ESC verkefni - Aðgengilegt skátastarf

Starfsárið 2023-2024 vinnum við að verkefni sem snýr að því að auka þátttöku barna af erlendum uppruna í skátastarfi. Þetta er okkur mjög mikilvægt verkefni, við höfum verið að leggja aukna áherslu á innglindingu í skátastarfi og er þetta einn liður í því að gefa öllum börnum tækifæri á að kynnast skátastarfi.

Verkefnið hefur hlotið styrk úr samfélagsverkefnahluta Erasmus+ áætlunarinnar og eru verkþættir verkefnisins eftirfarandi:

  • Bjóða starfsfólki og sjálfboðaliðum hreyfingarinnar upp á fræðslu
  • Þýða dagskrárefni skáta
  • Þýða bókina “Hvað er skátastarf?” ætlað börnum, foreldrum og starfsfólki til kynningar
  • Koma á tengslaneti fullorðinna skáta með erlendan uppruna búsett á Íslandi og hvetja þau til þátttöku.

Forsenda þess að verkefnið takist vel er að við sem hreyfing leggjumst öll á eitt að gera starfið aðgengilegt, á vettvangi bandalagsins en einnig á vettvangi skátafélaganna.

Því er fyrsti verkþátturinn fræðsla fyrir sjálfboðaliða, starfsfólk og önnur áhugasöm þar sem við fáum tækifæri á því að öðlast innsýn í reynsluheim fólks af erlendum uppruna á Íslandi og hvað aftrar þátttöku þeirra í æskulýðsstarfi.

FJÖLMENNINGARFRÆÐSLA MANNFLÓRUNNAR

Fyrsta fræðsluerindið var haldið í nóvember en þá kom Chanel Björk Sturludóttir, stofnandi Mannflórunnar, til okkar og hélt fræðslu um fjölmenningu.

Chanel kom með ýmsan fróðleik og upplýsingar um hvernig íslenskt samfélag er byggt upp með þátttöku einstaklinga með ólíkan bakgrunn, fjölda ólíkra og sameiginlegra uppruna og einnig einstaklingar sem tilheyra mörgum fjölbreyttum menningarheimum.

Hún kom einnig með fræðslu varðandi ýmiss hugtök sem snertir fjölmenningu og mikilvægt fyrir virka einstaklinga í samfélagi að vera meðvituð um eins og

  • Staðalímyndir
  • Kynþátttafordóma
  • Menningarfordóma
  • Öráreiti
  • Hvítleika
  • Forréttindi
  • Forréttindi hvítra

Við hvetjum öll að fræðast um þessi mikilvægu málefni en þau sem ekki komust á fræðsluna hjá Chanel geta nálgast ítarefni hjá starfsmanni síns skátafélags.

Við vonum að sem flest sjái sér fært um að mæta á aðrar fræðslur á vorönn.

Ef þið hafið hugmyndir að áhugaverðum fræðsluerinudm má endilega senda þær á skatarnir@skatarnir.is.

 


Kraftur í fálkaskátum Skjöldunga

Í nóvember voru fálkaskátar í skátafélaginu Skjöldungum fyrstu þátttakendur FálkaKrafts, sem eru ný leiðtoaþjálfunarnámskeið haldin af Leiðbeinendasveitinni.

Á FálkaKrafti fá þátttakendur tækifæri á því að taka þátt í dagskrá sem þjálfar þau í flokkastarfi, að plana-gera-meta og samvinnu. Þátttakendur fá færi á því að kynnast gildum skátahreyfingarinnar í gegnum leiki og reynslunám og eru þau hvött til að vinna að samfélagsverkefnum að viðburði loknum.

"GAMAN AÐ SJÁ HVAÐ KRAKKARNIR ERU FLOTT"

Helena Sif, annar sveitarforingi fálkaskátanna í Skjöldungum, var mjög ánægð með FálkaKraft og fannst gaman að fylgjast með því hversu vel skátarnir þeirra stóðu sig á viðburðinum.

"Þetta gekk vel og var bara kósý" segir Helena en á FálkaKrafti koma tveir aðilar úr Leiðbeinendasveitinni og keyra dagskrána með fálkaskátunum. Helena sagði það vera mjög þægilegt í ljósi alls sem sjálfboðaliðar eru oft að fást við innan og utan skátastarfs að fá tilbúna dagskrá og aðila sem sjá um hana.

