Nýjar og breyttar reglugerðir stjórnar BÍS
Á árinu uppfærði stjórn BÍS nokkrar reglugerðir og samþykkti nýja sem talið var þörf fyrir og hafa þær nú verið birtar. Eins og 25. grein laga BÍS kveður á um getur stjórn BÍS sett reglugerðir um starfsemi innan BÍS og aðra þætti starfsins, eftir því sem þurfa þykir, efni þeirra skal rúmast innan laga BÍS og skulu þær kynntar aðildareiningum BÍS. Þær sem voru uppfærðar voru reglugerð um hæfi skátaforingja ásamt reglugerð um Landsmót skáta. Þá var samþykkt ný reglugerð um hæfi sjálfboðaliða.
Reglugerð um hæfi skátaforingja
Einhver mikilvægasta reglugerð skátastarfs var uppfærð lítillega til að ríma betur við samtímakröfur. Helstu atriði sem var breytt:
- Textinn gerður kynhlutlaus.
- Áréttað að félagseiningar skipa skátaforingja frekar en formenn stjórna þeirra.
- Tvítekning um lögræði skátaforingja tekin úr 2. grein
- Úrelt skilyrði fjarlægð m.a. um að einstaklingar skuli á sig komnir andlega að þeir séu færir um að gegna störfum tekið út og krafa um að einstaklingur hafi forræði yfir búi sínu sem hafi ekki verið til gjaldþrotaskipta sl. 2 ár.
- Skilyrði um færni uppfærð til að spegla kröfur um ráðningar ábyrgðaraðila fyrir æskulýðsstarf í Æskulýðslögum.
- Nákvæmara tungumál um hvaða brot það eru sem koma í veg fyrir að einstaklingur megi starfa í Æskulýðsstarfi samkvæmt lögum.
- Skilyrði um undirritun upplýsingaröflunar úr sakaskrá áréttuð.
- Setning um hvernig félagsforingi þurfi að afla leyfis BÍS til að taka við því embætti fjarlægð. Félagsforingjar sækja umboð til aðalfunds síns félags að því gefnu að þau uppfylli skilyrði í lögum BÍS um hlutverkið. Ekki talið endurspegla verklag í nútíma og ekki talið eiga heima í þessari reglugerð.
- Í þriðju grein hvatt til þess að skrifleg samkomulög séu gerð við skátaforingja í stað fyrra orðalags um að félög gæfu út skipunarbréf, til að endurspegla það verklag sem BÍS talar fyrir í dag.
- Í fjórðu grein áréttað að skátahreyfingunni sé skylt að vísa skátaforingja úr starfi ef þau gerast brotleg í því, í stað fyrra orðalags um að afturkalla skipunarbréf viðkomandi.
- Fimmta grein um hvernig veita megi undanþágu frá öðrum greinum reglugerðarinnar tekin út. Undanþágur skulu ekki veittar frá þessum kröfum.
Reglugerð um hæfi sjálfboðaliða
Þar sem reglugerðin um hæfi skátaforingja nær í raun eingöngu til þeirra sem leiðbeina í skátastarfi með börnum þá hefur samskonar reglugerð verið samþykkt af stjórn BÍS.
Reglugerð um Landsmót skáta
Talin var ástæða til að uppfæra reglugerð um landsmót og voru breytingarnar unnar í nánu samstarfi við skátafélagið Klakk. Breytingar fela í sér:
- Tilmælum um ólíka þátttöku mismunandi aldurshópa breytt. Í stað þess að hvetja gegn þátttöku yngri skáta er hvatt til hennar.
- Fest í reglugerð að mótið fari fram á Hömrum og Úlfljótsvatni á víxl í stað þess að stjórn sé falið að ákvarða staðsetningu í kjölfar ábendinga frá Skátaþingi.
- Grein um sérstaka undirbúningsnefnd og allar tilvísanir til hennar teknar úr reglugerð þar sem ekki hefur verið stuðst við slíka í langan tíma.
- Breytingar á ákvæðum um skipun mótstjórnar, fjármálastjóri BÍS sé héðan af fjármálastjóri mótsins og krafa um að minnst einn í mótstjórn sé af landsbyggðinni.
- Tímarammi í 3. grein styttur úr 18 mánuðum í 15. Einnig áréttað að mótstjórn skuli tryggður aðgangur að gögnum fyrri móta.
- Orðalag um fjármagn til mótstjórnar á undirbúningstíma gert opnara.
- Tímasetning Landsmóta skáta fest við miðjan júlí.
- Ný krafa sett um dagskrá sem hefur tengsl við heimsmarkmið sameinuðu þjóðana.
Reglugerðirnar eru samkvæmt skilyrðum 31. greinar laga BÍS ávallt aðgengilegar á sérstöku vefsvæði á heimasíðu skátanna ásamt öðrum gildandi reglugerðum.
Crean þátttakendur gengu frá sólarupprás til sólseturs

