skyndihjálp 26.05.2021

Undirbúningur fyrir Útilífsskóla skáta byrjaður!

Undirbúningur fyrir Útilífsskóla skáta 2021 er byrjaður!

skyndihjálp 26.05.2021

Í gær, 26. maí 2021, mætti hópur af duglegu, spenntu og flottu fólki sem á það sameiginlegt að ætla að vinna í Útilífsskóla skáta sumarið 2021. Til að undirbúa sig fyrir námskeiðin og vera tilbúin í allt þá byrjuðu þá á skyndihjálparnámskeiði sem var í leiðsögn hinnar frábæru Laufeyjar Elísabetar Gissurardóttur, sem hefur kennt skyndihjálp í þrjá áratugi.

Laufey hafði orð á því hversu flottur þessi hópur væri, greinilega tilbúin í að læra og meðtaka nýjar upplýsingar, spennt fyrir komandi tímum og má segja að starfskostur Útilífsskólans sé vel skipaður í ár.

Gaman verður að fylgjast með þessum hópi takast á við skemmtilegar áskoranir sumarsins en skráning í Útilífsskóla skáta er í fullum gangi og hægt að nálgast frekari upplýsingar á www.utilifsskoli.is.


Frétt frá Skátaþingi 2021

Skátaþing 2021

Skátaþing 2021 var annað Skátaþingið sem haldið var rafrænt. Jón Þór Gunnarsson var fundarstjóri og Kolbrún Ósk Pétursdóttir og Védís Helgadóttir fundarritarar. Þingið gekk vel fyrir sig og verður hér farið yfir það helsta sem fram fór á þinginu.

Allar upplýsingar um þingið, fundargerð og fleira er að finna á www.skatarnir.is/skatathing-2021.

Staðfesting á skipan félagsforingjafundar

Á Skátaþinginu var Sigurður Viktor Úlfarsson, formaður uppstillingarnefndar BÍS, með framsögu þar sem hann sagði frá því að stjórnarmeðlimur BÍS hafi hætt í stjórn í janúar og því hafi uppstillingarnefnd þurft að búa til verklag til að finna nýjan stjórnarmeðlim til þess að uppfylla lögin. Á félagsforingjafundi var Huldar Hlynsson skipaður í stjórn BÍS og lagði Sigurður það til að niðurstaða félagsforingjafundarins yrði lögð fram til Skátaþings til staðfestingar og að kosið yrði um hvort skipan Huldars yrði út kjörtímabilið.

Tillaga Sigurðar um að staðfesta kosningu félagsforingjafundar var samþykkt og heldur því Huldar Hlynsson sæti sínu í stjórn BÍS út kjörtímabilið.

Jafnréttis- og mannréttingastefna BÍS

Ein þingsályktunartillaga var lögð fram af Þórhildi Elínardóttur Magnúsdóttur um jafnréttis- og mannréttindastefnu BÍS. Þórhildur sagði frá því að nánast öll skátabandalög væru með slíka stefnu og að í stefnu BÍS til 2025 komi fram að BÍS þurfi að semja slíka stefnu og að best væri að gera það sem fyrst. Tillagan var samþykkt.

Lagabreytingar

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir lagði fram 12 lagabreytingatillögur og voru 3 samþykktar. Hér koma þær uppfærðar en allar lagabreytingartillögurnar eru inn á heimasíðu skátaþingsins.

Ný 16. grein skátalaga um árlegt Ungmennaþing

Ungmennaráð og stjórn BÍS skulu a.m.k. árlega boða til Ungmennaþings. Til Ungmennaþings skal boða með minnst 6 vikna fyrirvara. Ungmennaþing skal haldið í síðasta lagi fimm vikum fyrir skátaþing ár hvert. Ungmennaþing er vettvangur fyrir skáta 25 ára og yngri til að koma saman og ræða málefni er varða þau sérstaklega. Á Ungmennaþingi geta ungmenni í skátunum t.d. komið sér saman um lagabreytingar og aðrar tillögur fyrir Skátaþing ár hvert ásamt því að kjósa á kosningaári áheyrnafulltrúa ungmenna í stjórn BÍS og a.m.k. þrjá fulltrúa í ungmennaráð. Aðeins eru kjörgengir þeir skátar sem eru 25 ára eða yngri á því ári sem kosið er.

Auka Ungmennaþing skal halda ef stjórn eða ungmennaráð telja það nauðsynlegt og skal boða til þess með minnst 15 daga fyrirvara. Auka Ungmennaþing er undanskilið því skilyrði að Ungmennaþing skal vera haldið minnst fimm vikum fyrir skátaþing ár hvert.

