Meira úti eftir Covid
Skátastarfið er óðum að taka á sig fyrri mynd eftir að samkomubanni var aflétt. Skátarnir í Kópum ætla að lengja starfið inn í sumarið til að koma til móts við skátana og foreldra.
„Skátastarfið hjá okkur breyttist aðeins. Við leggjum meiri áherslu á útiveru,“ segja Heiða Hrönn Másdóttir félagsforingi Kópa og Ásdís Erla Pétursdóttir, starfsmaður Kópa.
Mætingin eftir Covid hefur verið mjög góð og þær finna hvað skátarnir eru ánægðir með að vera komnir í starfið á nýjan leik. Boðið verður upp á starf inn í júnímánuð.
Nánari upplýsingar um starf skátafélagsins Kópa er á www.kopar.is
Félagsforingja fjarfundur
FJARFUNDAÐ Í LJÓSI AÐSTÆÐNA
Félagsforingjafundur var boðaður og haldinn 21. apríl 2020 síðastliðinn. Ekki var hægt að halda Skátaþing á tilsettum tíma þetta árið sökum heimsfaraldurs, á aðalfundi BÍS 2020 hefði átt að kjósa í stjórn og fastaráð í fyrsta sinn samkvæmt nýju stjórnskipulagi sem fest var í lög á Skátaþingi 2019. Tveir stjórnarmenn BÍS höfðu beðist lausnar frá embættum sínum frá síðasta Skátaþingi sökum anna og margir meðlimir fastaráða höfðu gert ráð fyrir að hætta störfum í apríl mánuði. Á sama tíma var sjálfboðaliði reiðubúinn að taka sæti í stjórn BÍS og mörg fleiri búin að bjóða sig í öll sæti fjögurra fastaráða BÍS en án aðalfundar ekki hægt að veita þeim umboð til verksins. Því var boðað til aðalfundar til að sækja tímabundið umboð til skátafélaganna þar til unnt yrði að halda Skátaþing.
STJÓRN FULLSKIPUÐ AFTUR FRAM AÐ SKÁTAÞINGI
Dagmar Ýr Ólafsdóttir, aðstoðarskátahöfðingi og formaður alþjóðaráðs, hafði sagt sig úr stjórn BÍS og með vísan í 22. grein laga BÍS bar uppstillingarnefnd upp þá tillögu við félagsforingjafund að Þórhallur Helgason skipi stöðuna fram að aðalfundi, var tillagan samþykkt samhljóma af félagsforingjafundi. Stjórnin er þannig svo skipuð fram að aðalfundi:
Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi
Sævar Skaptason, gjaldkeri
Ásgerður Magnúsdóttir, meðstjórnandi
Björk Norðdahl, meðstjórnandi
Harpa Ósk Valgeirsdóttir, meðstjórnandi
Jón Halldór Jónasson, meðstjórnandi
Þórhallur Helgason, meðstjórnandi
TILVONANDI FULLTRÚAR NÝRRA FASTARÁÐA STARFA Í VINNUHÓPUM FRAM AÐ SKÁTAÞINGI
Uppstillingarnefnd lagði þá tillögu fram við félagsforingjafund að stjórn BÍS hefði umfram lögbundið umboð sitt til að skipa vinnuhópa, umboð félagsforingjafundar til að skipa tilvonandi fulltrúa nýrra fastaráða í vinnuhópa sem skyldu starfa fram að Skátaþingi 2020. Í ljósi þess að sjálfkjörið var í öll nýju fastaráðin væri heppilegt fyrir skátahreyfinguna ef að þessir öflugu sjálfboðaliðar gætu tekið til starfa sem allra fyrst. Tillagan var samþykkt samhljóma.
TILKYNNT UM FRESTUN LANDSMÓTS
Stjórn BÍS tilkynnti félagsforingjafundi sameiginlega ákvörðun sína og mótstjórnar um að fresta Landsmóti skáta halda átti 8. - 14. júlí 2020 til sumarsins 2021.
FREKARI UPPLÝSINGAR UM FUNDINN AÐ FINNA Í FUNDARGERÐ
Fundargerð félagsforingjafundar má sækja með að smella hér.
