160 drekaskátar dönsuðu diskó á Úlfljótsvatni

Diskódrekar fylktu liði á Úlfljótsvatn um helgina þegar 160 drekaskátar á aldrinum 8-10 ára reistu tjaldbúð, dönsuðu diskó og skemmtu sér að skáta sið.
Ný mótsstjórn lék listir sínar í fyrsta sinn, með stuðningi 25 starfsmanna mótsins á aldrinum 16-28 ára.

Veðrið lék við hópinn á föstudaginn og var því auðvelt að tjalda og koma sér fyrir. Um 260 skátar tóku þátt í mótinu í heild sinni auk þess voru fjölskyldur drekanna sjáanlegar á tjaldsvæðinu.  Laugardagurinn gekk vel, dagskrá fór fram víðsvegar um Úlfljótsvatn, á vatnasvæðinu við KSÚ, í klifurturni og bogfimi auk þess sem mótið gróðursetti skjólbelti við stallaflatirnar undir handleiðslu Skógræktarfélags Íslands. Drekagleðin skein úr andlitum skátanna við heimför á sunnudag og voru öll sammála um að mótið hefði verið afskaplega vel heppnað og hlakka til að koma aftur að ári.


Nýja útgáfan af Forsetamerkisbókinni er loksins komin!

Ný uppfærð útgáfa af Vegabréfi rekkaskáta á leið að Forsetamerkinu er nú loksins komin úr prentun!
Bókin hefur verið uppfærð í samræmi við starfsgrunninn og fengið yfirhalningu til að endast betur.
Nú geta allir rekkaskátar haldið glaðir inn í sumarið og byrjað að skipleggja næstu ævintýri í Vegabréfinu.
Bókin er fáanleg í Skátabúðinni og í vefverslun.


IST - Icelandic National Jamboree

Choose everything that applies.
both scouting and guiding experience and other experiences.

Nýir meðlimir í fastaráðum BÍS

Á Skátaþingi í lok mars var samþykkt af þingi breyting á 26.grein laga sem fjallar um að láti einhver meðlimur fastaráða af störfum á miðju tímabili skal stjórn BÍS í samráði við uppstillinganefnd manna stöðuna fram að næsta aðalfundi. Stjórn BÍS hefur því skipað tvo nýja meðlimi í Útilífsráði, þær Önnu Margréti Tómasdóttur og Hrafnhildi Sigurðardóttir.  Þær byrjuðu að starfa með ráðinu í byrjun árs þar sem ráðið einblínir að því að stuðla að aukinni útivist skáta á Íslandi.

Á ungmennaþingi 2023 auglýsti ungmennaþing allar stöður lausar og voru eftirfarandi kjörin í ráðið á ungmennaþingi: Arnbjörg Ýr Sigurðardóttir, Högni Gylfason, Jóhann Thomasson og Svava Dröfn Davíðsdóttir. Skátaþing samþykkti síðan þessa skipun.

 


Útkall eftir umsóknum á alþjóðlegt Gilwell námskeið í Slóveníu

BÍS stendur til boða að senda 6 þátttakendur á alþjóðlegt Gilwell leiðtogaþjálfunar námskeið sem haldið verður í Slóveníu. Námskeiðið er styrkt af Erasmus+ og verða þátttakendur frá Íslandi, Slóveníu, Serbíu og Svartfjallalandi. Námskeiðið fer fram á ensku. Að námskeiði loknu þurfa þátttakendur að mæta á lokahelgi Gilwell þjálfunarinnar á Íslandi.

HVAR OG HVENÆR

Námskeiðinu í Slóveníu er skipt í 2 hluta:

  • Fyrri hlutinn verður haldinn í skátamiðstöð við Bohinj-vatn dagana 12.-19. ágúst. Gist verður í tjöldum.
  • Seinni hlutinn verður haldinn 23.-25. febrúar 2024, nákvæm staðsetning verður staðfest síðar en yfirleitt er helgin haldin í Postojna.

Að því loknu verður lokahelgi Gilwell þjálfunarinnar haldin í nóvember 2024 á Úlfljótsvatni.