Sé þessi lagabreytingartillaga samþykkt verður núverandi 16. grein að 17. grein, 17. grein að 18. grein o.s.frv.

18. grein um jafna aldursdreifingu í ráðum, nefndum og stjórnum.

Á vegum BÍS skal ætíð starfa sérstök 5 manna uppstillingarnefnd, kosin á Skátaþingi til tveggja ára. Í nefndinni skal vera a.m.k. einn einstaklingur sem er 25 ára eða yngri á því ári sem nefndin er skipuð. Nefndin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum.

Uppstillingarnefnd skal leita eftir fólki til starfa fyrir Bandalag íslenskra skáta samkvæmt því sem fram kemur í 18. grein, 20. grein, 22. grein, 23. grein, 26. grein og 28. grein laga þessara og tryggja að í hvert laust sæti sé a.m.k. einn frambjóðandi. Við störf sín skal uppstillingarnefnd ávallt leita eftir hæfum frambjóðendum og gæta þess, eftir því sem hægt er, að jafnræði sé með kynjunum í stjórn, nefndum og ráðum BÍS.

Framboð til áðurnefndra embætta má tilkynna til nefndarinnar og skal það vera skriflegt og undirritað af frambjóðanda. Framboð skulu hafa borist í síðasta lagi 3 vikum fyrir Skátaþing. Nefndin skal ljúka störfum í síðasta lagi 17 dögum fyrir þing. Nöfn, netföng og símanúmer nefndarmanna skulu tilgreind í fundarboði til Skátaþings.

Stjórn BÍS skal kalla uppstillingarnefnd saman í síðasta lagi 15. janúar.

25. grein um fjölgun í fastaráð

Á vegum stjórnar BÍS starfa ávallt fimm fastaráð: starfsráð, alþjóðaráð, útilífsráð, ungmennaráð og stjórn Skátaskólans.

Kosnir skulu að lágmarki þrír í hvert fastaráð til tveggja ára. Ungmennaráð er kosið á ungmennaþingi. Að auki situr stjórnarmaður í ráðinu og getur eftir atvikum verið formaður þess. Stjórn getur ákveðið að fleiri séu kjörnir í ákveðið fastaráð með auglýsingu með fundarboði skátaþings eða fundarboði ungmennaþings ef um er að ræða fjölgun meðlima ungmennaráðs.

Í hverju fastaráði BÍS skal vera að lágmarki einn fulltrúi á aldrinum 18-25 ára. Skátar sem bjóða sig fram í ungmennaráð skulu vera á aldrinum 16-25 ára á því ári sem þeir bjóða sig fram.

Hlutverk fastaráðanna er eftirfarandi:

  • Hlutverk starfsráðs er að styðja við og efla starf skátafélaganna í samráði við stjórnir skátafélaga, sveitarforingja og flokksforingja.
  • Hlutverk alþjóðaráðs er að stuðla að því að BÍS fylgi stefnum og nýti sér stuðningsefni frá alþjóðasamtökum skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt því að annast samskipti við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.
  • Hlutverk útilífsráðs er að hvetja til viðburða sem fela í sér útilíf og styðja við þá útilífsviðburði sem bæði skátafélög og BÍS standa fyrir.
  • Hlutverk ungmennaráðs er að hvetja til og auka ungmennalýðræði innan stjórnkerfis hreyfingarinnar og stuðla að virkri þátttöku ungmenna við stefnumótun dagskrár hreyfingarinnar og eigin skátastarfs.
  • Hlutverk stjórnar Skátaskólans er að stuðla að þjálfun með skipulagningu námskeiða, er taki mið af grunngildum Bandalags íslenskra skáta.

Næstu viðburðir

Í lokin minnti Ragnheiður Silja frá Garðbúum alla á að skrá sig á Skátasumarið og að skráningarfrestur væri til 30. apríl. Frekari upplýsingar um Skátasumarið má finna hér. [Skráningarfrestur hefur verið lengdur til 14. maí]

Einnig sagði Harpa Ósk, stjórnarmeðlimur BÍS, frá því að í haust verði haldinn aðalfundur þar sem farið verður yfir hvatakerfi og umgjörð í skátastarfi. Auk þess verður Kveikjan haldin í ágúst en það er nýr viðburður þar sem smiðjur verða opnar fyrir skáta, skátafélög og skátaforingja til að mæta, læra nýja hluti og undirbúa veturinn. Viðburðirnir verða auglýstir betur þegar nær dregur.

