Fjarfundarleikir

 

Þegar unnið er með eldri skátahópa getur verið skemmtilegt að bregða á leik á fjarfundum. Í ljósi þess að heimsfaraldurinn hefur haldið mörgum föstum inni hafa vinsældir hópleikja yfir netið stór aukist. Aukið hefur í úrvali leikja fyrir hópa sem byggja á samskiptum, látbrögðum og öðrum skemmtilegu hópefli. Hér höfum við tekið saman nokkra leiki sem hafa reynst vel fyrir skátasveitir í fjarfundum, sem bæði efla samskipti hópsins og geta verið einstaklega skemmtilegt fundar verkefni.

 

Among Us

Among us er leikur sem byggir á samskiptum og samvinnu. Hópurinn á að vinna saman að því að laga geimskip eða geimstöðvar, á meðan einn eða fleiri úr hópnum fá það verkefni að skemma fyrir. Hópurinn vinnur ef að öll verkefni eru kláruð eða boðflennurnar fundnar. Boðflennurnar vinna ef þær ná að slá hópmeðlimi úr leik án þess að það komist upp um boðflennuna.

Leikinn er hægt að spila saman á fjarfundi, þátttakendur geta sótt leikinn í formi apps, eða spilað í gegnum tölvuna. Leikurinn hefur notið mikilla vinsælda seinustu tvö ár og er mjög líklegt að flestir þekki leikinn og getur því verið mjög auðvelt að taka upp leikinn sem fundarverkefni.

Meira - Spila

Jackbox

Jackbox er samansafn af mismunandi leikjum sem hópar geta spilað á fjarfund. Leikirnir snúast allir um það að taka þátt í verkefnum í gegnum síma. Það geta mis margir tekið þátt í hverjum leik, en ef hópurinn er stærri en spilannafjöldinn er annaðhvort hægt að skipta hópnum upp eða að skiptast á að taka þátt, þar sem þeir sem eru ekki að spila geta tekið þátt sem áhorfendur og fá þannig að hafa áhrif á leikinn.

Jackbox leikirnir eru seldir í svokölluðum veislupökkum. Þeir eru hverjum öðrum skemmtilegri, og við mælum sérstaklega með þrem nýjustu leikjunum. Nýjustu veislupakkarnir höfða betur til fjarfunda en eldri pakkarnir.

Leikirnir sem eru að finna í veislupökkunum eru bæði spreng hlægilegir og uppbyggjandi fyrir hópa. Þar eru leikmenn hvattir til að sýna fram á sköpunargleði og samskiptahæfileika.

Nýjustu pakkar

Meira - Spila

TOWN OF SALEM

Town of Salem er leikur sem er hægt að spila saman í hóp af allt að 15 einstaklingum. Leikurinn byggir á spilinu 'Varúlfur' þar sem einn eða fleiri leikmenn taka á sig hlutverk varúlfs. Markmið leiksins er að bæjarbúar finni út hverjum hefur verið breytt varúlf og losa sig við hann úr bænum. Markmið varúlfsins er að taka sem flesta aðra leikmenn úr leik.

Leikinn er hægt að spila á slóðinni hér fyrir neðan. Leikurinn er tilvalinn fyrir hópa sem vilja spila

Meira - Spila

Kahoot

Kahoot er sniðugt verkfæri sem hægt er að nota til þess að vera með spurningakeppnir og fleira skemmtilegt á fjarfundum.

Þátttakendur keppast um að svara spurningum eins fljótt og hægt er til að safna sem flestum stigum. Til er mikið magn af tilbúnum spurningarleikjum sem auðvelt er að hoppa inn í. Einnig er hægt að búa til spurningaleiki frá grunni og spila þá.

Meira - Spila

Heads Up!

Heads up er skemmtilegur látbragðsleikur sem gefur hópum skemmtilegt tækifæri á að spila látbragðaleiki á fjarfundum. Einn leikmaður heldur uppi síma allir aðrir leikmenn sjá og eiga að reyna að segja leikmanninum með símann hvað stendur á símanum án þess að nefna það beint. Boðið er upp á að spila leikinn með látbrögðum, söngum og með að setja á fyndna hreima eða raddir.

