Hringborð rekkaskátaforingja

Hringborð rekkaskátaforingja fór fram í Skátamiðstöðinni þriðjudagskvöldið 21. september. Rekkaskátar og foringjar þeirra mættu frá 5 félögum af þeim 17 sem halda úti starfi fyrir aldursbilið. En þrátt fyrir að mega vera fjölmennara reyndist hringborðið afar góður og fræðandi vettvangur fyrir viðstödd.

Rekkaskátanetið komið af stað

Eitt stærsta málið sem var rætt við hringborðið var Rekkaskátanetið, en fyrir tveimur árum á sama vettvangi var lagður grunnur að áætlunum sem gátu síðan ekki gengið fram sökum heimsfaraldurs, á síðasta starfsári voru síðan opnir fundir fyrir rekkaskáta haldnir í hinum ýmsu skátaheimilum undir sama nafni. Við hringborðið var rykið dustað af þessum tveggja ára gömlu áætlunum, að skátafélög sem stæðu að rekkaskátastarfi myndu taka sig saman um að tryggja þrjá viðburði á komandi ári fyrir rekkaskáta auk þess starfs sem mun eiga sér stað innan þeirra sveita. Þetta samstarf um viðburðarhald muni síðan stuðla að þéttara tengslaneti á milli rekkaskátaforingja og rekkaskátasveita og vonandi nýtast til að tryggja efldara samstarf þvert á félög t.d. svo að rekkaskátar geti boðið rekkaskátum utan sinnum sveitar að taka þátt með sér í flottum verkefnum, til að deila hugmyndum og fleira.

Áframhaldandi þróun á stuðningi vegna forsetamerkis

Védís frá starfsráði kynnti umgjörðina í kringum forsetamerkið og svaraði nokkrum praktískum spurningum um þau efni. Vegabréfið er enn nokkuð nýlegt kerfi og þótt það líkist mjög kerfinu sem var í kringum aldamót upplifðu fæstir foringjar nútímans það kerfi og því hefur verið áskorun að leiðbeina rekkaskátum í því. Þess vegna var kafað ofan í hvaða hindranir skátaforingjar hafa helst rekið sig á í þessum stuðningi og hvernig megi halda áfram að þróa stuðningsnetið. Niðurstaðan var sú að rekkaskátaforingjar vildu áfram geta fengið kynningar- og stöðufundi um forsetamerkið inn til sinna sveita frá Skátamiðstöð. Starfsráð hélt nýlega í fyrsta sinn kvöld þar sem þau sem væru að vinna að forsetamerkinu gætu komið og var óskað eftir því að slíkt væri gert einu sinni á önn. Þá sagði skátaforingi Svana frá yfirlitsskema sem hann þróaði til að hafa betri yfirsýn með stöðu hvers og eins í sveitinni sem ynni að merkinu og var óskað eftir að Skátamiðstöð myndi þróa slíkt skema sem gæti nýst foringjum með sama hætti.

Framfarir einstaklingsins

Davíð Þrastarson sem er á síðasta ári í rekkaskátunum kynnti sína vegferð en Davíð hefur verið afar duglegur að grípa þau ýmsu tækifæri sem bjóðast einstaklingum utan sveitarstarfsins en hann situr m.a. í ungmennaráði, er áheyrnafulltrúi ungmenna í stjórn BÍS og hefur verið í mótstjórn Drekaskátamóts undanfarin ár. Að kynningu lokinni fékk Davíð spurningar frá rekkaskátum, rekkaskátaforingjum og erindrekum um hvaða hvatar hafi drifið hann áfram, hvar hann heyrði af tækifærunum og ýmislegt fleira.

Upplýsingamiðlun til rekkaskáta og rekkaskátaforingja

Í gegnum alla aðra umræðu var mikið rætt um upplýsingamiðlun frá Skátamiðstöð til rekkaskáta og foringja þeirra. Það virtist á umræðum við hringborðið sem að skátaforingjar rekkaskáta hafi lykilhlutverki að gegna í þeirri upplýsingamiðlun en á umræðum virtist ljóst að rekkaskátar væru best meðvituð um tækifæri sem þau fengu fregnir af í gegnum skátaforingja sinn. Því verður áhersla lögð á að sinna góðri upplýsingamiðlun til skátaforingja en það mun fara fram á póstlista og í Sportabler hóp fyrir stærri verkefni og tækifæri, en þegar það kemur að minni tækifærum sem hafa jafnvel forsetamerkis tengsl verður það bara í Sportabler. Síðan er mikilvægt að skátaforingjar láti skátana vita af tækifærum á samfélagsmiðlum fyrir þau til að fylgjast með s.s. á facebook og instagram síðu skátanna.

Annað hringborð fyrir áramót

Heilt yfir var hringborðið var góður vettvangur til að ræða saman, spegla og leita upplýsinga viðstödd óskuðu eftir öðru hringborði fyrir rekkaskátaforingja fyrir áramót og ætlar starfsráð að verða við því.