Skólabúðir á Úlfljótsvatni
Skólabúðirnar á Úlfljótsvatni eru að fara aftur í gang og búast má við miklu fjöri þegar staðurinn fyllist aftur af krökkum. Margir leikskólahópar munu einnig mæta á staðinn í dagsferðir nú í vor. Margir hópar munu koma nú í maí og byrjun júní þar sem fyrr í vor þurfti að loka vegna heimsfaraldursins. Þar má nefna skóla úr Reykjavík, af Reykjanesinu, Kópavogi, Garðabæ og Selfossi.
Því má svo sannarlega segja að starfsfólk Úlfljótsvatns er hæstánægt með að nú megi það mæta aftur og halda uppi fjöri á Úlfljótsvatni!
Tjaldsvæðið við Úlfljótsvatn opnar föstudaginn 15. maí en þar verða gerðar einhverjar ráðstafanir vegna fjöldatakmarkana.
Nánari upplýsingar um skólabúðir og dagsferðir veitir Hulda María.
Skátastarf getur hafist aftur 4. maí

Skátastarfið getur hafist aftur af krafti!
Skátastarf um land allt getur hafist aftur af krafti í næstu viku en skátafélögin vinna nú hörðum höndum að undirbúningi þess að geta tekið aftur á móti þátttakendum sínum. Skátar og forráðamenn mega vænta þess að fá nánari upplýsingar frá sínu skátafélagi um hvernig farið verður aftur af stað.
Mikil ánægja ríkir hjá félögunum að geta hitt skátana sína á ný og mörg félög skoða að meira að segja að framlengja starfsárið sitt eða að bjóða upp á einhverskonar aukatekið sumarstarf til að tryggja að skátarnir fái örugglega fullt af félagsskapi, útiveru og skemmtun fyrstu mánuði eftir strangar samkomutakmarkanir.
Vonast til að ná góðum ferðalögum og útilegum í sumar
Eftir að ljóst varð að ekki verður af mótahaldi sumarsins þar sem Drekaskátamóti var aflýst og Landsmóti skáta frestað til sumarsins 2021 vilja mörg skátafélaganna skoða hvort ekki takist að bjóða skátunum þeirra í dagsferðir og útilegur í sumar. Vonast er til þess að yfirvöld gefi bráðlega út góðar leiðbeiningar um hvernig starfsemi tjaldsvæða og ferðum hópa skuli háttað í sumar svo hægt sé að skipuleggja slíka viðburði með öryggið í fyrirrúmi.
Starfið verður mest úti við
Flest skátafélög stefna að því að halda starfsemi sinni að mestu eða öllu leiti utandyra það sem eftir lifir starfsársins. Þetta sé bæði gert til að auka útiveru sjálfboðaliða og þátttakenda eftir skeið þar sem áætla að flestir hafi verið mikið innivið. En skátafélögin vilja líka með þessu reyna að vera sem minnst í almannarými og lágmarka þannig áfram smithættu í starfinu sínu.
Auglýsing heilbrigðiráðherra
Heilbrigðisráðherra birti auglýsingu í stjórnartíðindum um nýjar fjöldatakmarkanir sem taka gildi þann 4. maí. Í 8. grein þeirrar auglýsingar segir
Ákvæði 3., 4. og 5. gr. auglýsingar þessarar taka ekki til nemenda í starfsemi leik- og grunnskóla þannig að þar sé hægt að halda óskertri vistun og kennslu. Sama á við um starfsemi dagforeldra, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og aðra lögbundna þjónustu á leik- og grunnskólastigi. Í því felst að ekki eru takmarkanir á því hversu margir nemendur geti verið saman komnir eða nálægð þeirra í framangreindri starfsemi, þ.m.t. í frímínútum og mötuneyti. Öðrum en nemendum ber í framangreindri starfsemi að fara eftir ákvæðum auglýsingarinnar eins og unnt er.
Með sama hætti og í 1. mgr. taka ákvæði 3., 4., 5. og 6. gr. auglýsingarinnar ekki til íþrótta- og æskulýðsstarfs barna á leik- og grunnskólaaldri. Um fjölda og nálægð annarra en barna á umræddum aldri fer eftir almennum reglum auglýsingarinnar.
