Fimmtán öflugir skátar hefja Gilwell leiðtogaþjálfun

Gilwell þjálfunin er æðsta leiðtogaþjálfun skáta og er metnaðarfullt 11 mánaða nám fyrir starfandi foringja, stjórnarfólk og aðra fullorðna skáta sem starfa með BÍS eða í skátafélagi.

Eftir 4 ára hlé hófst hin langþráða Gilwell þjálfun á ný á gamalkunnum slóðum á Úflljótsvatni og var því mikil eftirvænting fyrir helginni. Föstudaginn 20. janúar sátu þó bæði skátar og leiðbeinendur stúrin heima í stofu að horfa á handboltaleik í stað þess að sitja við eldinn í Ólafsbúð, þar sem veðurviðvaranir og færð komu í veg fyrir að námskeiðið færi af stað á réttum tíma.

Eldsnemma á laugardagsmorgun var hópurinn mættur með pússaða gönguskó og vel straujaðar skyrtur og klúta og hóf störf við leik og nám.  Mesta spennan á hverju Gilwell námskeið er að sjálfsögðu flokkaskiptingin og fengu Uglur, Gaukar, Dúfur og Spætur nýja meðlimi þessa helgina.

Aðal áhersla á fyrsta hluta Gilwell þjálfunarinnar eru gildi skáta, einstaklingsins og hreyfingarinnar. Fyrir mörgum var þetta nýtt viðfangsefni og öðrum nokkuð kunnuglegt.
Í þetta sinn voru gildin vafin inn í þemað á Njáluslóðum og því stóð Hallgerður langbrók fyrir ástríðu, hörku og orku sem Spætuflokkurinn til dæmis samsamaði sig vel við.

Allir Gilwell ungarnir fóru glöð heim með sín fyrstu gilwell einkenni og hugmyndir að spennandi verkefnum til að vinna skátahreyfingunni til eflingar næstu mánuði.

Einn skáti, Karen Öder úr skátafélaginu Fossbúum,  kláraði sinn feril um helgina, og fékk hún því sín einkenni. Við óskum henni innilega til hamingju með áfangan.

Næsti hluti þjálfunarinnar hefst í júní en þá mun hópurinn hafast við í tjöldum og rýna í skátastarfið á allt annan hátt.

Við hlökkum til að hitta hópinn aftur!