Skátastarf getur hafist aftur 4. maí

Drekaskátar á Drekaskátamóti á Úlfljótsvatni 2017

Skátastarfið getur hafist aftur af krafti!

Skátastarf um land allt getur hafist aftur af krafti í næstu viku en skátafélögin vinna nú hörðum höndum að undirbúningi þess að geta tekið aftur á móti þátttakendum sínum. Skátar og forráðamenn mega vænta þess að fá nánari upplýsingar frá sínu skátafélagi um hvernig farið verður aftur af stað.

Mikil ánægja ríkir hjá félögunum að geta hitt skátana sína á ný og mörg félög skoða að meira að segja að framlengja starfsárið sitt eða að bjóða upp á einhverskonar aukatekið sumarstarf til að tryggja að skátarnir fái örugglega fullt af félagsskapi, útiveru og skemmtun fyrstu mánuði eftir strangar samkomutakmarkanir.

Vonast til að ná góðum ferðalögum og útilegum í sumar

Eftir að ljóst varð að ekki verður af mótahaldi sumarsins þar sem Drekaskátamóti var aflýst og Landsmóti skáta frestað til sumarsins 2021 vilja mörg skátafélaganna skoða hvort ekki takist að bjóða skátunum þeirra í dagsferðir og útilegur í sumar. Vonast er til þess að yfirvöld gefi bráðlega út góðar leiðbeiningar um hvernig starfsemi tjaldsvæða og ferðum hópa skuli háttað í sumar svo hægt sé að skipuleggja slíka viðburði með öryggið í fyrirrúmi.

Starfið verður mest úti við

Flest skátafélög stefna að því að halda starfsemi sinni að mestu eða öllu leiti utandyra það sem eftir lifir starfsársins. Þetta sé bæði gert til að auka útiveru sjálfboðaliða og þátttakenda eftir skeið þar sem áætla að flestir hafi verið mikið innivið. En skátafélögin vilja líka með þessu reyna að vera sem minnst í almannarými og lágmarka þannig áfram smithættu í starfinu sínu.

Auglýsing heilbrigðiráðherra

Heilbrigðisráðherra birti auglýsingu í stjórnartíðindum um nýjar fjöldatakmarkanir sem taka gildi þann 4. maí. Í 8. grein þeirrar auglýsingar segir

Ákvæði 3., 4. og 5. gr. auglýsingar þessarar taka ekki til nemenda í starfsemi leik- og grunn­skóla þannig að þar sé hægt að halda óskertri vistun og kennslu. Sama á við um starfsemi dag­foreldra, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og aðra lögbundna þjónustu á leik- og grunnskólastigi. Í því felst að ekki eru takmarkanir á því hversu margir nemendur geti verið saman komnir eða nálægð þeirra í framang­reindri starfsemi, þ.m.t. í frímínútum og mötuneyti. Öðrum en nemendum ber í framan­greindri starfsemi að fara eftir ákvæðum auglýsingarinnar eins og unnt er.

Með sama hætti og í 1. mgr. taka ákvæði 3., 4., 5. og 6. gr. auglýsingarinnar ekki til íþrótta- og æskulýðsstarfs barna á leik- og grunnskólaaldri. Um fjölda og nálægð annarra en barna á umrædd­um aldri fer eftir almennum reglum auglýsingarinnar.

Auglýsingin tekur hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna né til loftfara og skipa.

Þannig eru ekki settar fjölda- eða nálægðartakmarkanir fyrir skáta á grunnskólaaldri en eldri þátttakendur og sjálfboðaliðar sem koma saman með þeim þurfa áfram að gæta þess að vera ekki fleiri en 50 talsins og halda áfram að gæta 2 metra reglunnar milli sín og þeirra.

Í 7. grein auglýsingarinnar er þess getið að áfram skal gæta góðra þrifa og sótthreinsunar. Á öllum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur skuli þrifið eins oft og unnt er, þá sérstaklega algenga snertifleti, og tryggja að sótthreinsandi vökvi fyrir hendur sé við alla innganga og eins víða um rými og talin er þörf á. Þannig munu skátafélögin að sjálfsögðu gæta vel að handþvotti og þrifum á þeim rýmum sínum sem notuð verða í skátastarfinu.

Allskyns nýjungar á lofti

Í samtölum við félagsforingja allra skátafélaganna kom í ljós að ýmsar hugmyndir um nýjungar í skátastarfinu eru á kreiki. Sumir undirbúa smiðjur í sumar fyrir sína skáta, aðrir ætla að halda sumarhátíð til að fylgja sínum þátttakendum út í sumarið meðan aðrir leita leiða til að halda félagsmót og bjóða fjölskyldum ef kostur gefst í sumar. Það verður því ýmislegt spennandi í gangi í skátastarfinu að vana og hlakkar okkur til að segja frá skemmtilegum verkefnum sem fæðast í sumar vegna þessa.