Auglýsingin tekur hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna né til loftfara og skipa.
Þannig eru ekki settar fjölda- eða nálægðartakmarkanir fyrir skáta á grunnskólaaldri en eldri þátttakendur og sjálfboðaliðar sem koma saman með þeim þurfa áfram að gæta þess að vera ekki fleiri en 50 talsins og halda áfram að gæta 2 metra reglunnar milli sín og þeirra.
Í 7. grein auglýsingarinnar er þess getið að áfram skal gæta góðra þrifa og sótthreinsunar. Á öllum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur skuli þrifið eins oft og unnt er, þá sérstaklega algenga snertifleti, og tryggja að sótthreinsandi vökvi fyrir hendur sé við alla innganga og eins víða um rými og talin er þörf á. Þannig munu skátafélögin að sjálfsögðu gæta vel að handþvotti og þrifum á þeim rýmum sínum sem notuð verða í skátastarfinu.
Allskyns nýjungar á lofti
Í samtölum við félagsforingja allra skátafélaganna kom í ljós að ýmsar hugmyndir um nýjungar í skátastarfinu eru á kreiki. Sumir undirbúa smiðjur í sumar fyrir sína skáta, aðrir ætla að halda sumarhátíð til að fylgja sínum þátttakendum út í sumarið meðan aðrir leita leiða til að halda félagsmót og bjóða fjölskyldum ef kostur gefst í sumar. Það verður því ýmislegt spennandi í gangi í skátastarfinu að vana og hlakkar okkur til að segja frá skemmtilegum verkefnum sem fæðast í sumar vegna þessa.
Sumardagurinn fyrsti 2020
Sumardagurinn fyrsti 2020
Í ár verður sumardagurinn fyrsti haldinn með breyttu sniði en undanfarin ár. Á flestum stöðum hafa hátíðarhöld verið felld niður en þó hvetjum við alla landsmenn til að nýta daginn með fjölskyldunni, fara út og njóta dagsins (bara muna tveggja metra regluna). Auk þess eru verkefni úr #stuðkví sem þið getið framkvæmt og Skátafélagið Mosverjar munu standa fyrir ratleik í Mosfellsbæ og Skátasamband Reykjavíkur stendur fyrir ratleik í Öskjuhlíðinni.
Leitin að sumrinu – fjölskylduratleikur fyrir alla
Í tilefni sumarkomu stendur Skátafélagið Mosverjar, í samstarfi við Mosfellsbæ, fyrir fjölskylduratleik innan hverfa bæjarins. Leikurinn byrjar kl 10:00 á sumardaginn fyrsta, 23. apríl, og lýkur kl 18:00 sunnudaginn 26. apríl.
Inn á viðburðarsíðu fjölskylduratleiksins verður birt slóð á kort með staðetningu þrautanna en leysa þarf a.mk. 5 þrautir af 10 í því hverfi sem fólk býr í. Þátttakendur birta myndir af þrautunum og hvernig þær voru leystar á Instagram undir myllumerkjunum #leitinadsumrinu og #mosverjar. Frekari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér.


Mörg stuðkví verkefni henta vel fyrir sumardaginn fyrsta og auðvitað kemur út nýtt verkefni á sjálfan daginn sem þið getið kíkt á. Sem dæmi um skemmtilegan dag gætu þið unnið þessi verkefni:
- Byrjið daginn á hláturjóga. Frábær leið til að byrja daginn með bros á vör.
- Þá er gaman að kíkja út þar sem það er komið sumar! (er þá ekki alltaf gott veður?). Hér eru nokkur skemmtileg verkefni sem þið getið unnið að úti:
- Knús og músarhús: Hér er verkefnið að fara út, knúsa tré og búa til músarhús.
- Alvöru gönguferð: Hér er farið yfir hvernig á að skipuleggja gönguferð.
- Náttúrubingó: Hver er fyrst/ur að finna alla hlutina á spjaldinu?
- Eftir góða útiveru er gott að koma inn og fá sér eitthvað gott í gogginn. Þið getið til dæmis skellt í eina örbylgjuskátabollaköku eða bakað bananabrauð!