MARKMIÐ

Markmið námskeiðsins er að bjóða upp á ævintýralegt námskeið ásamt því að styrkja leiðtogahæfni þátttakenda. Á námskeiðinu er mikil áhersla á gildi, bæði einstaklingsins og skátahreyfingarinnar, og þurfa þátttakendur að vera tilbúin að taka þátt í verkefnum sem krefjast ígrundunar á eigin gildum og viðhorfum.

KRÖFUR

Þátttakendur þurfa að vera 20 ára, hafa reynslu af foringjastörfum, eða öðrum leiðtogastörfum, innan skátahreyfingarinnar og stefna á að halda því áfram. Jafnframt er æskilegt að þátttakendur hafi lokið sveitarforingjanámskeiði.

KOSTNAÐUR

Námskeiðið er styrkt af Erasmus+ og eru námskeiðsgjöld því 0 kr. Jafnframt er ferðakostnaður upp að 530 evrum á mann. Ferðakostnaður umfram það er greiddur af þátttakenda. Að auki þarf að greiða 21.000 krónur fyrir útskriftarhelgi á Íslandi.

UMSÓKNIR

Umsóknir skulu berast í gegnum formið hér að neðan. Umsóknarfrestur er til og með 17 maí.

Vinsamlegast skrifaðu bara önnur tungumál ef þú myndir treysta þér að vera í samskiptum við erlenda skátahópa á því tungumáli
Vinsamlegast skrifaðu starfsheiti eða stutta lýsingu á hvað þú fæst við.

Sumardagurinn fyrsti 2023

Sumardagurinn fyrsti 2023 er haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 20. apríl um land allt og hafa skátar skipulagt og standa að glæsilegum og stórskemmtilegum hátíðarhöldum fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra.

 

Í Reykjavík

Skátafélagið Árbúar í Árbæ

Staðsetning: Árbæjarsafn
Tímasetning: 12:30-16:00

Skátafélagið Árbúar leiðir skrúðgöngu frá Árseli að Árbæjarsafni en þar tekur við póstaleikur, útieldun og fleira. Veitingasala verður á staðnum sem fjáröflun fyrir félagið. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.

Skátafélögin Garðbúar í Fossvogi, Landnemar í Hlíðunum og Skjöldungar í Laugardal

Staðsetning: Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Tímasetning: 14:00-17:00

Skátafélögin þrjú ætla að sameina krafta sína og standa fyrir miklu sumarfjöri í fjölskyldu og húsdýragarðinum. Dagskráin verður í gangi á milli 14:00 og 17:00 þar sem hoppukastalar, klifurveggur og skátaþrautir verða í boði. Á staðnum verður sölutjald þar sem ýmis góðgæti verður til sölu sem fjáröflun fyrir unga skáta sem stefna á Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu 2023. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.

Skátafélagið Vogarbúar í Grafarvogi

Staðsetning: Skátaheimili Vogabúa, Logafold 106
Tímasetning: 13:00-16:00

Skátafélagið Vogabúar munu standa fyrir skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna við skátaheimilið sitt. Í boði verða leiktæki, hoppukastalar og ýmis skemmtun með skátaívafi. En síðan verða sirkúsatriði og mun trúbadorinn Jón Sigurðsson halda uppi stuðinu. Á staðnum verður veitingasala og candylfoss sem fjáröflun fyrir skátafélagið. Fá frekari upplýsingar á facebook auglýsingu.

Skátafélagið Ægisbúar í Vesturbænum

Staðsetning: Skátaheimili Ægisbúa, Neshaga 3
Tímasetning: 11:00-14:00

Skátafélagið Ægisbúar blæs til sumarhátíðar á sumardeginum fyrsta við skátaheimili sitt. Á staðnum verða hoppukastalar auk annarar skemmtunar. Á staðnum verða sölutjöld með góðgæti og ýmis matarkyns sem fjáröflun fyrir félagið. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.

