Nordic Adventure Race 2026

 

Alþjóðaráð leitar að bæði þátttakendum og foringjum til að taka þátt í Nordic Adventure Race á vesturströnd Noregs,  10-16. júlí 2026!  Tilvalið tækifæri fyrir drótt- og rekkaskátaflokka og foringja þeirra en Nordic Adventure Race er skátakeppni þar sem skátarnir ganga ákveðna vegalend, leysa þrautir og keppa í ýmsum skátaáskorunum. Þemað í þetta skipti er ævintýri og þjóðsögur!

Hvað er Nordic Adventure Race (NAR) ?

Nordic Adventure Race er spennandi viðburður sem flakkar á milli norðurlandanna. Færeyjar héldu viðburðinn fyrst 2022 og er nú komið að Noregi.

Á viðburðinum munu 50 skátar frá hverju landi vera skipt upp í nýja 6 skáta flokka og fá þar að leiðandi að kynnast skátum frá hinum norðurlöndunum. Flokkarnir fara síðan að stað í vikulanga göngu um norska fjallalendið þar sem þau munu fá tækifæri til að keppa í ýmsum þrautum á leiðinni til að safna inn stigum til að sigra keppnina. Á viðburðinum er lögð áhersla á skapandi hugsun, samvinnu og krefjandi útivist.

Almennar upplýsingar fyrir þátttakendur og sjálfboðaliða

  • Dróttskáta og rekkaskáta, skáta fædd á bilinu 10. 07. 2008 - 17. 10. 2013
  • Rekkaskátar eldri en 18 ára geta farið með sem foringjar eða sjálfboðaliðar, skátar fædd 10. 07. 2008 eða fyrr.
  • Skátafélag sendir inn eina umsókn fyrir alla sína skáta ásamt foringjum og sjálfboðaliðum
  • Einungis 50 þátttakendapláss og 10 foringja/sjálfboðaliðapláss
  • Sjálfboðaliðar og foringjar aðstoða við dagskrá mótsins og ólíklegt er að þau verði með sínum skátum á meðan á viðburðinum stendur.

Hér er hægt að lesa nánari upplýsingar um viðburðinn 

Þátttökugjald

Þátttökugjaldið fyrir skátanna er 4.000 NOK ( u.þ.b. 50.000 kr.)

Gjaldið fyrir foringja / sjálfboðaliða er 1.5000 NOK (u.þ.b. 19.000 kr.)

Annar kostnaður er í höndum fararhópsins en fluggjaldið og sameiginleg einkenni er ekki innifalið í þátttökugjaldinu. Það sem er innifalið í þátttökugjaldinu er allur matur þegar viðburðurinn hefst, ferðalagið til og frá Oslo/Gardermoen að staðsetningu viðburðar, mótsmerki, öll dagskrá ásamt einhverjum sameiginlegum búnaði sveitarinnar.

Skráningin

Skátafélagið fyllir út umsóknareyðublaðið hér að neðan fyrir hönd skátaflokksins. Alþjóðaráð fer svo yfir allar skráningar og hefur samband við hópinn um næstu skref. Skátaforingjar hópanna mynda svo saman fararstjórn fyrir íslenska fararhópinn.

Skráningafrestur er til 31. júlí 

Ertu með einhverjar spurningar? Endilega sendu á althjodarad@skatarnir.is


Gamli fær nýja kamínu

Við Gamla, skála Skátafélagsins Klakks hafa sl. haust farið fram miklar framkvæmdir, sem miða að endurbótum skálans og gera hann útilegufæran á ný. En vegna mikillar almennrar umferðar um svæðið og þess, að skálinn var alla tíð opinn fyrir gesti og gangandi var hann kominn í nokkra niðurníðslu og hafði því miður orðið fyrir barðinu á slæmri umgengni (jafnvel skemmdarverkum). En á haustdögum var ráðist í gagngerar endurbætur á skálanum, sem raunar standa enn yfir, og hefur Tumi Snær Sigurðsson haft umsjón með af þeim, ásamt vöskum rekkaskátum og öðrum skátum á öllum aldri.