Af nógu er að taka og þið megið endilega deila því sem þið gerið undir myllumerkjunum #skátarnir og #stuðkví
Betri tíð – fjölskylduratleikur skátanna
Harpa er orðin mjög þreytt á því að bíða eftir sumrinu, en á sumardaginn fyrsta kveður einmánuður og sumarið hefur loksins innreið sína. Getið þið hjálpað Hörpu að skapa betri tíð með blóm í haga?
Betri tíð, fjölskylduratleikur skátanna, er tilvalinn fyrir fjölskyldur til að vinna saman að á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 23. apríl 2020, leysa verkefni, stunda útivist og lífga upp á lífið. Leikurinn fer fram í Öskjuhlíð og það eina sem þið þurfið er snjallsími og appið Actionbound. Leikurinn verður gerður aðgengilegur á aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Appið er hægt að sækja hér: https://en.actionbound.com/download/
Leikurinn er í boði Skátasambands Reykjavíkur. Þátttakendur sem klára ratleikinn geta skráð nafn sitt í pott og unnið skemmtilega vinninga. Frekari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér.

Útivistarárskorun og happdrætti á Grundarfirði
Skátafélagið Örninn býður upp á þrjár skemmtilegar útivistaráskoranir þar sem fólk getur sett nafnið sitt í bauk og er dregið úr honum nafn sem vinnur verðlaun!
1. Gönguferð í skógræktarlundinn
Útivist sem hentar yngstu kynslóðinni. Farðu í lautarferð, feluleik og gerðu músarhús, skoðaðu gróðurinn.
Baukurinn er í lundinum.
2. Gönguferð að vitanum við Kirkjufell
Meira krefjandi ferðalag og margt að skoða, sérstaklega undir steinum í flæðarmálinu. Rannsakið það!
Gleymum ekki tækifærinu til að vaða, gera sandkastala og borða nesti við Breiðarfjörðinn. Baukurinn verður við vitann.
3. Gönguferð upp á Klakk
Mest krefjandi gangan og mikilvægt að taka með sér orkuríkt nesti og vökva.
Slóðin er vel stikuð frá bílastæðinu við Bárarfoss. Baukurinn verður við Klakkstjörn uppi á fjallinu.
Það sem þarf að gera:
Ákveða hvaða gönguferð á að fara í – Búa til miða með nöfnum allra – Gera nesti, allir taka þátt – Búa sig eftir veðri – Leggja af stað
Takið myndir og póstið undir myllumerkinu #grundosumar
Fylgist með útdrætti kl 18:00 á Facebook hópnum: Umræðu- og hugmyndabanki Grunarfjarðar.
Skátamiðstöðin óskar öllum gleðilegs sumars!
ALHEIMSMÓT SKÁTA Á INTERNETINU
ALHEIMSMÓT Á INTERNETINU BOÐAÐ Í LJÓSI ÁSTANDSINS
Í ljósi heimsfaraldurs hefur verið ákveðið að boða til sérstaks alheimsmóts skáta á internetinu helgina 3.-5. apríl en mótið er fyrir alla skáta í heiminum. Allir skátar 13 ára eða eldri geta tekið þátt á mótinu sjálf en ætlast er til þess að skátar yngri en 13 ára taki þátt undir eftirliti foreldra. Alheimsmót skáta í loftinu og á internetinu, eða JOTA/JOTI eins og það er skammstafað á ensku, er skátamót sem haldið er á alþjóðavísu á hverju ári þriðju helgina í október. Þar gefst skátum allstaðar að úr heiminum tækifæri til þess að kynnast og gera ýmislegt saman gegnum veraldarvefinn eða með fjarskiptabúnaði. Mótið er á vegum WOSM, heimssamtaka skáta en í ljósi ástandsins ákváðu samtökin að boða nú til sérstaks aukamót um næstu helgi.