Á laugardaginn síðasta skunduðu af stað hressir skátar í fjallgöngu. Þetta var þriðja undirbúningsferðin í Crean Vetraráskoruninni ´23-´24. Í fyrri undirbúningsferðum hafa þau gengið að Hafravatni og einnig gengið um Hvaleyrarvatn.
Að þessu sinni var gengið frá Kjósinni upp á Trönu og þaðan yfir á Móskarðshnúka. Síðan lauk göngunni niðri við skátaskálann Þrist.
Þátttakendurnir byrjuðu gönguna á því að skoða bestu gönguleiðina á kortum og skipuleggja sig. Svo lagði hópurinn af stað við sólarupprás. Létt var yfir hópnum og öll í góðu skapi, skátarnir styttu sér stundir við gönguna með léttum orðaleikjum og spjalli á meðan þau nutu útsýnisins. Víðtækt landslag var í göngunni eins og tún, grjótaslóðar og sandsteinar en svo var einnig smávægis snjór og klaki á toppi Móskarðshnúka og Trönu. Þegar hópurinn var kominn að Móskarðshnúkum var sólin byrjuð að lækka á lofti og gengu þau niður hlíðina við sólsetrið.
Gangan tók um það bil 7 klukkustundir og gengið var 12.5 km. með 1.137m. hækkum.
Hópurinn byrjaði að elda sér verðskuldaðan kvöldmat þegar komið var niður af Móskarðshnúkum og svo var hugguleg kvöldstund með söng, eld í arninum og spjalli. Þau fóru sæl í háttinn bæði inni í Þrist og einnig úti í tjaldi. Haldið var heim á leið fyrir hádegi á sunnudegi.



Skátamiðstöðin lokuð 21. nóvember

Starfsfólk skátamiðstöðvarinnar er úti í dag á árlegum starfsmannadegi og er Skátamiðstöðin því lokuð.
Jólatrésalan er opin, verið velkomin í heimsókn í Hraunbæ 123.
Tölvupóstum verður svarað á miðvikudag. Ef erindið er mjög brýnt - vinsamlegast merkið það svo og við munum gera okkar besta að svara. Við afsökum óþægindin sem kunna verða vegna þessa.
Boð um aðstoð til Grindvíkinga
Skáti er hjálpsamur og mörg skátafélaganna vilja bjóða Grindvíkingum aðstoð ef á þarf að halda og hafa þegar auglýst eða látið Rauða krossinn vita af því. Í þeim hafsjó upplýsinga sem internetið getur verið er samantektin til að einfalda þeim sem þurfa að finna upplýsingar á einum stað. Athugið að samantektin tekur breytingum eftir því sem upplýsingar um fleiri boð berast og ef einhver úrræða eru nýtt þannig þau standa ekki lengur öðrum til boða.
SKÁTAFÉLAGIÐ GARÐBÚAR

