Frétt frá Skátaþingi 2021
Skátaþing 2021
Skátaþing 2021 var annað Skátaþingið sem haldið var rafrænt. Jón Þór Gunnarsson var fundarstjóri og Kolbrún Ósk Pétursdóttir og Védís Helgadóttir fundarritarar. Þingið gekk vel fyrir sig og verður hér farið yfir það helsta sem fram fór á þinginu.
Allar upplýsingar um þingið, fundargerð og fleira er að finna á www.skatarnir.is/skatathing-2021.
Staðfesting á skipan félagsforingjafundar
Á Skátaþinginu var Sigurður Viktor Úlfarsson, formaður uppstillingarnefndar BÍS, með framsögu þar sem hann sagði frá því að stjórnarmeðlimur BÍS hafi hætt í stjórn í janúar og því hafi uppstillingarnefnd þurft að búa til verklag til að finna nýjan stjórnarmeðlim til þess að uppfylla lögin. Á félagsforingjafundi var Huldar Hlynsson skipaður í stjórn BÍS og lagði Sigurður það til að niðurstaða félagsforingjafundarins yrði lögð fram til Skátaþings til staðfestingar og að kosið yrði um hvort skipan Huldars yrði út kjörtímabilið.
Tillaga Sigurðar um að staðfesta kosningu félagsforingjafundar var samþykkt og heldur því Huldar Hlynsson sæti sínu í stjórn BÍS út kjörtímabilið.
Jafnréttis- og mannréttingastefna BÍS
Ein þingsályktunartillaga var lögð fram af Þórhildi Elínardóttur Magnúsdóttur um jafnréttis- og mannréttindastefnu BÍS. Þórhildur sagði frá því að nánast öll skátabandalög væru með slíka stefnu og að í stefnu BÍS til 2025 komi fram að BÍS þurfi að semja slíka stefnu og að best væri að gera það sem fyrst. Tillagan var samþykkt.
Lagabreytingar
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir lagði fram 12 lagabreytingatillögur og voru 3 samþykktar. Hér koma þær uppfærðar en allar lagabreytingartillögurnar eru inn á heimasíðu skátaþingsins.
Ný 16. grein skátalaga um árlegt Ungmennaþing
Ungmennaráð og stjórn BÍS skulu a.m.k. árlega boða til Ungmennaþings. Til Ungmennaþings skal boða með minnst 6 vikna fyrirvara. Ungmennaþing skal haldið í síðasta lagi fimm vikum fyrir skátaþing ár hvert. Ungmennaþing er vettvangur fyrir skáta 25 ára og yngri til að koma saman og ræða málefni er varða þau sérstaklega. Á Ungmennaþingi geta ungmenni í skátunum t.d. komið sér saman um lagabreytingar og aðrar tillögur fyrir Skátaþing ár hvert ásamt því að kjósa á kosningaári áheyrnafulltrúa ungmenna í stjórn BÍS og a.m.k. þrjá fulltrúa í ungmennaráð. Aðeins eru kjörgengir þeir skátar sem eru 25 ára eða yngri á því ári sem kosið er.
Auka Ungmennaþing skal halda ef stjórn eða ungmennaráð telja það nauðsynlegt og skal boða til þess með minnst 15 daga fyrirvara. Auka Ungmennaþing er undanskilið því skilyrði að Ungmennaþing skal vera haldið minnst fimm vikum fyrir skátaþing ár hvert.
Sé þessi lagabreytingartillaga samþykkt verður núverandi 16. grein að 17. grein, 17. grein að 18. grein o.s.frv.
18. grein um jafna aldursdreifingu í ráðum, nefndum og stjórnum.
Á vegum BÍS skal ætíð starfa sérstök 5 manna uppstillingarnefnd, kosin á Skátaþingi til tveggja ára. Í nefndinni skal vera a.m.k. einn einstaklingur sem er 25 ára eða yngri á því ári sem nefndin er skipuð. Nefndin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum.
Uppstillingarnefnd skal leita eftir fólki til starfa fyrir Bandalag íslenskra skáta samkvæmt því sem fram kemur í 18. grein, 20. grein, 22. grein, 23. grein, 26. grein og 28. grein laga þessara og tryggja að í hvert laust sæti sé a.m.k. einn frambjóðandi. Við störf sín skal uppstillingarnefnd ávallt leita eftir hæfum frambjóðendum og gæta þess, eftir því sem hægt er, að jafnræði sé með kynjunum í stjórn, nefndum og ráðum BÍS.