Sl. sunnudag, 7. des. var þeim áfanga fagnað, að ný kamína er komin í gagnið og skálinn formlega orðinn útilegutækur. Boðið var upp á gönguferð með leiðsögn frá Hömrum upp að Gamla, þar sem boðið var upp á kakó, kex og mandarínur (í tilefni aðventunnar) og voru þar samankomnir á þriðja tug manns þegar mest var. Áttu viðstaddir þar notalega og ánægjulega stund, auk þess sem veður var með besta móti til gönguferða. Jóhann Malmquist félagsforingi hélt erindi en einnig sagði Ólafur Kjartansson frá Brunná lítillega frá framkvæmdunum við byggingu skálans á árunum 1979-81. Ólafur, jafnan kallaður Óli Kjartans, hafði einmitt veg og vanda af því að koma nýju kamínunni fyrir og málmsmíðum í kringum hana. Sagði Óli frá því, að á sínum tíma hefði allt efnið í skálann verið borið frá Kjarnaskógi eða Fálkafelli og kamínan líklega þyngst af því öllu. Nýja kamínan og annað efni til framkvæmda var hins vegar ferjað uppeftir með þyrlu nú haustdögum. Rétt er að óska hlutaðeigandi til hamingju með nýja kamínu og aðrar endurbætur á Gamla.


Þankadagspakki 2026 - okkar vinátta

Þankadagspakkinn 2026 er kominn út!

Þemað að þessu sinni er "okkar vinátta" og framhaldsþema frá árinu 2025.

Hér má lesa meira um þankadagspakkann og finna hlekk til að sækja verkefnin.

 

 


Klípusögur kveiktu í umræðunum

Rafrænt námskeið í samskiptum og siðareglum

Í gær, mánudaginn 1. desember, var haldið rafrænt námskeið í samskiptum og siðareglum. Fengum við góðan hóp til okkar sem kom víða að af landinu en það er einmitt markmið rafrænna námskeiða. Með þeim viljum við hjá Æskulýðsvettvanginum auka aðgengi þeirra sem búa úti á landi að námskeiðunum og var gaman að sjá hversu vel það tókst í gær.

Námskeiðið sjálft fjallaði um samskipti og siðareglur sem er mjög mikilvægur hluti í okkar starfi. Góð samskipti eru lykillinn að jákvæðum tengslum og mikilvægt er að hægt sé að ræða þau ágreiningsmál sem koma upp á friðsælan máta. Auk þess er mikilvægt að öll þekki til siðareglna Æskulýðsvettvangsins en þar eru fönguð í orð þau siðferðislegu gildi og viðmið um hátterni sem Æskulýðsvettvangurinn og þau félagasamtök sem saman mynda vettvanginn starfa eftir: vellíðan – velferð – öryggi.

Á námskeiðinu fengu þátttakendur klípusögur þar sem þau notuðu siðareglurnar til að leysa úr ágreiningsmálum sem geta komið upp innan hópa og mynduðust góðar og gagnlegar umræður í kjölfarið.

Við þökkum öllum fyrir komuna og hlökkum til að sjá sem flest á næsta námskeiði sem haldið verður 25. febrúar 2026.  Aðgangur að námskeiðinu er ókeypis og hægt er að skrá sig hér: www.aev.is/skraning-a-namskeid/


Fálkaskátaflokkur Árbúa Fálkakempur 2025

 

 

Síðastliðna helgi buðu Hraunbúar fálkaskátum landsins í heimsókn í Skátalund við Hvaleyrarvatn þar sem skátarnir hlupu um í póstaleik í kringum vatnið og kepptust um farandviðurkenninguna.

Veðrið lék um fálkaskátana en þau hófu leika með skemmtilegum eltingarleik við skátaskálann áður en lagt var að stað í leit af póstum kringum vatnið. Skátarnir söfnuðu sér inn stigum sem flokkur með samvinnu og góðri frammistöðu í verkefnunum sem meðal annar voru að leysa skátadulmál, rugla í hefðbundnum skátasöngvum, súrra þrífót, leiða hvort annað í gegnum blindrabraut og gera sjúkrabörur úr eigin fötum.

