Kraftur í fálkaskátum Skjöldunga

Í nóvember voru fálkaskátar í skátafélaginu Skjöldungum fyrstu þátttakendur FálkaKrafts, sem eru ný leiðtoaþjálfunarnámskeið haldin af Leiðbeinendasveitinni.

Á FálkaKrafti fá þátttakendur tækifæri á því að taka þátt í dagskrá sem þjálfar þau í flokkastarfi, að plana-gera-meta og samvinnu. Þátttakendur fá færi á því að kynnast gildum skátahreyfingarinnar í gegnum leiki og reynslunám og eru þau hvött til að vinna að samfélagsverkefnum að viðburði loknum.

„GAMAN AÐ SJÁ HVAÐ KRAKKARNIR ERU FLOTT“

Helena Sif, annar sveitarforingi fálkaskátanna í Skjöldungum, var mjög ánægð með FálkaKraft og fannst gaman að fylgjast með því hversu vel skátarnir þeirra stóðu sig á viðburðinum.

„Þetta gekk vel og var bara kósý“ segir Helena en á FálkaKrafti koma tveir aðilar úr Leiðbeinendasveitinni og keyra dagskrána með fálkaskátunum. Helena sagði það vera mjög þægilegt í ljósi alls sem sjálfboðaliðar eru oft að fást við innan og utan skátastarfs að fá tilbúna dagskrá og aðila sem sjá um hana.

„Við þurftum ekkert að gera nema vera stolt“ sagði Helena en einnig fannst henni gaman að fá nýja að starfinu og sjá þau hvetja skátana þeirra áfram til að vinna að verkefnum sem þeim hefði kannski ekki dottið í hug að gera sjálf. Það helsta sem stóð uppúr fyrir foringjana var „að sjá hvað krakkarnir eru flott og fá einhvern nýjan inn sem sýnir fram á hvað er hægt í skátastarfi. The sky is the limit í rauninni en þau taka ekki alltaf mark á því þegar það kemur frá okkur foringjunum“

Dagskráin gekk vel og höfðaði vel til skátanna, viðfangsefnin voru fjölbreytt og var ólíkt hvað stóð uppúr hjá þátttakendum að sögn Helenu. Það sem hefur þó farið mest fyrir eftir að viðburðinum lauk eru samfélagsverkefni en einn dagskrárliður FálkaKrafts var að flokkarnir áttu að velja sér samfélagsverkefni sem þeim þótti mikilvægt. Í framhaldi að því fóru þau í lýðræðisleik þar sem hver flokkur kynnti sína hugmynd og svo var kosið um bestu hugmyndina sem þau myndu vinna saman að sem sveit. Að auki voru þau hvött til að vinna samt sem áður að sínum samfélagsverkefnum og hafa fálkaskátarnir svo sannarlega gert það en þau hafa þegar framkvæmt tvö samfélagverkefni.

JÓLABALL FYRIR ALLA FJÖLSKYLDUNA

Einn flokkurinn vildi halda jólaball fyrr fjölskyldur í hverfinu og voru þau búin að skipuleggja dagskrá ballsins sjálf. Þau hönnuðu auglýsingar fyrir jólaballið á skátafundum en fóru svo sjálf að dreifa þeim um hverfið í sínum frítíma. Einnig sáu þau um að baka veitingar  til að bjóða uppá á ballinu heima hjá sér.

Jólaballið var haldið í skátaheimili Skjöldunga 9. desember og voru um 20 manns sem mættu, hittu jólasveina og skreyttu piparkökur.

DÓSASÖFNUN FYRIR GRINDVÍKINGA

Annar flokkur var mjög áhugasamur um að safna dósum til að styðja söfnun Rauða Krossins vegna jarðrhræringanna við Grindavík. Vörðu þau þrem fundum í að ganga í hús og safna flöskum og dósum úr hverfinu og náðu þau að safna 51.442 krónum sem afhentar voru Rauða Krossinum.

Hér má lesa frétt á vef Rauða Krossins um dósasöfunina.

BÓKA FÁLKAKRAFT

FálkaKraftur er haldinn á vettvangi félagsins en nokkur félög geta einnig sameinast um að halda námskeiðið.  Skátafélögin sem óska eftir Fálkakrafti fyrir sínar fálkaskátasveitir útvega húsnæði fyrir námskeiðin (t.d. skátaheimili eða skátaskála) og þannig kemur Fálkakrafturinn til skátafélaganna! Hvert námskeið stendur yfir í 5 klukkustundir og því er tilvalið að prjóna lengri dagskrá við Fálkakraftinn, t.d. sveitarútilegu yfir alla helgina.

Langar þig að fá FálkaKraft í þitt félag? Hafðu samband við Leiðbeinendasveitina með því að senda þeim tölvupóst á leidbeinendasveit@skatarnir.is.