Hringborð rekkaskátaforingja

Hringborð rekkaskátaforingja fór fram í Skátamiðstöðinni þriðjudagskvöldið 21. september. Rekkaskátar og foringjar þeirra mættu frá 5 félögum af þeim 17 sem halda úti starfi fyrir aldursbilið. En þrátt fyrir að mega vera fjölmennara reyndist hringborðið afar góður og fræðandi vettvangur fyrir viðstödd.

Rekkaskátanetið komið af stað

Eitt stærsta málið sem var rætt við hringborðið var Rekkaskátanetið, en fyrir tveimur árum á sama vettvangi var lagður grunnur að áætlunum sem gátu síðan ekki gengið fram sökum heimsfaraldurs, á síðasta starfsári voru síðan opnir fundir fyrir rekkaskáta haldnir í hinum ýmsu skátaheimilum undir sama nafni. Við hringborðið var rykið dustað af þessum tveggja ára gömlu áætlunum, að skátafélög sem stæðu að rekkaskátastarfi myndu taka sig saman um að tryggja þrjá viðburði á komandi ári fyrir rekkaskáta auk þess starfs sem mun eiga sér stað innan þeirra sveita. Þetta samstarf um viðburðarhald muni síðan stuðla að þéttara tengslaneti á milli rekkaskátaforingja og rekkaskátasveita og vonandi nýtast til að tryggja efldara samstarf þvert á félög t.d. svo að rekkaskátar geti boðið rekkaskátum utan sinnum sveitar að taka þátt með sér í flottum verkefnum, til að deila hugmyndum og fleira.

Áframhaldandi þróun á stuðningi vegna forsetamerkis

Védís frá starfsráði kynnti umgjörðina í kringum forsetamerkið og svaraði nokkrum praktískum spurningum um þau efni. Vegabréfið er enn nokkuð nýlegt kerfi og þótt það líkist mjög kerfinu sem var í kringum aldamót upplifðu fæstir foringjar nútímans það kerfi og því hefur verið áskorun að leiðbeina rekkaskátum í því. Þess vegna var kafað ofan í hvaða hindranir skátaforingjar hafa helst rekið sig á í þessum stuðningi og hvernig megi halda áfram að þróa stuðningsnetið. Niðurstaðan var sú að rekkaskátaforingjar vildu áfram geta fengið kynningar- og stöðufundi um forsetamerkið inn til sinna sveita frá Skátamiðstöð. Starfsráð hélt nýlega í fyrsta sinn kvöld þar sem þau sem væru að vinna að forsetamerkinu gætu komið og var óskað eftir því að slíkt væri gert einu sinni á önn. Þá sagði skátaforingi Svana frá yfirlitsskema sem hann þróaði til að hafa betri yfirsýn með stöðu hvers og eins í sveitinni sem ynni að merkinu og var óskað eftir að Skátamiðstöð myndi þróa slíkt skema sem gæti nýst foringjum með sama hætti.

Framfarir einstaklingsins

Davíð Þrastarson sem er á síðasta ári í rekkaskátunum kynnti sína vegferð en Davíð hefur verið afar duglegur að grípa þau ýmsu tækifæri sem bjóðast einstaklingum utan sveitarstarfsins en hann situr m.a. í ungmennaráði, er áheyrnafulltrúi ungmenna í stjórn BÍS og hefur verið í mótstjórn Drekaskátamóts undanfarin ár. Að kynningu lokinni fékk Davíð spurningar frá rekkaskátum, rekkaskátaforingjum og erindrekum um hvaða hvatar hafi drifið hann áfram, hvar hann heyrði af tækifærunum og ýmislegt fleira.

Upplýsingamiðlun til rekkaskáta og rekkaskátaforingja

Í gegnum alla aðra umræðu var mikið rætt um upplýsingamiðlun frá Skátamiðstöð til rekkaskáta og foringja þeirra. Það virtist á umræðum við hringborðið sem að skátaforingjar rekkaskáta hafi lykilhlutverki að gegna í þeirri upplýsingamiðlun en á umræðum virtist ljóst að rekkaskátar væru best meðvituð um tækifæri sem þau fengu fregnir af í gegnum skátaforingja sinn. Því verður áhersla lögð á að sinna góðri upplýsingamiðlun til skátaforingja en það mun fara fram á póstlista og í Sportabler hóp fyrir stærri verkefni og tækifæri, en þegar það kemur að minni tækifærum sem hafa jafnvel forsetamerkis tengsl verður það bara í Sportabler. Síðan er mikilvægt að skátaforingjar láti skátana vita af tækifærum á samfélagsmiðlum fyrir þau til að fylgjast með s.s. á facebook og instagram síðu skátanna.