"Við þurftum ekkert að gera nema vera stolt" sagði Helena en einnig fannst henni gaman að fá nýja að starfinu og sjá þau hvetja skátana þeirra áfram til að vinna að verkefnum sem þeim hefði kannski ekki dottið í hug að gera sjálf. Það helsta sem stóð uppúr fyrir foringjana var "að sjá hvað krakkarnir eru flott og fá einhvern nýjan inn sem sýnir fram á hvað er hægt í skátastarfi. The sky is the limit í rauninni en þau taka ekki alltaf mark á því þegar það kemur frá okkur foringjunum"

Dagskráin gekk vel og höfðaði vel til skátanna, viðfangsefnin voru fjölbreytt og var ólíkt hvað stóð uppúr hjá þátttakendum að sögn Helenu. Það sem hefur þó farið mest fyrir eftir að viðburðinum lauk eru samfélagsverkefni en einn dagskrárliður FálkaKrafts var að flokkarnir áttu að velja sér samfélagsverkefni sem þeim þótti mikilvægt. Í framhaldi að því fóru þau í lýðræðisleik þar sem hver flokkur kynnti sína hugmynd og svo var kosið um bestu hugmyndina sem þau myndu vinna saman að sem sveit. Að auki voru þau hvött til að vinna samt sem áður að sínum samfélagsverkefnum og hafa fálkaskátarnir svo sannarlega gert það en þau hafa þegar framkvæmt tvö samfélagverkefni.

JÓLABALL FYRIR ALLA FJÖLSKYLDUNA

Einn flokkurinn vildi halda jólaball fyrr fjölskyldur í hverfinu og voru þau búin að skipuleggja dagskrá ballsins sjálf. Þau hönnuðu auglýsingar fyrir jólaballið á skátafundum en fóru svo sjálf að dreifa þeim um hverfið í sínum frítíma. Einnig sáu þau um að baka veitingar  til að bjóða uppá á ballinu heima hjá sér.

Jólaballið var haldið í skátaheimili Skjöldunga 9. desember og voru um 20 manns sem mættu, hittu jólasveina og skreyttu piparkökur.

DÓSASÖFNUN FYRIR GRINDVÍKINGA

Annar flokkur var mjög áhugasamur um að safna dósum til að styðja söfnun Rauða Krossins vegna jarðrhræringanna við Grindavík. Vörðu þau þrem fundum í að ganga í hús og safna flöskum og dósum úr hverfinu og náðu þau að safna 51.442 krónum sem afhentar voru Rauða Krossinum.

Hér má lesa frétt á vef Rauða Krossins um dósasöfunina.

BÓKA FÁLKAKRAFT

FálkaKraftur er haldinn á vettvangi félagsins en nokkur félög geta einnig sameinast um að halda námskeiðið.  Skátafélögin sem óska eftir Fálkakrafti fyrir sínar fálkaskátasveitir útvega húsnæði fyrir námskeiðin (t.d. skátaheimili eða skátaskála) og þannig kemur Fálkakrafturinn til skátafélaganna! Hvert námskeið stendur yfir í 5 klukkustundir og því er tilvalið að prjóna lengri dagskrá við Fálkakraftinn, t.d. sveitarútilegu yfir alla helgina.

Langar þig að fá FálkaKraft í þitt félag? Hafðu samband við Leiðbeinendasveitina með því að senda þeim tölvupóst á leidbeinendasveit@skatarnir.is.


Ánægjukönnun sjálfboðaliða starfsárið 2023-2024

Eins og fram kemur í stefnu BÍS til ársins 2025 er eitt markmið Skátanna að sjálfboðaliðar hreyfingarinnar séu sátt. Skátarnir vilja veita fólki tækifæri á að taka þátt í uppbyggilegu sjálfboðaliðastarfi þar sem það nýtur sín í starfi, getur miðlað af reynslu sinni og fær tækifæri til að vaxa og dafna. Einn af mælikvörðum þess er að Skátamiðstöðin sendir frá sér ánægjukönnun til allra sjálfboðaliða tvisvar sinnum ári og niðurstöðum hennar verði fylgt eftir.

