STUÐNINGSEFNI FYRIR STJÓRNIR SKÁTAFÉLAGA


Í UPPHAFI VEGFERÐAR

Á þessu vefsvæði hafa verið tekin saman þau gögn sem stjórnir skátafélaga ber að senda skrifstofu BÍS fyrir Skátaþing. Ef skátafélög ná ekki að senda gögnin fyrir Skátaþing eiga þau samt sem áður að senda gögnin. Þetta yfirlit getur verið gagnlegt við undirbúning aðalfundar félaganna og hvetjum við stjórnir að fara yfir listann tímalega. Efnið er sett fram í sömu röð og tékkalistinn. Ef skátafélagið er meðlimur af Skátasambandi Reykjavíkur þarf að muna að félaginu ber einnig að senda sömu gögn til SSR.

Hægt að sækja yfirlitið á pdf. skjali ásamt verkefnalista yfir ýmiss málefni sem stjórnir þurfa að hafa í huga við stjórnarskipti eftir aðalfund.

Stjórnendur skátafélaga geta og eru hvött til að leita ráðgjafar og aðstoðar hjá Skátamiðstöðinni sé þess þörf. Þá má alltaf senda okkur ábendingar um verkfæri sem vantar á eða má bæta á þessu vefsvæði.


ÁRSKÝRSLA SKÁTAFÉLAGSINS

Ár hvert er ritað ársskýrsla fyrir skátafélagið sem er síðan afhent BÍS, ársskýrslan er söguleg heimild um starf félagsins ár hvert og því mikilvægt að vanda til verka. Í ársskýrslu er gott að nefna eftirfarandi hluti og eru félögin hvött til þess að myndskreyta ársskýrsluna myndum úr viðburðunum sem minnst er á í skýrslunni og öðru starfi félagsins.

  • Ávarp félagsforingja – Stuttur inngangur frá félagsforingja um starfsemi félagsins á tímabilinu eða hugvekja um skátastarf.
  • Forystufólk félagsins – Yfirlit yfir stjórnarmeðlimi og hlutverk þeirra
  • Sveitarstarf félagsins – Yfirlit yfir starfandi sveitir félagsins, foringja þeirra, aðstoðarforingja, stutt
    samantekt, tvær til þrjár málsgreinar, yfir það sem sveitin tók sér fyrir á starfsárinu
  • Ráð og nefndir – Gott að minnast á hver eru að sinna öðrum störfum fyrir félagið s.s. skálanefnd, birgðarnefnd, skemmtinefnd, bakland, 17.júní nefnd og fleira.
  • Nefndarstörf eða vinnuhópastörf félaga utan félags – eru einhverjir meðlimir félagsins í öðrum
    störfum innan skátahreyfingarinnar. T.d. í mótstjórnum, í stjórn BÍS, í vinnuhópum BÍS, ráðum BÍS eða annað.
  • Þátttökutölur– Greinagott yfirlit yfir fjölda skáta eftir aldursbili og kyni. Jafnvel væri gott að hafa samanburð fjölda þátttakenda yfir síðustu ár.
  • Viðburðir – Kafli um helstu viðburði sem félagið tók þátt í. Hægt að skipta þessum kafla í tvennt, annars vegar viðburði innan félagsins eins og sveitarútilegur, dagsferðir, félagsútilegur, jólafundur eða afmæli. Svo hins vegar viðburði sem félagið tók þátt sem voru skipulagðir utan félagsins eins og af BÍS eða öðrum skátafélögum, erlendir skátaviðburðir, hverfahátíðir eða viðburðir á vegum annara félagasamtaka.
  • Námskeið og fræðsla – Yfirlit yfir hvaða námskeið og fræðslu skátar í félaginu sóttu á tímabilinu, bæði á vegum BÍS og annarra samtaka. Eins og í foringjaþjálfun (sveitarforingjanámskeið BÍS, neisti…), skyndihjálparnámskeið og verndum þau námskeið.
  • Aðrar vörður í starfinu –  Voru veitt heiðursmerki til félagsmeðlima. Var samfélagsverkefni sem gekk vel. Hélt félagið upp sumarstarfi, smíðaskóla, útilífsskóla…
  • Rekstur og aðstaða – hvert er ársgjaldið, hvernig er aðstaðan í skátaheimilinu, á skátafélagið
    einhverjar eignir eins og skátaskála. Voru viðhaldsverkefni tengd eignum á árinu. Hér undir er hægt að hafa ársreikninganna og rekstraráætlun fyrir næsta starfsár.
  • Starfsáætlun fyrir næsta starfsár. Eru einhverjir viðburðir sem félagið tekur þátt í ár hvert og eru
    einhverjir nýir viðburðir sem félagið mun taka þátt í.
  • Félagatal – hægt er að hafa félagatal í lokin sem inniheldur einungis nöfn skátanna í félaginu eftir
    sveitum. Þetta eru sögulegar heimildir sem gott er að hafa skrá yfir.