Annað hringborð fyrir áramót

Heilt yfir var hringborðið var góður vettvangur til að ræða saman, spegla og leita upplýsinga viðstödd óskuðu eftir öðru hringborði fyrir rekkaskátaforingja fyrir áramót og ætlar starfsráð að verða við því.

 


Aðalfundur skátafélags Borgarness

Fundarboð

Í 11. grein laga BÍS  segir að stjórn BÍS geti boðað til aðalfundar skátafélags samkvæmt lögum þess hafi slíkur ekki verið haldinn í 18 mánuði. Er það gert hér með:

Aðalfundarboð Skátafélags Borgarness

Boðað er til aðalfundar miðvikudaginn 28.september kl.20:00 í skátaheimilinu Skallagrímsgötu 8a.

Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum félagsins. Framboð til stjórnar og erindi fyrir aðalfundinn skulu berast á harpa@skatarnir.is.

Skátar, foreldrar og aðrir velunnarar skátastarfs í Borgarnesi eru boðin hjartanlega velkomin.

Stjórn Bandalags íslenskra skáta

Dagskrá fundarins

Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum félagsins sem má sækja með að smella hér.

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Fundarboð lagt fram til samþykktar
  3. Skýrsla stjórnar, umræður
  4. Endur skoðaðir reikningar félagsins, umræður
  5. Lagabreytingar
  6. Kosningar
  7. Önnur mál

Stjórn BÍS mun leggja það til við fundinn að Sigurgeir B. Þórisson, erindreki BÍS, verði fundarstjóri. Framboð til stjórnar og önnur málefni fyrir fundinn skal senda á harpa@skatarnir.is.

Kjör í stjórn

Samkvæmt lögum félagsins skal stjórn skipuð fimm skátum; félagsforingja, aðstoðarfélagsforingja, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda. Allir stjórnarmenn skulu vera 18 ára eða eldri og félagsforingi skal hafa náð 25 ára aldri. Skipun stjórnarmanna er til tveggja ára í senn en kjörið skal um hluta stjórnar á sléttu ári og hinn hluta stjórnar á oddatöluári. Skipun félagsforingja og meðstjórnanda er því til 2024 en skipun aðstoðarfélagsforingja, ritara og gjaldkera er til 2023.

Framboð til stjórnar

Eftirfarandi framboð hafa borist fundinum:

Félagsforingi

Ólöf Kristín Jónsdóttir

Ritari

Margrét Hildur Pétursdóttir

Dagskrár- og sjálfboðaliðaforingi

Árni Gunnarsson
Ragnar Ingimar Andrésson

Varamenn

Jóhanna M. Þorvaldsdóttir
Jökull Fannar Björnsson


Nýir skráningar skilmálar

Stjórn BÍS samþykkti á fundi í gær uppfærslu á skráningarskilmálum í Sportabler kerfinu. Þeir skilmálar hafa nú verið uppfærðir í bakenda allra félaganna. Margrét Unnur lögfræðingur og sjálfboðaliðaforingi í Skjöldungum fær sérstakar þakkir fyrir yfirlestur.
Skráningarskilmálar innan félagasamtaka með eigin lög, reglugerðir og stefnur eru í sjálfu sér bara verkfæri til að upplýsa þau sem skrá sig hjá okkur um innihald þessara plagga og hvernig þau snúa að einstaklingum í nokkrum mikilvægum málaflokkum.
Héðan af þegar fólk skráir sig í gegnum shop síðuna þarf það að haka við að samþykkja þessa skilmála:
Skilmálana má brjóta upp í:
1. Félagsaðild - réttindi og skyldur
2. Viðmið í starfinu (forvarnar-, jafnréttis-, umhverfis-, öryggis-, ofl.)
3. Áskilinn réttur til tímabundinnar eða ótímabundinnar brottvikningar úr starfi eða af viðburðum
4. Almennir endurgreiðsluskilmálar (fyrir félögin að byggja ofan á)
5. Fyrirvari um að einstaklingar eru ekki sérstaklega vátryggðir í starfi
6. Persónuvernd, myndvinnsla, markpóstar og gagnavinnsla

Breytingar á siðareglum Æskulýðsvettvangsins

Siðareglur Æskulýðsvettvangsins tóku breytingum í júní síðastliðnum en samkvæmt 2. grein laga BÍS eru siðareglur Æskulýðsvettvangsins þær siðareglur sem gilda fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna.