Því erum við núna að óska eftir svörum við ánægjukönnun fyrir skátaforingja og meðlimi stjórna skátafélaga starfsárið 2023-2024. Sendur hefur verið tengill á könnunina á alla sjálfboðaliða samkvæmt mannauðsskrá BÍS og biðjum við öll um að athuga tölvupóstinn sinn og svara könnuninni.

Nokkrir heppnir svarendur verða svo dregnir úr lukkupotti þann 15. desember og fá vinning úr Skátabúðinni.


Nýjar og breyttar reglugerðir stjórnar BÍS

Á árinu uppfærði stjórn BÍS nokkrar reglugerðir og samþykkti nýja sem talið var þörf fyrir og hafa þær nú verið birtar. Eins og 25. grein laga BÍS kveður á um getur stjórn BÍS sett reglugerðir um starfsemi innan BÍS og aðra þætti starfsins, eftir því sem þurfa þykir, efni þeirra skal rúmast innan laga BÍS og skulu þær kynntar aðildareiningum BÍS. Þær sem voru uppfærðar voru reglugerð um hæfi skátaforingja ásamt reglugerð um Landsmót skáta. Þá var samþykkt ný reglugerð um hæfi sjálfboðaliða.

Reglugerð um hæfi skátaforingja

Einhver mikilvægasta reglugerð skátastarfs var uppfærð lítillega til að ríma betur við samtímakröfur. Helstu atriði sem var breytt:

  • Textinn gerður kynhlutlaus.
  • Áréttað að félagseiningar skipa skátaforingja frekar en formenn stjórna þeirra.
  • Tvítekning um lögræði skátaforingja tekin úr 2. grein
  • Úrelt skilyrði fjarlægð m.a. um að einstaklingar skuli á sig komnir andlega að þeir séu færir um að gegna störfum tekið út og krafa um að einstaklingur hafi forræði yfir búi sínu sem hafi ekki verið til gjaldþrotaskipta sl. 2 ár.
  • Skilyrði um færni uppfærð til að spegla kröfur um ráðningar ábyrgðaraðila fyrir æskulýðsstarf í Æskulýðslögum.
  • Nákvæmara tungumál um hvaða brot það eru sem koma í veg fyrir að einstaklingur megi starfa í Æskulýðsstarfi samkvæmt lögum.
  • Skilyrði um undirritun upplýsingaröflunar úr sakaskrá áréttuð.
  • Setning um hvernig félagsforingi þurfi að afla leyfis BÍS til að taka við því embætti fjarlægð. Félagsforingjar sækja umboð til aðalfunds síns félags að því gefnu að þau uppfylli skilyrði í lögum BÍS um hlutverkið. Ekki talið endurspegla verklag í nútíma og ekki talið eiga heima í þessari reglugerð.
  • Í þriðju grein hvatt til þess að skrifleg samkomulög séu gerð við skátaforingja í stað fyrra orðalags um að félög gæfu út skipunarbréf, til að endurspegla það verklag sem BÍS talar fyrir í dag.
  • Í fjórðu grein áréttað að skátahreyfingunni sé skylt að vísa skátaforingja úr starfi ef þau gerast brotleg í því, í stað fyrra orðalags um að afturkalla skipunarbréf viðkomandi.
  • Fimmta grein um hvernig veita megi undanþágu frá öðrum greinum reglugerðarinnar tekin út. Undanþágur skulu ekki veittar frá þessum kröfum.

Reglugerð um hæfi sjálfboðaliða

Þar sem reglugerðin um hæfi skátaforingja nær í raun eingöngu til þeirra sem leiðbeina í skátastarfi með börnum þá hefur samskonar reglugerð verið samþykkt af stjórn BÍS.

