Skátaþing 2021

Skátaþing 2021 var annað Skátaþingið sem haldið var rafrænt. Jón Þór Gunnarsson var fundarstjóri og Kolbrún Ósk Pétursdóttir og Védís Helgadóttir fundarritarar. Þingið gekk vel fyrir sig og verður hér farið yfir það helsta sem fram fór á þinginu.

Allar upplýsingar um þingið, fundargerð og fleira er að finna á www.skatarnir.is/skatathing-2021.

Staðfesting á skipan félagsforingjafundar

Á Skátaþinginu var Sigurður Viktor Úlfarsson, formaður uppstillingarnefndar BÍS, með framsögu þar sem hann sagði frá því að stjórnarmeðlimur BÍS hafi hætt í stjórn í janúar og því hafi uppstillingarnefnd þurft að búa til verklag til að finna nýjan stjórnarmeðlim til þess að uppfylla lögin. Á félagsforingjafundi var Huldar Hlynsson skipaður í stjórn BÍS og lagði Sigurður það til að niðurstaða félagsforingjafundarins yrði lögð fram til Skátaþings til staðfestingar og að kosið yrði um hvort skipan Huldars yrði út kjörtímabilið.

Tillaga Sigurðar um að staðfesta kosningu félagsforingjafundar var samþykkt og heldur því Huldar Hlynsson sæti sínu í stjórn BÍS út kjörtímabilið.

Jafnréttis- og mannréttingastefna BÍS

Ein þingsályktunartillaga var lögð fram af Þórhildi Elínardóttur Magnúsdóttur um jafnréttis- og mannréttindastefnu BÍS. Þórhildur sagði frá því að nánast öll skátabandalög væru með slíka stefnu og að í stefnu BÍS til 2025 komi fram að BÍS þurfi að semja slíka stefnu og að best væri að gera það sem fyrst. Tillagan var samþykkt.

Lagabreytingar

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir lagði fram 12 lagabreytingatillögur og voru 3 samþykktar. Hér koma þær uppfærðar en allar lagabreytingartillögurnar eru inn á heimasíðu skátaþingsins.

Ný 16. grein skátalaga um árlegt Ungmennaþing

Ungmennaráð og stjórn BÍS skulu a.m.k. árlega boða til Ungmennaþings. Til Ungmennaþings skal boða með minnst 6 vikna fyrirvara. Ungmennaþing skal haldið í síðasta lagi fimm vikum fyrir skátaþing ár hvert. Ungmennaþing er vettvangur fyrir skáta 25 ára og yngri til að koma saman og ræða málefni er varða þau sérstaklega. Á Ungmennaþingi geta ungmenni í skátunum t.d. komið sér saman um lagabreytingar og aðrar tillögur fyrir Skátaþing ár hvert ásamt því að kjósa á kosningaári áheyrnafulltrúa ungmenna í stjórn BÍS og a.m.k. þrjá fulltrúa í ungmennaráð. Aðeins eru kjörgengir þeir skátar sem eru 25 ára eða yngri á því ári sem kosið er.

Auka Ungmennaþing skal halda ef stjórn eða ungmennaráð telja það nauðsynlegt og skal boða til þess með minnst 15 daga fyrirvara. Auka Ungmennaþing er undanskilið því skilyrði að Ungmennaþing skal vera haldið minnst fimm vikum fyrir skátaþing ár hvert.

Sé þessi lagabreytingartillaga samþykkt verður núverandi 16. grein að 17. grein, 17. grein að 18. grein o.s.frv.

18. grein um jafna aldursdreifingu í ráðum, nefndum og stjórnum.

Á vegum BÍS skal ætíð starfa sérstök 5 manna uppstillingarnefnd, kosin á Skátaþingi til tveggja ára. Í nefndinni skal vera a.m.k. einn einstaklingur sem er 25 ára eða yngri á því ári sem nefndin er skipuð. Nefndin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum.

