Nýjar og breyttar reglugerðir stjórnar BÍS

Á árinu uppfærði stjórn BÍS nokkrar reglugerðir og samþykkti nýja sem talið var þörf fyrir og hafa þær nú verið birtar. Eins og 25. grein laga BÍS kveður á um getur stjórn BÍS sett reglugerðir um starfsemi innan BÍS og aðra þætti starfsins, eftir því sem þurfa þykir, efni þeirra skal rúmast innan laga BÍS og skulu þær kynntar aðildareiningum BÍS. Þær sem voru uppfærðar voru reglugerð um hæfi skátaforingja ásamt reglugerð um Landsmót skáta. Þá var samþykkt ný reglugerð um hæfi sjálfboðaliða.

Reglugerð um hæfi skátaforingja

Einhver mikilvægasta reglugerð skátastarfs var uppfærð lítillega til að ríma betur við samtímakröfur. Helstu atriði sem var breytt:

 • Textinn gerður kynhlutlaus.
 • Áréttað að félagseiningar skipa skátaforingja frekar en formenn stjórna þeirra.
 • Tvítekning um lögræði skátaforingja tekin úr 2. grein
 • Úrelt skilyrði fjarlægð m.a. um að einstaklingar skuli á sig komnir andlega að þeir séu færir um að gegna störfum tekið út og krafa um að einstaklingur hafi forræði yfir búi sínu sem hafi ekki verið til gjaldþrotaskipta sl. 2 ár.
 • Skilyrði um færni uppfærð til að spegla kröfur um ráðningar ábyrgðaraðila fyrir æskulýðsstarf í Æskulýðslögum.
 • Nákvæmara tungumál um hvaða brot það eru sem koma í veg fyrir að einstaklingur megi starfa í Æskulýðsstarfi samkvæmt lögum.
 • Skilyrði um undirritun upplýsingaröflunar úr sakaskrá áréttuð.
 • Setning um hvernig félagsforingi þurfi að afla leyfis BÍS til að taka við því embætti fjarlægð. Félagsforingjar sækja umboð til aðalfunds síns félags að því gefnu að þau uppfylli skilyrði í lögum BÍS um hlutverkið. Ekki talið endurspegla verklag í nútíma og ekki talið eiga heima í þessari reglugerð.
 • Í þriðju grein hvatt til þess að skrifleg samkomulög séu gerð við skátaforingja í stað fyrra orðalags um að félög gæfu út skipunarbréf, til að endurspegla það verklag sem BÍS talar fyrir í dag.
 • Í fjórðu grein áréttað að skátahreyfingunni sé skylt að vísa skátaforingja úr starfi ef þau gerast brotleg í því, í stað fyrra orðalags um að afturkalla skipunarbréf viðkomandi.
 • Fimmta grein um hvernig veita megi undanþágu frá öðrum greinum reglugerðarinnar tekin út. Undanþágur skulu ekki veittar frá þessum kröfum.

Reglugerð um hæfi sjálfboðaliða

Þar sem reglugerðin um hæfi skátaforingja nær í raun eingöngu til þeirra sem leiðbeina í skátastarfi með börnum þá hefur samskonar reglugerð verið samþykkt af stjórn BÍS.

Reglugerð um Landsmót skáta

Talin var ástæða til að uppfæra reglugerð um landsmót og voru breytingarnar unnar í nánu samstarfi við skátafélagið Klakk. Breytingar fela í sér:

 • Tilmælum um ólíka þátttöku mismunandi aldurshópa breytt. Í stað þess að hvetja gegn þátttöku yngri skáta er hvatt til hennar.
 • Fest í reglugerð að mótið fari fram á Hömrum og Úlfljótsvatni á víxl í stað þess að stjórn sé falið að ákvarða staðsetningu í kjölfar ábendinga frá Skátaþingi.
 • Grein um sérstaka undirbúningsnefnd og allar tilvísanir til hennar teknar úr reglugerð þar sem ekki hefur verið stuðst við slíka í langan tíma.
 • Breytingar á ákvæðum um skipun mótstjórnar, fjármálastjóri BÍS sé héðan af fjármálastjóri mótsins og krafa um að minnst einn í mótstjórn sé af landsbyggðinni.
 • Tímarammi í 3. grein styttur úr 18 mánuðum í 15. Einnig áréttað að mótstjórn skuli tryggður aðgangur að gögnum fyrri móta.
 • Orðalag um fjármagn til mótstjórnar á undirbúningstíma gert opnara.
 • Tímasetning Landsmóta skáta fest við miðjan júlí.
 • Ný krafa sett um dagskrá sem hefur tengsl við heimsmarkmið sameinuðu þjóðana.

Reglugerðirnar eru samkvæmt skilyrðum 31. greinar laga BÍS ávallt aðgengilegar á sérstöku vefsvæði á heimasíðu skátanna ásamt öðrum gildandi reglugerðum.