Framboð til áðurnefndra embætta má tilkynna til nefndarinnar og skal það vera skriflegt og undirritað af frambjóðanda. Framboð skulu hafa borist í síðasta lagi 3 vikum fyrir Skátaþing. Nefndin skal ljúka störfum í síðasta lagi 17 dögum fyrir þing. Nöfn, netföng og símanúmer nefndarmanna skulu tilgreind í fundarboði til Skátaþings.
Stjórn BÍS skal kalla uppstillingarnefnd saman í síðasta lagi 15. janúar.
25. grein um fjölgun í fastaráð
Á vegum stjórnar BÍS starfa ávallt fimm fastaráð: starfsráð, alþjóðaráð, útilífsráð, ungmennaráð og stjórn Skátaskólans.
Kosnir skulu að lágmarki þrír í hvert fastaráð til tveggja ára. Ungmennaráð er kosið á ungmennaþingi. Að auki situr stjórnarmaður í ráðinu og getur eftir atvikum verið formaður þess. Stjórn getur ákveðið að fleiri séu kjörnir í ákveðið fastaráð með auglýsingu með fundarboði skátaþings eða fundarboði ungmennaþings ef um er að ræða fjölgun meðlima ungmennaráðs.
Í hverju fastaráði BÍS skal vera að lágmarki einn fulltrúi á aldrinum 18-25 ára. Skátar sem bjóða sig fram í ungmennaráð skulu vera á aldrinum 16-25 ára á því ári sem þeir bjóða sig fram.
Hlutverk fastaráðanna er eftirfarandi:
- Hlutverk starfsráðs er að styðja við og efla starf skátafélaganna í samráði við stjórnir skátafélaga, sveitarforingja og flokksforingja.
- Hlutverk alþjóðaráðs er að stuðla að því að BÍS fylgi stefnum og nýti sér stuðningsefni frá alþjóðasamtökum skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt því að annast samskipti við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.
- Hlutverk útilífsráðs er að hvetja til viðburða sem fela í sér útilíf og styðja við þá útilífsviðburði sem bæði skátafélög og BÍS standa fyrir.
- Hlutverk ungmennaráðs er að hvetja til og auka ungmennalýðræði innan stjórnkerfis hreyfingarinnar og stuðla að virkri þátttöku ungmenna við stefnumótun dagskrár hreyfingarinnar og eigin skátastarfs.
- Hlutverk stjórnar Skátaskólans er að stuðla að þjálfun með skipulagningu námskeiða, er taki mið af grunngildum Bandalags íslenskra skáta.
Næstu viðburðir
Í lokin minnti Ragnheiður Silja frá Garðbúum alla á að skrá sig á Skátasumarið og að skráningarfrestur væri til 30. apríl. Frekari upplýsingar um Skátasumarið má finna hér. [Skráningarfrestur hefur verið lengdur til 14. maí]
Einnig sagði Harpa Ósk, stjórnarmeðlimur BÍS, frá því að í haust verði haldinn aðalfundur þar sem farið verður yfir hvatakerfi og umgjörð í skátastarfi. Auk þess verður Kveikjan haldin í ágúst en það er nýr viðburður þar sem smiðjur verða opnar fyrir skáta, skátafélög og skátaforingja til að mæta, læra nýja hluti og undirbúa veturinn. Viðburðirnir verða auglýstir betur þegar nær dregur.
Hittingar á næsta leyti
Skátaþingið 2021 gekk vel og ekki að furða enda flestir vanir því núna að taka þátt í viðburðum á netinu. Skátamiðstöðin þakkar öllum fyrir þátttökuna og við hlökkum til að hittast sem fyrst í raunheimum, hvort sem það verður á Skátasumarinu, Kveikjunni, næsta aðalfundi, í Skátamiðstöðinni eða hvar sem það verður 🙂
Með skátakveðju úr Skátamiðstöðinni
Sumardagurinn fyrsti
Sumardagurinn fyrsti 2021
Nú er að detta í garð annar sumardagurinn fyrsti þar sem covid setur smá strik í reikninginn en ekki örvænta! Það er hægt að gera sér glaðan dag með hinum ýmsum verkefnum og leikjum sem til eru og njóta fyrsta sumardagsins í faðmi fjölskyldunnar 🙂
Hér eru hugmyndir af áskorunum, þrautum eða verkefnum sem þið getið gert í tilefni dagsins:
Skátafélagið Mosverjar ætlar að vera með litla tindaáskorun fyrir börnin og fjölskyldur þeirra. „Sigraðu tinginn“ er létt ganga á Lágafellið og er leiðin stikuð og vel merkt. Áskorunin verður opin frá 10-16 og byrjar og endar á bílastæði Lágafellskirkju. Þar verða skátar til að leiðbeina og einnig veita viðurkenningar þegar komið er aftur niður. Frekari upplýsingar um viðburðinn má finna hér.
