Félagsstarf skáta eftir 24. febrúar

24/02/2021

Nýjar reglugerðir tóku gildi 24. febrúar, önnur um skólahald sem nær einnig yfir æskulýðsstarf grunnskólabarna og hin um samkomutakmarkanir sem nær einnig yfir félagsstarf þeirra sem eru fædd 2004 og fyrr.

Á þessari síðu má finna tilmæli til skátafélaga um félagsstarf skáta, en bent er á að hvert skátafélag er í ólíkri stöðu og fá jafnvel líka leiðbeiningar frá sínu sveitarfélagi. Þátttakendum og aðstandendum er því bent á að leita upplýsinga um framhald starfsins hjá sínu skátafélagi.

Dreka- fálka- og dróttskátar (7 – 15 ára)

Þátttakendur:

  • Drekaskátar, Fálkaskátar og Dróttskátar mega vera 150 saman á skátafundi og eru undanþegin grímuskyldu og nálægðartakmörkunum.
  • Blöndun er leyfileg á milli hópa.

Staðsetning skátafunda:

  • Fari starf fram innanhúss skal gæta góðra þrifa á almennum snertiflötum og loftræsa rými.
  • Áfram skal gæta persónubundinna smitvarna og bjóða góða aðstöðu til handþvotts og hafa spritt aðgengilegt þátttakendum og skátaforingjum.
  • Ráðstafanir skulu gerðar til að sótthreinsa rými eftir hvern dag og á milli hópa í sama rými.

Skátaforingjar:

  • Reyna skal að halda fjölda skátaforingja í lágmarki þó ávallt vera nægur til að anna ungmennunum og gæta öryggis, samkvæmt reglugerð má fjöldi skátaforingja að hámarki vera 50.
  • Skátaforingjar skulu gæta 1 metra nálægðartakmörkunar á milli hvors annars. Sé ekki unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun milli hvors annars skulu skátaforingjar nota andlitsgrímur.
  • Skátaforingjar þurfa ekki að gæta 1 metra nálægðar við þátttakendur en mælst er til þess að skátaforingjar séu ekki að óþörfu innan 1 metra við þátttakendur.

Starfsfólk:

Séu starfsmenn í skátafélögum gilda sömu reglur um þau og skátaforingja.

Forráðamenn, aðstandendur og aðrir aðilar:

Forráðamenn og aðstandendur þátttakenda ásamt öðrum sem ekki tilheyra félagsstarfi hverrar skátasveitar skulu lágmarka viðveru í skátaheimili þegar skátafundir eru haldnir. Þau skulu bera grímu öllum stundum og gæta nálægðartakmarkana gagnvart þátttakendum, skátaforingjum og öðrum.

Rekka- og róverskátar (16 – 25 ára)

Samkvæmt svari mennta- og menningarmálaráðuneytis fylgir félagsstarf skáta 16 – 25 ára sömu reglum og gilda um íþróttaæfingar fullorðinna.

Á skátafundum rekka- og róverskáta er hámarksfjöldi 50 og er mælst til þess að skátar séu með grímur ef ekki er unnt að tryggja 2 metra fjarlægð.