Að lokum söfnuðust allir flokkarnir saman við Skátalund þar sem þau kepptu í lokaþrautinni, að brenna band, en hver flokkur fékk einn skátahníf, einn eldspýtustokk og einn viðardrumb. Skátarnir þurftu síðan að ná upp nægilega stórum loga til þess að ná að brenna band sem var fest þvert yfir hverja stöð.

Fálkaflokkurinn í Árbúum voru fyrst til þess að brenna bandið og báru því sigur úr bítum þetta árið. Þau fengu afhentan farandviðurkenninguna sem nú fær að príða Árbúaheimilið þar til að fálkaskátadagurinn verður haldinn næsta haust.

Svo var að sjálfsögðu sungin nokkur vel valin skátalög til að halda hita í fálkunum á meðan beðið var eftir úrslitum. Eftir kvöldvöku gæddu fálkar og foringjar sér á heitu kakói og kexi að skátasið áður en haldið var heim.


Skátaskírteinið snýr aftur

Það gleður okkur að tilkynna að skátaskírteinið snýr aftur eftir nokkurra ára hlé. Að þessu sinni mun skírteinið verða rafrænt í símaveski með aðstoð Leikbreytis.

Öll sem eru skráð hjá sínu félagi í Abler fá tilkynningu á næstu dögum til að hlaða niður sínu skírteini. Forráðafólk skáta undir 18 ára aldri fá tilkynninguna til sín en hægt er að hlaða skírteininu niður í fleiri en eitt símtæki.

 


26 sæmd forsetamerkinu á 60 ára afmæli þess

Í dag veitti frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, 26 skátum forsetamerkið við hátíðlegar athafnir á Bessastöðum. Þetta er fjölmennasti hópurinn sem hlýtur forsetamerkið síðan árið 2016. Frú Halla Tómasdóttir er verndari skátahreyfingarinnar og veitir forsetamerkið þeim rekkaskátum (16-18 ára) sem hafa stundað metnaðarfullt rekkaskátastarf. Forsetamerkishafarnir Fríða Björg Tómasdóttir, Skátafélaginu Klakki, og Kristófer Njálsson, Skátafélaginu Mosverjum, fluttu ávarp í athöfnunum þar sem þau sögðu frá skátaferli sínum og þeim verkefnum sem þau unnu að í tengslum við forsetamerkisvegferðina.

Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingarinnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu er 2-3 ára verkefni sem hvetur skátana til persónulegs vaxtar í gegnum 24 fjölbreytt verkefni sem skátarnir þurfa að vinna að.

Í byrjun vegferðarinnar setja skátarnir sér markmið fyrir rekkaskátastarfið sitt og í lok hennar endurmeta þeir síðan vegferðina. Skátarnir þurfa að ljúka verkefnum úr fjórum verkefnaflokkum: Leiðtogafærni, Skapandi hugur, Heimurinn og umhverfið og Tilveran mín. Til þess að öðlast merkið þurfa skátarnir meðal annars að sækja 5 daga skátamót, ferðast 40 kílómetra á eigin afli, sækja helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun og 12 klukkustunda skyndihjálparnámskeið. Að lokum velja skátarnir sér 2 langtímaverkefni sem krefjast virkrar þátttöku þeirra yfir 3-12 mánaða tímabil. Dæmi um þetta eru að vera foringi yngri skáta, taka þátt í skipulagi stórs skátamóts, sitja í stjórn skátafélags, ráði eða vinnuhóp, að taka að sér viðhald skátaheimilis eða skátaskála og margt fleira sem forsetismerkishafar hafa látið sér detta í hug. Hér má lesa nánar um forsetamerkið.

Í ár er 60 ára afmæli forsetamerkisins og síðan merkið var fyrst veitt árið 1965 hafa 1488 skátar verið sæmdir því. Eftir athafnir dagsins var afmæli merkisins fagnað í Jötunheimum, skátaheimili Vífils en þar komu saman nokkrar kynslóðir forsetamerkishafa ásamt öðrum góðum skátum. Elín Richards, forsetamerkishafi 36, ávarpaði gesti veislunnar sem og Jóhanna Björg, forsetamerkishafi nr. 1083 fyrir hönd starfsráðs. Þá fóru Fríða og Kristófer aftur með hugvekjuna sína frá því fyrr um daginn og skátahöfðingi og forsetamerkishafi númer 1000, Harpa Ósk bauð gesti velkomna. 