Hittingar á næsta leyti

Skátaþingið 2021 gekk vel og ekki að furða enda flestir vanir því núna að taka þátt í viðburðum á netinu. Skátamiðstöðin þakkar öllum fyrir þátttökuna og við hlökkum til að hittast sem fyrst í raunheimum, hvort sem það verður á Skátasumarinu, Kveikjunni, næsta aðalfundi, í Skátamiðstöðinni eða hvar sem það verður 🙂

Með skátakveðju úr Skátamiðstöðinni


Sumardagurinn fyrsti 2021

Sumardagurinn fyrsti

Sumardagurinn fyrsti 2021

Nú er að detta í garð annar sumardagurinn fyrsti þar sem covid setur smá strik í reikninginn en ekki örvænta! Það er hægt að gera sér glaðan dag með hinum ýmsum verkefnum og leikjum sem til eru og njóta fyrsta sumardagsins í faðmi fjölskyldunnar 🙂

Hér eru hugmyndir af áskorunum, þrautum eða verkefnum sem þið getið gert í tilefni dagsins:

Skátafélagið Mosverjar ætlar að vera með litla tindaáskorun fyrir börnin og fjölskyldur þeirra. „Sigraðu tinginn“ er létt ganga á Lágafellið og er leiðin stikuð og vel merkt. Áskorunin verður opin frá 10-16 og byrjar og endar á bílastæði Lágafellskirkju. Þar verða skátar til að leiðbeina og einnig veita viðurkenningar þegar komið er aftur niður. Frekari upplýsingar um viðburðinn má finna hér. 

Skátafélagið Fossbúar stendur fyrir skemmtilegum fjölskylduratleik þar sem þau ætla að birta lista af verkefnum sem fjölskyldan þarf að leysa, taka mynd og birta á samfélagsmiðlum. Frekari upplýsingar um viðburðinn og verkefnalistann má finna hér. 

Sumarbingó fyrir fjölskylduna. Hér er skemmtilegt bingó sem hægt er að gera leik úr fyrir alla fjölskylduna. Hver er fyrstu til að finna B? En O? En allt spjaldið? Smelltu hér til að opna Sumarbingó.

Stuðkví verkefnin eru skemmtileg verkefni sem hægt er að grípa í við mörg tækifæri. Hér eru nokkur skemmtileg verkefni sem henta sumardeginum fyrsta:

  • Hunangsflugur – er ekki um að búa til drykkjarstöð fyrir hunangsflugurnar sem fara fljótlega að sveima hér um allt?
  • Heimagerður ís í poka – er sumardagurinn fyrsti ekki fullkominn dagur í að búa til ís?
  • Knús og músarhús – að knúsa tré er skemmtileg og falleg athöfn sem við ættum öll að gera reglulega. Svo er líka hægt að byggja fallegt músarhús!
  • Alvöru gönguferð – ef þið ætlið að nýta daginn í að fara í gönguferð þá er hér farið yfir hvernig er gott að undirbúa sig fyrir langa gönguferð.
  • Fuglafóður – sumarið er komið, en það er kannski smá tími í að allt verði grænt og blómin fara að spretta. Því er mjög fallegt að hjálpa fuglunum okkar aðeins og gefa þeim eitthvað gott að borða.

 

Gleðilegt sumar og njótið dagsins!

sumardagurinn fyrsti banner

Skátaþing 2021

Kynningarmyndbönd fyrir Skátaþing 2021

Kynningarmyndbönd fyrir Skátaþing 2021

Það er að mörgu að huga fyrir Skátaþing en hér eru þrjú myndbönd sem þið getið skoðað til að kynna ykkur frekar þau málefni sem verða til umfjöllunar á Skátaþinginu 2021.

Í fyrsta myndbandinu fer Kristinn, framkvæmdarstjóri BÍS, yfir ársreikninga BÍS:

Í öðru myndbandinu fer Kristinn yfir ársreikninga Skátamóta og ÚSÚ:

Í þriðja myndbandinu fer Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, yfir tillögu að starfsáætlun BÍS 2021-2025:

Frekar upplýsingar um þingið eru inn á www.skatarnir.is/skatathing


Ný endurnýtanleg sakavottorðseyðublöð

Ný endurnýtanleg sakavottorðseyðublöð

Skátamiðstöðin hefur í samvinnu við embætti Ríkissaksóknara útbúið nýtt eyðublað til undirritunar vegna heimildar til að leita í sakaskrá. Nýja eyðublaðið gildir á meðan skáti er í starfi, því er hægt að fletta upp stöðu í sakaskrá árlega án þess að skila þurfi inn nýju skjali. Skjalinu ber að eyða láti skáti af störfum eða óski sérstaklega eftir því. Því þarf eingöngu að skila nýju skjali ef hlé hefur verið gert á skátastarfi.

