REGLUGERÐ BÍSUM HÆFI SKÁTAFORINGJA

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 21. apríl 2018.

1. GREIN

Með skátaforingja er í reglugerð þessari átt við þann lögráða einstakling sem hefur verið skipaður til ábyrgðastarfa af hálfu félagsforingja, formanns skátasambands eða skátahöfðingja.

Reglugerð þessi nær ekki til flokksforingja og annarra aðstoðarforingja sem ekki eru lögráða.

2. GREIN

Þann má skipa skátaforingja sem æskir þess og fullnægir þessum skilyrðum:

  1. er vígður skáti.
  2. er lögráða og svo á sig kominn andlega að hann sé fær um að gegna störfum skátaforingja.
  3. hefur forræði á búi sínu og hefur ekki orðið að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta s.l. 2 ár.
  4. er ekki á sakaskrá.
  5. hefur lokið viðeigandi þjálfun til að gegna starfi sínu að mati skipunaraðila.

Hefur unnið skriflegt heiti að viðlögðum drengskap að hann muni rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem honum kunna að verða falin og hann tekur að sér sem skátaforingi og að hann hafi aldrei gerst brotlegur gegn börnum.

3. GREIN

Umsókn um leyfi til að gerast skátaforingi skal beint til viðkomandi félagsstjórnar eða skátasambands.

Umsókn um leyfi til að gerast félagsforingi, formaður skátasambands eða að starfa fyrir BÍS skal beint til stjórnar BÍS. Eftir því sem þörf er á skal umsækjandi leggja fram gögn til stuðnings því að hann fullnægi skilyrðum skv. 2. Gr.

Félagsforingi eða formaður skátasambands gefur út skipunarbréf fyrir skátaforingja. Skátahöfðingi gefur út skipunarbréf fyrir félagsforingja, formenn skátasambanda og aðra skátaforingja er starfa fyrir BÍS.

4. GREIN

Ef skátaforingi uppfyllir ekki öll skilyrði 2. gr. eftir að hafa hlotið skipun eða brýtur gegn drengskaparheiti sínu, skal hann að eigin frumkvæði skila inn skipunarbréfi sínu ella er félagsforingja, formanni skátasambands og/eða stjórn BÍS skylt að afturkalla skipunarbréf hans.

5. GREIN

Stjórn BÍS er heimilt að veita undanþágur frá ákvæðum 1. – 4 tl. 2. gr. við skipun skátaforingja, ef ríkar ástæður eru fyrir hendi.