Verkefni 43 – Hunangsflugur

Hvað hefur þú séð margar hunangsflugur í sumar? Það hafa tvær risa stórar komið í heimsókn í Skátamiðstöðina! En hvað veist þú mikið um þær? Vissir þú að þær eru með 5 augu og 6 fætur? Verkefni dagsins er að fræðast um hunangsflugur og sjá hvað við getum gert til að vera góðar við þær og hjálpa þeim við þeirra störf.

býfluga teiknuð

Á Íslandi lifa býflugur ekki villtar en hunangsflugur gera það. Hér ætlum við því að læra smá um hungangsflugur.

Staðreyndir um hunangsflugur:

  1. Hunangsflugur eru mjög mikilvægir frjóberar fyrir blóm, ávexti og grænmeti. Sem þýðir að þær hjálpa öðrum plöntum að vaxa með því að bera frjókorn á milli plantna.
  2. Hunangsflugur eru félagsskordýr og þær búa til bú þar sem tvær kynslóðir búa saman. Móðirin eða drottningin eins og margir kannast við, og dætur hennar en þær þjóna búinu og eru kallaðar þernur.
  3. Ólíkt býflugum sem gera sér stór bú ofanjarðar, þá gera hunangsflugur bú sín í jörðu.
  4. Bú hunangsflugna er ekki varanlegt og búa drottningarnar því til nýtt bú á hverju vori.
  5. Hunangsflugur lifa eingöngu á afurðum blóma og sjást því oft í blómaskrúði.
  6. Hunangsflugur þurfa að hita upp líkama sinn áður en þær taka á loft og því sjást þær oft í sólbaði fyrir utan búið sitt á morgnanna að drekka í sig hitann af sólarljósinu. Flugvöðvarnir þurfa að ná 32°C áður en þær hefja sig til flugs.

1. Drykkjarstöð fyrir hunangsflugur

Hunangsflugur vinna mikið og gott verk og þær verða oft mjög þyrstar. Þú getur hjálpað þeim með því að setja drykkjarstöð fyrir þær út á svalir eða í garðinn þinn. Hunangsflugum finnst best að drekka úr grunnu vatni og því er best að taka skál og fylla hana af steinum eða marmarakúlum og setja svo vatn í skálina. Svo getur þú skreytt skálina með blómum ef þú vilt.

drykkjustöð fyrir hunangsflugur
Bláklukka

2. Plantaðu blómum í garðinn þinn

Hunangsflugur elska blóm og þá sérstaklega blá, fjólublá og gul blóm. Hugmyndir af blómum sem þú getur plantað í garðinn þinn eða út á svalir eru:

  • Bláklukkur
  • Skriðsóley
  • Blálilja

Svo er bara að vera góð/ur við hunangsflugurnar og muna eftir því að þær eru mikilvægir vinir okkar. Ef þú sérð hunangsflugu í vanda reyndu að hjálpa henni 🙂