Hugvekja nýtta forsetamerkishafa

Kristófer: Virðulegi forseti, ágætu skátavinir og aðrir góðir gestir

Það er ekki oft sem maður fær tækifæri líkt þessu, að standa frammi fyrir forseta Íslands, - hvað þá í höfuðstöð hennar þar sem tilefnið er að fagna okkar afreki. Mér finnst því frábært að geta nýtt þessa hugvekju til þess að miðla þakklæti mínu fyrir hönd okkar sem fyrir örfáum mínútum sátum í þessu herbergi með sveittar hendur, ólm í að öðlast þessa fögru nælu og heiðurinn sem henni fylgir. 

Nú sitjum við saman með misslitnar og krumpaðar bækur sem hafa öðlast líf eftir traust verk sitt sem fylgifiskar í verkefnum okkar. Það er mikilvægt að sjá hvernig hver bók endurspeglar fjölbreytnina í persónuleika og vinnubrögðum okkar. Því það er sama fjölbreytnin í huga, sálu og líkama hvers og eins okkar sem kjósa að vinna okkar hlut í að halda skátahreyfingunni lifandi sem málar þennan einstaka lit hennar.

Fríða: Ég hef oft verið spurð hvað það er eiginlega sem við gerum í skátunum. Fólk virðist halda að við séum að kveikja eld og hnýta hnúta alla fundi en öll hér inni vitum við að skátastarfið er svo miklu meira en það. Skátahreyfingin er eina æskulýðshreyfingin, svo ég best viti, sem er með eitt inntökuskilyrði: Að leggja sitt af mörkum til þess að bæta samfélagið. Þótt við kveikjum vissulega marga elda þá áttar maður sig á því að skátastarfið snýst ekki bara um eldinn sjálfann, heldur um það að kveikja eld innra með sér og öðrum. Að verða forvitin, þrautseig, opin fyrir ævintýrum og tilbúin að takast á við áskoranir. Núna, þegar ég stend hér í dag, finnst mér eins og þessi eldur logi aðeins skærar. 

Nú veit ég ekki með ykkur en ég ætla að vera alveg hreinskilin og segja að ég byrjaði ekki í skátunum vegna einhverjar djúprar köllunar til að þjóna samfélaginu eða bjarga heiminum, heldur einfaldlega vegna þess að vinir mínir voru í skátunum og þetta virtist skemmtilegt. Ég held að flest okkar geti samt verið sammála um að það hafi kannski ekki alveg verið fyrsti dagurinn sem breytti lífinu, en einhvern veginn, án þess að maður tók eftir því fór þetta starf að festa rætur í hjartanu mans og varð að gríðarstórum hluta af manni. Það hafa verið ótal skipti þar sem ég hef hugsað ,,af hverju er ég að gera þetta“ hvort sem ég hafi verið í skafrenningi að reyna að tjalda eða á landsmóti blaut alveg inn að beini.

Kristófer: En það eru einmitt þessi augnablik sem kenna manni hvað samvinna og jákvætt hugarfar þýða í raun. 

Fríða: Að þrautseigja þýði ekki að gefast aldrei upp, heldur að halda áfram jafnvel þegar maður þarf að taka smá hlé, draga andann djúpt og reyna aftur. Á milli þess að frjósa, hlæja og reyna að muna hvernig í ósköpunum maður gerir fánahnút, lærir maður eitthvað meira, um sjálfan sig, um aðra og um það hvað það þýðir að standa saman. 

