Skátahreyfingin tilnefnd til Friðarverðlauna Nóbels

Heimssamtök skátahreyfinga (WOSM) og Heimssamtök kvenskáta (WAGGGS) hafa verið tilnefnd til Friðarverðlauna Nóbels 2021. Tilnefningin er fyrir framúrskarandi aðgerðir í þágu valdeflingar ungmenna um allan heim til uppbyggingar friðarmenningar í sínu nærumhverfi í meira ein heila öld.

Það var norski þingmaðurinn og fyrrum skátahöfðingi Noregs, Solveig Schytz, sem sendi tilnefninguna inn.

“Skátahreyfingin snýst um að gefa ungu fólki tækin sem þau þurfa til að leysa áskoranir framtíðarinnar samhliða því að byggja upp sterkt samfélag. Þessi vinna er nauðsynleg fyrir heimsfrið.”

“Nú þegar svo margar ógnir steðja að samfélagi manna, hvort sem það er loftslagsvá, stríð eða sjúkdómar, er þörf á mótvægi við sjálfselsku og þjóðernishyggju. Við þurfum að gefa ungu fólki tækifæri til að sameinast um gildi og þjónustu, ekki bara í þágu síns samfélags heldur einnig alþjóðasamfélagsins.”

Síðan skátahreyfingin var stofnuð árið 1907 hefur starfið snúist um valdeflingu ungs fólks með leiðtogaþjálfun og framtíðarfærni svo þau geti unnið að friði í sínu nærumhverfi. Skátastarfið byggir upp friðarmenningu með því að tvinna samvinnu, samstöðu og alþjóðasamstarf inn í verkefni ungmennanna.

Síðastliðinn áratug hefur flaggskipsverkefni alþjóðaskátahreyfingarinnar, Messengers of Peace, veitt skátum um allan heim innblástur til að grípa til aðgerða í sínu nærumhverfi. Friðar- og sjálfbærniverkefnin eru orðin yfir 16 milljón talsins.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem skátahreyfingin fær tilnefningu til Friðarverðlauna Nóbels. Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið því í febrúar kemur í ljós hvort skátahreyfingin nái inn á stutta listann yfir tilnefningar.

Íslenskir þátttakendur á Alheimsmóti skáta 2019.