Verður skátamiðstöð við Rauðavatn?

Uppbygging skátamiðstöðvar á nýjum stað hefur verið til skoðunar og er horft til staðsetningar sem gefur möguleika í útivist og svigrúm til uppbyggingar á tengdri þjónustu s.s. gistiaðstöðu sem rýma myndi 50 manns og jafnvel hægt að slá upp tjaldbúð. Svigrúm væri einnig fyrir geymslu á búnaði í skemmum.

Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi segir engar ákvarðanir um flutning hafa verið teknar en skátar séu opnir fyrir áhugaverðum hugmyndum og tækifærum. Fyrirséð er aukin byggð í Hraunbænum sem takmarkar svigrúm skáta á núverandi stað.

Nýi staðurinn sem er til skoðunar er við Rauðvatn og jaðar Hólmsheiðar, en þessi staðsetning tengist vel útivistarsvæði sem þar er. Nýja skátasvæðið er í brekkunni fyrir neðan Hádegismóa og nýtur því skjóls fyrir norðanáttinni. Þar hafa staðið sumarhús í gegnum tíðina og mikið er um hávaxin tré m.a. lerki, birki og einstaka reynitré, eins og segir í skipulags- og matslýsingu vegna deiliskipulags, sem er í kynningarferli.

Möguleiki á gistiaðstöðu

Verði af þessum hugmyndum skapast nýir möguleikar í starfsemi skáta, en í byggingum yrði auk skrifstofuaðstöðu gert ráð fyrir gistirými ásamt matsal sem myndi rýma um 50 manns. Útisvæðið yrði fjölbreytt bæði fyrir leiki og einnig tjaldbúðir. Reisa mætti skemmur sem rýma myndu búnað sem skátamiðstöðin þarf fyrir sína starfsemi.

Hugmyndir gera  ráð fyrir að skátafélagið Árbúar myndu fá annað svæði og hentugra innan hverfisins. Skátasamband Reykjavíkur og Bandalag íslenskra skáta myndu hins vegar flytja að Rauðavatni með fundaaðstöðu og almennan skrifstofurekstur.

Endanleg ákvörðun tekin í samráði við skátafélögin

Þegar málið var kynnt fyrir stjórnum skátafélaganna á fundi í haust var áréttað að engar ákvarðanir yrðu teknar án samráðs við skátafélögin og að fjárhagslegar skuldbindingar yrðu skoðaðar sérstaklega.

Nú þegar skipulags- og matslýsing liggur fyrir verður hægt að skoða heildardæmið betur og verður það gert á næstunni og kynnt innan skátasamfélagsins þannig að ábendingar, rök með og móti verði skoðuð í heildarmyndinni.

Stjórn BÍS og framkvæmdastjóri nálgast verkefnið með opnum huga. „Ég vil leggja áherslu á að hér erum við að hugsa til framtíðar. Önum ekki að neinu en þetta opnar klárlega áhugaverðar hugmyndir og tækifæri. Það er svo gott að hafa enga tímapressu á sér,“ segir Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Skátamiðstöðvar, en hann hefur haldið utan um ferlið með umboði stjórnar.

Hér má skoða Skipulags- og matslýsingu vegna deiliskipulags.