REGLUGERÐ BÍS
UM HÆFI SKÁTAFORINGJA

Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 9. maí 2023

1. GREIN

Með skátaforingja er í reglugerð þessari átt við þann lögráða einstakling sem hefur verið skipaður til ábyrgðastarfa af hálfu félagsforingja, formanns skátasambands eða skátahöfðingja.

Reglugerð þessi nær ekki til flokksforingja og annarra aðstoðarforingja sem ekki eru lögráða.

2. GREIN

Þau má skipa skátaforingja sem sækjast eftir því og fullnægja þessum skilyrðum:

  1. Eru vígð skátar.
  2. Hafa viðeigandi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til að gegna starfi sínu að mati skipunaraðila.
  3. Hafa unnið skriflegt heiti að viðlögðum heiðri sínum að rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem þeim kunna að verða falin eða þau taka að sér sem skátaforingjar og að þau muni aldrei gerast brotleg gegn börnum.
  4. Hafa ekki hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum, eins og Æskulýðslög nr. 70/2007 segja til um.
  5. Hafa undirritað eyðublað sem veitir Bandalagi íslenskra skáta heimild til öflunar upplýsinga úr Sakaskrá ríkisins eins og Æskulýðslög nr. 70/2007 segja til um.

3. GREIN

Umsókn um leyfi til að gerast skátaforingi í skátastarfi skal beint til viðkomandi félagsstjórnar eða skátasambands. Sé hvorugt starfandi á svæðinu skal umsókn beint til BÍS.

Stjórnir skátafélaga skulu leitast við að gera skriflegt samkomulag við skátaforingja í samræmi við drög BÍS um Sjálfboðaliðasamkomulag.

4. GREIN

Ef skátaforingi uppfyllir ekki öll skilyrði 2. gr. eftir að hafa hlotið skipun eða brýtur gegn sæmdarheiti sínu, skal viðkomandi láta af störfum að eigin frumkvæði ella er stjórn skátafélags, stjórn skátasambands og/eða stjórn BÍS skylt að víkja viðkomandi frá störfum.