Skátaheimili Garðbúa í Hólmgarði
Afnot af húsnæði
Skátafélagið Garðbúar bjóða Grindvíkingum sem vantar enn húsaskjól afnot af húsnæði félagsins að Hólmgarði 34, 108 Reykjavík. Einnig bjóðum við fram skátaskálann okkar Lækjarbotna undir hlíðum Selfjalls ofan við Heiðmörk, ca 14 km út fyrir bæjarmörk.
Skátaheimilið
Í húsnæði Garðbúa er einn stór salur sem tekur um 50 manneskjur. Inn af salnum er annað rými sem er hálfgerð setustofa og salerni með aðgengi fyrir fatlaða og sturta. Það eru 3 herbergi (föndur-, spila- og flokkaherbergi). Skátafélagið á töluvert magn af dýnum sem er velkomið að nota. Það er góð eldhúsaðstaða, tvö salerni eru við forstofu og lítið þvottahús. Skátaheimilið er staðsett í fjölbýli og þarf að taka tillit til nágranna okkar varðandi hávaða og ónæði. Lágmarka þarf hávaða eftir kl. 22:00. Ef fólk frá Grindavík vill einhverjar frekari upplýsingar um Skátaheimilið Garðbúa má hafa samband við Aldísi Líf í síma 848-6167 og netfangið gardbuar@gardbuar.com.
Lækjarbotnar
Lækjarbotnar, skátaskálinn er mjög rúmgóður og hann er á tveimur hæðum með anddyri, matsal og eldhús á neðri hæðinni. Í eldhúsinu er eldavél og bakaraofn svo er einnig gasgrill á staðnum. Á efri hæðinni er síðan svefnloft með rúmgóðum tveggja manna kojum þar sem 30 manns (fullorðnir) geta gist. Inn fyrir svefnloftið er síðan lítið “foringja”herbergi þar sem fjórir fullorðnir geta gist í kojum. Ef fólk frá Grindavík vill frekari upplýsingar um Lækjarbotna má hafa samband við Svavar í síma 896-6056 og netfangið svavar321@gmail.com.
Fyrirvari um neyslu áfengis/vímuefna og tóbaks
Í skátaheimilinu og Lækjarbotnum er neysla áfengis/vímuefna og tóbaks bönnuð.
SKÁTAFÉLAGIÐ HEIÐABÚAR

Skátaheimili Heiðabúa er staðsett á Hringbraut 101, 230 Reykjanesbæ
Nauðsynjasöfnun
Skátafélagið Heiðabúar opnaði skátafélagið sitt fyrir nauðsynjasöfnun fyrir Grindvíkinga. Hægt er að fylgjast með facebook síðu Heiðabúa fyrir nánari upplýsingar um hvar og hvenær er hægt að nálgast munina sem hafa safnast.
Frítt á skátafundi
Skátafélagið Heiðabúar bjóða Grindvíkingum frítt á skátafundi fram að jólafríi að minnsta kosti. Heiðabúar halda úti starfi fyrir börn frá 8-19 ára aldri. Fundartímanna má finna einnig finna á facebooksíðu félagsins hér.
SKÁTAFÉLAGIÐ HRAUNBÚAR

