Yfir 100 drekaskátar komu saman á drekaskátadegi Svana
14/03/2023Fréttirdrekaskátadagur,drekar

Drekaskátadagurinn 2023 var haldinn á laugardaginn seinast liðinn þann 4. mars. Dagurinn var haldinn af Skátafélaginu Svönum og fór dagskráin fram á Álftanesi í stórumhverfinu í kringum skátaheimili þeirra á Bjarnastöðum. Dagurinn gekk frábærlega fyrir sig, og fengu drekarnir ljómandi gott veður, þó það hafi verið örlítið kal, skein sólinn allan daginn og gerði leiki og dagskrá skemmtilega og létta.
Táknræn umgjörð dagsins var „Sjóræningjar og geimverur“ þar sem skátarnir tóku hlutverk sjóræningja sem voru að endurheimta kex og kakó sem geimverurnar höfðu stolið af þeim. Skátarnir gengu á milli pósta sem voru að finna dreift um stóran hluta Álftanes. Á hverjum póst tókust skátarnir á áskorunum geimveranna, í formi leikja og verkefna.
Að lokum, þegar drekarnir náðu að sigra geimverurnar, settust skátarnir niður við Bjarnastaði, skátaheimili Svana, og drukku kakó og kjömsuðu á kexi.

Drekaskátar í leik, mynd eftir Guðna Gíslason, Hraunbúa„Það var einstaklega skemmtilegt að sjá fjörið í krökkunum og foringjum“ segir Halldór Valberg, félagsforingi Svana. „Við vorum heppin með veður, sólin lék við okkur. Þegar við héldum fálkaskátadaginn fyrir nokkrum árum var svo mikið rok að við vorum hrædd um að krakkar gætu farið að fjúka, en núna fengum við þetta dásamlega veður og nýttum það vel.“
Foringjar og sjálfboðaliðar Svana þakka kærlega frábæra þátttöku og einstaklega góðan anda í þátttakendum og foringjum.
Tækifæri mánaðarins í alþjóðastarfi #MARS
06/03/2023Fréttir,alþjóðastarf

Alheimssamtök skáta, WOSM, leitar að ungu talsfólki í að taka þátt í vinnusmiðjum um hvernig á að verða talsfólk málefnis. Vinnusmiðjan fer fram dagana 24.-28. apríl 2023 í Brussel, Belgíu. Þátttakendur læra um hvað það felst í að vera talsfólk skátastarfs, læra um þátttöku á opinberum vettvangi, framsetningu og hvernig þessum málum er háttað í Evrópu.
Þátttakendur þurfa að vera á aldrinum 18-30 ára og með áhuga á samræðum við stjórnmálafólk varðandi málefni sem eru mikilvæg ungu fólki..
Skráninguna má finna hér.
Skráningarfresturinn rennur út 10. Mars.
Auglýsum eftir umsóknum í styrktarsjóð skáta
Styrktarsjóður skáta er sjóður sem haldið er úti af Bandalagi íslenskra skáta til að styrkja verkefni skátahreyfingunni á Íslandi til heilla. Samkvæmt reglugerð sjóðsins skulu styrkhæf verkefni falla í einn eftirfarandi flokka:
- Útgáfu innan skátahreyfingarinnar
- Nýjungar í starfi skátafélaganna sem miði að fjölgun skáta á Íslandi
- Styrkur til aðstöðusköpunar skátastarfs
- Fræðslumála innan skátahreyfingarinnar
- Styrkir til skátafélaga til að auðvelda börnum og fullorðnum með ólíkan bakgrunn að taka þátt í skátastarfi
Hægt er að sækja um styrki í sjóðinn allt árið en styrkir að upphæð 100.000 króna eða hærri eru aðeins veittar einu sinni á ári, á Skátaþingi. Því er ærið tækifæri að sækja um núna fyrir metnaðarfullum verkefnum.
Til að hvetja skátahópa og skátafélögin til að sækja um hefur sjóðstjórnin ákveðið að fara álíka leið og þegar verkefni voru styrkt tend þemanu "10 nýjar leiðir í skátastarfi". Því hefur sjóðstjórn valið nýtt þema og hvetur félög til að sækja um verkefni sem falla að því en slík verkefni verða styrkt sérstaklega á Skátaþingi þetta árið. Þemað er:
Samstarf við aðila í nærsamfélaginu og önnur samfélagsverkefni
Til að nægur tími gefist til að vinna úr umsóknum eru öll hvött að sækja um fyrir 22. mars. Hægt er að sækja um í gegnum umsóknarform sjóðsins sem er einnig að finna hér að neðan.
Skátaflokkurinn Valkyrjur héldu kökubasar

