Drekatemjari fær gullmerki, mótsstjórn Drekaskátamóts kveður og ný tekur við

Landsmót drekaskáta var haldið um síðustu helgi þar sem yfir 240 skátar skemmtu sér við leik og störf.  Í lok móts var Dagbjört Vatnsdal Brynjarsdóttir heiðruð fyrir dygg störf sín í þágu ylfinga og nú drekaskáta og var afhentur þórshamarinn úr gulli.

Dagga eins og hún er alltaf kölluð hefur sýnt ótrúlega þrautseigju og eljusemi og mætt sem foringi með skátana sína  á aldrinum 8-10 ára á hvert drekaskátamót sem haldið hefur verið síðan 1997. Auk þess að vera einnig starfandi félagsforingi Mosverja hefur hún unnið fjölmörg óeigingjörn störf í þágu skáta og skátahreyfingarinnar og fyrir það ber að þakka.

Unnur Líf Kvaran var einnig heiðruð fyrir ötult starf í þágu drekaskáta og drekaskátamóts síðustu 5 ár. Hún hefur starfað sem sveitarforingi í Skjöldungum, áður var hún aðstoðarfélagforingi Fossbúa og hefur verið í forsvari fyrir mörg verkefni á vegum BÍS. Var henni afhentur þórshamarinn úr bronsi.

Á mótinu kvaddi elsti hópur mótsstjórnar sem hefur starfað saman í 4-6 ár og ný mótsstjórn sem hefur verið í þjálfun síðustu 2 ár tekur nú við.  Stjórn BÍS þakkar fráfarandi stjórn fyrir vel unnin störf og einstakan starfsanda og hvetur nýja mótsstjórn til dáða. Var eldri mótsstjórn afhent þjónustumerki BÍS úr gulli, þeim Sölku, Ísaki og Birtu úr Mosverjum, Óla úr Árbúum og Aroni úr Skjöldungum.

Yngri hluti mótsstjórnar fékk þjónustumerki BÍS úr silfri, þeir Davíð og Reynir úr Garðbúum, Ægir úr Faxa, Valur Kári úr Skjöldungum og Andri úr Kópum.