Hægt er að finna leikinn á hlekknum hér fyrir neðan.

Meira - Spila

Psych!

Psych! er spurningarleikur sem gefur leikmönnum tækifæri á að setja inn sín eigin svör við spurningum og keppast svo um að finna raunverulega svarið við spurningunni. Leikmenn fá stig fyrir að finna raunverulega svar spurningarinnar eða ef aðrir leikmenn velja þitt svar.

Hægt er að finna leikinn á hlekknum hér fyrir neðan.

Meira - Spila

Spaceteam

Spaceteam er samvinnuleikur sem snýst út á samskipti og samvinnu. Leikmenn eiga að vinna saman að því að reka og laga geimskip sem er á fullri ferð um alheiminn. Hver og einn leikmaður sér um sinn hluta af geimskipinu og þurfa að vinna saman að því að uppfylla verkefni og laga það sem fer úrskeiðis.

Leikurinn er frábær fyrir minni hópa sem hafa gaman að samvinnu leikjum og geim leikjum. Hann getur reynst mikil áskorun fyrir suma hópa og er því frábært hópaverkefni fyrir fundi.

Meira - Spila

 

Önnur mál

Listi af borðspilum sem hægt er að spila yfir netið má finna hér 

 


100+ Spil til að spila á fjarfundum með skátum

 

Sveitir geta komið saman á netfund og spilað. Spilakvöld. Hægt er að hafa frjálst val á spilum, hægt er að bjóða upp á að hafa spila mót, keppt er í ákveðnu spili, fólk keppir um sæti. Getur verið betra að velja spil fyrir fram til að byrja með til að kynna þátttakendur fyrir kerfinu og hvernig það virkar.

Til eru mörg og fjölbreytt vefspilasvæði. Hér fyrir neðan erum við búin að taka saman lista af netsvæðum sem bjóða upp á spil sem krefjast ekki greiðslu.

 


Codenames

Leikmenn skipta sér í tvö njósnaralið og markmið þeirra er að finna liðsfélaga sína sem táknaðir eru með dulnefnum á leikborðinu. Njósnameistarar hvors liðsins geta borið kennsl á njósnarana og gefa liðinu sínu vísbendingar til að leiða það að réttu dulnefnunum. Liðið sem fyrst tekst að ráða öll dulnefni af réttum lit vinnur.

Hægt er að spila leikinn yfir netið með því að fylgja slóðinni hér fyrir neðan. Bæði er hægt að skipta hópnum niður í tvö stór lið eða skipta hóp niður á nokkra leiki.

Skoða nánar - Spila


Drawphone

Leikmenn skiptast á að teikna, svipað og í leiknum Pictionary. Sá leikmaður sem á að gera í hvert sinn fær handahófskennt orð og á síðan að teikna það. Þegar leikmaður er búinn að teikna er myndin látin ganga til næsta leikmanns. Sá leikmaður á að reyna að giska hvað upprunalega orðið var og teiknar aðra mynd, sem er svo einnig látin ganga. Þannig gengur leikurinn í nokkrar umferðir, þar til leiknum lýkur. Þá er túlkun mynda rekin frá upphafi og hægt að skoða hvernig upprunalega orðið breytist. Leikurinn þarf að minnsta kosti fjóra leikmenn, enginn vinnur eða tapar í lok leiks.

Skoða nánar - Spila
Leikreglur


Catan Universe - App

Margverðlaunað spil sem meðal annars var kosið „Spil aldarinnar“ árið 2000.