Frítt á skátafundi
Skátafélagið Hraunbúar í Hafnarfirði bjóða Grindvíkingum að mæta frítt á skátafundi fram að jólafríi skátastarfs í félaginu sem hefst 20. desember. Fundartíma má finna á www.hraunbuar.is/sveitirnar.
Lán á húsnæði til hýbílis
Hraunbúar opnuðu gistiheimilið sem við höfum í rekstri á sumrin fyrir Grindvíkinga. 5 herbergi eru til staðar sem verið er að nýta þessa stundina. Salurinn hefur verið innréttaður sem setustofu og matsalur fyrir þau sem dvelja á gistiheimilinu og tjaldsvæðinu.
Kostnaðarlaus dvöl fyrir húsbíla og hjólhýsi með aðgang að eldhúsi, sal og salerni.
Tjaldsvæðið á Víðistaðatúni er opið fyrir Grindvíkinga sem vilja dvelja í húsbílnum eða hjólhýsinu sínu sér að kostnaðarlausu. Þeir sem dvelja á tjaldsvæðinu hafa aðgang að eldhúsi, salnum og salerni í skátaheimlinu okkar.
Samverustund fyrir Grindvíkinga
Hraunbúar og St. Georgs gildið ætla að opna salinn fyrir Grindvíkingar þann 17 nóvember klukkan 16-20 og allir Grindvíkingar eru velkomnir að nýta sér það, til að koma saman og spjallað, fengið sér kaffi og með því. Börnin leikið sér í ótalmörgum spilum og dóti sem er í boði eða horft á sjónvarpið. Ef áhugi er fyrir því verður félagið með fleiri slíka viðburði.
Hafa samband við Hraunbúa
Ef fólk frá Grindavík vill einhverjar frekari upplýsingar má hafa samband við brynjar@hraunbuar.is og í síma 895-0906.
SKÁTAFÉLAGIÐ LANDNEMAR

Skátaheimili Landnema í Háuhlíð 9
Frítt á skátafundi fyrir unglinga
Skátafélagið Landnemar bjóða Grindvíkingum á aldrinum 13-15 ára að mæta frítt á skátafundi fram að jólafríi skátastarfs í félaginu sem hefst 13. desember. Fundartímar eru á fimmtudögum frá 17:45-19:45 í Háuhlíð 9. Því miður er fullt og ekki mannskapur til að taka á móti fleirum á öðrum aldursbilum.
Afnot af húsnæði fyrir einstaklinga eða skipulagða starfsemi
Þeim sem vantar enn húsaskjól geta fengið afnot af húsnæði félagsins en í húsinu eru dýnur til afnota. Í húsnæðinu eru fimm lítil herbergi, salur, fjögur baðherbergi og eldhús. Í garðinum er frábært útisvæði og hefur húsið verið nýtt í fortíð sem frístundaheimili. Húsið er tilvalið til að nýta í samkomur eða aðra skipulagða starfsemi á dagtíma.
Ef fólk frá Grindavík vill einhverjar frekari upplýsingar má hafa samband með tölvupósti í landnemi@landnemi.is.
SKÁTAFÉLAGIÐ KÓPAR
Skátaheimili Kópa á Digranesvegi
Frítt á skátafundi
Skátafélagið Kópar bjóða Grindvíkingum frítt á skátafundi fram að jólafríi að minnstakosti sem hefst 19.desember með kvöldvöku það kvöld. Kópar halda úti starfi fyrir börn frá 8-19 ára aldri. Fundartímanna má finna á kopar.is
Afnot yfir daginn af húsnæði fyrir barnastarf eða aðra starfsemi
Skátafélagið Kópar tilbúið að bjóða fram húsnæðið sitt til afnota fyrir starfsemi á daginn svo sem leik- og grunnskóla eða aðra starfsemi sem er á daginn. Húsnæðið er rúmgott og bjart með mörgum herbergjum, mjög vel útbúnu eldhúsi og veislusal sem rúmar tugi manns í sitjandi borðhaldi. Ef fólk vill frekari upplýsingar þá er hægt að hafa samband við félagsforingjann Heiðu Hrönn með að senda póst á heidahronn@kopar.is eða í síma 693-8042.
SKÁTAFÉLAGIÐ STRÓKUR

Staðsett í Breiðumörk 22, 810 Hveragerði, Netfang: skatafelagidstrokur@gmail.com
Nauðsynjasöfnun
Skátafélagið Stókur opnaði skátafélagið sitt fyrir nauðsynjasöfnun fyrir Grindvíkinga. Hægt er að fylgjast með facebook aðgangi Stróks hér fyrir frekari upplýsingar um hvernig hægt sé að nálgast söfnunina.
SKÁTAFÉLAGIÐ VÍFLAR

