Ánægjukönnun sjálfboðaliða starfsárið 2023-2024

Eins og fram kemur í stefnu BÍS til ársins 2025 er eitt markmið Skátanna að sjálfboðaliðar hreyfingarinnar séu sátt. Skátarnir vilja veita fólki tækifæri á að taka þátt í uppbyggilegu sjálfboðaliðastarfi þar sem það nýtur sín í starfi, getur miðlað af reynslu sinni og fær tækifæri til að vaxa og dafna. Einn af mælikvörðum þess er að Skátamiðstöðin sendir frá sér ánægjukönnun til allra sjálfboðaliða tvisvar sinnum ári og niðurstöðum hennar verði fylgt eftir.

Því erum við núna að óska eftir svörum við ánægjukönnun fyrir skátaforingja og meðlimi stjórna skátafélaga starfsárið 2023-2024. Sendur hefur verið tengill á könnunina á alla sjálfboðaliða samkvæmt mannauðsskrá BÍS og biðjum við öll um að athuga tölvupóstinn sinn og svara könnuninni.

Nokkrir heppnir svarendur verða svo dregnir úr lukkupotti þann 15. desember og fá vinning úr Skátabúðinni.