Hringfarinn veitir fjölskylduskátum veglegan styrk

Hringfarinn Kristján Gíslason og eiginkona hans Ásdís Rósa Baldursdóttir vilja láta gott af sér leiða og hafa meðal annars stutt við bataferli fíkla. Þegar því verkefni lauk spurðu þau þann hóp sem naut góðs af því verkefni hvað þau teldu að kæmu sér best. Þau hvöttu hann til að skoða aðstæður ungs fólks fyrr á lífsleiðinni. Hann hafði samband við Helgu Þórey Júlíudóttur hjá skátunum og hún sagði honum frá nýjung í skátastarfi sem kölluð eru fjölskylduskátun.

Fjölskylduskátastarf er fyrir börn sem ekki hafa náð hinum hefðbundna skátaaldri og forráðafólk þeirra.  Markmið starfsins er gera öllum fjölskyldum kleift að stunda saman skipulagt tómstundastarf þar sem öll börn hafa jöfn tækifæri á að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl, njóta útivistar, líða vel í eigin skinni, vera sjálfstæðir leiðtogar í eigin lífi og með sterka sjálfsmynd. Hugmyndin hefur þegar fengið tilnefningu til foreldraverðlauna Heimilis og skóla.

Skátastarf hefur til þessa almennt hafist við 8 ára aldur. Boðið hefur verið upp á starfið til reynslu í þrjú ár og hefur það gefið góða raun. Fjölskyldur í starfinu hafa komið saman tvisvar sinnum í mánuði í skipulögðu starfi sem reyndir skátaforingjar og forráðafólkið sem fylgir börnunum hjálpast að við að leiða. Þetta nýja starf kallar á þróun í dagskrárefni og verður það einnig útbúið til að fjölga fjölskylduskátasveitum.

Kristján og Ásdís Rósa ákváðu eftir að hafa kynnt sér málið að styrkja skátana veglega til að byggja upp þessa nýjung í skátastarfinu. Heildarstyrkur Hringfarans til skátanna eru 10 milljón krónur. Hluti styrksins eða 2 milljónir verður afhentur í formi bóka sem þau hafa gefið út og verða seldar í Skátabúðinni en það eru:

  • Hringfarinn
  • Sliding Through (ensk útgáfa Hringfarans)
  • Andlit Afríku.

Söluandvirði bókanna sem seljast í Skátabúðinni rennur óskipt til skátastarfsins.  Aðstandendur styrktarsjóðsins, Kristján Gíslason og Ásdís Rósa Baldursdóttir, vilja einnig miðla reynslu sinni til skáta og annarra sem áhuga hafa á þeirra reynslu.

Styrkurinn var afhentur formlega í morgun að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands en hann er einnig verndari skátahreyfingarinnar á Íslandi.

„Mér lýst afskaplega vel á þetta nýja starf skátanna sem stefnir að því að fjölskyldur komi saman og njóti þessa að brúa bil milli kynslóðanna.“ segir Guðni Th

„Við erum ákaflega þakklát fyrir þennan stuðning,“ segir Helga Þórey Júlíudóttir, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta. Hún og Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, veittu styrknum móttöku við fjölskylduskátaviðburð við Bjarnastaði í morgun.

Í framhaldi af hinni formlegu afhendingu var gestum boðið að taka þátt í fjölskylduskátafundi sem haldinn var á skátaheimilið á Álftanesi, Bjarnastöðum. Þar fóru fram leikir og verkefni sem að fjölsykldu skátar tóku þátt í af gleði, þrátt fyrir rigningu og rok.