Catan skal hún heita, eyjan sem þið hafið uppgötvað. Byrjað er að stofna bæi og leggja vegi. Bæir þróast í borgir og verslun blómstrar. Fljótlega er eyjan orðin þéttsetin – og keppni um landsvæði, auðlindir og völd byrjar. Í lokin er aðeins eitt ljóst – það getur eingöngu einn orðið höfðingi á Catan. Eyðieyjan Catan samanstendur af 19 landsvæðum umkringdum sjó. Ykkar verkefni er að nema land á eyjunni. Til að ná í stig þarf að byggja bæi, leggja vegi og breyta bæjum í borgir. Ein borg gefur 2 stig. Til þess að geta byggt þarf hins vegar hráefni. Það ákvarðast með teningakasti. Til þess að geta unnið þarf að versla við hina landnemanna. Boðin eru skipti á hráefnum og á móti koma gagntilboð. Þegar samningar takast er hægt að nota hráefnin sem vantaði til að byggja nýjan bæ, borg eða veg. Sá landnemi sem fyrstur nær 10 stigum eða fleiri stigum sigrar og verður höfðingi Catan.

Leikborðið og spilaíhlutir hafa verið uppfærðir og íslenskar spilareglur og handbók fylgir með.

Hægt er að spila borðspilið CATAN með litlum hóp eða skipta stórum hóp niður í nokkra leiki og spilað er úrsláttarkeppni eða sætiskeppni. Hægt er að spila leikinn yfir netið með appi, sem beint er á hér fyrir neðan. Foringi getur tekið að sér að stýra keppnum, séð um yfirsýn á úrsláttarkeppnum eða sætiskeppnum og tilkynnt sigurvegara og sæti í lok móts.

Skoða nánar - Spila


Secret Hitler

Secret Hitler er spil þar sem hver leikmaður er annað hvort fasisti eða frjálslyndur, og einn leikmannanna er Hitler. Fasistarnir reyna að sá vantrausti og koma leiðtoga sínum að, á meðan hinir frjálslyndu reyna að finna Hitler og stöðva hann áður en það er um seinan. Frjálslyndir eru alltaf í meirihluta.

Til að spila leikinn yfir netið er hægt að fylgja slóðinni hér fyrir neðan. Þar geta leikmenn stofnað aðgang og spilað allt að sjö saman. Ef hópurinn er stærri en það er hægt að skipta honum niður og á milli leikja er hægt að endurraða í hópa.

Skoða nánar - Spila


Bordgame arena

Hér má finna fjölbreytt val af spilum sem hægt er að spila í gegnum netvafra. Síðan bíður upp á góða leitarvél þar sem hægt er að leita eftir tegund spila. Það er hægt að leita að leikjum eftir stærð hóps, tegund borðspila, hversu langan tíma þau taka og fleira. Þar er auglýst að hægt sé að spila yfir þúsund mismunandi borðspil og það er ekki þörf á að hala niður neinum forritum.

Við hvetjum þig til að skoða fjölbreytta úrvalið sem er þar er í boði. Ef þú ert óviss um hvar skal byrja mælum við með að prufa að skoða eftirfarandi spil:

Hér er hægt að skipta hópum niður í lið eða mismunandi spilateymi. Einnig er hægt að stilla upp úrsláttarkeppnum eða mótum í ákveðnum spilum. Magn og fjölbreytileiki spilaúrvalsins bíður upp á marga möguleika á hvernig sveit getur skipulagt spilafundinn sinn.

Skoða nánar - Spila

Önnur mál

Listi af leikjum sem hægt er að spila yfir netið má finna hér 


Covid ráðstafanir í Skátamiðstöðinni

Vegna mikillar útbreiðslu Covid mun starfsfólk Skátamiðstöðvar skipta sér í tvö teymi sem verða í Skátamiðstöðinni til skiptis til að reyna að fyrirbyggja að allt starfsfólk lendi í sóttkví og/eða einangrun samtímis. Því verða opnunartími Skátamiðstöðvarinnar styttur þannig eingöngu verður hægt að koma við í Skátamiðstöð á milli 11:00 og 14:00 á daginn, við biðjum fólk samt að koma eingöngu við ef það þarf þess nauðsynlega. Síminn verður opinn þegar starfsfólk er í húsi en annars lokaður, best verður að koma erindum til okkar með því að senda tölvupóst á skatarnir@skatarni.is.

