Skátarnir sækja í smiðju heimskautafara

Vetraráskorun Crean, sem er samstarfsverkefni írskra og íslenskra skáta, hefur staðið yfir um nokkurn tíma og um síðustu helgi tóku íslensku þátttakendurnir þátt í útilífsnámskeiði í nágrenni Akureyrar og eru meðfylgjandi myndir frá því.

„Íslenski hópurinn er vel undirbúinn,“ segir Silja Þorsteinsdóttir, en hún er í forsvari fyrir hópinn sem stendur að Vetraráskoruninn á Íslandi. „Við höfum farið með íslensku skátana í tvær helgarferðir þar sem við höfum verið að undirbúa hópinn undir komandi verkefni.“ Skátarnir sem taka þátt eru 14 – 15 ára eða á svokölluðum dróttskátaaldri þar sem krefjandi útivistarverkefni eru hluti af starfinu. Vetraráskorunin er tileinkuð Tom Crean írskum heimskautafara og tekur dagskráin mið af því.

Silja hrósar Skíðasambandi skáta og Skátafélaginu Klakki sem stóðu fyrir útilífsnámskeiðinu fyrir norðan.  Það hefði verið verið í alla staði frábært, mikill fjöldi fyrirlesara kom og miðlaði af þekkingu sinni þó að megináherslan hafi að sjálfsögðu verið á útivist og að vinna verkefni utandyra. Stjórnendur Vetraráskoruninnar kunna norðanmönnum bestu þakkir fyrir að taka vel á móti hópnum og Silja hvetur alla skáta til að hafa augun opin fyrir komandi útilífsnámskeiðum hjá Skíðasambandinu og Klakki.

Í Vetraráskoruninni fá þátttakendur góða þjálfun og fræðslu um búnað og rétta ferðahegðun. Farið hefur verið í gegnum mikið af fræðslunni hvernig eigi að bjarga sér við krefjandi aðstæður og kynnast því hvar mörkin liggja. Verkefni skátanna eru t.d. að sofa í tjöldum, elda mat utandyra og taka þátt í krefjandi gönguferð sem reynir á færni þeirra í rötun og leiðarvali.

Nú um helgina koma írsku skátarnir til landsins og hitta íslensku félaga sína í fyrsta sinn. Eins og í góðum heimskautaleiðöngrum þarf að taka mið af breyttum aðstæðum. Fllug þeirra á föstudag var fellt niður vegna veðurs og þau koma á laugardag og þá heldur hópurinn á Úlfljótsvatn. Eftir helgi verður haldið á Hellisheiði til að kynnast í raun vetraraðstæðum.

Nánari upplýsingar um Vetraráskorun skáta veitir Silja Þorsteinsdóttir, s. 8411575, netfang silja@skatar.is