Í Kópavogi

Skátafélagið Kópar

Staðsetning: Skátaheimili Kópa
Tímasetning: 14:00-17:00

Skátafélagið Kópar bjóða öllum Kópum og fjölskyldum þeirra í skátaheimilið sitt í opið hús. Veitt verða heiðursmerki til sjálfboðaliða kópa og í boði verður ratleikur um dalinn ásamt heitu kakói og vöfflur. Hægt er að sjá frekari upplýsingar hér á facebook viðburðinum.

Í Garðabæ

Skátafélagið Svanir og Skátafélagið Vífill

Staðsetning: Vídalínskirkju og Miðgarði
Tímasetning: 13:00-16:00

Skátafélögin Svanir og Vífill verða með skrúðgöngu frá Hofsstaðaskóla kl. 14 sem gengur að Miðgarði íþróttamiðstöð og þar tekur skemmtidagskrá við stútfull af tónlistarfólki, töframönnum, andlitsmálun, hoppuköstulum, veltibíl og candyfloss.

Frekari upplýsingar má finna á upplýsingasíðu Garðabæjar. Eða á facebook viðburði hátíðarinnar hér.

Í Hafnarfirði

Skátafélagið Hraunbúar

Staðsetning: Víðistaðakirkju og Thorsplani
Tímasetning: 13:30-16:00

Skátafélagið Hraunbúar tekur þátt í hátíðarhöldunum og verður með skemmtilega og fjölbreytta skátadagskrá fyrir alla fjölskylduna á Víðistaðatúni og við skátamiðstöðina Hraunbyrgi. Í boði verður kassaklifur, klifurveggur, útieldun þar sem grillaðir eru sykurpúðar og hike-brauð, hoppukastalar, bátar og risa hengirúm. Í Hraunbyrgi verður kaffisala og á Víðistaðatúni verður söluhús með ullarsykur, krap og popp. Hægt er að skoða frekari upplýsingar á heimasíðu Hafnafjarðar hér eða á facebook viðburði hátíðarinnar hér.

Í Mosfellsbæ

Skátafélagið Mosverjar

Staðsetning: Miðbæjartorgi og Varmá
Tímasetning: 13:00-16:00

Skátafélagið Mosverjar mun leiða skrúðgöngu frá Miðbæjartorgi að Varmá þar sem skólahljómsveit Mosfellsbæjar tekur á móti skrúðgöngunni með sumartónum. Að skrúðgöngu lokinni hefst dagskrá á Varmá með hoppuköstulum, kassaklifri, leikjum, og þrautum. . Frekari upplýsingar má finna á facebook viðburði hátíðarinnar.

Í Reykjanesbæ

Skátafélagið Heiðabúar

Staðsetning: Keflavíkurkirkju og skátaheimili Heiðabúa, Hringbraut 101
Tímasetning: 12:30-17:30

Skátafélagið Heiðabúar mun leiða skrúðgöngu frá skátaheimilinu að Keflavíkurkirkju þar sem skátafélagið kemur að hátíðarmessu þar sem nýjir skátar verða vígðir. Hægt er að fylgjast með Heiðabúum á facebook síðu þeirra hér.

Í Hveragerði

Skátafélag Strókur

Staðsetning: Hveragerðiskirkja
Tímasetning: 11:00

Skátafélagið Strókur verður með skátamessu í Hveragerðiskirkju og að henni lokinni verður Strókur með sumarskemmtun barnanna á planinu fyrir frmaan kirkjuna kl. 13. Þar verður ýmislegt í boði eins og hoppukastalar, tónlist, ullarsykur og fleira. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Hveragerðis hér.

Á Selfossi

Skátafélagið Fossbúar

Staðsetning: Skátaheimilinu Glaðheimum, Tryggvagötu 36
Tímasetning: 13:00-16:00

Nóg verður um að vera á Selfossi þar sem skátafélagið Fossbúar taka þátt í hátíðinni Vor í Árborg. Skrúðganga leggur af stað frá miðbæ Selfoss að Glaðheimum, skátaheimili Fossbúa þar sem skátaverkefni að ýmsu tagi verður í boði  og er hluti af stimplaleik hátíðarinnar.   Frekari upplýsingar um hátíðina má finna á upplýsingasíðu Árborgar. Einnig er hægt að fylgjast með facebook viðburði frá Fossbúum.

