ALHEIMSMÓT SKÁTA Á INTERNETINU

ALHEIMSMÓT Á INTERNETINU BOÐAÐ Í LJÓSI ÁSTANDSINS

Í ljósi heimsfaraldurs hefur verið ákveðið að boða til sérstaks alheimsmóts skáta á internetinu helgina 3.-5. apríl en mótið er fyrir alla skáta í heiminum. Allir skátar 13 ára eða eldri geta tekið þátt á mótinu sjálf en ætlast er til þess að skátar yngri en 13 ára taki þátt undir eftirliti foreldra. Alheimsmót skáta í loftinu og á internetinu, eða JOTA/JOTI eins og það er skammstafað á ensku, er skátamót sem haldið er á alþjóðavísu á hverju ári þriðju helgina í október. Þar gefst skátum allstaðar að úr heiminum tækifæri til þess að kynnast og gera ýmislegt saman gegnum veraldarvefinn eða með fjarskiptabúnaði. Mótið er á vegum WOSM, heimssamtaka skáta en í ljósi ástandsins ákváðu samtökin að boða nú til sérstaks aukamót um næstu helgi.

DAGSKRÁ, ÞÁTTTAKENDUR OG MÓTSVÆÐ HÝST Á NETINU

Alheimsmótið mun fara fram á heimasíðu mótsins, jotajoti.info, en þar hýsir mótið rafrænt mótsvæði fyrir mótið. Á meðan mótið stendur yfir geta skátar á öllum aldri tekið þátt í allskyns dagskrá í þema hinna ólíku dagskrárþorpa sem mynda hið rafræna mótsvæði. Áhersla í allri dagskrá mótsins verður andleg líðan og hvað við getum gert sem skátar á tímum COVID-19.

Hið rafræna mótsvæði JOTI mótsins sem mun fara fram á heimasíðu mótsins.

HVERNIG TEK ÉG ÞÁTT?

Til þess að taka þátt í mótinu þarf fyrst að búa til aðgang á scout.org og taka síðan þátt í netnámskeiði um öryggi á internetinu, þessum skrefum er hægt er að ljúka þessum tveimur skrefum áður en að mótið hefst. Þegar mótið hefst skrá þátttakendur sig síðan inn á mótið með þessum sama aðgangi.

Nýskráningar viðmót á heimasíðu WOSM, scout.org

ALDURSVIÐMIÐ MÓTSINS

Alheimsmót skáta á internetinu er fjölbreytt mót sem stendur öllum aldurshópum til boða en er þó fyrst og fremst hugsað fyrir skáta 13 ára og eldri. Þau sem eru 18 ára og eldri skrá sig til þátttöku og hegða sér í samræmi við reglur mótsins og skátalög.  Þau sem eru á milli 13 og 18 ára í aldri ber að láta forráðamann vita af þátttöku sinni og kynna umgjörð mótsins fyrir þeim, þau geta síðan tekið þátt í mótinu án frekari aðkomu fullorðinna og heita því að fylgja reglum mótsins og skátalögum. Þau sem eru yngri en 13 ára geta tekið þátt en ætlast er til þess að þau geri það undir eftirliti forráðamanns.

NÁNAR UM DAGSKRÁNA

Dagskrá mótsins skiptist eftir þema dagskrárþorpa rafræna mótsvæðisins.

  • Spjallsvæði mótsins (e. JOTI Chat) er vinsælasta þorpið á hverju ári, þar geta skátar hvaðanæva úr heiminum talað saman í gegnum ScoutLink forritið en þar er hægt að finna umræðuhópa út frá tungumáli sem viðkomandi talar eða út frá umræðuefni sem viðkomandi langar að ræða.
  • Leikjasvæði mótsins (e. Fun Zone) mun bjóða þátttakendum að tengjast saman gegnum ólíka miðla til að fara saman í leiki, kenna dansa, fara í allskyns keppnir og jafnvel spila saman tölvuleiki
  • Hæfileikakeppni mótsins (e. Youth Got Talent Stage) er rafrænt svæði þar sem þátttakendur geta skoðað myndbönd af skátum að leika allskyns listir sínar og gefið þeim atkvæði sitt. Þá geta þátttakendur sjálf lagt sína hæfileika í púkk á slóðinni tribute.co/joti/
  • Griðarstaður heilsu og vellíðan (e. Health and Wellbeing Oasis) mun halda úti dagskrá, fræðslu, samkomum og umræðum tengdum því hvernig við hugum að líkamlegri og andlegri heilsu okkar, fjölskyldna okkar, vina okkar og samfélags á þessum skrítnu tímum.
  • Mannúðar miðstöðin (e. Humanitarian Hub) mun safna saman hugmyndum og lykilupplýsingum um hvernig megi tryggja öryggi með bestum máta og reyna að miðla skilning á ólíkum áhrifum COVID-19 víða um heim og hvernig við getum öll hjálpast að við þær áskoranir að heiman.
  • Bæli rafrænna heimsborgara (e. Digital Citizenship Den)  verður samkomustaður þeirra sem nota internetið til að leiða til góðra áhrifa í heiminum. Þar geta þátttakendur bæði fræðst af öðrum og miðlað af eigin reynslu til annarra.
  • Tjaldsvæði skátaforingjans (e. Leader’s Camp) mun afla og miðla út upplýsingum og stuðningsefni til að skátaforingjar geti haldið sínum skátum virkum en þó öruggum í skátastarfi á þessum krefjandi tímum.
  • Hlaðvarp mótsins (e. JOTI Radio) mun varpa út þáttum, viðtölum, tónlist og fræðslu, áhersla verður lögð á efni tent andlegri líðan
  • Streymisveita mótsins (e. JOTI live) mun vera með beint streymi af viðtölum við skáta um allan heim sem deila góðum fréttum og sögum tengt núverandi ástandi. Einnig verður völdum hlutum streymt frá öðrum dagskrárþorpum s.s. frá mannúðar miðstöðinni og griðarstað heilsu og vellíðan.

TAKTU ÞÁTT

Við hvetjum alla til þess að fylgjast vel með framvindu mótsins og taka þátt í því. Engar kröfur eru gerðar um það að fólk sé skátar að fyrra bragði og ekki þarf að vera með frá upphafi til enda. Hver sem er getur slegist í hópinn hvenær sem er svo lengi sem þau fylgja reglum mótsins og hegða sér í samræmi við alþjóða bræðralag og friðarhugsjón skátahreyfingarinnar á heimsvísu.