AFRIT AF LÖGUM FÉLAGSINS

Gildandi lög félagsins að loknum aðalfundi, aðlöguð að þeim breytum sem kunna að hafa orðið á nýyfirstaðnum aðalfundi ber að senda til BÍS. Félög eru hvött til að renna yfir lög sín og bera saman við kröfur 9. greinar laga BÍS um ákvæði sem skulu vera í lögum hvers skátafélags og við kröfur í 5. grein laga nr. 110/2021 um félög til almannaheilla. Vanti ákvæði í lög eru stjórnir hvattar að undirbúa breytingar á lögum sínum fyrir næsta aðalfund.


STARFSÁÆTLUN SÍÐASTA STARFSÁRS

VIÐBURÐIR OG VERKEFNI NÆSTA STARFSÁRS

Starfsáætlun er mikilvægt verkfæri til þess að setja stefnu í starfi fyrir næsta ár. Þannig geta skátar, foringjar, stjórn og forráðafólk í félaginu öll gengið að sömu upplýsingum um hvað sé á ætlun í starfinu næsta árið. Gott er að festa starfsáætlunina í ársskýrslu svo hún sé aðgengileg sem flestum, hægt er að hafa hana sem viðauka. Félög eru hvött til að auglýsa starfsáætlun.

SNIÐMÁT FYRIR FÉLÖGIN AÐ FYLLA INN Í

Hér er sniðmát að tveimur starfsáætlunum sem félögin geta nýtt sér. En félögin þurfa einungis að fylla inn í það sviðmát sem hentar þeim. Hægt er að breyta þeim eftir hentugleika.

Hér eru einnig sniðmát að viðburðadagatölum sem félögin geta fyllt inn í með sínum viðburðum til þess að hafa skipulag félagsins sjónrænt fyrir þátttakendum og foringjum. Í þeim má finna helstu viðburði BÍS haustið 2023 og vorið 2024 sem eru komnir í viðburðardagatal BÍS. En svo getur félagið bætt við sínum fundum, útilegum og öðrum viðburðum á vegum félagsins.


ÁRSREIKNINGAR SÍÐASTA STARFSÁRS

Senda skal ársreikninga síðasta starfsárs til BÍS. Hægt er að hafa þá inn í ársskýrslunni sem viðauka.


UPPLÝSINGAR UM STJÓRNARMEÐLIMI

Senda skal BÍS yfirlit yfir stjórnarmeðlimi félagsins, þær upplýsingar skulu innihalda:

  1. Fullt nafn
  2. Kennitölu
  3. Netfang
  4. Hlutverk í stjórn

Félögin geta líka senda BÍS staðfestingu á að búið sé að uppfæra stjórnendahópinn inn á Abler skráningarsíðu félagsins með réttum upplýsingum. Tengiliður félagsins getur þá sótt upplýsingarnar um stjórnarmeðlimina þar.

Til þess að bæta hlutverkunum við stjórnarhópinn er farið inn í þjálfaraviðmóti í sjálfboðaliðasviðið þar er hægt að finna stjórn félagsins. Þegar búið er að velja stjórnina er ýtt á litlu örina við hliðina á valmöguleikanum hópar, þá er ýtt á ,,stofna hóp“. Búið til hópa fyrir hvert hlutverk og bætið stjórnarmeðlimum í réttan hóp.


FÉLAGATAL

Skátafélög sem halda utan um félagatal í Abler þurfa ekki að skila sérstaklega inn félagatali s.s. í formi excel skjals. Félagatal þeirra félaga er alltaf í skilum enda hefur Skátamiðstöðin beinan aðgang að því.

Félög sem ekki halda utan um félagatal sitt í Sportabler þurfa að senda inn nafnalista sinna félaga ásamt kennitölum og netföngum sem hægt er að ná á viðkomandi í gegnum sé það þeirra eigið eða forráðafólks.


SAKAVOTTORÐSHEIMILDIR

Öllum starfandi skátum innan skátafélaga 18 ára og eldri ber að skila inn heimild til BÍS til öflunar upplýsinga úr Sakaskrá ríkisins.

Eftir að einstaklingur hefur undirritað heimildina er hún endurnýtanleg svo lengi sem einstaklingurinn er í samfelldu starfi fyrir félagið. Því skulu félögin geyma heimildirnar í möppu á skrifstofu félagsins eða í rafrænni möppu.

Á hverju ári áður en afrit af heimildunum eru send til BÍS skal yfirfara möppuna og fjarlægja þau sem hafa farið í hlé frá ábyrgðarstöðum innan félagsins og bæta við þeim sem bæst hafa í hóp 18 ára og eldri.

Til að senda afrit er nóg að taka ljósmynd af hverri heimild, Skátamiðstöðin mælir einnig með adobe scan snjallforritinu fyrir snjallsíma.

Vakin er athygli á því að einnig er ætlast til þess að sjálfboðaliðar sem koma og aðstoða á viðburðum eins og skátamótum eða útilegum eiga einnig að skrifa undir sakavottorðsheimild.