DAGSKRÁ, ÞÁTTTAKENDUR OG MÓTSVÆÐ HÝST Á NETINU
Alheimsmótið mun fara fram á heimasíðu mótsins, jotajoti.info, en þar hýsir mótið rafrænt mótsvæði fyrir mótið. Á meðan mótið stendur yfir geta skátar á öllum aldri tekið þátt í allskyns dagskrá í þema hinna ólíku dagskrárþorpa sem mynda hið rafræna mótsvæði. Áhersla í allri dagskrá mótsins verður andleg líðan og hvað við getum gert sem skátar á tímum COVID-19.

HVERNIG TEK ÉG ÞÁTT?
Til þess að taka þátt í mótinu þarf fyrst að búa til aðgang á scout.org og taka síðan þátt í netnámskeiði um öryggi á internetinu, þessum skrefum er hægt er að ljúka þessum tveimur skrefum áður en að mótið hefst. Þegar mótið hefst skrá þátttakendur sig síðan inn á mótið með þessum sama aðgangi.

ALDURSVIÐMIÐ MÓTSINS
Alheimsmót skáta á internetinu er fjölbreytt mót sem stendur öllum aldurshópum til boða en er þó fyrst og fremst hugsað fyrir skáta 13 ára og eldri. Þau sem eru 18 ára og eldri skrá sig til þátttöku og hegða sér í samræmi við reglur mótsins og skátalög. Þau sem eru á milli 13 og 18 ára í aldri ber að láta forráðamann vita af þátttöku sinni og kynna umgjörð mótsins fyrir þeim, þau geta síðan tekið þátt í mótinu án frekari aðkomu fullorðinna og heita því að fylgja reglum mótsins og skátalögum. Þau sem eru yngri en 13 ára geta tekið þátt en ætlast er til þess að þau geri það undir eftirliti forráðamanns.
NÁNAR UM DAGSKRÁNA
Dagskrá mótsins skiptist eftir þema dagskrárþorpa rafræna mótsvæðisins.
- Spjallsvæði mótsins (e. JOTI Chat) er vinsælasta þorpið á hverju ári, þar geta skátar hvaðanæva úr heiminum talað saman í gegnum ScoutLink forritið en þar er hægt að finna umræðuhópa út frá tungumáli sem viðkomandi talar eða út frá umræðuefni sem viðkomandi langar að ræða.
- Leikjasvæði mótsins (e. Fun Zone) mun bjóða þátttakendum að tengjast saman gegnum ólíka miðla til að fara saman í leiki, kenna dansa, fara í allskyns keppnir og jafnvel spila saman tölvuleiki
- Hæfileikakeppni mótsins (e. Youth Got Talent Stage) er rafrænt svæði þar sem þátttakendur geta skoðað myndbönd af skátum að leika allskyns listir sínar og gefið þeim atkvæði sitt. Þá geta þátttakendur sjálf lagt sína hæfileika í púkk á slóðinni tribute.co/joti/
- Griðarstaður heilsu og vellíðan (e. Health and Wellbeing Oasis) mun halda úti dagskrá, fræðslu, samkomum og umræðum tengdum því hvernig við hugum að líkamlegri og andlegri heilsu okkar, fjölskyldna okkar, vina okkar og samfélags á þessum skrítnu tímum.
- Mannúðar miðstöðin (e. Humanitarian Hub) mun safna saman hugmyndum og lykilupplýsingum um hvernig megi tryggja öryggi með bestum máta og reyna að miðla skilning á ólíkum áhrifum COVID-19 víða um heim og hvernig við getum öll hjálpast að við þær áskoranir að heiman.
- Bæli rafrænna heimsborgara (e. Digital Citizenship Den) verður samkomustaður þeirra sem nota internetið til að leiða til góðra áhrifa í heiminum. Þar geta þátttakendur bæði fræðst af öðrum og miðlað af eigin reynslu til annarra.
- Tjaldsvæði skátaforingjans (e. Leader's Camp) mun afla og miðla út upplýsingum og stuðningsefni til að skátaforingjar geti haldið sínum skátum virkum en þó öruggum í skátastarfi á þessum krefjandi tímum.