Húsnæði skátafélagsins Vífils og Hjálparsveit skáta í Garðabæ.
Frítt á skátafundi
Vífill býður ungmennum frítt á skátafundi fram að jólafríi, félagið heldur úti starfi fyrir börn og ungmenni 7-19 ára. Hægt er að finna upplýsingar á vifill.is.
SKÁTAFÉLAGIÐ VOGABÚAR

Skátaheimili Vogabúa í Logafoldi
Skátafélagið Vogabúar hefur opnað skátaheimilið sitt fyrir Grindvíkingum og hefur fólki þegar verið komið fyrir í því.
ÚTILÍFSMIÐSTÖÐ SKÁTA Á ÚLFLJÓTSVATNI

Aðstaða skátanna á Úlfljótsvatni
Lán á aðstöðu:
Útilífsmiðstöð skáta býður Grindvíkingum og stjórnvöldum afnot af svæði Skátamiðstöðvarinnar á Úlfljótsvatni. Boðin eru 60 gistirými, sameiginleg eldhúsaðstaða, matssalur og salur ásamt þeirrar náttúru og leiksvæða sem svæðið hefur uppá að bjóða. Útilífsmiðstöðin er staðsett við Úlfljótsvatn og má skoða betur á ulfljotsvatn.is. Taka má fram að einnig er hægt að fullnýta aðstöðuna fyrir leikskóla/skóla árgang. Ef fólk frá Grindavík og/eða stjórnvöld/bæjarfélag Grindavíkur vill frekari upplýsingar má hafa samband við Ragnar í síma 869-7817 og netfangið ragnar@skatarnir.is
Fálkaskátar könnuðu allan Grafarvog á Fálkaskátadegi 2023

Skátafélagið Vogabúar bauð fálkaskátum Íslands í heimsókn til sín í Grafarvoginn að taka þátt í ratleik um allt hverfið. Fálkaskátarnir fengu ýmsar vísbendingar um áhugaverða staði í Grafarvoginum sem þau áttu að finna til að kynna sér staðinn nánar eða leysa einhver verkefni á staðnum. Kalt var í veðri og mikill vindur en fálkarnir létu það ekkert á sig fá og héldu ótrauð áfram að skoða hverfið allt hverfið. Flokkarnir völdu sína eigin leið og fóru hóparnir meðal annars á Geldingarnes, í Hallsteinagarð, í Gufunes og að Korpúlfsstöðum áður en allir hóparnir hittust í skátaheimili Vogabúa.
Þar fengu þau sér verðskuldað heitt kakó að launum og skoðuðu sig um skátaheimili Vogabúa. Myndasýning frá deginum var sýnd á skjávarpa í salnum og skátarnir léku sér fyrir utan á meðan þau gæddu sér á kakói, kexi og kleinum. Að deginum loknum voru nokkrir hreyfisöngvar sungnir og var slitið með stórri hópmynd.



Jólaskógurinn rís í Skátamiðstöðinni

Sígrænu jólatrén eru komin í Skátamiðstöðina, Hraunbæ 123!
Opnunartímarnir fyrir jólatrén verða á hefðbundnum skirfstofutíma í nóvember frá 10-17 alla virka daga og frá 12-17 um helgar.
Í desember lengjast opnunartímarnir í 10-18 alla virka daga og frá 12-18 um helgar.
Verið er að vinna hörðum höndum að gerð nýrrar heimasíðu fyrir sígrænu jólatrén en í millitíðinni er hægt að senda fyrirspurnir á skatabudin@skatarnir.is eða mæta upp í Skátamiðstöð
Tækifæri mánaðarins í alþjóðastarfi #OKTÓBER