Kristófer: Talandi um samvinnu. Ég myndi segja að ferðin til Kóreu hafi sett mestan svip á ferlið mitt. Ég hafði fjarlægst skátahreyfingunni mikið þegar ég ákvað að slást í fararhópinn okkar á Alheimsmót skáta. Þar upplifði ég eitt, ef ekki besta ævintýri lífs míns. Ég hef aldrei verið hluti af jafn stórum hópi fólks - skáta alls staðar af úr heiminum - jafnvel frá löndum sem ég hafði ekki einu sinni heyrt um. Ég hef aldrei fengið jafn gullið tækifæri til að vera jafn frjáls í anda og þá. Það var endalaust hægt að fíflast í og með fólki. Skemmtilegastir voru Indverjarnir. Þeir kunnu æstustu leikina en sýndu líka yndislega gestrisni sem ég miða nú sjálfur við þegar ég býð fólki heim til mín. Einnig var samheldnin og samvinnan í verki svo einstaklega góð meðal íslenska fararhópsins. Svo góð að ást mín fyrir skátastarfinu vaknaði úr blundi sínum. 

Fríða: Hér í dag eru líka mörg kunnugleg andlit úr ferðinni. Saman sköpuðum við ógleymanlegar minningar og erum nú aftur saman komin til að deila öðrum merkum áfanga í lífi okkar. 

Kristófer: Skátastarfið er svo sannarlega ólgandi sjór. Í því myndast vinabönd og upplifanir sem annað hvort haldast eða enda en öldurnar draga mann alltaf aftur til minninganna. Eins og í dag hafa þær dregið okkur saman til að heiðra allar þær einstöku minningar sem við höfum myndað saman eða sér.

Fríða: Það er eitthvað alveg einstakt við það hvað skátarnir draga fram það besta í fólki. Maður hittir fullt af mismunandi einstaklingum í skátunum en ég held að ég geti fullyrt það að fólkið í skátunum er eitt það besta og skemmtilegasta sem ég hef nokkurn tímann hitt. Ég hef bæði eignast nýja vini og tengst þeim ég átti fyrir á hátt sem erfitt er að útskýra. Þetta er fólkið sem hlær með manni, stundum að manni en hjálpar manni samt alltaf á fætur sem minnir okkur á það hvers vegna þetta er allt þess virði. 

Í ár fagnar forsetamerkið 60 ára afmæli. Það er svolítið sérstök tilfinning að standa hér í dag og hugsa til allra 1473 forsetamerkishafana sem hafa staðið hér á undan mér. 60 ár af skátum sem hafa tekið við þessu merkilega merki, hver og einn með sína sögu, sín ævintýri og sínar áskoranir. Þó tíminn hafi breyst, þá held ég að kjarninn sé sá sami. Við höfum öll á okkar hátt, lofað því sama: Að leggja okkar að mörkum í samfélaginu, að sýna gott fordæmi og að lifa eftir skátalögunum. 

Kristófer: Eða eins og Baden Powell orðaði það “Gerum okkar besta til að skilja við heiminn örlítið betri en þegar við komum í hann.”

Fríða: Það er fallegt að hugsa til þess að við erum nú orðinn hluti af þessum hópi, þessari keðju fólks sem sér til þess að skátaandinn lifi áfram, hvort sem það er meðvitað eða ekki. Forsetamerkið er nefnilega ekki bara viðurkenning fyrir það sem við höfum gert, heldur áminning um að halda áfram að lifa eftir skátalögunum. Að halda áfram að vera forvitin, hjálpsöm og hugrökk. Kæru skátar, innilega til hamingju með þetta afrek. Munið að forsetamerkið er ekki lokaverkefni, heldur byrjun á nýjum kafla.

 

Skátar úr 9 félögum

Eftirfarandi rekkaskátar úr 9 skátafélögum hlutu forsetamerkið á Bessastöðum 2. nóvember 2025 og bættust í hóp 1488 forsetamerkishafa frá upphafi.