- Hlaðvarp mótsins (e. JOTI Radio) mun varpa út þáttum, viðtölum, tónlist og fræðslu, áhersla verður lögð á efni tent andlegri líðan
- Streymisveita mótsins (e. JOTI live) mun vera með beint streymi af viðtölum við skáta um allan heim sem deila góðum fréttum og sögum tengt núverandi ástandi. Einnig verður völdum hlutum streymt frá öðrum dagskrárþorpum s.s. frá mannúðar miðstöðinni og griðarstað heilsu og vellíðan.
TAKTU ÞÁTT
Við hvetjum alla til þess að fylgjast vel með framvindu mótsins og taka þátt í því. Engar kröfur eru gerðar um það að fólk sé skátar að fyrra bragði og ekki þarf að vera með frá upphafi til enda. Hver sem er getur slegist í hópinn hvenær sem er svo lengi sem þau fylgja reglum mótsins og hegða sér í samræmi við alþjóða bræðralag og friðarhugsjón skátahreyfingarinnar á heimsvísu.
Fresta skátaþingi en virkja nýtt fólk
Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta skátaþingi sem boðað hafði verið til í lok þessa mánaðar. Gert er ráð fyrir að kynna nýja tímasetningu með vorinu. Ástæða þessar ákvörðunar stjórnar Bandalags íslenskra skáta (BÍS) er Covid faraldurinn og áhrif hans á samfélagið.

Flestir í fráfarandi stjórn BÍS gefa kost á sér til áframhaldandi setu. Á mynd eru frá vinstri: Jón Halldór Jónasson, Marta Magnúsdóttir, Dagmar Ólafsdóttir, Sævar Skaptason, Jón Ingvar Bragason, Ásgerður Magnúsdóttir, Björk Norðdahl og Harpa Ósk Valgeirsdóttir.
Vilji stjórna skátafélaga kannaður
Stjórn og fulltrúar í fastaráðum hefðu verið sjálfkjörin á skátaþingi og má sjá framboðslistann neðar í þessari frétt. Í samræmi við breytingar á lögum BÍS sem gerðar voru á síðasta skátaþingi verður kosið til stjórnar og starfsráða til tveggja ára. Einnig voru gerðar í nýju lögunum breytingar á skipan starfsráða.
Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi sendi í dag póst á stjórnir skátafélaga og upplýsti þær um stöðu mála og viðraði hugmyndir um hvernig virkja mætti nýtt fólk sem er að bjóða sig fram. Hún segir að verðandi stjórn BÍS sé full tilhlökkunar og vilji gjarnan hefja vinnu sem fyrst miðað við nýja skipan. Þar sem sjálfkjörið sé í allar stöður þá sé sú hugmynd uppi að ný stjórn og ráð taki við eins og skátaþing hefði verið haldið. Ef skátafélögin lýsi sig ekki andvíg þessari ráðagerð yrði stefnt að því að nýtt fólk taki við í samræmi við framboðslista uppstillingarnefndar. Formleg kosning til stjórnar og ráða verður á skátaþingi samkvæmt venju.
Sjálfkjörið í allar stöður
Eftirtaldir bjóða sig fram á skátaþingi:
Stjórn Bandalags íslenskra skáta
- Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi
- Sævar Skaptason, gjaldkeri
- Jón Halldór Jónasson
- Ásgerður Magnúsdóttir
- Harpa Ósk Valgeirsdóttir
- Björk Norðdahl
- Þórhallur Helgason
Alþjóðaráð
- Þórey Lovísa Sigmundsdóttir
- Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir
- Aron Gauti Sigurðarson
Starfsráð
- Eva María Sigurbjörnsdóttir
- Birta Ísafold Jónasdóttir
- Páll Kristinn Stefánsson
Stjórn Skátaskólans
- Dagbjört Brynjarsdóttir
- Inga Jóna Þórisdóttir
- Halldór Valberg Skúlason
Ungmennaráð
- Úlfur Leó Hagalín
- Thelma Líf Sigurðardóttir
- Ísold Vala Þorsteinsdóttir
Uppstillinganefnd
- Berglind Lilja Björnsdóttir
- Birgir Ómarsson
- Sigurður Viktor Úlfarsson
- Katrín Kemp Stefándóttir
- Jóhanna Björg Másdóttir
Félagslegir skoðunarmenn
- Guðmundur Þór Pétursson
- Kristín Birna Angantýsdóttir
- Jón Þór Gunnarsson
Tengt efni:
Verður skátamiðstöð við Rauðavatn?