Mikilvægt er fyrir öll sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Siðareglur þessar snúa annars vegar að samskiptum og hins vegar að rekstri og ábyrgð. Gerist aðili brotlegur við reglurnar er heimilt að vísa honum úr starfi, tímabundið eða að fullu.

Breytingarnar byggja á breytingartillögu sem Skátarnir lögðu fram á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins í apríl síðastliðnum og voru í framhaldi unnar af ráðgjafahópi Æskulýðsvettvangsins. Ráðgjafahópinn skipa aðilar frá öllum aðildarfélögunum; Skátarnir, Landsbjörg, KFUM og KFUK og UMFÍ.

Helstu breytingar voru eftirfarandi:

Breytingar sem snúa að samskiptum:

Þessum reglum var bætt við

  1. Starfsfólk, stjórnarfólk, sjálfboðaliðar eða aðrir sem gegna valdastöðum þurfa að vera meðvitaðir um ábyrgð sína og þann aðstöðumun sem staða þeirra skapar þeim.
  2. Hvers kyns kynferðislegt daður, orðbragð eða samneyti aðila í ábyrgðarstöðu gagnvart þátttakanda sem er yngri en 18 ára er með öllu óheimilt.
  3. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart. Komi til gagnkvæms ástarsambands er það á ábyrgð þess sem gegnir valdastöðu að gera stjórnendum sínum kunnugt um það.

Regla sem var áður númer 8, og fjallar um skyldu ábyrgðaraðila að fá leyfi fyrir öflun upplýsinga úr sakaskrá, var fjarlægð þar sem hún er í hluta reglanna sem fjalla um rekstur og ábyrgð og á frekar heima þar.

Reglu númer 14 var breytt og er nú:

Starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu sýna ábyrgð í rafrænum samskiptum og netnotkun. Ekki skal vera í rafrænum samskiptum við þátttakendur undir 18 ára aldri án vitneskju forsjáraðila þeirra og aðeins í tengslum við þátttöku þeirra í starfi félagsins. Öll samskipti skulu fara fram í gegnum viðurkenndar samskiptaleiðir.

Markmiðið með þessari breytingu er að vekja athygli á því að samskiptaleiðir í félögum sem okkar þurfa að vera skýrar og eiga sér stað með þeim hætti að við getum svarað fyrir þær. Með því að taka fram að samskipti eigi sér stað í gegnum viðurkenndar samskiptaleiðir er einnig betur hægt að stíga inn í þegar samskipti eiga sér stað á samfélagsmiðlum sem við viðurkennum ekki sem samskiptavettvang starfi með börnum.

Breytingar sem snúa að rekstri og ábyrgð

Þessum reglum var bætt við:

  1. Öllu starfi skal sinna með hagsmuni félagsins að leiðarljósi og standa skal vörð um markmið og heiður þess. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu sýna félaginu, samstarfsfólki, samstarfsaðilum og þátttakendum virðingu, sanngirni og trúnað í samskiptum sínum.
  2. Aldrei skal stefna heilsu eða öryggi starfsfólks og sjálfboðaliða í hættu. Ávallt skal sýna fyllstu aðgát og varkárni í starfi og koma í veg fyrir að starfsfólki og sjálfboðaliðum séu falin verkefni eða þau lendi í aðstæðum sem þau ráða ekki við.
  3. Allt starf skal unnið á opinn, upplýstan, gagnsæjan og lýðræðislegan hátt. Ávallt skal veita faglegar og réttar upplýsingar.
  4. Stjórnarfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar skulu gæta þess að sitja ekki beggja vegna borðs í málum er varða hagsmuni félagsins. Forðast skal að skapa þær aðstæður sem geta dregið óhlutdrægni þeirra í starfi í efa. Það á meðal annars við þegar félagið tilnefnir einstaklinga til að taka þátt í eftirsóttum verkefnum eða þegar samið er við starfsfólk, verktaka eða aðra þjónustuaðila.

Uppfærðar siðareglur má finna hér og á prentvænuformi hér.

