Skátar fjölmenntu á Útilífsnámskeið Skíðasambands skáta

Síðastliðna helgi tóku 43 skátar þátt í Útilífsnámskeiði Skíðasambands skáta á Laugaborg á Hrafnagili.

Námskeiðið er grunnnámskeið í útilífi fyrir ungmenni, með áherslu á vetrarútivist en markmiðið er að auka áhuga þátttakenda og leggja góðan grunn að frekari færni.

Á námskeiðinu fá þátttakendur margvíslega fræðslu, meðal annars um búnað, ferðahegðun, rötun, skyndihjálp og snjóflóð, en mikilvægasti þáttur námskeiðsins felst í reynslunámi þar sem þátttakendur elda úti og gista í tjaldi að vetrarlagi.

Veðrið setti þó sinn svip á námskeiðið á þessu sinni. Appelsínugul viðvörun var á laugardegi sem gerði það að verkum að ekki var hægt að gista í tjaldi seinni nóttina eins og hefð er fyrir. Þá var einnig lítið um snjó sem setti aðeins strik í reikninginn.

Skátarnir létu það þó ekki á sig fá og tóku virkan þátt í ævintýralegri, skemmtilegri og krefjandi dagskrá.

Skíðasamband skáta hefur staðið fyrir námskeiðinu í áraraðir og við hlökkum til að sjá námskeiðið vaxa og dafna á komandi árum.

Takk fyrir gott námskeið!

 

Ljósmynd/Árni Már Árnason