Sædís nýr erindreki BÍS

Sædis Ósk Helgadóttir hefur verið ráðin til starfa sem erindreki hjá Bandalagi íslenskra skáta, en nýlega var tekin ákvörðun um að fjölga teymi erindreka í Skátamiðstöðinni.

Sædís hefur verið í skátunum frá 6 ára aldri þegar hún byrjaði í skátafélaginu Árbúum, árið 2011 fór hún yfir í Garðbúa og á stóran hlut í endurreisn og uppbyggingu félagsins síðustu 10 árin. Í Garðbúum hefur hún verið sveitarforingi á öllum aldursbilum og verið í öllum hlutverkum innan stjórnar nema félagsforingja og gjaldkera. Sædís hefur verið mjög virk í viðburðarhaldi innan skátahreyfingarinnar en hún hefur verið mótstýra vetrarmóts Reykjavíkurskáta, aðstoðarmótstjóri á skátasumrinu og í mótstjórnum landsmóts rekka- og róverskáta. Sædís hefur farið á alheimsmót sem sveitarforingi bæði í Japan og í Bandaríkjunum og farið með hóp úr 5 félögum á skátamótið Gilwell 24 í Englandi. Sædís hefur starfað í leiðbeinendahóp Gilwell skólans og hefur setið í fræðsluráði.

Sædís er með B.A. í tómstunda- og frístundafræði og tók þar m.a. ár í skiptinámi í Noregi með áherslu á útivistarnám  og hún stefnir á að klára mastersnám á næsta ári í sömu fræðum. Sædís hefur starfað á leikskóla, sem jöklaleiðsögukona, verið útilífsskólastjóri mörg sumur og nú síðast sem frístundafræðingur í Árbænum.

Í teymi erindreki mun Sædís vinna við að styðja og þjónusta sjálfboðaliða BÍS í félagsstarfi skátafélaganna um land allt. Hún mun líka sinna allskyns átaksverkefnum sem miða af því að efla starfsumhverfi skátanna og að framþróun og innleiðingu nýs dagskrárefnis í skátastarfi. Þá vinna erindrekar líka að því að fjölga bæði sjálfboðaliðum og þátttakendum í skátastarfi og geta liðsinnt við að koma á fót skátastarfi í byggðarlögum þar sem það fyrirfinnst ekki í dag. Sædís mun síðan líka vinna að hluta til fyrir Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni þar sem hún mun vinna að efldari samræmingu dagskrár á Úlfljótsvatni og í skátastarfi og taka þátt í þróun skóla- og sumarbúðanna.

Sædís hefur störf 10. janúar og við hlökkum til að fá að starfa með henni!