Við í fálkaskátaflokknum Valkyrjum í Landnemum héldum kökubasar þann 12. febrúar í Landnemaheimilinu. Við undirbjuggum okkur með því að plana frá 17. janúar næstu fjóra skátafundi og nýttum þessa fjóra skátafundi til að undirbúa markaðinn. Við skipulögðum til dæmis hvað við ætluðum að selja á kökubasarnum, hver ætti að baka hvað og bjuggum til auglýsingar. Síðan reiknuðum við verðið á hráefnum varanna og seldum allt bakkelsið á útreiknuðu verði.
Við seldum sjónvarpskökur, skinkuhorn, ostaslaufur, bollakökur, smákökur, súkkulaðikökur, brownies, kókoskúlur og kanilsnúða. Allt seldist upp hjá okkur og við söfnuðum rúmlega 50.000 kr fyrir Rauða krossinn. Okkur fannst þetta vera mjög skemmtilegt verkefni.
Valkyrjur eru fálkaskátaflokkur í Landnemum. Flokkinn skipa:
Birna Signý Valdimarsdóttir
Kristín Kolbrún Hákonardóttir
Margrét Álfdís Huldudóttir
Melkorka Björk Iversen
Una Signý Sigurðardóttir
Unnur Álfrún Huldudóttir

Umsókn í fararhóp Agora 2023
23/02/2023Uncategorizedroverway,skátamót,Fararstjóri,alþjóðlegt,noregur

Hvað er Agora?
Agora er viðburður sem er skipulagður af rekka- og róverskátum fyrir rekka- og róverskáta. Bandalag íslenskra skáta fær 4 sæti fyrir rekka- og róverskáta á viðburðinn.
Hvar og hvenær:
Í ár verður viðburðurinn haldinn í skátamiðstöðinni Fátima í Portúgal 12.-16. april 2023.
Markmið:
Á Agora 2023 munu þátttakendur :
- Öðlast verkfæri sem aðstoða þá við að deila hugmyndum á skipulagðan hátt, geta hannað og skipulagt verkefni tengd sjálfbærni sem gætu svo verið innleidd í skátafélögum eða skátabandalagi.
- Læra um mismunandi menningu og dagskráramma hjá rekka- og róverskátum í Evrópu, á meðan þeir deila sinni reynslu með öðrum þátttakendum.
- Gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem þeir hafa, sem ungt fólk, á mismunandi þætti samfélagsins hvort sem það er í gegnum skátastarf eða samfélagið. Geta gefið dæmi úr eigin reynsluheimi.
- Taka þátt í verkefnum sem tengjast valdeflingu ungmenna.
Þema viðburðarins:
Árin 2023 og 2024 verður þema Agora tengt Erasmus+ og earth tribe project , sem er verkefni sem evrópudeild WOSM er að koma í framkvæmd með áherslu á sjálfbærni. Hægt er að lesa meira um það verkefni hér.
Hverjir geta sótt um:
Bandalag íslenskra skáta fær 4 sæti á Agora 2023. Rekka- og róverskátar skráðir í Bandalag íslenskra skáta geta sótt um að vera þátttakandi frá Íslandi með því að fylla út umsóknareyðublaðið hér að neðan. Þátttakendur þurfa að geta tjáð sig um rekka- og róverskátastarf á Íslandi og vera virkir, áhugasamir og tilbúnir í að læra nýjar og mismunandi aðferðir sem nota má í skátastarfi. Mikill kostur er að þátttakendur hafi áhuga á umhverfinu og sjálfbærni. Tungumálið sem notað er á viðburðinum er enska og er því mikilvægt að þátttakendur geti tjáð sig og skilið umræður á ensku.
Verð:
Þátttökugjaldið á Agora 2023 er 100 evrur. Þátttakendur þurfa að greiða flug og ferðakostnað sjálfir en hægt er að sækja um ferðastyrk upp að 200 evrum.
Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Agora. Endilega hafið samband við Alþjóðaráð
Umsóknarfrestur er til og með 6. mars 2023 og er hægt að sækja um með því að fylla út umsóknareyðublaðið hér að neðan.
Tækifæri mánaðarins í alþjóðastarfi #FEBRÚAR
21/02/2023Fréttir,alþjóðastarf

