrir ráðningasamning við starfsmann
MUNUM PAPPÍRA, SIÐAREGLUR OG MEÐMÆLI
Þegar skátafélög ráða starfsfólk skulu þau leita meðmæla jafnvel þótt þau þekkji viðkomandi. Skátafélög skulu kynna viðkomandi fyrir siðareglum og viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins og tryggja að viðkomandi sækji Verndum þau námskeið, hafi það ekki verið gert á síðastliðnum fjórum árum. Athugið að siðareglur Æskulýðsvettvangsins tóku breytingum í júní 2022, frekari upplýsingar um breytingarnar má nálgast hér. Að lokum er lagaleg skylda að fá undirritaða sakavottorðsheimild frá viðkomandi.
GÆTUM GÓÐRAR VERKSTÝRINGAR
Það er vandasamt að sinna yfirmennsku launaðs starfsfólks í sjálfboðaliðastarfi og verkstjórn því ekki jafn tíð og í hefðbundnu starfi. Æskilegt er að hafa fyrirfram ákveðið samkomulag um verkefnalista yfir árið sem byggir á þeim mánaðarbundnu önnum sem við þekkjum í skátastarfi auk þarfar í hverju skátafélagi. Skátafélögin geta nýtt sér sniðmáta fyrir verkefnalista starfsfólks.
Á stjórnarfundum með starfsmanneskju má einnig skoða hvort einhverju þurfi að bæta við eða taka út sem ekki á lengur við. En þannig er hægt að undirbúa næsta starfsár fram í tímann og eins ef ráðið yrði nýtt starfsfólk, þá er grunnurinn til.
Einnig er æskilegt að skilgreina verkefni sem megi alltaf grípa til í dauðum stundum s.s. tiltektar verkefni í ákveðnum rýmum, skipulag á dagskrárbúnaði félagsins eða annað.
SKRÁNINGARMÁL
NÝTUM VIRKNINA Í ABLER
Abler kerfið hefur ýmsa virkni sem styður mjög vel við þær umbreytingar sem verða í upphafi starfsárs og því hefur Skátamiðstöðin útbúið góðar leiðbeiningar fyrir félögin. Félögin skulu endilega nýta þessar leiðbeiningar til að búa til sem besta upplifun fyrir sig sjálf, sjálfboðaliða sína, starfsfólk sitt, þátttakendur sína og forráðafólk.
Með góðu verklagi sem er samræmt milli ára má líka spara gríðarlega vinnu við viðhald í kerfinu og í eftirfylgni með fjármálum.
FÉLAGSÚTILEGUR Í ABLER
Skátamiðstöðin hefur einnig útbúið leiðbeiningar til að setja upp félagsútilegu í Abler. Með því að nýta þessar leiðbeiningar getur kerfið fullnýst félaginu og hjálpað þeim að sjá skýra mætingu og geta tryggt gott aðgengi fyrir öll, sama hvaða hlutverki þau kunna að gegna. Einnig auðveldar þetta að dreifa upplýsingum og fylgja eftir skráningum.
FYLGJUMST MEÐ FJÁRMÁLUM OG HREINSUM REGLULEGA TIL Í KERFINU
Með tíð og tíma þarf reglulega að fara yfir Abler gátt félagsins, stjórnendamegin frá og taka til í þjónustum og fjármálunum. Hægt er að lágmarka þá vinnu og jafnvel útrýma henni alveg með góðu verklagi og skipulegri upplýsingagjöf.
Þó geta hlutir alltaf fallið á milli, að neðan má finna leiðbeiningar til að hjálpa fólki að fylgjast með fjármálunum, fylgja eftir útistandandi kröfum og hreinsa til í Abler.
KYNNINGARMÁL Í UPPHAFI STARFSÁRS
BJÓÐUM SKÁTUNUM OKKAR AFTUR!
Áður en ráðist er í kynningarátak er algengast að skátafélög bjóði virkum skátum síðasta starfsárs aftur til starfa. Hægt er að senda tölvupóst eða birta upplýsingar í foreldrahópum. Skemmtilegra er að gera þetta á persónulegri máta en eingöngu með því að birta upplýsingar á samfélagsmiðlum. Hér að neðan má nálagst sniðmát fyrir upplýsingabréf til starfandi skáta.
BJÓÐUM ÞÁTTTAKENDUM SUMARSTARFSINS!