Ekkert fundarhald ráða, vinnuhópa og stjórna innan BÍS og dótturfélaga verður leyfilegt í Skátamiðstöðinni heldur verða allir fundir færðir á rafrænan vettvang.


Félagsstarf skáta til og með 12. janúar

Ný reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tók gildi 21. desember 2021 og gildir til og með 12. janúar 2022. Að þessu sinni voru ekki settar ólíkar reglugerðir um samkomur almennt og um skóla- og tómstundastarf barna. Þar að auki var æskulýðsstarf ekki nefnt í reglugerðinni og því nokkur óvissa hjá skátunum og öðrum æskulýðssamtökum hvaða reglum bæri að fylgja í starfinu og leita þurfti til ráðuneytis til að staðfesta túlkun reglugerðarinnar.

Í svari heilbrigðisráðuneytisins var áréttað að æskulýðsstarfi væri hvorki ætlað að miða við þau ákvæði sem væru sett um íþróttaæfingar barna né um við þau ákvæði sem væru sett um frístund barna á grunnskólaaldri, starfsemi æskulýðsfélaga fellur undir almennar samkomutakmarkanir þ.e. samanlagt mega 20 koma saman börn og fullorðin fædd fyrir 2016 í félagsstarfi skáta, almennar nándartakmarkanir gildi fyrir alla og grímuskylda fyrir þau fædd fyrir 2006 þegar ekki er hægt að tryggja nándartakmörk.

Því eru það tilmæli Bandalags íslenskra skáta að allt félagsstarf skáta á grunnskólaaldri (dreka-, fálka- og dróttskáta) í raunheimum fari í hlé a.m.k. til og með 12. janúar. Við teljum afar erfitt fyrir nokkurt félag að halda uppi starfi við þessar takmarkanir á ábyrgan máta. Félagsstarf sé strax flutt á rafrænan vettvang eða einstaklingsbundin dagskrá send til skáta eða hlé gert á starfi og slíkt undirbúið. Erindrekar undirbúa nú dagskrárpakka byggða á góðu starfi sem við sáum í svipuðu ástandi í fyrri bylgjum fyrir hvert aldursbil sem skátaforingjar geti nýtt sér og aðlagað í stað þess að þurfa að finna upp á öllu sjálf. Þetta efni verðu gert aðgengilegt á sérstakri undirsíðu sem má nú finna í valmynd efst á síðunni undir "Covid". Nú og í náinni framtíð er mikið af börnum í sóttkví og einangrun og við teljum starfið gert aðgengilegra öllum með þessum hætti við núverandi ástand og dregið úr áhættu á smitum fyrir þátttakendur og sjálfboðaliða meðan þessi bylgja gengur yfir.

Rekka-, róver og eldri skátum er ráðlagt vilji þau koma saman að færa allt það starf utandyra, vera aldrei fleiri en 20, gæta nándartakmarkana og bera grímur sé ekki hægt að tryggja þær. Allar samkomur sem snúa að skipulagi félagsins s.s. foringjaráðsfundir, stjórnarfundir, baklandsfundir og samanborið sé framkvæmdt rafrænt.

Dreka- fálka- og dróttskátar (7 – 15 ára)

Mælst er til þess að til 12. janúar sé allt félagsstarf þessara aldursbila sett í hlé. Það sé annaðhvort strax fært á rafrænan vettvang eða einstaklingsbundin dagskrá send til þátttakenda eða hlé gert á starfi og slíkt undirbúið.

Rekka- og róverskátar (16 – 25 ára) og eldri skátar (26 ára og eldri)

Vilji skátar á þessum aldursbilum koma saman er þeim ráðlagt að færa allt það starf utandyra, vera aldrei fleiri en 20, gæta nándartakmarkana og bera grímur sé ekki hægt að tryggja þær. Allar samkomur sem snúa að skipulagi félagsins s.s. foringjaráðsfundir, stjórnarfundir, baklandsfundir og samanbærilegt sé framkvæmt rafrænt.