Uppstillingarnefnd skal leita eftir fólki til starfa fyrir Bandalag íslenskra skáta samkvæmt því sem fram kemur í 18. grein, 20. grein, 22. grein, 23. grein, 26. grein og 28. grein laga þessara og tryggja að í hvert laust sæti sé a.m.k. einn frambjóðandi. Við störf sín skal uppstillingarnefnd ávallt leita eftir hæfum frambjóðendum og gæta þess, eftir því sem hægt er, að jafnræði sé með kynjunum í stjórn, nefndum og ráðum BÍS.

Framboð til áðurnefndra embætta má tilkynna til nefndarinnar og skal það vera skriflegt og undirritað af frambjóðanda. Framboð skulu hafa borist í síðasta lagi 3 vikum fyrir Skátaþing. Nefndin skal ljúka störfum í síðasta lagi 17 dögum fyrir þing. Nöfn, netföng og símanúmer nefndarmanna skulu tilgreind í fundarboði til Skátaþings.

Stjórn BÍS skal kalla uppstillingarnefnd saman í síðasta lagi 15. janúar.

25. grein um fjölgun í fastaráð

Á vegum stjórnar BÍS starfa ávallt fimm fastaráð: starfsráð, alþjóðaráð, útilífsráð, ungmennaráð og stjórn Skátaskólans.

Kosnir skulu að lágmarki þrír í hvert fastaráð til tveggja ára. Ungmennaráð er kosið á ungmennaþingi. Að auki situr stjórnarmaður í ráðinu og getur eftir atvikum verið formaður þess. Stjórn getur ákveðið að fleiri séu kjörnir í ákveðið fastaráð með auglýsingu með fundarboði skátaþings eða fundarboði ungmennaþings ef um er að ræða fjölgun meðlima ungmennaráðs.

Í hverju fastaráði BÍS skal vera að lágmarki einn fulltrúi á aldrinum 18-25 ára. Skátar sem bjóða sig fram í ungmennaráð skulu vera á aldrinum 16-25 ára á því ári sem þeir bjóða sig fram.

Hlutverk fastaráðanna er eftirfarandi:

  • Hlutverk starfsráðs er að styðja við og efla starf skátafélaganna í samráði við stjórnir skátafélaga, sveitarforingja og flokksforingja.
  • Hlutverk alþjóðaráðs er að stuðla að því að BÍS fylgi stefnum og nýti sér stuðningsefni frá alþjóðasamtökum skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt því að annast samskipti við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.
  • Hlutverk útilífsráðs er að hvetja til viðburða sem fela í sér útilíf og styðja við þá útilífsviðburði sem bæði skátafélög og BÍS standa fyrir.
  • Hlutverk ungmennaráðs er að hvetja til og auka ungmennalýðræði innan stjórnkerfis hreyfingarinnar og stuðla að virkri þátttöku ungmenna við stefnumótun dagskrár hreyfingarinnar og eigin skátastarfs.
  • Hlutverk stjórnar Skátaskólans er að stuðla að þjálfun með skipulagningu námskeiða, er taki mið af grunngildum Bandalags íslenskra skáta.

Næstu viðburðir

Í lokin minnti Ragnheiður Silja frá Garðbúum alla á að skrá sig á Skátasumarið og að skráningarfrestur væri til 30. apríl. Frekari upplýsingar um Skátasumarið má finna hér. [Skráningarfrestur hefur verið lengdur til 14. maí]

Einnig sagði Harpa Ósk, stjórnarmeðlimur BÍS, frá því að í haust verði haldinn aðalfundur þar sem farið verður yfir hvatakerfi og umgjörð í skátastarfi. Auk þess verður Kveikjan haldin í ágúst en það er nýr viðburður þar sem smiðjur verða opnar fyrir skáta, skátafélög og skátaforingja til að mæta, læra nýja hluti og undirbúa veturinn. Viðburðirnir verða auglýstir betur þegar nær dregur.

Hittingar á næsta leyti

Skátaþingið 2021 gekk vel og ekki að furða enda flestir vanir því núna að taka þátt í viðburðum á netinu. Skátamiðstöðin þakkar öllum fyrir þátttökuna og við hlökkum til að hittast sem fyrst í raunheimum, hvort sem það verður á Skátasumarinu, Kveikjunni, næsta aðalfundi, í Skátamiðstöðinni eða hvar sem það verður 🙂

Með skátakveðju úr Skátamiðstöðinni