REGLUGERÐ BÍS UM UTANFERÐIR SKÁTA
Samþykkt á stjórnarfundi BÍS, 05. nóvember 2014.
1. GREIN
Hver sá sem tekur þátt í hópferð á vegum skáta skal uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Verða 13 ára á árinu, en ef þátttakendur eru yngri þarf samþykki Alþjóðaráðs.
- Sé virkur skáti.
- Hafa dvalið í tjaldbúðum í minnst þrjár nætur.
- Hafa skriflegt leyfi forráðamanns og félagsforingja, eða umboðsmanns hans, til fararinnar sé skáti yngri en 18 ára.
- Hafa greitt félagsgjald í skátafélagi eða styrktargjald BÍS.
2. GREIN
Hver sá sem tekur að sér fararstjórn fyrir íslenskum skátahópi skal uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Vera a.m.k. 20 ára, vera fjárráða og hafa undirritað drengskaparheiti.
- Hafa sótt námskeið í barnavernd og hafa reynslu af hópstjórnun, t.d. stjórnað námskeiði, verið fararstjóri á mót, hafa gegnt stöðu sveitarforingja eða annarri æðri foringjastöðu.
- Hafa haldgóða þekkingu á tungumáli þess lands sem farið er til eða ensku.
- Hafa reynslu í ferðalögum erlendis.
- Hafa þekkingu á alþjóðaskátastarfi.
3. GREIN
Helstu verkefni og skyldur fararstjóra eru:
- Að gera sitt besta til að ferðin verði hverjum þátttakenda jákvæð upplifun.
- Að stuðla að því að kynning hópsins á Íslandi og íslensku skátastarfi verði sem best.
- Að annast allar bréfaskriftir og upplýsingamiðlun vegna ferðarinnar.
- Að gera fjárhagsáætlun og ferðaáætlun fyrir ferðina.
- Að fylgja hópnum frá upphafsstað til endastaðar.
- Að ljúka störfum með skýrslu um ferðina ásamt fjárhagsuppgjöri innan tveggja mánaða frá heimkomu.
4. GREIN
- Skátafélög geta staðið fyrir hópferðum skáta.
- Stjórn félagsins ber þá fulla ábyrgð á ferðinni, tilnefnir fararstjóra og samþykkir fjárhagsáætlun.
- Að ferð lokinni skilar fararstjóri félagsstjórninni skýrslu sinni og fjárhagsuppgjöri.
- Ætíð skal tilkynna Alþjóðaráði um slíkar ferðir og senda skal ráðinu afrit af skýrslu ferðarinnar.
Öll atriði greina 1 til 3 í þessari reglugerð gilda um hópferðir á vegum skátafélaga.
5. GREIN
Um ferðir sem Alþjóðaráð ákveður og skipulagðar eru á vegum Bandalags íslenskra skáta gildir eftirfarandi, auk þess sem að framan greinir:
- Fjárhagsáætlun ferðarinnar skal hljóta samþykki gjaldkera BÍS og skal hann leggja fararstjórn til hvernig fjármálastjórn ferðarinnar skal háttað.
- Við ákvörðun ferðakostnaðar skal tekið tillit til kostnaðar við þá þjónustu sem skrifstofa BÍS veitir við undirbúning ferðarinnar. Stjórn BÍS ákvarðar hver þessi upphæð skal verða á hvern þátttakenda.
- Ferðakostnaðurinn skal ákvarðaður sem ein upphæð og skal sú upphæð tryggja að ferðin standi alfarið undir sér. Ráðstöfun hagnaðar/taps er alfarið í höndum stjórnar BÍS, en fararstjórn er heimilt að koma með ábendingar þar um án skuldbindinga.
- Ferðaáætlun skal lögð fyrir Alþjóðaráð
- Að ferð lokinni skal fararstjóri skila skýrslu sinni til Alþjóðaráðs innan tveggja mánaða frá heimkomu og fjárhagsuppgjöri til gjaldkera BÍS innan sama tíma.
- Stjórn BÍS skal skipa aðra í fararstjórn og ákvarðar fjöldann í fararstjórninni sem og fjölda foringja í ferðinni að fengnum tillögum frá Alþjóðaráði og fararstjóra.
6. GREIN
Fararstjóri skal njóta þjónustu skrifstofu BÍS í eftirtöldu:
- Frágangi og fjölföldun bréfa.
- Útsendingu upplýsinga.
- Móttöku þátttakendatilkynninga og þátttökugjalda.
- Fjármálaumsýslu
- Aðstoð við upplýsingamiðlun um ferðina.
- Aðgangi að upplýsingum um skátastarf í því landi sem farið er til.
- Aðgangi að handbók fararstjóra.