Úr Árbúum:
Daníel Þröstur Pálsson

Úr Faxa:
María Fönn Frostadóttir

Úr Fossbúum:
Vigdís Jóna Árnadóttir

Úr Hraunbúum:
Dagný Lind Pálsdóttir
Inga Dís Guðjónsdóttir
Logi Friðriksson

Úr Klakki
Anton Bjarni Bjarkason
Anton Dagur Björgvinsson
Ásbjörn Garðar Yngvason
Birkir Kári Gíslason
Birkir Kári Helgason
Fríða Björg Tómasdóttir
Hörður Andri Baldursson
Snædís Hanna Jensdóttir

Úr Kópum:
Eva Rut Tryggvadóttir
Silja Líf Eiðsdóttir

Úr Mosverjum:
Eberg Óttarr Elefsen
Kristófer Njálsson
Pétur Jón Árnason
Unnur Elísa Sigurgísladóttir

Úr Víflum:
Elí Hrönn Hákonar
Helgi Þórir Sigurðsson
Ingvar Jarl Eineborg

Úr Ægisbúum:
Aðalsteinn Ingi
Andri Rafn Ævarsson
Berglind Anna Magnúsdóttir


Umsókn þátttakanda á alheimsmóti 2027

LANGAR ÞIG AÐ KOMA MEÐ Á ALHEIMSMÓT SKÁTA Í PÓLLANDI SEM ÞÁTTTAKANDI?

Opið er fyrir umsóknir þátttakanda á alheimsmóti skáta í Póllandi 2027.

 

Hvað felst í því að vera þátttakandi á Alheimsmóti ?

Þátttakendur á alheimsmóti verða vera á aldrinum 14 - 17 ára þegar mótið byrjar 30. júlí 2027 (fædd á bilinu 30. júlí 2009 - 30. júlí 2013). Níu skátum er raðað saman í einn skátaflokk með einum foringja og fjórir flokkar saman mynda eina sveit.

Íslenski fararhópurinn mun fara út með 5 sveitir og því einungis 180 pláss fyrir íslenska þátttakendur. Fararhópurinn mun hittast fyrir ferðina á undirbúningsfundum og í sveitarútilegum þar sem hópnum er hristað saman og einnig verður farið yfir ferðalagið og dagskrá mótsins til að undirbúa þátttakendurna sem best.

Hér eru drög af ferðafyrirkomulagi hópsins með fyrirvara á breytingum þegar nær dregur ferðinni.

  • 27. júlí 2027 - IST flýgur út
  • 29. júlí 2027 - Aðalhópurinn flýgur út
  • 30. júlí 2027 - Mótssetning
  • 8. ágúst 2027 - Mótsslit
  • 9.-13. 2027 - Mótsslit

 

Hvað kostar ?

Verðið fyrir þátttakanda er 572.000 kr. Athugið að þetta er verð án flugs.

Innifalið í verðinu er:

  • Þátttökugjald til mótsins: 215.000 kr.
  • Eftirmótsupplifun í Kraká: 110.000 kr.
  • Einkenni: 35.000 kr.
  • Annar kostnaður 212.000 kr.
    • Sameiginlegur búnaður
    • Sveitarstarf fyrir mótið
    • Fararstjórn
    • Skrifstofu- og ófyrirséður kostnaður

Þau sem vilja taka þátt eru beðin um að lesa vel skilyðrin hér að neðan og fylla síðan út umsóknareyðublaðið. Umsóknarfresturinn er til og með 1. apríl 2026 

 

Ef það eru einhverjar spurningar um hlutverkið þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við fararstjórana á netfangið jambo2027@skatarnir.is. 

Skilyrði fyrir þátttakendur

  • Vera orðin 14 ára og ekki orðin 18 ára þegar mótið hefst, 30. júlí 2027
  • Hafa farið á a.m.k. fjögurra nátta skátaviðburð og gist í tjaldi allan tímann
  • Hafa unnið sér inn færnimerkin:
    • Skyndihjálp
    • Hnífur
    • Útieldun
  • Vegna víðáttumikils mótsvæðis þarf þátttakandi að vera í góðu líkamlegu formi og geta fengið a.m.k. 10 kílómetra á dag (nema ef um sérstök frávik er að ræða)
  • Meðmæli frá sveitarforingja og einum úr félagaþrennunni þar sem hún er starfandi í félaginu, annars félagsforingja
  • Góð heilsa þar sem að á mótinu er mikil útivera og dagskrá sem krefst mikillar hreyfingar í +25°C hita og því mikilvægt að þátttakendur séu líkamlega hraustir
  • Þekki skátalögin og geti haft þau að leiðarljósi í allri vegferðinni í kringum mótið og í samskiptum við aðra.
  • Taka þátt í undirbúningsfundum og/eða útilegum sveitarinnar og fararhópsins til að tryggja að þátttakandi sé vel upplýstur og undirbúinn fyrir ferðina t.d.:
    • Hittingur fararhópsins á Landsmóti skáta á Hömrum 2026
    • Sveitarútilegur
    • Undirbúningsfundir sveitarinnar
  • Geta borið allan farangurinn sinn í einum bakpoka (18-20 kg) með minni dagspoka í u.þ.b. 30 mínútur (möguleg ganga frá rútunni að tjaldsvæðinu)
  • Hafa andlega burði til að búa þétt við frumstæðar aðstæður í fjölbreyttri mannflóru og miklu áreiti í þrjár vikur fjarri foreldrum/forráðafólki
  • Hafa jákvætt viðhorf gagnvart nýjum reynslum, ólíkum menningarheimum og að kynna íslenskt skátastarf á alþjóðlegum vettvangi