Nánari upplýsingar um Æskulýðsvettvanginn og starfsemi hans er hægt að finna hér.


Óskum eftir umsjónaraðila CREAN

Útilífsráð auglýsir eftir umsjónaraðila fyrir Vetraráskorun CREAN

Vetraráskorunin er samstarfsverkefni BÍS og Scouting Ireland þar sem skátar frá Írlandi koma til Íslands í febrúar og takk þátt í tveggja daga göngu í íslenskri náttúru og vetrarveðri. Árið 2023 mun áskorunin fara fram dagana 11. – 18. febrúar.
Verkefni felst í því að fá til leiks íslenska þátttakendur, halda utanum hópinn og undirbúa þau undir fyrir Vetraráskorun CREAN.

Umsóknarfrestur er til 15.september.

Drag & Drop Files, Choose Files to Upload You can upload up to 4 files.


Skátarnir hljóta höfðingjalega gjöf

Lionsklúbburinn Muninn og Lionsklúbburinn Ýr færðu Skátunum að gjöf 114 gerðarleg borð með samanfellanlegum fótum í minningu hjónanna Friðriks Haraldssonar og Steinu Haraldsdóttur. Þessi borð munu koma sér vel víða um land hjá skátafélögunum sem og á Úlfljótsvatni. Skátahreyfingin sendir þeim miklar þakkir fyrir!


Dróttskátar í þúsund metrum

Ds. Fimmvörðuháls hófst með því að hátt í 30 dróttskátar ásamt foringjum lögðu af stað í ævintýri seinnipart föstudagsins 10. júní, full eftirvæntingar með stútfulla bakpoka. Hópur með sameiginlegt markmið: Ganga yfir Fimmvörðuháls á tveimur dögum í hópi skemmtilegra dróttskáta. Við í foringjahópnum settum markið ennþá hærra: að koma öllum alla leið heilum á húfi og brosandi.

Hópurinn lagði af stað um klukkan 16 frá Skógarfossi og tók fyrsti hjallinn á, en því var bjargað með því að stilla vel bæði bakpokann og höfuðið. Hópurinn hélt síðan áfram og var stefnan sett á Baldvinsskála og Fimmvörðuskála þar sem átti að gista eina nótt í 800 eða 1.000 metra hæð. Á leiðinni skoðuðum við þrjátíu og eitthvað fossa sem sannarlega glöddu augað.

Leiðin upp tók á alla bæði líkamlega og andlega en ýmsar leiðir voru nýttar meðal dróttskátanna til að koma sér upp. Einhverjir fóru í hláturjóga, sumir gengu alltaf fyrstir, aðrir sungu og svo tóku nokkrir að sér að vera í peppliðinu.

Þegar klukkan var orðin eitt eftir miðnætti sáum við loksins skálana og hresstust ansi margir við það, en mörgum fannst þetta engan endi ætla að taka, enda allir með þunga bakpoka á bakinu og hækkunin mikil. Tilfinningin að sjá jökultoppana og skálanna þar á milli, í bjartri sumarnótt, er eiginlega ólýsanleg.

Helmingurinn af hópnum renndi sér í átt að Baldvinsskála og hinn helmingurinn í átt að Fimmvörðuskála. Hópurinn í Baldvinsskála var kominn í hús um tvöleytið en Fimmvörðuskálahópurinn um klukkan þrjú. Skálaverðir tóku óvænt á móti hópunum en allir komust loksins í poka og sváfu til morguns.

Hópurinn úr Baldvinsskála lagði af stað fyrr morguninn eftir og hittust hóparnir uppi á hálsinum í þúsund metra hæð. Á laugardeginum var stefnan sett á Bása með viðkomu hjá Magna og Móða, nýjum tindum sem urðu til í eldgosi 2010 og eru því yngri en dróttskátarnir. Ferðin niður gekk hraðar að mörgu leyti. Fjölbreytt umhverfi og að sjá niður í Þórsmörkina hjálpaði öllum að muna eftir markmiðinu.

Brattafönn var hápunktur göngunnar fyrir marga. Mikil lækkun á mjög stuttum tíma. Skálaverðir höfðu útvegað nokkra plastpoka sem voru nýttir í að gera upplifunina ennþá skemmtilegri. Allir renndu sér niður brekkuna á sínum hraða með bros á vör og stundum snjó í andlitinu.

