Björgvin Magnússon farinn heim

Vinur okkar og skátabróðir, Björgvin Magnússon lést s.l. nótt 98 ára að aldri. Björgvin var öllum kær og hann hafði áhrif á okkur öll. Með Björgvin er genginn góður skáti sem ávallt og alls staðar dreifði gæsku og góðum straumum. Margs er að minnast en einkum nefnum við hér störf hans að Úlfljótsvatni allt frá árinu 1947 og málefnum Gilwellsþjálfunar á Íslandi. Björgvin lauk Gilwellþjálfun sinni í Gilwell Park 1948 og var einn aðal leiðbeinanda við fyrsta Gilwellnámskeiðið á Úlfljótsvatni 1959 og síðan stjórnandi fjölmargra slíkra í áratugi. Björgvin gerðist ungur skáti í Skátafélaginu Völsungum sem starfaði í tengslum við Laugarnesskólann í Reykjavík. Þegar Völsungar sameinuðust Skátafélagi Reykjavíkur starfaði Björgvin þar og sat m.a. í stjórn félagsins. Einnig starfaði hann um tíma sem félagsforingi Skjöldunga. Fyrir störf sín var Björgvin Magnússon sæmdur æðsta heiðursmerki íslensku skátahreyfingarinnar, Silfurúlfinum árið 1992 og riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu árið 2008 af forseta Íslands.

Í samráði við fjölskyldu Björgvins safnar BÍS minningarstyrkjum til heiðurs Björgvini sem mun renna óskipt til Gilwellskálans á Úlfljótsvatni. Áhugasöm geta fundið allar upplýsingar með því að smella hér.