Reglugerð um Landsmót skáta

Talin var ástæða til að uppfæra reglugerð um landsmót og voru breytingarnar unnar í nánu samstarfi við skátafélagið Klakk. Breytingar fela í sér:

  • Tilmælum um ólíka þátttöku mismunandi aldurshópa breytt. Í stað þess að hvetja gegn þátttöku yngri skáta er hvatt til hennar.
  • Fest í reglugerð að mótið fari fram á Hömrum og Úlfljótsvatni á víxl í stað þess að stjórn sé falið að ákvarða staðsetningu í kjölfar ábendinga frá Skátaþingi.
  • Grein um sérstaka undirbúningsnefnd og allar tilvísanir til hennar teknar úr reglugerð þar sem ekki hefur verið stuðst við slíka í langan tíma.
  • Breytingar á ákvæðum um skipun mótstjórnar, fjármálastjóri BÍS sé héðan af fjármálastjóri mótsins og krafa um að minnst einn í mótstjórn sé af landsbyggðinni.
  • Tímarammi í 3. grein styttur úr 18 mánuðum í 15. Einnig áréttað að mótstjórn skuli tryggður aðgangur að gögnum fyrri móta.
  • Orðalag um fjármagn til mótstjórnar á undirbúningstíma gert opnara.
  • Tímasetning Landsmóta skáta fest við miðjan júlí.
  • Ný krafa sett um dagskrá sem hefur tengsl við heimsmarkmið sameinuðu þjóðana.

Reglugerðirnar eru samkvæmt skilyrðum 31. greinar laga BÍS ávallt aðgengilegar á sérstöku vefsvæði á heimasíðu skátanna ásamt öðrum gildandi reglugerðum.


Könnuðamerkin eru mætt!

Könnuðamerkin eru nýjung í skátastarfi sem byggja á forsetamerkinu. Merkin eru hvatakerfi fyrir skáta og veitir þeim endamarkmið til að vinna að á síðasta ári hvers aldursbils.

Dreka-, fálka-, og dróttskátar sem eru að ljúka sínu aldursbili fá tækifæri á því að gerast könnuðir. Sem könnuðir þurfa þau að vinna að sérstökum verkefnum yfir starfsárið og halda utan um þau í könnuðamerkjabókinni sinni.

Verkefnin eru allt frá því að vinna að færnimerkjum, fara í útilegur og skipuleggja gönguferð yfir í að vinna að verkefnum sem þau velja sjálf og vinna að með flokknum eða sveitinni sinni. Skátarnir vinna sjálf að þessum verkefnum en njóta stuðnings sveitarforingja sinna.

Könnuðamerkjabækurnar er hægt að kaupa í Skátabúðinni eða prenta út sjálf í skátaheimilinu.

Könnuðamerkin sjálf fást svo í Skátabúðinni.


Læst inni í Garðbúaheimilinu

Síðastliðinn þriðjudag spreyttu róverskátar sig á nýju flóttarými (escape room) í Garðbúaheimilinu. Flóttarýmið var sett upp sem dagskrá fyrir róverskáta og eldri skáta og fékk styrk frá Evrópusambandinu. Þetta flóttarými, Föst á fjöllum, var með skátaþema þar sem skátaflokkur í fortíðinni fór í útilegu í fjallaskála og dularfullir atburðir áttu sér stað. Skátarnir sem prófuðu flóttarýmið leystu svo þrautir og gátur til að komast að því hvað hefði gerst og opna lásinn á herberginu til að komast sjálf út.

Viðburðurinn var vel heppnaður og er nú hægt að fá allan búnað í flóttarýmið lánaðan til að setja upp í sínu skátafélagi. Þeir sem hafa áhuga á að setja upp flóttarýmið fyrir dróttskáta, rekkaskáta, róverskáta eða eldri hafið samband við skatarnir@skatarnir.is


Crean þátttakendur gengu frá sólarupprás til sólseturs

Á laugardaginn síðasta skunduðu af stað hressir skátar í fjallgöngu. Þetta var þriðja undirbúningsferðin í Crean Vetraráskoruninni ´23-´24. Í fyrri undirbúningsferðum hafa þau gengið að Hafravatni og einnig gengið um Hvaleyrarvatn.
Að þessu sinni var gengið frá Kjósinni upp á Trönu og þaðan yfir á Móskarðshnúka. Síðan lauk göngunni niðri við skátaskálann Þrist.