ImpactYOUth: measuring youth development together.
Evrópudeild WOSM auglýsir eftir þátttakendum á viðburð sem haldinn verður í Brussel, Belgíu, þann 22. febrúar 2024.
Viðburðurinn miðar að því að deila með skátabandalögum Evrópudeildarinnar kerfi sem hefur verið í uppbyggingu og kallast The MIYO Impact measurement toolkit. Á viðburðinum verður kynning á kerfinu sjálfu og hvernig það virkar ásamt því að prófunarhópur verkefnisins segir frá reynslu sinni af kerfinu. Að lokum verður einnig boðið upp á umræður um framtíð verkefnisins og þátttakendur fá tækifæri á því að styrkja tengslanet sitt við skáta í Evrópu.
Um verkefnið:
Skátahreyfingin og aðrar æskulýðshreyfingar eiga stóran þátt í að móta samfélögin sem þau starfa í með því að efla persónulega færni ungmenna á ýmsum sviðum þar með talið leiðtoga-, samvinnu- og samskiptahæfni. Erfitt er að mæla raunveruleg áhrif æskulýðsstarfs á ungmenni og því þarf að útbúa verkfæri eða tól sem getur mælt áhrif starfsins.
Verkefnið MIYO hefur haft það markmið að skoða hvernig hægt sé að mæla árangur og áhrif æskulýðsstarfs á ungmenni.
Dagsetningar
22. febrúar
Staðsetning
Þingsalur Evrópusambandsins og Thon Hótel Evrópusambandsins í Brussel, Belgíu.
Dagskrá
Dagskráin skiptist í tvennt
- Fyrri helmingur dagsins á sér stað í þingsal Evrópusambandsins og er tileinkaður að kynna verkefnið og fá reynslusögur frá sex þátttakenda þjóðum í verkefninu
- Seinni hluti dagsins verður á Hótelinu þar sem vinnusmiðjur verða um verkfærið og nánari kynningar á hverju það felst.
Tungumál
Viðburðurinn verður á ensku
Hverjir ættu að sækja um
Viðburðurinn er fyrir unga leiðtoga/leiðbeinendur sem hafa áhuga á að gagnaöflun og að fræðast meira um hvernig við getum mælt árangur skátastarfs. Markmiðið er að læra af því sem fram fer á viðburðinum og geta yfirfært það á skátastarfið á Íslandi.
Kostnaður
Viðburðurinn er styrktur og því þátttakendur að kostnaðarlausu. Við fáum styrk fyrir ferðamáta, gistingu og mat á meðan viðburðinum stendur. Innifalið er matur frá kvöldmat 21.febrúar að morgunmat 23.febrúar ásamt gistingu frá 21. - 23. febrúar á Jacques Brel Youth Hostel.
Skráningarfresturinn er út 30. október.
Skráning fer fram með því að fylla út þetta form hér.
Norðurlandaskátar glímdu við fuglaflensu á Go Global

Helgina 6.-8. október komu saman 20 skátar frá Norðurlöndunum saman á stór- Kaupmannahafnar svæðinu í þeim tilgangi að kynnast þeim tækifærum sem sem standa til boða í alþjóðaskátastarfi á heismvísu.
Dagskrá helgarinnar var því með þeim hætti að auka vitneskju þátttakenda um WAGGGS og WOSM ásamt þeim verkefnum og tækifærum sem samtökin standa fyrir og þá var sérstök áhersla lög á að mynda sterk vinatengsl milli skáta á Norðurlöndunum.
Helgin byrjaði með öflugum póstaleik víðsvegar um Kaupmannahöfn þar sem þátttakendur sem skipt var í flokka og fóru um í leit að bæði dönskum sjálfboðaliða og erlendum frá bæði WOSM og WAGGGS og var reynt á vitneskju þátttakenda um heimsbandalögin.

Þá fóru þátttakendur á kynningu hjá Signe Marie Obel, sem nýlega var kjörin í heimsstjórn WAGGGS, sem kynnti verkefnui WAGGGS og "Speak Out For Her World" verkfærakistuna um hvernig skuli tala fyrir málstað á alþjóðavísu.

í framhaldi af þessu kom Susanne Kolle fyrir hönd kvenskátaráðs danmerkur og hélt smiðju þar sem hún kynnti félagslegt nýsköpunarverkefni sem þau stýra.