Skátafélög sem héldu úti útilífsskóla eða annarskonar sumarnámskeiðum eru eindregið hvött til að bjóða þátttakendum slíkra námskeiða til að taka þátt á komandi starfsári. Þessi hópur þekkir þegar félagið, aðstöðuna og jafnvel stóran hluta skátaforingjanna. Þessi hópur þarf oft ögn betri upplýsingar um vetrarstarfið og þá hjálpar að skýra í auðskildu máli frá því skemmtilega sem skátafélagið hyggst gera á komandi starfsári. Skátafélögin eru hvött til að nýta sér sniðmát fyrir upplýsingabréf til þátttakenda á sumarnámskeiðum til að bjóða þessum hóp í starfið.
KYNNUM OKKUR!
Kynningarstarf er mikilvægur liður í upphafi starfsárs hjá skátunum. Það getur bæði aukið þátttöku og sýnileika félagsins og jafnvel laðað að fleiri sjálfboðaliða.
Hér má nálagst sniðmát og myndir sem velkomið er að nýta í kynningarstarf en svo er að sjálfsögðu alltaf hægt að fara aðrar leiðir. Munið bara að hafa texta stutta, hnitmiðaða og skýra svo öll geti lesið. Nýtið myndir úr skátastarfi, hvort sem það eru myndir frá BÍS eða ykkar félagi og forðist AI myndir.
TILBÚIÐ AUGLÝSINGAEFNI
Skátamiðstöðin hefur útbúið sniðmát í Canva sem skátafélögin geta nýtt í kynningum. Skátafélögin þurfa að skipta sínum upplýsingum út fyrir ímyndaðar upplýsingar skátafélagsins Búbúabúa og eru hvött til að nota myndefni úr eigin starfi.
NÝ STARFSÁÆTLUN
VIÐBURÐADAGATALIÐ
Áður en starfsárið hefst er gott að setjast niður og skipuleggja komandi starfsár. Mikilvægt er að vera tímanlega í að ákveða mikilvægar dagsetningar eins og fundartíma, dagsferðir, sveitarútilegur, félagsútilegu, skátamót, hverfishátíðir, jólakvöldvökur og einnig skoða hvenær mikilvæg frí eru í skólum hverfisins. Gott er að renna yfir viðburðadagatal BÍS til þess að skoða hvenær fræðslur og námskeið eru ásamt áhugaverðum viðburðum sem þarf að taka mið af.
SNIÐMÁT TIL AÐ FYLLA INN Í
Skátamiðstöðin hefur útbúið sjónrænt dagatal sem skátafélögin geta fyllt inn í fyrir sitt félag. Í sniðmátinu má finna helstu dagsetningar á viðburðum BÍS sem þegar eru komnir inn í viðburðardagatalið. Félagið bætir svo inn sínum fundartímum, viðburðum og öðru.
ERLEND SKÁTAMÓT OG VIÐBURÐIR Á DÖFINNI
Skátamót eru ekki bara skemmtilegar upplifanir fyrir skátaforingja og þátttakendur í skátastarfi, heldur geta þau líka þjónað sem frábært verkfæri fyrir skátafélög til að hafa sem markmið í félagsstarfinu, til að skapa eftirvæntingu og halda skátum áhugasömum í starfi. Að neðan má finna yfirlit yfir erlend skátamót á döfinni og eru öll félög hvött til að velja sér mót og byrja að undirbúa fararhóp á það.
Landsmót skáta í Ástralíu | 1.-8. janúar 2025 | Ástralíu | 10-17 ára | Smella hér |
---|---|---|---|---|
Landsmót skáta í Noregi | 5.-12. júlí 2025 | Gjøvik í Noregi | Fálka-Róverskátar | Smella hér |
World Scout Moot | 25. júlí-3. ágúst 2025 | Portugal | Róverskátar | Smella hér |
Kent International Jamboree | 2.-9. ágúst 2025 | Kent County Showground, Detling, Englandi | 10-17 ára | Smella hér |
2nd Africa Rover Moot | 2026 | Suður-Afríku | Róverskátar | Smella hér |
Landsmót skáta í Danmörku | 2026 | Danmörku | Fálka-Róverskátar | Smella hér |
Alheimsmót skáta | 2027 | Póllandi | Drótt- og Rekkaskátar | Smella hér |
Landsmót skáta í Finnlandi | 2028 | Finnlandi | Óljóst | Vantar |