Þátttakendurnir byrjuðu gönguna á því að skoða bestu gönguleiðina á kortum og skipuleggja sig. Svo lagði hópurinn af stað við sólarupprás. Létt var yfir hópnum og öll í góðu skapi, skátarnir styttu sér stundir við gönguna með léttum orðaleikjum og spjalli á meðan þau nutu útsýnisins. Víðtækt landslag var í göngunni eins og tún, grjótaslóðar og sandsteinar en svo var einnig smávægis snjór og klaki á toppi Móskarðshnúka og Trönu. Þegar hópurinn var kominn að Móskarðshnúkum var sólin byrjuð að lækka á lofti og gengu þau niður hlíðina við sólsetrið.

Gangan tók um það bil 7 klukkustundir og gengið var 12.5 km. með 1.137m. hækkum.

Hópurinn byrjaði að elda sér verðskuldaðan kvöldmat þegar komið var niður af Móskarðshnúkum og svo var hugguleg kvöldstund með söng, eld í arninum og spjalli. Þau fóru sæl í háttinn bæði inni í Þrist og einnig úti í tjaldi. Haldið var heim á leið fyrir hádegi á sunnudegi.

 


Skátamiðstöðin lokuð 21. nóvember

Starfsfólk skátamiðstöðvarinnar er úti í dag á árlegum starfsmannadegi og er Skátamiðstöðin því lokuð.

Jólatrésalan er opin, verið velkomin í heimsókn í Hraunbæ 123.

Tölvupóstum verður svarað á miðvikudag. Ef erindið er mjög brýnt - vinsamlegast merkið það svo og við munum gera okkar besta að svara. Við afsökum óþægindin sem kunna verða vegna þessa.


Boð um aðstoð til Grindvíkinga

Skáti er hjálpsamur og mörg skátafélaganna vilja bjóða Grindvíkingum aðstoð ef á þarf að halda og hafa þegar auglýst eða látið Rauða krossinn vita af því. Í þeim hafsjó upplýsinga sem internetið getur verið er samantektin til að einfalda þeim sem þurfa að finna upplýsingar á einum stað. Athugið að samantektin tekur breytingum eftir því sem upplýsingar um fleiri boð berast og ef einhver úrræða eru nýtt þannig þau standa ekki lengur öðrum til boða.

SKÁTAFÉLAGIÐ GARÐBÚAR

Skátaheimili Garðbúa í Hólmgarði

Afnot af húsnæði

Skátafélagið Garðbúar bjóða Grindvíkingum sem vantar enn húsaskjól afnot af húsnæði félagsins að Hólmgarði 34, 108 Reykjavík. Einnig bjóðum við fram skátaskálann okkar Lækjarbotna undir hlíðum Selfjalls ofan við Heiðmörk, ca 14 km út fyrir bæjarmörk.

Skátaheimilið

Í húsnæði Garðbúa er einn stór salur sem tekur um 50 manneskjur. Inn af salnum er annað rými sem er hálfgerð setustofa og salerni með aðgengi fyrir fatlaða og sturta. Það eru 3 herbergi (föndur-, spila- og flokkaherbergi). Skátafélagið á töluvert magn af dýnum sem er velkomið að nota. Það er góð eldhúsaðstaða, tvö salerni eru við forstofu og lítið þvottahús. Skátaheimilið er staðsett í fjölbýli og þarf að taka tillit til nágranna okkar varðandi hávaða og ónæði. Lágmarka þarf hávaða eftir kl. 22:00. Ef fólk frá Grindavík vill einhverjar frekari upplýsingar um Skátaheimilið Garðbúa má hafa samband við Aldísi Líf í síma 848-6167 og netfangið gardbuar@gardbuar.com.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar, skátaskálinn er mjög rúmgóður og hann er á tveimur hæðum með anddyri, matsal og eldhús á neðri hæðinni. Í eldhúsinu er eldavél og bakaraofn svo er einnig gasgrill á staðnum. Á efri hæðinni er síðan svefnloft með rúmgóðum tveggja manna kojum þar sem 30 manns (fullorðnir) geta gist. Inn fyrir svefnloftið er síðan lítið “foringja”herbergi þar sem fjórir fullorðnir geta gist í kojum. Ef fólk frá Grindavík vill frekari upplýsingar um Lækjarbotna má hafa samband við Svavar í síma 896-6056 og netfangið svavar321@gmail.com.