Sædís nýr erindreki BÍS

Sædís nýr erindreki BÍS

Sædis Ósk Helgadóttir hefur verið ráðin til starfa sem erindreki hjá Bandalagi íslenskra skáta, en nýlega var tekin ákvörðun um að fjölga teymi erindreka í Skátamiðstöðinni.

Sædís hefur verið í skátunum frá 6 ára aldri þegar hún byrjaði í skátafélaginu Árbúum, árið 2011 fór hún yfir í Garðbúa og á stóran hlut í endurreisn og uppbyggingu félagsins síðustu 10 árin. Í Garðbúum hefur hún verið sveitarforingi á öllum aldursbilum og verið í öllum hlutverkum innan stjórnar nema félagsforingja og gjaldkera. Sædís hefur verið mjög virk í viðburðarhaldi innan skátahreyfingarinnar en hún hefur verið mótstýra vetrarmóts Reykjavíkurskáta, aðstoðarmótstjóri á skátasumrinu og í mótstjórnum landsmóts rekka- og róverskáta. Sædís hefur farið á alheimsmót sem sveitarforingi bæði í Japan og í Bandaríkjunum og farið með hóp úr 5 félögum á skátamótið Gilwell 24 í Englandi. Sædís hefur starfað í leiðbeinendahóp Gilwell skólans og hefur setið í fræðsluráði.

Sædís er með B.A. í tómstunda- og frístundafræði og tók þar m.a. ár í skiptinámi í Noregi með áherslu á útivistarnám  og hún stefnir á að klára mastersnám á næsta ári í sömu fræðum. Sædís hefur starfað á leikskóla, sem jöklaleiðsögukona, verið útilífsskólastjóri mörg sumur og nú síðast sem frístundafræðingur í Árbænum.

Í teymi erindreki mun Sædís vinna við að styðja og þjónusta sjálfboðaliða BÍS í félagsstarfi skátafélaganna um land allt. Hún mun líka sinna allskyns átaksverkefnum sem miða af því að efla starfsumhverfi skátanna og að framþróun og innleiðingu nýs dagskrárefnis í skátastarfi. Þá vinna erindrekar líka að því að fjölga bæði sjálfboðaliðum og þátttakendum í skátastarfi og geta liðsinnt við að koma á fót skátastarfi í byggðarlögum þar sem það fyrirfinnst ekki í dag. Sædís mun síðan líka vinna að hluta til fyrir Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni þar sem hún mun vinna að efldari samræmingu dagskrár á Úlfljótsvatni og í skátastarfi og taka þátt í þróun skóla- og sumarbúðanna.

Sædís hefur störf 10. janúar og við hlökkum til að fá að starfa með henni!


Minningarstyrkir um Björgvin Magnússon

Eftir fjölda fyrirspurna frá skátum hefur stjórn Bandalags íslenskra skáta í samráði við fjölskyldu Björgvins Magnússonar ákveðið að safna minningarstyrkjum til heiðurs Björgvini sem munu óskipt renna til Gilwell skálans á Úlfljótsvatni.

Fyrir hvern minningarstyrk verður útbúið sérstakt minningarkort sem verður afhent fjölskyldu Björgvins. Hægt er að leggja upphæð að eigin vali á styrktarsjóð skáta og senda okkur tölvupóst á skatarnir@skatarnir.is um hvaða nöfn eigi að setja á minningarkortið. Einnig er hægt að koma við í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ 123 til að undirrita slíkt kort og/eða ganga frá minningarstyrknum í persónu.