Skátafélagið Fossbúar stendur fyrir skemmtilegum fjölskylduratleik þar sem þau ætla að birta lista af verkefnum sem fjölskyldan þarf að leysa, taka mynd og birta á samfélagsmiðlum. Frekari upplýsingar um viðburðinn og verkefnalistann má finna hér.
Sumarbingó fyrir fjölskylduna. Hér er skemmtilegt bingó sem hægt er að gera leik úr fyrir alla fjölskylduna. Hver er fyrstu til að finna B? En O? En allt spjaldið? Smelltu hér til að opna Sumarbingó.
Stuðkví verkefnin eru skemmtileg verkefni sem hægt er að grípa í við mörg tækifæri. Hér eru nokkur skemmtileg verkefni sem henta sumardeginum fyrsta:
- Hunangsflugur – er ekki um að búa til drykkjarstöð fyrir hunangsflugurnar sem fara fljótlega að sveima hér um allt?
- Heimagerður ís í poka – er sumardagurinn fyrsti ekki fullkominn dagur í að búa til ís?
- Knús og músarhús – að knúsa tré er skemmtileg og falleg athöfn sem við ættum öll að gera reglulega. Svo er líka hægt að byggja fallegt músarhús!
- Alvöru gönguferð – ef þið ætlið að nýta daginn í að fara í gönguferð þá er hér farið yfir hvernig er gott að undirbúa sig fyrir langa gönguferð.
- Fuglafóður – sumarið er komið, en það er kannski smá tími í að allt verði grænt og blómin fara að spretta. Því er mjög fallegt að hjálpa fuglunum okkar aðeins og gefa þeim eitthvað gott að borða.
Gleðilegt sumar og njótið dagsins!

Upplýsingar vegna nýrra reglugerða
Upplýsingar vegna nýrra reglugerða
Hér koma upplýsingar um nýjar sóttvarnareglur sem tóku gildi 15. apríl og gilda til og með 5. maí 2021.
Samkvæmt nýjum reglugerðum er leik- og grunnskólabörnum heimilt að stunda íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf.
Því mega dreka-, fálka- og dróttskátar hefja fundi að nýju frá og með 15. apríl.
Hér er það sem þarf að hafa í huga á þeirra fundum:
Staðsetning skátafunda:
- Fari starf fram innanhúss skal gæta góðra þrifa á almennum snertiflötum og loftræsa rými.
- Áfram skal gæta persónubundinna smitvarna og bjóða góða aðstöðu til handþvotts og hafa spritt aðgengilegt þátttakendum og skátaforingjum.
- Ráðstafanir skulu gerðar til að sótthreinsa rými eftir hvern dag og á milli hópa í sama rými.
Skátaforingjar:
- Reyna skal að halda fjölda skátaforingja í lágmarki þó ávallt vera nægur til að anna ungmennunum og gæta öryggis, samkvæmt reglugerð má fjöldi skátaforingja að hámarki vera 20.
- Skátaforingjar skulu gæta 1 metra nálægðartakmörkunar á milli hvors annars. Sé ekki unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun milli hvors annars skulu skátaforingjar nota andlitsgrímur.
- Skátaforingjar þurfa ekki að gæta 1 metra nálægðar við þátttakendur en mælst er til þess að skátaforingjar séu ekki að óþörfu innan 1 metra við þátttakendur.
Starfsfólk:
Séu starfsmenn í skátafélögum gilda sömu reglur um þau og skátaforingja.
Rekkaskátar og eldri:
Rekkaskátar og eldri falla undir almennar samkomutakmarkanir og er því heimilt að hefja skátastarf aftur þar sem ekki fleiri en 20 koma saman. Það á við um heildarfjölda allra á skátafundi bæði skátanna og foringja. Þá skal tryggja a.m.k. tveggja metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Ef ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðartakmarkanir skal nota andlitsgrímur.