Fyrirvari um neyslu áfengis/vímuefna og tóbaks

Í skátaheimilinu og Lækjarbotnum er neysla áfengis/vímuefna og tóbaks bönnuð.

SKÁTAFÉLAGIÐ HEIÐABÚAR

Skátaheimili Heiðabúa er staðsett á Hringbraut 101, 230 Reykjanesbæ

Nauðsynjasöfnun

Skátafélagið Heiðabúar opnaði skátafélagið sitt fyrir nauðsynjasöfnun fyrir Grindvíkinga. Hægt er að fylgjast með facebook síðu Heiðabúa fyrir nánari upplýsingar um hvar og hvenær er hægt að nálgast munina sem hafa safnast.

Frítt á skátafundi

Skátafélagið Heiðabúar bjóða Grindvíkingum frítt á skátafundi fram að jólafríi að minnsta kosti. Heiðabúar halda úti starfi fyrir börn frá 8-19 ára aldri. Fundartímanna má finna einnig finna á facebooksíðu félagsins hér.

 

SKÁTAFÉLAGIÐ HRAUNBÚAR

Skátaheimili Hraunbúa í Hafnarfirði

Frítt á skátafundi

Skátafélagið Hraunbúar í Hafnarfirði bjóða Grindvíkingum að mæta frítt á skátafundi fram að jólafríi skátastarfs í félaginu sem hefst 20. desember. Fundartíma má finna á www.hraunbuar.is/sveitirnar.

Lán á húsnæði til hýbílis

Hraunbúar opnuðu gistiheimilið sem við höfum í rekstri á sumrin fyrir Grindvíkinga. 5 herbergi eru til staðar sem verið er að nýta þessa stundina. Salurinn hefur verið innréttaður sem setustofu og matsalur fyrir þau sem dvelja á gistiheimilinu og tjaldsvæðinu.

Kostnaðarlaus dvöl fyrir húsbíla og hjólhýsi með aðgang að eldhúsi, sal og salerni.

Tjaldsvæðið á Víðistaðatúni er opið fyrir Grindvíkinga sem vilja dvelja í húsbílnum eða hjólhýsinu sínu sér að kostnaðarlausu.  Þeir sem dvelja á tjaldsvæðinu hafa aðgang að eldhúsi, salnum og salerni í skátaheimlinu okkar.

Samverustund fyrir Grindvíkinga

Hraunbúar og St. Georgs gildið ætla að opna salinn fyrir Grindvíkingar þann 17 nóvember klukkan 16-20 og allir Grindvíkingar eru velkomnir að nýta sér það, til að koma saman og spjallað, fengið sér kaffi og með því. Börnin leikið sér í ótalmörgum spilum og dóti sem er í boði eða horft á sjónvarpið. Ef áhugi er fyrir því verður félagið með fleiri slíka viðburði.

Hafa samband við Hraunbúa

Ef fólk frá Grindavík vill einhverjar frekari upplýsingar má hafa samband við brynjar@hraunbuar.is og í síma 895-0906.

SKÁTAFÉLAGIÐ LANDNEMAR

Skátaheimili Landnema í Háuhlíð 9

Frítt á skátafundi fyrir unglinga

Skátafélagið Landnemar bjóða Grindvíkingum á aldrinum 13-15 ára að mæta frítt á skátafundi fram að jólafríi skátastarfs í félaginu sem hefst 13. desember. Fundartímar eru á fimmtudögum frá 17:45-19:45 í Háuhlíð 9. Því miður er fullt og ekki mannskapur til að taka á móti fleirum á öðrum aldursbilum.

Afnot af húsnæði fyrir einstaklinga eða skipulagða starfsemi

Þeim sem vantar enn húsaskjól geta fengið afnot af húsnæði félagsins en í húsinu eru dýnur til afnota. Í húsnæðinu eru fimm lítil herbergi, salur, fjögur baðherbergi og eldhús. Í garðinum er frábært útisvæði og hefur húsið verið nýtt í fortíð sem frístundaheimili. Húsið er tilvalið til að nýta í samkomur eða aðra skipulagða starfsemi á dagtíma.

Ef fólk frá Grindavík vill einhverjar frekari upplýsingar má hafa samband með tölvupósti í landnemi@landnemi.is.

