Útilegur og viðburðir skáta eftir 24. febrúar

24/02/2021

Bandalag íslenskra skáta hafði fengið staðfest frá yfirvöldum að útilegur og viðburðir í skátastarfi væru heimilar og hvaða reglugerðum skyldi fylgja hverju sinni. Vegna nýrra reglugerða sem tóku gildi 24. febrúar eru eftirfarandi leiðbeiningar BÍS til skátafélaga um viðburði og útilegur.

ÚTILEGUR OG VIÐBURÐIR MEÐ DREKA-, FÁLKA OG DRÓTTSKÁTUM

Samkvæmt fyrra svari ráðuneytisins eru útilegur og viðburðir með dreka-, fálka- og dróttskátum heimil samkvæmt sömu takmörkunum og gilda um félagsstarfið.

Skátafélögum er því heimilt að halda viðburði og að fara í flokks-, sveitar- og félagsútilegur með skátum á aldursbili dreka-, fálka og dróttskáta. Heimilt er að hafa fleiri ungmenni saman á viðburðum og í útilegum en bara þau sem hittast á vikulegum skátafundum og því mögulegt að blanda hópum á viðburðum og í útilegum á milli skátasveita og skátafélaga. Hámarskfjöldi ungmenna er 150.

Fjöldi sjálfboðaliða ( í þessu samhengi skátar fædd 2004 og fyrr) sem er með ungmennunum á viðburðum eða í útilegum skal halda í lágmarki en þó vera nægur til að anna ungmennunum og gæta öryggis. Hámarskfjöldi sjálfboðaliða er 50. Sjálfboðaliðar skulu gæta 1 metra fjarlægðartakmarkana gagnvart hvoru öðru og bera andlitsgrímur þegar það er ekki hægt.

Forráðafólk, aðstandendur og aðrir aðilar skulu lágmarka viðveru sína á viðburðum og í útilegum með ungmennum. Að sjálfsögðu mega þau skutla og sækja ungmenni og farangur á meðan að á viðburðum og útilegum stendur. Séu þessir aðilar viðstaddir á viðburðum og í útilegum telja þau upp í 50 manna hámarksfjölda sjálfboðaliða).

Eingöngu skal fhalda viðburði og fara í útilegur ef hægt er að gæta ýtrustu sóttvarnarsjónarmiða m.a. með því að hafa góða aðstöðu til handþvotts, hafa spritt aðgengilegt öllum stundum, þrífa sameiginlega fleti reglulega og tryggja góða loftræstingu.

Stjórn og skátaforingjar skátafélaga skulu sameiginlega gæta þess að upplýsa forráðafólk ungmenna vel áður en viðburðir og útilegur er haldnar.

REKKA-, RÓVER- OG ELDRI SKÁTAR

Samkvæmt svörum yfirvalda gilda almennar samkomutakmarkanir um viðburði og útilegur rekkaskáta og eldri. Því eru sömu takmarkanir settar og í félagsstarfi þeirra.

Á viðburðum sem eru eingöngu fyrir rekkaskáta og/eða eldri mega vera 50 manns, þau skulu gæta 2 metra fjarlægðartakmarkanna öllum stundum og bera andlitsgrímur ef það er ekki mögulegt.

Eingöngu skal halda viðburði og fara í útilegur rekkaskáta og eldri ef hægt er að gæta ýtrustu sóttvarnarsjónarmiða m.a. með því að hafa góða aðstöðu til handþvotts, hafa spritt aðgengilegt öllum stundum, þrífa sameiginlega fleti reglulega og tryggja góða loftræstingu.