Fálkaskátar könnuðu allan Grafarvog á Fálkaskátadegi 2023

Skátafélagið Vogabúar bauð fálkaskátum Íslands í heimsókn til sín í Grafarvoginn að taka þátt í ratleik um allt hverfið. Fálkaskátarnir fengu ýmsar vísbendingar um áhugaverða staði í Grafarvoginum sem þau áttu að finna til að  kynna sér staðinn nánar eða leysa einhver verkefni á staðnum. Kalt var í veðri og mikill vindur en fálkarnir létu það ekkert á sig fá og héldu ótrauð áfram að skoða hverfið allt hverfið. Flokkarnir völdu sína eigin leið og fóru hóparnir meðal annars á Geldingarnes, í Hallsteinagarð, í Gufunes og að Korpúlfsstöðum áður en allir hóparnir hittust í skátaheimili Vogabúa.

Þar fengu þau sér verðskuldað heitt kakó að launum og skoðuðu sig um skátaheimili Vogabúa. Myndasýning frá deginum var sýnd á skjávarpa í salnum og skátarnir léku sér fyrir utan á meðan þau gæddu sér á kakói, kexi og kleinum. Að deginum loknum voru nokkrir hreyfisöngvar sungnir og var slitið með stórri hópmynd.