Verkefni 35 – Skáti er sjálfstæður

Verkefni dagsins í dag er tileinkað tíundu, og seinustu, grein skátalaganna ‘Skáti er sjálfstæður. Því er verkefni dagsins að baka bananabrauð, skemmtilegt verkefni sem þarf alls ekki að vera erfitt né flókið. En mikilvægt er að undirbúa verkefnið vel áður en þið byrjið:

  1. Fáðu leyfi og aðstoð hjá foreldrum
  2. Gakktu úr skugga um að þú eigir það sem þarf í uppskriftina, líka áhöldin.
  3. Þvoðu hendur vel og gættu þess að vinnusvæðið sé hreint. 
  4. Finndu til allt hráefnið og settu það á vinnusvæðið. 
  5. Byrjaðu verkefnið og fylgdu leiðbeiningunum vel.

Eftir baksturinn er mikilvægt að ganga vel frá. Þvo upp eða setja allt í uppþvottavélina og þurrka vel af borðinu.

Hér er uppskrift að einföldu (en ljúffengu) bananabrauði. 

Áhöld:

  • Skál
  • Desilítramál
  • Mæliskeiðar
  • Sleif
  • Diskur
  • Gaffall
  • Kökuform (eitt stórt brauðform)

Hráefni

  • 1 egg
  • 2 dl sykur
  • 4 dl hveiti
  • ½ tsk matarsódi
  • 2-3 vel þroskaðir bananar
  • 1 dl mjólk

Aðferð

  1. Stilltu ofninn á 180°C og blástur ef hægt er, annars á yfir- og undirhita.
  2. Hrærðu vel saman egg og sykur, þar til blandan verður ljós á litinn. Það er gott að nota hrærirvél í þetta verkefni en mundu að fá aðstoð hjá fullorðnum. 
  3. Stappaðu bananana vel á disknum og bættu þeim út í blönduna. 
  4. Bættu hveitinu og matarsódanum saman við og hrærðu aðeins saman. Þetta má gera með sleif ef þú hefur verið að nota hrærivélina hingað til. 
  5. Bættu mjólkinni saman við og hrærðu aðeins þar til að deigið er orðið vel samlagað. 
  6. Helltu öllu saman í eitt aflangt brauðform eða tvö lítil. Það er gott að smyrja formin aðeins með olíu eða smjöri. 
  7. Bakaðu í miðjum ofni í um 35-45 mínútur. Eitt stórt brauð er lengur að bakast en tvö lítil. Til að vita hvort brauðið er tilbúið er hægt að stinga í það prjóni. Ef hann kemur hreinn upp þá er brauðið til en ef á honum er blautt deig þarf að baka brauðið lengur. 
  8. Láttu brauðið kólna vel áður en þú tekur það úr forminu. 

Bónus: Ef þú vilt getur þú bætt við um 70 gr af niður söxuðu súkkulaði í deigið um leið og þú setur hveitið saman við. 

Eftir bakstur:

  • Þvo allt og ganga frá.
  • Þurrka af borðunum
  • Þvo hendur
  • Borða brauðið t.d. með smá smjöri. 

 

Verði ykkur að góðu 🙂

#skátarnir #stuðkví