Þegar kom að norræna kvöldinu, þar sem allir komu með besta snarlið frá sínum heimalöndum, komu skátar frá danska viðburðarteyminu KROPT og héldu óvæntan ævintýra-skáta næturleik sem kom öllum rækilega á óvart. Táknræn umgjörð leiksins var að skálinn, þar sem viðburðurinn fór fram, var skyndilega ógnað vegna skæðrar veiru. Þá kom ekki annað til greina en að veita starfsmönnum heilbrigðisstofnunarinnar hjálp við að stöðva útbreiðslu veirunnar og var því haldið út í skóg í leit að bóluefninu. Leikurinn var framkvæmdur þannig að upplifunin væri sem raunverulegust en þátttakendur þurftu m.a. að klæða sig upp í sóttvarnarbúning. Í gegnum leikinn fengu þátttakendur að kynnast þessari ævintýra-skátun sem er hefð hjá dönsku skátahreyfingunum en svo var líka sérstök kynning að leik loknum.

Eftir þennan stórkostlega viðburð eru þátttakendurnir nú spenntir að komast í kynni við ný alþjóðatækifæri og að vonandi þau muni öll hittast á norðurlanda ráðstefnunni í Færeyjum, Roverway eða í ævintýra-skátun í Danmörku.
Myndir í þessari frétt eru teknar af Margrethe Grønvold Friis.
Daði Már úr Árbúum og Signý Ósk frá Skjöldungum tóku þátt fyrir hönd BÍS.
8 Rekkaskátar fengu forsetamerkið

Forsetamerkið var afhent átta ungmennum laugardaginn 7. október 2023 við fallega og skemmtilega athöfn á Bessastöðum.
Forsetamerkið er hvatamerki sem rekkaskátar, 16-18 ára, geta valið sér að vinna að samhliða starfi sínu. Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingunnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu er 2-3 ára verkefni sem hvetur skátanna til persónulegs vaxtar með því að skipuleggja, framkvæma og endurmeta 20 minni verkefni sem öll þurfa að falla undir ein fjögurra flokka,:
- Heimurinn, ferðalög og alþjóðastarf
- Útivist og útilífsáskoranir
- Samfélagsþátttaka
- Lífið, tilveran og menning
Auk þeirra verkefna þurfa öll sem vinna að forsetamerkinu að sækja 5 daga alþjóðlegt skátamót, ferðast 40 kílómetra á eigin afli, sækja helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun og sækja 12 klukkustunda skyndihjálparnámskeið. Að lokum velja skátarnir sér 2 langtímaverkefni sem krefst virkrar þátttöku þeirra yfir 3-12 mánaða tímabil, dæmi um þetta er að vera foringi yngri skáta, taka þátt í skipulagi stórs skátamóts, sitja í stjórn félags, ráði eða vinnuhóp, að taka að sér viðhald skátaheimilis eða skátaheimili og margt fleira sem forsetismerkishafar hafa látið sér detta í hug.

Forsetamerkishafarnir 8 sem luku vegferðinni þetta árið eru úr 5 skátafélögum og bætast þar með í hóp 1446 forsetismerkishafa frá upphafi. Þau voru í röð númers forsetamerkis þeirra:
nr. 1439 - Davíð Þrastarson - Skátafélagið Garðbúar
nr. 1440 - Reynir Tómas Reynisson - Skátafélagið Garðbúar
nr. 1441 - Elías Dýrfjörð - Skátafélagið Klakkur
nr. 1442 - Franz Halldór Eydal - Skátafélagið Klakkur
nr. 1443 - Bengta Kristín Methúsalemsdóttir - Skátafélagið Mosverjar
nr. 1444 - Matthiludur Ósk Guðbjörnsdóttir - Skátafélagið Mosverjar
nr. 1445 - Valur Kári Óskarsson - Skátafélagið Skjöldungar
nr. 1446 - Dagur Sverrisson - Skátafélagið Ægisbúar