Á Akranesi

Skátafélag Akraness

Staðsetning: Skátahúsið og Akraneskirkja
Tímasetning: 10:30

Skátafélagið Akraness verður með skrúðgöngu frá skátahúsinu að Akranesskirkju þar sem við tekur sumarhátíð.

Í Dalabyggð

Skátafélag Stígandi

Staðsetning: Laugar í Sælingsdal
Tímasetning: 13:00 - 15:00

Skátafélagið Stígandi tekur þátt í Jörfahátíð Dalabyggðar og bjóða alla velkomna á Lauga í Sælingsdal þar sem þau verða með leiki og fjör. Frekari upplýsingar er hægt að sjá á heimasíðu Dalabyggðar hér.

Á Akureyri

Skátafélagið Klakkur

Staðsetning: Skátaheimili Klakks, Þórunnarstræti, Glerárkirkja og tjaldsvæðinu á Hömrum
Tímasetning: 10:40-15:00

Skátafélagið Klakkur mun vera með skrúðgöngu frá Giljaskóla kl. 10:40 að Akureyrarkirkju þar sem skátafélagið kemur að messu sem hefst kl. 11:00 en að henni lokinni er öllum boðið að koma í sumarhátíð að tjaldsvæðinu á Hömrum. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Klakks.

 


Nýr framkvæmdastjóri væntanlegur til starfa

Ragnar Þór Þrastarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri BÍS og mun hefja störf í byrjun maí.

Raggi er skáti úr Vestmanneyjum og hefur víðtækan grunn í  fjalla og ferðamennsku, rekstri og í uppbyggingu fræðslumála. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn og hlökkum til að fá nýjan liðsmann í teymið í Skátamiðstöðinni.

 


Skátamiðstöðin verður lokuð yfir páskana

Skátamiðstöðin er komin í páskafrí. Lokað verður hjá okkur yfir páskana frá fimmtudeginum 6. apríl. Við opnum aftur 11. apríl. Erindi mega berast á póstfangið okkar skatarnir@skatarnir.is sem svarað verður 11. apríl.

Gleðilega páska!


Metþátttaka ungmenna á Skátaþingi

Það var mikil gleði og góður andi í hópnum sem mætti á Skátaþing um helgina. Flestir skátar bíða eftir skátaþingi með eftirvæntingu þar sem það er helsti vettvangur nýrra hugmynda og skoðanaskipta. Hópurinn sem mætti á föstudagskvöld var með endæmum hress enda höfðu margir tekið þátt í bílabingó og öðrum þrautum á leiðinni norður. Rúmlega 150 skátar tóku þátt í eða stóðu að framkvæmd Skátaþings þetta árið og fór það fram 24.-26. mars í Háskólanum á Akureyri.

Skátaþing er árleg samkomu þar sem skátahreyfingin kemur saman, heldur aðalfund sinn og rýnir í stöðu skáta á Íslandi. Þingið er einnig ákveðin uppskeruhátíð fyrir fastaráðin enda er það oft vettvangur kynninga á nýjum leiðum í skátastarfi. Það sem helst var á döfinni að þessu sinni var útgáfa endurnýjaðs starfsgrunns skáta, ný útivistarmerki sem hvetja til þátttöku í gönguferðum og fjallaferðum og að sjálfsögðu upphitun fyrir Landsmót skáta 2024.

Þingið um helgina var afskaplega vel sótt og þá hefur þátttaka ungs fólks aldrei verið meiri en 47 róverskátar, 29 rekkaskátar og 8 dróttskátar sóttu Skátaþing þetta árið og þannig voru 84 fulltrúa á þinginu á þátttakanda aldri í skátastarfi. Ekki nóg með þessa stórgóðu þátttöku ungmenna í þinginu, heldur voru einnig 53% atkvæða í höndum ungmenna og er það met frá upphafi skátaþings.