SKÁTAFÉLAGIÐ KÓPAR

Skátaheimili Kópa á Digranesvegi

Frítt á skátafundi

Skátafélagið Kópar bjóða Grindvíkingum frítt á skátafundi fram að jólafríi að minnstakosti sem hefst 19.desember með kvöldvöku það kvöld. Kópar halda úti starfi fyrir börn frá 8-19 ára aldri. Fundartímanna má finna á kopar.is

Afnot yfir daginn af húsnæði fyrir barnastarf eða aðra starfsemi

Skátafélagið Kópar tilbúið að bjóða fram húsnæðið sitt til afnota fyrir starfsemi á daginn svo sem leik- og grunnskóla eða aðra starfsemi sem er á daginn. Húsnæðið er rúmgott og bjart með mörgum herbergjum, mjög vel útbúnu eldhúsi og veislusal sem rúmar tugi manns í sitjandi borðhaldi.  Ef fólk vill frekari upplýsingar þá er hægt að hafa samband við félagsforingjann Heiðu Hrönn með að senda póst á heidahronn@kopar.is eða í síma 693-8042.

SKÁTAFÉLAGIÐ STRÓKUR

Staðsett í Breiðumörk 22, 810 Hveragerði,  Netfang: skatafelagidstrokur@gmail.com

Nauðsynjasöfnun

Skátafélagið Stókur opnaði skátafélagið sitt fyrir nauðsynjasöfnun fyrir Grindvíkinga. Hægt er að fylgjast með facebook aðgangi Stróks hér fyrir frekari upplýsingar um hvernig hægt sé að nálgast söfnunina.

 

SKÁTAFÉLAGIÐ VÍFLAR

Húsnæði skátafélagsins Vífils og Hjálparsveit skáta í Garðabæ.

Frítt á skátafundi

Vífill býður ungmennum frítt á skátafundi fram að jólafríi, félagið heldur úti starfi fyrir börn og ungmenni 7-19 ára. Hægt er að finna upplýsingar á vifill.is.

SKÁTAFÉLAGIÐ VOGABÚAR

Skátaheimili Vogabúa í Logafoldi

Skátafélagið Vogabúar hefur opnað skátaheimilið sitt fyrir Grindvíkingum og hefur fólki þegar verið komið fyrir í því.

ÚTILÍFSMIÐSTÖÐ SKÁTA Á ÚLFLJÓTSVATNI

Aðstaða skátanna á Úlfljótsvatni

Lán á aðstöðu:

Útilífsmiðstöð skáta býður Grindvíkingum og stjórnvöldum afnot af svæði Skátamiðstöðvarinnar á Úlfljótsvatni. Boðin eru 60 gistirými, sameiginleg eldhúsaðstaða, matssalur og salur ásamt þeirrar náttúru og leiksvæða sem svæðið hefur uppá að bjóða. Útilífsmiðstöðin er staðsett við Úlfljótsvatn og má skoða betur á ulfljotsvatn.is. Taka má fram að einnig er hægt að fullnýta aðstöðuna fyrir leikskóla/skóla árgang. Ef fólk frá Grindavík og/eða stjórnvöld/bæjarfélag Grindavíkur vill frekari upplýsingar má hafa samband við Ragnar í síma 869-7817 og netfangið ragnar@skatarnir.is


Íslenskir skátar fordæma stríðsrekstur á Gaza


Bandalag íslenskra skáta skorar á íslensk stjórnvöld að fordæma allan stríðsrekstur á Gaza og kalla eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðaraðstæðum. Skátar eru skelfingu lostnir yfir þeim hörmulegu aðstæðum sem ríkja nú á Gaza og því gífurlega manntjón sem þar hefur orðið. Yfir 11.000 hafa þegar týnt lífi, þar á meðal þúsundir barna og tala látinna á eftir að hækka.

Skátarnir eru stærsta friðarhreyfing heimsins og fordæma allt ofbeldi. Við hvetjum þjóðir heims til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að binda enda á öll stríðsátök og tryggja öryggi óbreyttra borgara.

www.unwomen.is
www.unicef.is
www.amnesty.is


Privacy Preference Center