Sólstrandarþema og busl í vatnasafarí!

Drekaskátamótið verður haldið 6.-7. júní nk. á Úlfljótsvatni. Salka Guðmundsdóttir hefur verið í mótstjórn drekaskátamóts í 4 ár og er nú orðin mótstjóri. Mótið í ár er með sólstrandarþema og er dagskráin mjög spennandi. Munu drekaskátarnir fá tækifæri
til að busla í vatnadagskránni, klifra í klifurturninum, prufa bogfimi, poppa, keppa í sunnudagsleiknum og margt fleira skemmtilegt.

Lært mikið um skipulagningu og viðburðarstjórnun

Það er rosalega skemmtilegt að skipuleggja drekaskátamót, að sögn Sölku. Þegar hún byrjaði var það svolítið erfitt en eftir því sem hún gerði það oftar þá varð það auðveldara. Mótstjórn hefur fengið mikið frelsi við skipulagningu á mótinu sem þeim finnst frábært. Það hefur kennt Sölku mikið um skipulagningu og viðburðarstjórnun sem hún telur mjög gagnlegt. Salka segist vera rosalega heppin að fá að vinna með frábæru fólki í mótstjórn sem gerir allt skemmtilegra.

Skipuleggur mótið með vinum sínum

Að sögn Sölku er skemmtilegast að fá að skipuleggja mótið með vinum sínum og mæta svo á Úlfljótsvatn og sjá afraksturinn. „Að labba í kringum mótsvæðið og sjá brosandi drekaskáta allt í kringum mig, vitandi það að ég tók þátt í að skipuleggja vel heppnað mót er besta tilfinning í heimi.“

Salka mælir hiklaust með því að prófa að taka þátt í að skipuleggja skátaviðburð. Félagsskapurinn og reynslan sem fæst með því er ómetanleg. Auk þessi bendir hún á að það vanti sjálfboðaliða á drekaskátamótið og hvetur alla til að skrá sig. Skemmtilegt tækfæri fyrir alla og Salka lofar góðu fjöri!

Skráning er í fullum gangi inn á skatar.felog.is