Þetta fyrirkomulag ætti því að auðvelda okkur öllum utanumhald við skil á sakavottorðsheimildum.

Þeim sem eftir eiga að skila fyrir þetta starfsár geta skilað nýja eyðublaðinu.

Eyðublaðið er þannig útbúið að hægt er að fylla inn allt nema undirskrift áður en prentað er út. Skönnuðu afriti af undirrituðu eyðublaði má senda þjónustufulltrúa Skátamiðstöðvarinnar á skatar@skatar.is

Nýja eyðublaðið má finna hér.


Norðurlandaþing

Norðurlandaþing

Alþjóðaráð leitar eftir hressum og drífandi skáta til að sinna starfi tengiliðs á milli skipuleggjenda norðurlandaþings og fararhóp Íslands. Starfið felst í því að halda utan um og miðla dagskrá þingsins og þau verkefni sem íslenskir þing gestir þurfa að leggja af hendi. Tímarammi verkefnisins er frá 22. febrúar til og með lokadegi þingsins sem er 16. maí. Þingið verður haldið í gegnum netið en stefnt er á að reyna að safna saman íslenska fararhópnum saman.

Um er að ræða frábært tækifæri til að taka þátt í alþjóðlegu starfi og kynnast öðrum skátum frá norðurlöndunum án þess að þurfa að finna vegabréfið.

Fyrir frekari upplýsingar vinsamlegast hafið samband í gegnum netfangið international@skatarnir.is


Styrkir til skátafélaga

Styrkir til skátafélaga

Nýverið úthlutaði Mennta- og menningarmálaráðherra styrkjum til uppbyggingar á sviði menningarmála. Skemmtilegt er að segja frá því að fimm skátafélög fengu úthlutað styrkjum til uppbyggingar á skátaheimilum og skálum.

Skátafélag Akraness vegna uppbyggingar og viðhalds á skála í Skorradal, 500 þúsund kr.
Skátafélagið Garðbúar til að bæta aðstöðu í skátaheimili, 300 þúsund kr.
Skátafélagið Kópur vegna framkvæmda við skála, 300 þúsund kr.
Skátafélagið Mosverjar vegna klæðningar á skála, 300 þúsund kr.
Skátafélagið Vogabúar vegna uppbyggingar skálans Dalakots, 300 þúsund kr.

Við óskum þeim til hamingju með styrkveitinguna.

Sjá nánar í frétt frá Stjórnarráði Íslands


Þankadagurinn 2021

Þankadagurinn 2021

Þankadagurinn eða World Thinking Day er dagur alþjóðlegrar vináttu þar sem skátar út um allan heim hugsa hlýtt til annarra skáta og senda þakklæti út í heiminn. Haldið hefur verið upp á Þankadaginn á hverju ári síðan 1926. Hugmyndin varð fyrst til þegar kvenskátar (Girl Guides og Girl Scouts) hittust í Bandaríkjunum á fjórðu heimsráðstefnu WAGGGS sama ár. Þær voru sammála um að það ætti að vera sérstakur dagur á hverju ári, tileinkaður öllum þeim sem eru hluti af skátunum til að hugsa hvert til annars og senda þakklæti út í heiminn. Dagurinn er haldinn 22. febrúar en sá dagur var valinn vegna þess að það er afmælisdagur bæði Lord Baden-Powell, stofnanda skátahreyfingarinnar og Olave Baden-Powell, sem var World Chief Guide.

Á hverju ári gefur WAGGGS út dagskrárpakka í tilefni dagsins og í ár kom út dagskrárpakkin Stöndum saman um frið sem hefur verið þýddur á íslensku af nokkrum skátum. Hrópum þrefalt húrra fyrir þeim!

Þema dagskrárpakkans í ár er friðaruppbygging

Endilega kíkið á þennan flotta verkefnapakka og ekki gleyma að tagga @skatarnir þegar þið haldið ykkar Þankadagsfögnuð!