Kynningarmyndbönd fyrir Skátaþing 2021
Kynningarmyndbönd fyrir Skátaþing 2021
Það er að mörgu að huga fyrir Skátaþing en hér eru þrjú myndbönd sem þið getið skoðað til að kynna ykkur frekar þau málefni sem verða til umfjöllunar á Skátaþinginu 2021.
Í fyrsta myndbandinu fer Kristinn, framkvæmdarstjóri BÍS, yfir ársreikninga BÍS:
Í öðru myndbandinu fer Kristinn yfir ársreikninga Skátamóta og ÚSÚ:
Í þriðja myndbandinu fer Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, yfir tillögu að starfsáætlun BÍS 2021-2025:
Frekar upplýsingar um þingið eru inn á www.skatarnir.is/skatathing
VEGNA NÝRRA VIÐMIÐA FRÁ STJÓRNVÖLDUM
VEGNA NÝRRA VIÐMIÐA FRÁ STJÓRNVÖLDUM

Fyrr í dag, miðvikudaginn 24. mars 2021, hélt ríkisstjórnin blaðamannafund þar sem tilkynnt var um nýjar takmarkanir. Þar kom fram að grunn-, framhalds- og háskólum verði lokað næstu þrjár vikur og hefur Skátamiðstöðin tekið þá ákvörðun að færa allt skátastarf á netið frá og með núna.
Því verður gert hlé á öllu skátastarfi í raunheimum þar til þessum takmörkunum lýkur.
Við fylgjumst vel með stöðu málanna og látum ykkur vita um leið og nýjar upplýsingar koma fram! Ef einhverjar spurningar vakna, vangaveltur eða ykkur vantar bara að spjalla, þá geti þið alltaf heyrt í okkur í Skátamiðstöðinni!
Við hvetjum ykkur til að nýta þau verkfæri sem til eru til að senda á skátana ykkar og þar má nefna:
- www.skatarnir.is/studkvi –> skemmtileg verkefni sem hægt er að senda á skáta
- rafræn spilakvöld / bingókvöld / skátakviss / kahoot
- og ekki má gleyma Among Us sem hefur verið mjög vinsæll leikur (vonandi eru ekki allir komnir með nóg af honum..)
Svo er um að gera að taka gott páskafrí, slaka á og koma tvíefld til baka!
Rafrænt knús til ykkar allra<3
Útkall í vinnuhóp - Mótstjórn Drekaskátamóts

VINNUHÓPUR
MÓTSTJÓRN DREKASKÁTAMÓTS
-Ævintýraleg upplifun, fjölbreytt dagskrá og skemmtilegar áskoranir-
Auglýst er eftir sjálfboðaliðum í mótstjórn Drekaskátamóts. Fullkomið tækifæri fyrir þau sem eru að stíga sín fyrstu skref í skipulagningu skátamóta og vilja taka þátt í að skipuleggja ævintýralegt skátamót. Verkefnið hentar vel rekkaskátum sem eru að vinna að forsetamerkinu!
Drekaskátamót er ótrúlega skemmtilegt skátamót þar sem drekaskátar hittast og gista saman í eina nótt á Úlfljótsvatni. Þemað í ár er sólstrandarþema og því um að gera að fara að grafa upp sólhattinn og sólgleraugun!
Hvaða kröfur þarf ég að uppfylla til að vera með?
- 16 ára eða eldri
- Geta unnið í hóp
- Hafa metnað, frumkvæði og hugmyndaauðgi
Tímalína
Tímalengd verkefnisins er frá 23. mars 2021 – 15. júní 2024. Verkefninu er skipt þannig upp að á fyrsta drekaskátamótinu mun núverandi drekaskátamótsstjórn skipuleggja mótið með ykkur og kenna ykkur verklag og skipulag mótsins. Á öðru árinu sjái þið um mótið sjálf og á þriðja árinu fáið þið inn hóp af skátum sem mun taka við af ykkur í mótsstjórn og munið þið leiða þau í gegnum mótið.
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt sendu okkur tölvupóst á drekaskatamot@skatar.is.