Agora rekka og róverskátaviburður haldin 12.-16. apríl 2023 í Portúgal.
Vissir þú að Agora er stýrt af hópi rekka og róverskáta?
Ísland á fjögur sæti og opnað verður fyrir skráningu fljótlega!
Ekki láta þetta tækifæri framhjá þér fara!
Skátamiðstöðin lokuð 20. febrúar

Skátamiðstöðin er lokuð föstudaginn 20. febrúar meðan starfsfólk Skátamiðstöðvarinnar og Úlfljótsvatns gera sér glaðan dag. Hægt er að senda okkur erindi á skatarnir@skatarnir.is og vænta svara strax á morgunn.
Skátar fjölmenntu á Útilífsnámskeið Skíðasambands skáta

Síðastliðna helgi tóku 43 skátar þátt í Útilífsnámskeiði Skíðasambands skáta á Laugaborg á Hrafnagili.
Námskeiðið er grunnnámskeið í útilífi fyrir ungmenni, með áherslu á vetrarútivist en markmiðið er að auka áhuga þátttakenda og leggja góðan grunn að frekari færni.

Á námskeiðinu fá þátttakendur margvíslega fræðslu, meðal annars um búnað, ferðahegðun, rötun, skyndihjálp og snjóflóð, en mikilvægasti þáttur námskeiðsins felst í reynslunámi þar sem þátttakendur elda úti og gista í tjaldi að vetrarlagi.
Veðrið setti þó sinn svip á námskeiðið á þessu sinni. Appelsínugul viðvörun var á laugardegi sem gerði það að verkum að ekki var hægt að gista í tjaldi seinni nóttina eins og hefð er fyrir. Þá var einnig lítið um snjó sem setti aðeins strik í reikninginn.



Skátarnir létu það þó ekki á sig fá og tóku virkan þátt í ævintýralegri, skemmtilegri og krefjandi dagskrá.
Skíðasamband skáta hefur staðið fyrir námskeiðinu í áraraðir og við hlökkum til að sjá námskeiðið vaxa og dafna á komandi árum.
Takk fyrir gott námskeið!
Ljósmynd/Árni Már Árnason
Fimmtán öflugir skátar hefja Gilwell leiðtogaþjálfun

Gilwell þjálfunin er æðsta leiðtogaþjálfun skáta og er metnaðarfullt 11 mánaða nám fyrir starfandi foringja, stjórnarfólk og aðra fullorðna skáta sem starfa með BÍS eða í skátafélagi.
Eftir 4 ára hlé hófst hin langþráða Gilwell þjálfun á ný á gamalkunnum slóðum á Úflljótsvatni og var því mikil eftirvænting fyrir helginni. Föstudaginn 20. janúar sátu þó bæði skátar og leiðbeinendur stúrin heima í stofu að horfa á handboltaleik í stað þess að sitja við eldinn í Ólafsbúð, þar sem veðurviðvaranir og færð komu í veg fyrir að námskeiðið færi af stað á réttum tíma.
Eldsnemma á laugardagsmorgun var hópurinn mættur með pússaða gönguskó og vel straujaðar skyrtur og klúta og hóf störf við leik og nám. Mesta spennan á hverju Gilwell námskeið er að sjálfsögðu flokkaskiptingin og fengu Uglur, Gaukar, Dúfur og Spætur nýja meðlimi þessa helgina.
Aðal áhersla á fyrsta hluta Gilwell þjálfunarinnar eru gildi skáta, einstaklingsins og hreyfingarinnar. Fyrir mörgum var þetta nýtt viðfangsefni og öðrum nokkuð kunnuglegt.
Í þetta sinn voru gildin vafin inn í þemað á Njáluslóðum og því stóð Hallgerður langbrók fyrir ástríðu, hörku og orku sem Spætuflokkurinn til dæmis samsamaði sig vel við.
Allir Gilwell ungarnir fóru glöð heim með sín fyrstu gilwell einkenni og hugmyndir að spennandi verkefnum til að vinna skátahreyfingunni til eflingar næstu mánuði.
Einn skáti, Karen Öder úr skátafélaginu Fossbúum, kláraði sinn feril um helgina, og fékk hún því sín einkenni. Við óskum henni innilega til hamingju með áfangan.
Næsti hluti þjálfunarinnar hefst í júní en þá mun hópurinn hafast við í tjöldum og rýna í skátastarfið á allt annan hátt.
Við hlökkum til að hitta hópinn aftur!
Nýtt fyrirkomulag erindreksturs 2023

