Drekaskátadagurinn 2025
Drekaskátadagurinn er árlegur viðburður fyrir drekaskáta sem fer fram fyrstu helgina í mars ár hvert.
Nánari upplýsingar um staðsetningu og tímasetningu kemur þegar nær dregur.
Fálkaskátar könnuðu allan Grafarvog á Fálkaskátadegi 2023
Skátafélagið Vogabúar bauð fálkaskátum Íslands í heimsókn til sín í Grafarvoginn að taka þátt í ratleik um allt hverfið. Fálkaskátarnir fengu ýmsar vísbendingar um áhugaverða staði í Grafarvoginum sem þau áttu að finna til að kynna sér staðinn nánar eða leysa einhver verkefni á staðnum. Kalt var í veðri og mikill vindur en fálkarnir létu það ekkert á sig fá og héldu ótrauð áfram að skoða hverfið allt hverfið. Flokkarnir völdu sína eigin leið og fóru hóparnir meðal annars á Geldingarnes, í Hallsteinagarð, í Gufunes og að Korpúlfsstöðum áður en allir hóparnir hittust í skátaheimili Vogabúa.
Þar fengu þau sér verðskuldað heitt kakó að launum og skoðuðu sig um skátaheimili Vogabúa. Myndasýning frá deginum var sýnd á skjávarpa í salnum og skátarnir léku sér fyrir utan á meðan þau gæddu sér á kakói, kexi og kleinum. Að deginum loknum voru nokkrir hreyfisöngvar sungnir og var slitið með stórri hópmynd.
Yfir 100 drekaskátar komu saman á drekaskátadegi Svana
Drekaskátadagurinn 2023 var haldinn á laugardaginn seinast liðinn þann 4. mars. Dagurinn var haldinn af Skátafélaginu Svönum og fór dagskráin fram á Álftanesi í stórumhverfinu í kringum skátaheimili þeirra á Bjarnastöðum. Dagurinn gekk frábærlega fyrir sig, og fengu drekarnir ljómandi gott veður, þó það hafi verið örlítið kal, skein sólinn allan daginn og gerði leiki og dagskrá skemmtilega og létta.
Táknræn umgjörð dagsins var „Sjóræningjar og geimverur“ þar sem skátarnir tóku hlutverk sjóræningja sem voru að endurheimta kex og kakó sem geimverurnar höfðu stolið af þeim. Skátarnir gengu á milli pósta sem voru að finna dreift um stóran hluta Álftanes. Á hverjum póst tókust skátarnir á áskorunum geimveranna, í formi leikja og verkefna.
Að lokum, þegar drekarnir náðu að sigra geimverurnar, settust skátarnir niður við Bjarnastaði, skátaheimili Svana, og drukku kakó og kjömsuðu á kexi.
Drekaskátar í leik, mynd eftir Guðna Gíslason, Hraunbúa„Það var einstaklega skemmtilegt að sjá fjörið í krökkunum og foringjum“ segir Halldór Valberg, félagsforingi Svana. „Við vorum heppin með veður, sólin lék við okkur. Þegar við héldum fálkaskátadaginn fyrir nokkrum árum var svo mikið rok að við vorum hrædd um að krakkar gætu farið að fjúka, en núna fengum við þetta dásamlega veður og nýttum það vel.“
Foringjar og sjálfboðaliðar Svana þakka kærlega frábæra þátttöku og einstaklega góðan anda í þátttakendum og foringjum.
Drekaskátadagurinn 2022
Drekaskátadagurinn 2022 fór fram sunnudaginn 6.mars þar sem fjöldi drekaskáta kom saman á heimasvæði Skjöldunga í Laugardalnum. Kátir skátar fylltu dalinn og á víð og dreif mátti sjá unga skáta leysa verkefni, þar sem þeir tóku þátt í skemmtilegri og fjölbreyttri dagskrá. Dagurinn einkenndist af frábæru veðri, sólin skein og logn var í lofti, á meðan drekarnir þutu um allan Laugardalinn í ævintýralegum póstaleik með goðsöguþema. Skátarnir þurftu að leysa ýmiss verkefni og þrautir með samvinnu, hjálpsemi og útsjónarsemi að leiðarljósi ásamt því að fá tækifæri til að kynnast hvort öðru betur þvert á skátafélögin. Þegar drekaskátum tókst að leysa öll verkefnin þá sameinuðust þau í skátasöng og gleði ásamt því að ylja sér með heitu kakói og kexi.
,,Að sjá loksins fullt af skátum samankominn til að taka þátt í að gera skemmtilega hluti utandyra stendur upp úr eftir daginn. Við vorum um 70-80 skátar að leika okkur úti saman, eitthvað sem við höfum ekki getað gert síðustu tvö ár og að sjá skína í þessa gleði hjá krökkunum þegar þau gera eitthvað nýtt og spennandi er í grunninn það sem skátastarf snýst um“
segir Aron Gauti Sigurðarson, skátaforingi hjá Skjöldungum og einn skipuleggjenda drekaskátadagsins.