Björgvin Magnússon kom að Úlfljótsvatni fyrst sem skólastjóri Skátaskólans 1947 og gegndi því starfi til fjölda ára. Björgin var jafnframt einn aðal leiðbeinanda við fyrsta Gilwellnámskeiðið á Úlfljótsvatni 1959 og síðan stjórnandi og merkisberi fjölmargra slíkra í áratugi. Gamli skátaskálinn að Úlfljótsvatni, nú nefndur Gilwellskálinn var Björgvini alla tíð afar hugleikinn og var hann einn forgöngumanna um endurreisn hans fyrir fáum árum. Gilwellskálinn var hans staður.

Styrktarsjóður Skáta:
Reikningsnúmer - 528-14-403279
Kennitala – 4401692879


Skátamiðstöðin lokuð milli jóla og nýárs

Skátamiðstöðin verður lokuð milli jóla og nýárs. Opnum aftur mánudaginn 3. janúar.
Starfsfólk skátamiðstöðvarinnar óskar ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.


Halldór nýr erindreki BÍS

Halldór nýr erindreki BÍS

Halldór Valberg hefur verið ráðinn til starfa sem erindreki hjá Bandalagi íslenskra skáta, en nýlega var tekin ákvörðun um að fjölga í teymi erindreka hjá Skátamiðstöðinni.

 

Halldór hefur verið í skátunum síðan hann byrjaði 12 ára í skátafélaginu Svönum þar sem Halldór hefur undanfarin ár starfað sem félagsforingi og átt hlut með öðrum frábærum sjálfboðaliðum í myndarlegum vexti félagsins. Halldór hefur setið í upplýsingaráði BÍS og fyllti sæti fráfarandi stjórnarmanns BÍS um tíma og starfaði síðast í öflugu teymi stýrihóps Heimsmarkmiðanna hjá BÍS og sat í stjórn Skátaskólans. Halldór er langt kominn með B.S. gráðu í tölvunarfræði og hefur unnið ýmis verkefni tengd vefsíðugerð, ljósmyndun og grafískri miðlun, hann hefur einnig starfað nokkur sumur hjá skátafélaginu Svönum sem útilífsskólastjóri.

 

Í teymi erindreki mun Halldór vinna við að styðja og þjónusta sjálfboðaliða BÍS í félagsstarfi skátafélaganna um land allt. Hann mun líka sinna allskyns átaksverkefnum sem miða af því að efla starfsumhverfi skátanna og að framþróun og innleiðingu nýs dagskrárefnis í skátastarfi. Þá vinna erindrekar líka að því að fjölga bæði sjálfboðaliðum og þátttakendum í skátastarfi og geta liðsinnt við að koma á fót skátastarfi í byggðarlögum þar sem það fyrirfinnst ekki í dag.

 

Við bjóðum Halldór velkominn til starfa!


Hringfarinn veitir fjölskylduskátum veglegan styrk

Hringfarinn veitir fjölskylduskátum veglegan styrk

Hringfarinn Kristján Gíslason og eiginkona hans Ásdís Rósa Baldursdóttir vilja láta gott af sér leiða og hafa meðal annars stutt við bataferli fíkla. Þegar því verkefni lauk spurðu þau þann hóp sem naut góðs af því verkefni hvað þau teldu að kæmu sér best. Þau hvöttu hann til að skoða aðstæður ungs fólks fyrr á lífsleiðinni. Hann hafði samband við Helgu Þórey Júlíudóttur hjá skátunum og hún sagði honum frá nýjung í skátastarfi sem kölluð eru fjölskylduskátun.

Fjölskylduskátastarf er fyrir börn sem ekki hafa náð hinum hefðbundna skátaaldri og forráðafólk þeirra.  Markmið starfsins er gera öllum fjölskyldum kleift að stunda saman skipulagt tómstundastarf þar sem öll börn hafa jöfn tækifæri á að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl, njóta útivistar, líða vel í eigin skinni, vera sjálfstæðir leiðtogar í eigin lífi og með sterka sjálfsmynd. Hugmyndin hefur þegar fengið tilnefningu til foreldraverðlauna Heimilis og skóla.