Umsókn fyrir þátttakendur

Vinsamlegast skrifaðu bara þau tungumál sem þú myndir treysta þér að vera í samskiptum við erlenda skátahópa á því tungumáli
Segðu í stuttu máli frá því hvers vegna þú hefur áhuga á að fara á Jamboree 2027.
Setjið inn einn skáta sem meðmælanda, getur verið skátaforingi eða félagsforingi

Skátadagatalið snýr aftur

Það er með mikilli gleði sem við endurvekjum skátadagatalið. Dagatalið er útprentað í stærð A2 svo það er þægilegt að bæta félagsviðburðum inn á. Nú þegar hafa nokkur félög fengið dagatal fyrir sitt skátaheimili og munum við koma þeim til allra félaga á næstu dögum. Hér má einnig nálgast dagatalið rafrænt og fylla inn í.

 


Útkall eftir umsóknum á norrænt gilwell

BÍS stendur til boða að senda 3 þátttakendur á norrænt Gilwell leiðtogaþjálfunar námskeið sem haldið verður í Finnlandi. Þátttakendur verða frá öllum Norðurlöndunum en námskeiðið fer fram á ensku. Að námskeiði loknu þurfa þátttakendur að mæta á lokahelgi Gilwell þjálfunarinnar á Íslandi.

HVAR OG HVENÆR

Námskeiðinu í Finnlandi er skipt í nokkra hluta:

  • 3 netnámskeið: sunnudaginn 1. febrúar, sunnudaginn 22. mars og sunnudaginn 26. apríl. Nánari tímasetningar koma síðar
  • Útilega í Asikkala, suður Finnlandi, dagana 29. júní - 4. júlí 2026
  • Lokahelgi þjálfunarinnar í suður Finnlandi 6.-9. janúar 2027. Nánari staðsetning kemur síðar.

MARKMIÐ

Markmið námskeiðsins er að bjóða upp á ævintýralegt námskeið ásamt því að styrkja leiðtogahæfni þátttakenda. Á námskeiðinu er mikil áhersla á gildi, bæði einstaklingsins og skátahreyfingarinnar, og þurfa þátttakendur að vera tilbúin að taka þátt í verkefnum sem krefjast ígrundunar á eigin gildum og viðhorfum.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.

KRÖFUR

Þátttakendur þurfa að vera 22 ára, hafa reynslu af foringjastörfum, eða öðrum leiðtogastörfum, innan skátahreyfingarinnar og stefna á að halda því áfram. Jafnframt er æskilegt að þátttakendur hafi lokið sveitarforingjanámskeiði.

KOSTNAÐUR

Þátttökugjaldið er 550 evrur ásamt því að þátttakendur þurfa að greiða eigin ferðakostnað (2 ferðir til Finnlands).

UMSÓKNIR

Umsóknir skulu berast í gegnum formið hér að neðan. Umsóknarfrestur er til og með 12. október.

Vinsamlegast skrifaðu bara önnur tungumál ef þú myndir treysta þér að vera í samskiptum við erlenda skátahópa á því tungumáli
Vinsamlegast skrifaðu starfsheiti eða stutta lýsingu á hvað þú fæst við.

Privacy Preference Center