Við hlökkum til að heyra frá þér 😀
Ný endurnýtanleg sakavottorðseyðublöð
Ný endurnýtanleg sakavottorðseyðublöð
Skátamiðstöðin hefur í samvinnu við embætti Ríkissaksóknara útbúið nýtt eyðublað til undirritunar vegna heimildar til að leita í sakaskrá. Nýja eyðublaðið gildir á meðan skáti er í starfi, því er hægt að fletta upp stöðu í sakaskrá árlega án þess að skila þurfi inn nýju skjali. Skjalinu ber að eyða láti skáti af störfum eða óski sérstaklega eftir því. Því þarf eingöngu að skila nýju skjali ef hlé hefur verið gert á skátastarfi.
Þetta fyrirkomulag ætti því að auðvelda okkur öllum utanumhald við skil á sakavottorðsheimildum.
Þeim sem eftir eiga að skila fyrir þetta starfsár geta skilað nýja eyðublaðinu.
Eyðublaðið er þannig útbúið að hægt er að fylla inn allt nema undirskrift áður en prentað er út. Skönnuðu afriti af undirrituðu eyðublaði má senda þjónustufulltrúa Skátamiðstöðvarinnar á skatar@skatar.is
Nýja eyðublaðið má finna hér.
Útilegur og viðburðir skáta eftir 24. febrúar
Útilegur og viðburðir skáta eftir 24. febrúar
Bandalag íslenskra skáta hafði fengið staðfest frá yfirvöldum að útilegur og viðburðir í skátastarfi væru heimilar og hvaða reglugerðum skyldi fylgja hverju sinni. Vegna nýrra reglugerða sem tóku gildi 24. febrúar eru eftirfarandi leiðbeiningar BÍS til skátafélaga um viðburði og útilegur.
ÚTILEGUR OG VIÐBURÐIR MEÐ DREKA-, FÁLKA OG DRÓTTSKÁTUM
Samkvæmt fyrra svari ráðuneytisins eru útilegur og viðburðir með dreka-, fálka- og dróttskátum heimil samkvæmt sömu takmörkunum og gilda um félagsstarfið.
Skátafélögum er því heimilt að halda viðburði og að fara í flokks-, sveitar- og félagsútilegur með skátum á aldursbili dreka-, fálka og dróttskáta. Heimilt er að hafa fleiri ungmenni saman á viðburðum og í útilegum en bara þau sem hittast á vikulegum skátafundum og því mögulegt að blanda hópum á viðburðum og í útilegum á milli skátasveita og skátafélaga. Hámarskfjöldi ungmenna er 150.
Fjöldi sjálfboðaliða ( í þessu samhengi skátar fædd 2004 og fyrr) sem er með ungmennunum á viðburðum eða í útilegum skal halda í lágmarki en þó vera nægur til að anna ungmennunum og gæta öryggis. Hámarskfjöldi sjálfboðaliða er 50. Sjálfboðaliðar skulu gæta 1 metra fjarlægðartakmarkana gagnvart hvoru öðru og bera andlitsgrímur þegar það er ekki hægt.
Forráðafólk, aðstandendur og aðrir aðilar skulu lágmarka viðveru sína á viðburðum og í útilegum með ungmennum. Að sjálfsögðu mega þau skutla og sækja ungmenni og farangur á meðan að á viðburðum og útilegum stendur. Séu þessir aðilar viðstaddir á viðburðum og í útilegum telja þau upp í 50 manna hámarksfjölda sjálfboðaliða).
Eingöngu skal fhalda viðburði og fara í útilegur ef hægt er að gæta ýtrustu sóttvarnarsjónarmiða m.a. með því að hafa góða aðstöðu til handþvotts, hafa spritt aðgengilegt öllum stundum, þrífa sameiginlega fleti reglulega og tryggja góða loftræstingu.
Stjórn og skátaforingjar skátafélaga skulu sameiginlega gæta þess að upplýsa forráðafólk ungmenna vel áður en viðburðir og útilegur er haldnar.
REKKA-, RÓVER- OG ELDRI SKÁTAR
Samkvæmt svörum yfirvalda gilda almennar samkomutakmarkanir um viðburði og útilegur rekkaskáta og eldri. Því eru sömu takmarkanir settar og í félagsstarfi þeirra.
Á viðburðum sem eru eingöngu fyrir rekkaskáta og/eða eldri mega vera 50 manns, þau skulu gæta 2 metra fjarlægðartakmarkanna öllum stundum og bera andlitsgrímur ef það er ekki mögulegt.