Skátastarf hefur til þessa almennt hafist við 8 ára aldur. Boðið hefur verið upp á starfið til reynslu í þrjú ár og hefur það gefið góða raun. Fjölskyldur í starfinu hafa komið saman tvisvar sinnum í mánuði í skipulögðu starfi sem reyndir skátaforingjar og forráðafólkið sem fylgir börnunum hjálpast að við að leiða. Þetta nýja starf kallar á þróun í dagskrárefni og verður það einnig útbúið til að fjölga fjölskylduskátasveitum.

Kristján og Ásdís Rósa ákváðu eftir að hafa kynnt sér málið að styrkja skátana veglega til að byggja upp þessa nýjung í skátastarfinu. Heildarstyrkur Hringfarans til skátanna eru 10 milljón krónur. Hluti styrksins eða 2 milljónir verður afhentur í formi bóka sem þau hafa gefið út og verða seldar í Skátabúðinni en það eru:

  • Hringfarinn
  • Sliding Through (ensk útgáfa Hringfarans)
  • Andlit Afríku.

Söluandvirði bókanna sem seljast í Skátabúðinni rennur óskipt til skátastarfsins.  Aðstandendur styrktarsjóðsins, Kristján Gíslason og Ásdís Rósa Baldursdóttir, vilja einnig miðla reynslu sinni til skáta og annarra sem áhuga hafa á þeirra reynslu.

Styrkurinn var afhentur formlega í morgun að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands en hann er einnig verndari skátahreyfingarinnar á Íslandi.

„Mér lýst afskaplega vel á þetta nýja starf skátanna sem stefnir að því að fjölskyldur komi saman og njóti þessa að brúa bil milli kynslóðanna.“ segir Guðni Th

„Við erum ákaflega þakklát fyrir þennan stuðning,“ segir Helga Þórey Júlíudóttir, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta. Hún og Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, veittu styrknum móttöku við fjölskylduskátaviðburð við Bjarnastaði í morgun.

Í framhaldi af hinni formlegu afhendingu var gestum boðið að taka þátt í fjölskylduskátafundi sem haldinn var á skátaheimilið á Álftanesi, Bjarnastöðum. Þar fóru fram leikir og verkefni sem að fjölsykldu skátar tóku þátt í af gleði, þrátt fyrir rigningu og rok.


Björgvin Magnússon farinn heim

Björgvin Magnússon farinn heim

Vinur okkar og skátabróðir, Björgvin Magnússon lést s.l. nótt 98 ára að aldri. Björgvin var öllum kær og hann hafði áhrif á okkur öll. Með Björgvin er genginn góður skáti sem ávallt og alls staðar dreifði gæsku og góðum straumum. Margs er að minnast en einkum nefnum við hér störf hans að Úlfljótsvatni allt frá árinu 1947 og málefnum Gilwellsþjálfunar á Íslandi. Björgvin lauk Gilwellþjálfun sinni í Gilwell Park 1948 og var einn aðal leiðbeinanda við fyrsta Gilwellnámskeiðið á Úlfljótsvatni 1959 og síðan stjórnandi fjölmargra slíkra í áratugi. Björgvin gerðist ungur skáti í Skátafélaginu Völsungum sem starfaði í tengslum við Laugarnesskólann í Reykjavík. Þegar Völsungar sameinuðust Skátafélagi Reykjavíkur starfaði Björgvin þar og sat m.a. í stjórn félagsins. Einnig starfaði hann um tíma sem félagsforingi Skjöldunga. Fyrir störf sín var Björgvin Magnússon sæmdur æðsta heiðursmerki íslensku skátahreyfingarinnar, Silfurúlfinum árið 1992 og riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu árið 2008 af forseta Íslands.

Í samráði við fjölskyldu Björgvins safnar BÍS minningarstyrkjum til heiðurs Björgvini sem mun renna óskipt til Gilwellskálans á Úlfljótsvatni. Áhugasöm geta fundið allar upplýsingar með því að smella hér.


Privacy Preference Center