Síðan tók við Heljarkamburinn þar sem einnig var töluvert af snjó. Hópur nýliða í björgunarsveit var aðeins á undan okkur og gerði leiðina greiðari fyrir okkur meðfram hlíðinni þar sem við fikruðum okkur eftir keðjum og klifurlínum. Heppnin alveg með okkur.

Það voru síðan glaðir dróttskátar sem gengu yfir Kattahryggi og alveg niður í Bása. Allir höfðu lagt af stað saman og kláruðu saman. Í Básum voru frábærir foringjar búnir að tjalda flestum tjöldunum og gera klárt á grillið. Tók því á móti okkur kvöldmatur og standandi tjöld sem var kærkomið fyrir göngugarpana. Markmiðum ferðarinnar náð!

Eftir kvöldmat hurfu sumir inn í tjöld, spjölluðu og sáust ekki fyrr en morguninn eftir, á meðan aðrir sungu og töluðu fram eftir nóttu. Á sunnudeginum var öllu pakkað niður og haldið heim með rútunni með viðkomu í Merkurkeri. Þar óðum við upp ánna í gegnum stóran helli og gil og náði vatnið upp á læri og stundum lengra. Frábært ævintýri í stórkostlegri náttúru með góðum skátavinum og skemmtilegur endir á góðri dróttskátahelgi.

Ds. Fimmvörðuháls var svo sannarlega vel heppnuð dróttskátaferð þar sem þátttakendur og foringjar fengu að njóta sín og takast á við krefjandi verkefni. Við hlökkum til að hittast aftur í ágúst á landsmóti dróttskáta á Akureyri.

Ferðin var styrkt af Bandalagi íslenskra skáta í gegnum Styrktarsjóð skáta og má með sanni segja að þar hafi “dósum verið breytt í káta skáta”.

Texti: Sigurður Úlfarsson og Ragnheiður Silja


Drekatemjari fær gullmerki, mótsstjórn Drekaskátamóts kveður og ný tekur við

Landsmót drekaskáta var haldið um síðustu helgi þar sem yfir 240 skátar skemmtu sér við leik og störf.  Í lok móts var Dagbjört Vatnsdal Brynjarsdóttir heiðruð fyrir dygg störf sín í þágu ylfinga og nú drekaskáta og var afhentur þórshamarinn úr gulli.

Dagga eins og hún er alltaf kölluð hefur sýnt ótrúlega þrautseigju og eljusemi og mætt sem foringi með skátana sína  á aldrinum 8-10 ára á hvert drekaskátamót sem haldið hefur verið síðan 1997. Auk þess að vera einnig starfandi félagsforingi Mosverja hefur hún unnið fjölmörg óeigingjörn störf í þágu skáta og skátahreyfingarinnar og fyrir það ber að þakka.

Unnur Líf Kvaran var einnig heiðruð fyrir ötult starf í þágu drekaskáta og drekaskátamóts síðustu 5 ár. Hún hefur starfað sem sveitarforingi í Skjöldungum, áður var hún aðstoðarfélagforingi Fossbúa og hefur verið í forsvari fyrir mörg verkefni á vegum BÍS. Var henni afhentur þórshamarinn úr bronsi.

Á mótinu kvaddi elsti hópur mótsstjórnar sem hefur starfað saman í 4-6 ár og ný mótsstjórn sem hefur verið í þjálfun síðustu 2 ár tekur nú við.  Stjórn BÍS þakkar fráfarandi stjórn fyrir vel unnin störf og einstakan starfsanda og hvetur nýja mótsstjórn til dáða. Var eldri mótsstjórn afhent þjónustumerki BÍS úr gulli, þeim Sölku, Ísaki og Birtu úr Mosverjum, Óla úr Árbúum og Aroni úr Skjöldungum.

Yngri hluti mótsstjórnar fékk þjónustumerki BÍS úr silfri, þeir Davíð og Reynir úr Garðbúum, Ægir úr Faxa, Valur Kári úr Skjöldungum og Andri úr Kópum.

 


Vífilsbúð – ný útilífsmiðstöð skáta vígð

Skátafélagið Vífill og Garðabær vígðu nýja stórglæsilega Vífilsbúð í stórglæsilegu umhverfi í Grunnuvötnum. Við óskum þeim innilega til hamingju með þessu nýju útilífs- og ævintýramiðstöð í miðri Heiðmörk.


Privacy Preference Center