Smelltu hér til að opna dagskrárbæklinginn –> Þankadagurinn 2021 á íslensku

GANGI YKKUR VEL OG GLEÐILEGAN ÞANKADAG <3

þankadagurinn þemamynd

Skátahreyfingin tilnefnd til Friðarverðlauna Nóbels

Skátahreyfingin tilnefnd til Friðarverðlauna Nóbels

Heimssamtök skátahreyfinga (WOSM) og Heimssamtök kvenskáta (WAGGGS) hafa verið tilnefnd til Friðarverðlauna Nóbels 2021. Tilnefningin er fyrir framúrskarandi aðgerðir í þágu valdeflingar ungmenna um allan heim til uppbyggingar friðarmenningar í sínu nærumhverfi í meira ein heila öld.

Það var norski þingmaðurinn og fyrrum skátahöfðingi Noregs, Solveig Schytz, sem sendi tilnefninguna inn.

“Skátahreyfingin snýst um að gefa ungu fólki tækin sem þau þurfa til að leysa áskoranir framtíðarinnar samhliða því að byggja upp sterkt samfélag. Þessi vinna er nauðsynleg fyrir heimsfrið.”

“Nú þegar svo margar ógnir steðja að samfélagi manna, hvort sem það er loftslagsvá, stríð eða sjúkdómar, er þörf á mótvægi við sjálfselsku og þjóðernishyggju. Við þurfum að gefa ungu fólki tækifæri til að sameinast um gildi og þjónustu, ekki bara í þágu síns samfélags heldur einnig alþjóðasamfélagsins.”

Síðan skátahreyfingin var stofnuð árið 1907 hefur starfið snúist um valdeflingu ungs fólks með leiðtogaþjálfun og framtíðarfærni svo þau geti unnið að friði í sínu nærumhverfi. Skátastarfið byggir upp friðarmenningu með því að tvinna samvinnu, samstöðu og alþjóðasamstarf inn í verkefni ungmennanna.

Síðastliðinn áratug hefur flaggskipsverkefni alþjóðaskátahreyfingarinnar, Messengers of Peace, veitt skátum um allan heim innblástur til að grípa til aðgerða í sínu nærumhverfi. Friðar- og sjálfbærniverkefnin eru orðin yfir 16 milljón talsins.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem skátahreyfingin fær tilnefningu til Friðarverðlauna Nóbels. Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið því í febrúar kemur í ljós hvort skátahreyfingin nái inn á stutta listann yfir tilnefningar.

Íslenskir þátttakendur á Alheimsmóti skáta 2019.

Laust sæti í stjórn BÍS

Tilkynning frá uppstillingarnefnd BÍS vegna mönnunar í stjórn BÍS

Tilkynning frá uppstillingarnefnd BÍS vegna mönnunar í stjórn BÍS

Á félagsforingjafundi á næstunni verður kosið í hlutverk meðstjórnanda í stjórn BÍS. Þessi stjórnarmeðlimur skal samkvæmt lögum BÍS vera 25 ára eða yngri.

Uppstillingarnefnd hvetur skáta sem hafa áhuga og hugsjónir fyrir skátastarfi í landinu að skoða þetta spennandi hlutverk sem nú er á lausu, að gefa kost á sér til starfa og hvetja aðra til þess. Kosið er í hlutverkið fram að Skátaþingi 2022.

Meðstjórnendur í stjórn BÍS skipta með sér verkum og bera m.a. sameiginlega ábyrgð á starfi stjórnar, ráða og nefnda. Þeir sitja eftir atvikum í fastaráðum samkvæmt ákvörðun stjórnar.

Framboðstilkynningar og tillögur um fólk í hlutverkið óskast sendar uppstillingarnefnd hið fyrsta og eigi síðar en 5. febrúar kl. 12:00. Í framhaldinu mun uppstillingarnefnd taka saman gild framboð og koma þeim upplýsingum til félagsforingja sem samkvæmt lögum BÍS kjósa í hlutverkið á félagsforingjafundi.

Tilkynningar um framboð þurfa að berast skriflega eða í tölvupósti á netfang uppstillingarnefndar: uppstilling@skatar.is.

Uppstillingarnefnd skipa:
Berglind Lilja Björnsdóttir, s: 659-1366, berglind@skatar.is
Birgir Ómarsson, s: 895-7551, biggiomars@gmail.com
Katrín Kemp Stefánsdóttir, s: 824-1865, katrinkemp@kopar.is
Sigurður Viktor Úlfarsson, s: 854-0074, siggiulfars@gmail.com
Sædís Ósk Helgadóttir, s: 661-6433, saedisoskh@gmail.com

Stjórn BÍS þakkar Ásgerði innilega fyrir gott samstarf og óskar henni velfarnaðar í þeim verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur.


Privacy Preference Center