Uppbygging skátamiðstöðvar á nýjum stað hefur verið til skoðunar og er horft til staðsetningar sem gefur möguleika í útivist og svigrúm til uppbyggingar á tengdri þjónustu s.s. gistiaðstöðu sem rýma myndi 50 manns og jafnvel hægt að slá upp tjaldbúð. Svigrúm væri einnig fyrir geymslu á búnaði í skemmum.

Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi segir engar ákvarðanir um flutning hafa verið teknar en skátar séu opnir fyrir áhugaverðum hugmyndum og tækifærum. Fyrirséð er aukin byggð í Hraunbænum sem takmarkar svigrúm skáta á núverandi stað.
Nýi staðurinn sem er til skoðunar er við Rauðvatn og jaðar Hólmsheiðar, en þessi staðsetning tengist vel útivistarsvæði sem þar er. Nýja skátasvæðið er í brekkunni fyrir neðan Hádegismóa og nýtur því skjóls fyrir norðanáttinni. Þar hafa staðið sumarhús í gegnum tíðina og mikið er um hávaxin tré m.a. lerki, birki og einstaka reynitré, eins og segir í skipulags- og matslýsingu vegna deiliskipulags, sem er í kynningarferli.

Möguleiki á gistiaðstöðu
Verði af þessum hugmyndum skapast nýir möguleikar í starfsemi skáta, en í byggingum yrði auk skrifstofuaðstöðu gert ráð fyrir gistirými ásamt matsal sem myndi rýma um 50 manns. Útisvæðið yrði fjölbreytt bæði fyrir leiki og einnig tjaldbúðir. Reisa mætti skemmur sem rýma myndu búnað sem skátamiðstöðin þarf fyrir sína starfsemi.
Hugmyndir gera ráð fyrir að skátafélagið Árbúar myndu fá annað svæði og hentugra innan hverfisins. Skátasamband Reykjavíkur og Bandalag íslenskra skáta myndu hins vegar flytja að Rauðavatni með fundaaðstöðu og almennan skrifstofurekstur.

Endanleg ákvörðun tekin í samráði við skátafélögin
Þegar málið var kynnt fyrir stjórnum skátafélaganna á fundi í haust var áréttað að engar ákvarðanir yrðu teknar án samráðs við skátafélögin og að fjárhagslegar skuldbindingar yrðu skoðaðar sérstaklega.
Nú þegar skipulags- og matslýsing liggur fyrir verður hægt að skoða heildardæmið betur og verður það gert á næstunni og kynnt innan skátasamfélagsins þannig að ábendingar, rök með og móti verði skoðuð í heildarmyndinni.
Stjórn BÍS og framkvæmdastjóri nálgast verkefnið með opnum huga. „Ég vil leggja áherslu á að hér erum við að hugsa til framtíðar. Önum ekki að neinu en þetta opnar klárlega áhugaverðar hugmyndir og tækifæri. Það er svo gott að hafa enga tímapressu á sér,“ segir Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Skátamiðstöðvar, en hann hefur haldið utan um ferlið með umboði stjórnar.
Hér má skoða Skipulags- og matslýsingu vegna deiliskipulags.

Sólstrandarþema og tækifæri til að busla!
Sólstrandarþema og busl í vatnasafarí!
Drekaskátamótið verður haldið 6.-7. júní nk. á Úlfljótsvatni. Salka Guðmundsdóttir hefur verið í mótstjórn drekaskátamóts í
4 ár og er nú orðin mótstjóri. Mótið í ár er með sólstrandarþema og er dagskráin mjög spennandi. Munu drekaskátarnir fá tækifæri
til að busla í vatnadagskránni, klifra í klifurturninum, prufa bogfimi, poppa, keppa í sunnudagsleiknum og margt fleira skemmtilegt.