Um 2022 voru gerðar talsverðar breytingar á skipulagi Skátamiðstöðvarinnar. Breytingar sem ætlaðar voru til þess að auka þjónustu og stuðning við skátafélög og sjálfboðaliða. Meðal breytinga voru að þá störfuðu þrír erindrekar, með það markmið að þjónusta og styðja félögin í starfi sínu. Fyrsta skrefið sem nýtt teymi ákvað að taka var að skipta félögunum formlega niður svo að hvert félag eigi sinn erindreka sem stjórnir og skátaforingjar viti að þau geti leitað til eftir stuðningi. Þannig værii betur hægt að tryggt jafna þjónustu við öll skátafélög, byggja upp traustara samband við félagsráð hvers skátafélags en einnig einfalda skátafélögum öll samskipti við Skátamiðstöðina.
Einn erindreka lauk störfum undir lok árs 2022 og í framhaldi starfa nú 2 erindrekar hjá Skátamiðstöðinni. Þau ætla áfram að skipta með sér félögum þar sem það hefur gert öll samskipti einfaldari bæði fyrir skátafélögin og fyrir Skátamiðstöðina.
Skipting erindreka á skátafélög er eftirfarandi:

Sigurgeir B. Þórisson
Netfang: sigurgeir@skatarnir.is
Sími: 550 9801 / 867 0604
- Skátafélag Akranes
- Skátafélagið Árbúar
- Skátafélag Borgarness
- Skátafélagið Farfuglar
- Skátafélagið Faxi
- Skátafélagið Garðbúar
- Skátafélagið Hafernir
- Skátafélagið Heiðabúar
- Skátafélagið Klakkur
- Skátafélagið Kópar
- Skátafélagið Mosverjar
- Skátafélagið Svanir
- Skátafélagið Vogabúar

Sædís Ósk Helgadóttir
Netfang: saedis@skatarnir.is
Sími: 550 9805 / 661 6433
- Skátafélagið Eilífsbúar
- Skátafélagið Fossbúar
- Skátafélagið Hraunbúar
- Skátafélagið Landnemar
- Skátafélagið Segull
- Skátafélagið Skjöldungar
- Skátafélagið Stígandi
- Skátafélagið Strókur
- Skátafélagið Vífill
- Skátafélagið Ægisbúar
- Skátafélagið Örninn
Erindrekarnir vinna áfram sem teymi að öllum verkefnum og þvert á þessa skiptingu við stuðning verkefna eftir þeirra styrkleikum og þekkingu hverju sinni. En nú geta félögin alltaf treyst á þennan aðila til að hjálpa sér að finna bestu lausnina á sínum áskorunum. Þar að auki verður þessi erindreki tengiliður skátafélagsins þegar kemur að nokkurs konar upplýsingamiðlun til Skátamiðstöðvarinnar eða BÍS og geta sent öll gögn, allar fyrirspurnir og öll önnur mál sem þau vita ekki alveg nákvæmlega hverjum öðrum þau ættu að berast tengt skátastarfinu.









