Verkefni 22 – Alvöru gönguferð

Verkefni 22 – Alvöru gönguferð

Nú er tilvalinn tími til þess að finna til bakpoka, nesti og góða skó! Undirbúðu þig fyrir gönguferð og skelltu þér út í náttúruna. Það sem er ýmislegt sem þarf að huga að áður en maður fer í gönguferð, þá sérstaklega á Íslandi þar sem veðrið getur breyst skyndilega. Mundu að klæða þig vel fyrir gönguferðina! Þú getur byrjað á að fara í gönguferð um hverfið þitt, og svo þegar þú ert tilbúinn getur þú farið á fjöll, í villta náttúru eða á þína uppáhaldsstaði.

Verkefni

ALVÖRU GÖNGUFERÐ!
Í dag ætlar þú að fara í 5 km göngu! 5 kílómetrar/5000 metrar eru eins og að synda 100 ferðir í 50 metra sundlaug. Hvað er langt að labba í skólann þinn?
Farðu á kortasjá á netinu, til dæmis www.lmi.is og skoðaði lengdir frá heimili þínu. Nú ætlar þú nefnilega að hanna 5 km gönguferð.

1. Hannaðu gönguferð sem er 5000 metra, t.d. á lmi.is eða öðrum síðum
2. Pakkaðu í góðan bakpoka: Nesti, plástrum, auka fatnaði samkvæmt veðurspá, hleðslubanka ef þú ert með síma.
3. Sýndu fullorðnum leiðina sem þú ætlar að ganga.
4. Farðu út og fylgdu leiðinni nákvæmlega eins og þú hannaðir hana.
5. Komdu heim og segðu öllum ferðasöguna á meðan þú borðar góðan kvöldmat

Útbúnaður

Skór
Mikilvægt er að vera í góðum skóm þegar farið er í langar göngur. Best er að vera í gönguskóm, en stundum kaupir maður ekki svoleiðis fyrr en maður er hættur að stækka. Ef þú átt ekki gönguskó, þá er hægt að finna góða vetrarskó eða íþróttaskó. Hafðu gönguleiðina í huga þegar þú velur þér skó. Ef þú ætlar að labba í gegnum drullusvað, þá eru nýju hvítu íþróttaskórnir kannski ekki góð hugmynd. Yfirleitt er erfitt að ganga lengi í stígvélum, og forðast það flestir, en það má þó alveg. Mikilvægast er að vera í skóm sem þér finnst þæginlegir.

Fatnaður
Það er mjög mikilvægt að þér líði vel þegar þú ert í gönguferðinni! Því er hlýr og góður fatnaður lykilatriði. Gott er að finna til föðurland eða ullarnærföt ef það er kalt úti. Finndu til góðar og hlýjar buxur, t.d. flísbuxur, göngubuxur eða íþróttabuxur. Gott er að vera í ullarbol eða íþróttabol fyrir göngur. Næst getur þú fundið flíspeysu eða ullarpeysu. Finndu til góðan jakka, en athugaðu veðurspána fyrst, verður rigning, sól eða vindur?Reyndu að finna góða sokka, helst göngu- eða ullarsokka.  Mikilvægt er að taka með húfu, vettlinga og jafnvel buff/trefil, og ef það verður of heitt, þá fer það bara ofaní tösku.

Bakpoki
Taktu með þér góðan bakpoka í gönguferðina. Í bakpokann getur þú svo pakkað ýmsum hlutum sem gætu verið nytsamlegir.

  • Vatnsbrúsa
  • Nesti t.d. samloka, ávextir, grænmeti, hnetur og fl.
  • Auka sokkapar
  • Regnjakka og regnbuxur
  • Skyndihjálpardót, t.d. plástra, teygjubindi og hælsærisplástra.

Þú getur svo bætt við þeim hlutum sem þú vilt taka með í þína gönguferð. Ef þú getur tekið myndir af undirbúningnum og ferðinni ekki gleyma að deila þeim með okkur með myllumerkinu #stuðkví.