Eingöngu skal halda viðburði og fara í útilegur rekkaskáta og eldri ef hægt er að gæta ýtrustu sóttvarnarsjónarmiða m.a. með því að hafa góða aðstöðu til handþvotts, hafa spritt aðgengilegt öllum stundum, þrífa sameiginlega fleti reglulega og tryggja góða loftræstingu.
Félagsstarf skáta eftir 24. febrúar
Félagsstarf skáta eftir 24. febrúar
Nýjar reglugerðir tóku gildi 24. febrúar, önnur um skólahald sem nær einnig yfir æskulýðsstarf grunnskólabarna og hin um samkomutakmarkanir sem nær einnig yfir félagsstarf þeirra sem eru fædd 2004 og fyrr.
Á þessari síðu má finna tilmæli til skátafélaga um félagsstarf skáta, en bent er á að hvert skátafélag er í ólíkri stöðu og fá jafnvel líka leiðbeiningar frá sínu sveitarfélagi. Þátttakendum og aðstandendum er því bent á að leita upplýsinga um framhald starfsins hjá sínu skátafélagi.
Dreka- fálka- og dróttskátar (7 – 15 ára)
Þátttakendur:
- Drekaskátar, Fálkaskátar og Dróttskátar mega vera 150 saman á skátafundi og eru undanþegin grímuskyldu og nálægðartakmörkunum.
- Blöndun er leyfileg á milli hópa.
Staðsetning skátafunda:
- Fari starf fram innanhúss skal gæta góðra þrifa á almennum snertiflötum og loftræsa rými.
- Áfram skal gæta persónubundinna smitvarna og bjóða góða aðstöðu til handþvotts og hafa spritt aðgengilegt þátttakendum og skátaforingjum.
- Ráðstafanir skulu gerðar til að sótthreinsa rými eftir hvern dag og á milli hópa í sama rými.
Skátaforingjar:
- Reyna skal að halda fjölda skátaforingja í lágmarki þó ávallt vera nægur til að anna ungmennunum og gæta öryggis, samkvæmt reglugerð má fjöldi skátaforingja að hámarki vera 50.
- Skátaforingjar skulu gæta 1 metra nálægðartakmörkunar á milli hvors annars. Sé ekki unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun milli hvors annars skulu skátaforingjar nota andlitsgrímur.
- Skátaforingjar þurfa ekki að gæta 1 metra nálægðar við þátttakendur en mælst er til þess að skátaforingjar séu ekki að óþörfu innan 1 metra við þátttakendur.
Starfsfólk:
Séu starfsmenn í skátafélögum gilda sömu reglur um þau og skátaforingja.
Forráðamenn, aðstandendur og aðrir aðilar:
Forráðamenn og aðstandendur þátttakenda ásamt öðrum sem ekki tilheyra félagsstarfi hverrar skátasveitar skulu lágmarka viðveru í skátaheimili þegar skátafundir eru haldnir. Þau skulu bera grímu öllum stundum og gæta nálægðartakmarkana gagnvart þátttakendum, skátaforingjum og öðrum.
Rekka- og róverskátar (16 – 25 ára)
Samkvæmt svari mennta- og menningarmálaráðuneytis fylgir félagsstarf skáta 16 – 25 ára sömu reglum og gilda um íþróttaæfingar fullorðinna.
Á skátafundum rekka- og róverskáta er hámarksfjöldi 50 og er mælst til þess að skátar séu með grímur ef ekki er unnt að tryggja 2 metra fjarlægð.
Norðurlandaþing
Norðurlandaþing
Alþjóðaráð leitar eftir hressum og drífandi skáta til að sinna starfi tengiliðs á milli skipuleggjenda norðurlandaþings og fararhóp Íslands. Starfið felst í því að halda utan um og miðla dagskrá þingsins og þau verkefni sem íslenskir þing gestir þurfa að leggja af hendi. Tímarammi verkefnisins er frá 22. febrúar til og með lokadegi þingsins sem er 16. maí. Þingið verður haldið í gegnum netið en stefnt er á að reyna að safna saman íslenska fararhópnum saman.
Um er að ræða frábært tækifæri til að taka þátt í alþjóðlegu starfi og kynnast öðrum skátum frá norðurlöndunum án þess að þurfa að finna vegabréfið.
Fyrir frekari upplýsingar vinsamlegast hafið samband í gegnum netfangið international@skatarnir.is