 


Í upphafi þingsins fluttu gestir ávörp, forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar Heimir Örn Árnason ræddi um mikilvægi samvinnu sveitarfélaga og skátafélaga í uppbyggingu æskulýðsstarfs. Rektor Háskóla Akureyrar Eyjólfur Guðmundsson flutti einnig ávarp og fjallaði um mikilvægi skátastarfs og þá sérstaklega hvað skátar væru á góðri leið með að byggja upp sjálfstæða einstaklinga með nýju markmiðaflokkunum í starfsgrunninum, Leiðtogafærni, Tilveran mín, Heimurinn og umhverfið, og Skapandi hugur og segir Rektor mikinn samhljóm með þessum markmiðaflokkum og endurnýjaðri stefnu háskólans á Akureyri. Að lokum fjallaði Anna Kristjana, skátafélaginu Klakki,  um 100 ára afmæli Valkyrjunar á Akureyri og sett var upp sýning um sögu félagsins á göngum háskólans.

Á aðalfundinum tíðkast að veita viðurkenningar og að þessu sinni var m.a. afhentur Hetjuðdáðarmerkið úr gulli sem veitt er þeim sem hefur hætt lífi sínu við að bjarga öðrum úr lífsháska. Handhafi merkisins var Þórhallur Helgason úr skátafélaginu Segli, en árið 1997 bjargaði hann skátaflokk út úr skálanum Vífilsbúð sem brann eftir að gaskútur gaf sig.
Þórhallur kom öllum út úr skálanum heilum og höldnu en slasaðist sjálfur á hendi í brennandi skálanum. Hlaut Þóhallur standandi lófaklapp allra viðstaddra við afhendinguna.

Aðrar viðurkenningar voru afhentar öflugum skátaforingjum sem hlutu þórshamarinn úr bronsi fyrir sín öflugu störf.
Jón Halldór Jónasson var tilnefndur til skátakveðjunar úr bronsi eftir störf sín í stjórn BÍS og Hrefna Hjálmarsdóttir hlaut skátakveðjuna úr gulli fyrir ævistarf sitt fyrir skátahreyfinguna á Akureyri.



Það vakti mikla ánægju meðal þinggesta að ný stofnað skátafélag var tekið inn í Bandalag íslenskra skáta, en skátafélagið Farfuglar var stofnað síðasta vor. Félagið starfar á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði og mættu nánast öll börn bæjarfélagsins með félaginu á skátamót síðastliðið sumar. Stofnun félagsins blæs okkur öllum byr undir báða vængi og munu stjórn BÍS og erindrekar setja áherslu á landsbyggðina næstu árin.

Í lok aðalfundar tóku við umræðuhópar og smiðjur. Þátttakendur lögðu meðal annars drög að sóknaráætlun skáta fyrir vor og haustmánuði, rýndu í stöðu húsa á Úlfljótsvatni, kynntu sér nýja þætti í hvatakerfinu og kynntust fjölmörgum möguleikum sem standa ungu fólki til boði í alþjóðastarfi.

Það var þreyttur og glaður hópur sem kvaddist að Hömrum á sunndaginn, með innblástur í farteskinu aftur heim og brennandi sóknaranda í brjósti fyrir uppbyggingu skátastarfs.


Skátamiðstöðin lokuð vegna Skátaþings

Skátamiðstöðin verður lokuð fimmtudaginn 23. mars, föstudaginn 24. mars, mánudaginn 27. mars og þriðjudaginn 28. mars sökum vinnu starfsmanna skátamiðstöðvarinnar að Skátaþingi sem fer fram helgina 24.-26. mars.

Þau sem þurfa að ná af starfsfólki geta það á vinnutíma fimmtudaginn, föstudaginn og mánudaginn með að senda viðkomandi starfsmanni tölvupóst en póstföng má finna hér. Þriðjudaginn 28. mars verður allt starfsfólk í fríi frá vinnu.

Öll almenn og minna áríðandi erindi má senda á á póstfangið okkar skatarnir@skatarnir.is og verður þeim svarað 29. mars.

 


Privacy Preference Center