Lært mikið um skipulagningu og viðburðarstjórnun
Það er rosalega skemmtilegt að skipuleggja drekaskátamót, að sögn Sölku. Þegar hún byrjaði var það svolítið erfitt en eftir því sem hún gerði það oftar þá varð það auðveldara. Mótstjórn hefur fengið mikið frelsi við skipulagningu á mótinu sem þeim finnst frábært. Það hefur kennt Sölku mikið um skipulagningu og viðburðarstjórnun sem hún telur mjög gagnlegt. Salka segist vera rosalega heppin að fá að vinna með frábæru fólki í mótstjórn sem gerir allt skemmtilegra.
Skipuleggur mótið með vinum sínum
Að sögn Sölku er skemmtilegast að fá að skipuleggja mótið með vinum sínum og mæta svo á Úlfljótsvatn og sjá afraksturinn. „Að labba í kringum mótsvæðið og sjá brosandi drekaskáta allt í kringum mig, vitandi það að ég tók þátt í að skipuleggja vel heppnað mót er besta tilfinning í heimi.“
Salka mælir hiklaust með því að prófa að taka þátt í að skipuleggja skátaviðburð. Félagsskapurinn og reynslan sem fæst með því er ómetanleg. Auk þessi bendir hún á að það vanti sjálfboðaliða á drekaskátamótið og hvetur alla til að skrá sig. Skemmtilegt tækfæri fyrir alla og Salka lofar góðu fjöri!
Skráning er í fullum gangi inn á skatar.felog.is
Skátarnir sækja í smiðju heimskautafara
Vetraráskorun Crean, sem er samstarfsverkefni írskra og íslenskra skáta, hefur staðið yfir um nokkurn tíma og um síðustu helgi tóku íslensku þátttakendurnir þátt í útilífsnámskeiði í nágrenni Akureyrar og eru meðfylgjandi myndir frá því.
„Íslenski hópurinn er vel undirbúinn,“ segir Silja Þorsteinsdóttir, en hún er í forsvari fyrir hópinn sem stendur að Vetraráskoruninn á Íslandi. „Við höfum farið með íslensku skátana í tvær helgarferðir þar sem við höfum verið að undirbúa hópinn undir komandi verkefni.“ Skátarnir sem taka þátt eru 14 - 15 ára eða á svokölluðum dróttskátaaldri þar sem krefjandi útivistarverkefni eru hluti af starfinu. Vetraráskorunin er tileinkuð Tom Crean írskum heimskautafara og tekur dagskráin mið af því.
Silja hrósar Skíðasambandi skáta og Skátafélaginu Klakki sem stóðu fyrir útilífsnámskeiðinu fyrir norðan. Það hefði verið verið í alla staði frábært, mikill fjöldi fyrirlesara kom og miðlaði af þekkingu sinni þó að megináherslan hafi að sjálfsögðu verið á útivist og að vinna verkefni utandyra. Stjórnendur Vetraráskoruninnar kunna norðanmönnum bestu þakkir fyrir að taka vel á móti hópnum og Silja hvetur alla skáta til að hafa augun opin fyrir komandi útilífsnámskeiðum hjá Skíðasambandinu og Klakki.
Í Vetraráskoruninni fá þátttakendur góða þjálfun og fræðslu um búnað og rétta ferðahegðun. Farið hefur verið í gegnum mikið af fræðslunni hvernig eigi að bjarga sér við krefjandi aðstæður og kynnast því hvar mörkin liggja. Verkefni skátanna eru t.d. að sofa í tjöldum, elda mat utandyra og taka þátt í krefjandi gönguferð sem reynir á færni þeirra í rötun og leiðarvali.
Nú um helgina koma írsku skátarnir til landsins og hitta íslensku félaga sína í fyrsta sinn. Eins og í góðum heimskautaleiðöngrum þarf að taka mið af breyttum aðstæðum. Fllug þeirra á föstudag var fellt niður vegna veðurs og þau koma á laugardag og þá heldur hópurinn á Úlfljótsvatn. Eftir helgi verður haldið á Hellisheiði til að kynnast í raun vetraraðstæðum.
Nánari upplýsingar um Vetraráskorun skáta veitir Silja Þorsteinsdóttir, s. 8411575, netfang silja@skatar.is