Við það tilefni bauð forsetaembættið rekkaskátunum og fjölskyldum þeirra til hátíðlegrar móttöku á Bessastöðum þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti þeim forsetamerkið. Við afhendinguna var samsöngur, tónlistaratriði flutt og Guðni ávarpaði samkomuna. Að lokum fluttu tvö úr hópi forsetamerkishafa stutta ræðu sem má horfa á í spilaranum hér að neðan:
https://youtu.be/jQ04MtQsZTY
Að lokinni afhendingu var haldið til Bessastaðastofu þar sem skátahöfðingi sagði nokkur orð áður en boðið var upp á veitingar.

Að lokinni athöfn var mótttaka fyrir forsetamerkishafa og gesti þeirra á Bessastaðastofu, að neðan má sjá myndir frá deginum.
Nýr leikjavefur skátanna birtur!
Nýtt vefsvæði með leikjum hefur verið birt á heimasíðu Skátanna. En þar er nú hægt að finna safn skemmtilegra og frumlegra leikja sem líklegt þykir að skátar um allt land geti haft gaman af og hafa jafnvel ekki prófað áður.
Á vefnum er reynt að setja skemmtilega táknræna umgjörð í kringum hvern leik eða í hið minnsta gefa skátaforingan fróðleik til að kynna leikin með. Með því að nota þessi þemu er oft hægt að glæða leikina auknu lífi og gefa skátunum tækifærið á að setja sig í hlutverk áður en leikar hefjast.
Hvernig virkar nýr leikjavefur?
Vefurinn hefur hinar ýmsu síur til að auðvelda foringjum að finna leiki fyrir hvert tilefni fyrir sig. Leikir skiptast upp í hina ýmsu flokka s.s. flokkakeppnir, skátaklútaleiki, hópeflisleiki og söng- og hreyfileiki, þá er búið að flokka leiki eftir því hvaða aldursbilum þeir eru taldir henta best, hvaða umhverfi þeir henta best og svo er auðvitað hægt að leita eftir hópastærðum og tímaramma.
Á undirsíðu hvers leiks má svo finna sögu leiksins, hvað þarf fyrir leikinn, leiðbeiningar og hvernig má útfæra leikinn á annan máta til að umbreyta leiknum.

Þau sem lögðu hönd á plóg
Vefsvæðið hefur verið unnið í hlutum yfir langt tímabil og því hannað af breiðum hóp bæði fyrrum og starfandi erindreka Skátamiðstöðvarinnar þeim Kolbrúnu, Halldóri, Sigurgeiri og Sædísi. Benedikt Þorgilson hjálpaði svo við tæknilega uppsetningu bakenda og útliti hverrar leikjasíðu fyrir sig en Halldór Valberg setti upp yfirlitssíðuna þar sem hægt er að leita eftir leikjum.
Langar þig að leggja hönd á plóg?
Til að fagna nýjum leikjavef sem getur safnað saman og hýst skemmtilega leiki fyrir skáta viljum við efna til keppni og bjóðum glæsilegt vasaljós í verðlaun!
Ef þú kannt skemmtilegan leik hvetjum við þig til að senda leikinn inn í gegnum formið hér að neðan, þú getur sent miklu fleiri en einn leik og fyrir hvern leik sem er valinn frá þér inn á vefinn kemstu 1 sinni í pottinn. Í hvert sinn sem þú kemst í pottinn eykur þú lýkur þess að þú hreppir vinninginn. Við merkjum svo hvern leik þeim sem sendi hann inn og titlum viðkomandi sem höfund leiksins á leikjavef skátanna um aldur og ævi. Í tilfellum þar sem margir aðilar senda sama eða samskonar leik getur bæði gerst að eingöngu sá fyrsti sem sendi inn leikinn sé titlaður höfundur eða ef útfærslurnar eru ólíkar gæti Skátamiðstöðin sameinað hugmyndirnar á einhvern hátt og eru þá öll titluð sem höfundar.
























































