Ógleymanlegt Gilwell-ævintýri í Slóveníu

Íslenski fararhópurinn. Frá vinstri: Elín (Fossbúum), Tero (Úlfljótsvatni), Steinar Logi (Kópum), Hinrik (Vogabúum), Sebastian (Klakki), Hjálmar (Kópum) og Thelma (Hraunbúum).

Síðustu helgina í febrúar fóru sex skátaforingjar frá Íslandi, og einn leiðbeinandi, til Postojna í Slóveníu til að taka þátt í seinni hluta Gilwell-námskeiðs. Ferðin var hin eftirminnilegasta í alla staði og á námskeiðinu fengu foringjarnir gott veganesti fyrir foringjastörf sín, og fyrir síðasta hluta þjálfunarinnar – Gilwell-verkefnið.

Þetta er í annað sinn sem íslenskur hópur fer á Gilwell í Slóveníu, en um er að ræða fjölþjóðlegt námskeið sem styrkt er af Erasmus+, og hét fullu nafni International Wood Badge course - Bohinj 2023. Samhliða fjölþjóðlega námskeiðinu eru keyrð tvö önnur námskeið á sama tíma og undir sama hatti. Á þeim er lögð áhersla á dagskrármál annars vegar og stjórnun skátafélaga og viðburða hins vegar. Á alþjóðlega námskeiðinu er áherslan hins vegar á að foringinn læri að þekkja sjálfan sig – hver gildi hans eru og hvernig þau nýtast í leiðtogastörfum.

Fyrri hluti námskeiðsins fór fram í skátamiðstöð við Bohinj-vatn í ágúst á síðasta ári. Auk Íslendinga og Slóvena sóttu foringjar frá Svartfjallalandi og Serbíu námskeiðið líka. Gilwell-námskeið eru alltaf mikil upplifun, en að sitja slíkt námskeið í suður-evrópskri náttúruperlu og fá í leiðinni tækifæri til að kynnast vel skátaforingjum með allt annan bakgrunn, það er ævintýri líkast!

 

Fyrri hluti námskeiðsins fór fram í Bohinj í ágúst sl. Hér má sjá Tero og Sebastian vinna verkefni með flokknum sínum, úti í skógi.

Hópurinn flaug út á fimmtudegi. Eftir stutt næturstopp í höfuðborginni Ljubljana var farið með lest til Postojna-borgar, sem er hvað frægust fyrir samnefndan helli sem er alls um 23 km langur og fullur af dropsteinum. Fyrir námskeiðið gafst hópnum tími til að fara í skoðunarferð um hellinn, sem var sannarlega fyrirhafnarinnar virði.

Íslensku þátttakendurnir fóru að sjálfsögðu í Postojna-helli, sem er ævintýraheimur út af fyrir sig.

Á námskeiðinu sjálfu var að þessu sinni kafað dýpra ofan í verkefnastjórnun, fullorðna í skátastarfi, leiðtogahlutverkið, sögu Gilwell-námskeiða og fleira. Auk þess var sérstök vinnustofa þar sem þátttakendur reyndu að festa hönd á því hvað þeir höfðu lært á fyrri hluta námskeiðsins. Það getur nefnilega verið auðveldara að átta sig á slíku þegar smá tími hefur liðið og reynsla er komin á að nýta fróðleikinn af námskeiðinu.

Seinni hluti námskeiðsins fór fram í hosteli sem er líka menntaskóli fyrir verðandi skógfræðinga.

Eftir slit á sunnudegi beið svo leigubíll eftir hópnum. Leiðin lá í Predjama kastala, sem er steinsnar frá Postojna. Kastalans er fyrst getið í heimildum árið 1274, en hann er byggður að hluta inni í kletti. Eftir stutta en mjög áhugaverða heimsókn til miðalda lá leiðin aftur til Ljubljana og beint upp í flugvél.

Ferðin endaði svo á heimsókn í Predjama-kastala. Þetta væri nú ágætis skátaheimili!

Við tekur vinna við Gilwell-verkefnin, en hver þátttakandi þarf að klára verkefni sem reynir á verkefnastjórnunar- og leiðtogahæfileika viðkomandi. Verkefnin eru fjölbreytt, allt frá því að skipuleggja útilegu fyrir dróttskáta í tveimur félögum, yfir í viðamiklar rannsóknir eða bókaútgáfu.

Fyrir hvern og einn þátttakanda er ferð eins og þessi ógleymanlegt ævintýri. Fyrir utan það sem hægt er að læra á svona námskeiði fara skátaforingjarnir heim af því með nýja vini frá öðrum heimshornum. Slík vinátta getur enst alla ævi og býður upp á alls konar samstarf, skoðanaskipti, ferðalög og fleira. Þetta vita allir skátar sem hafa ferðast. Balkanlöndin kunna að virðast óralangt frá Íslandi, bæði menningarlega og landafræðilega, en eftir stutt kynni kemur auðvitað í ljós að fólk er meira og minna eins alls staðar. Við borðum morgunmat á morgnanna og kvöldmat á kvöldin.

Fyrir hreyfinguna sjálfa er svo dýrmætt að foringjar sækji sér þjálfun og reynslu sem víðast. Það auðgar flóruna heima við og kemur í veg fyrir stöðnun og fábreytni. Áherslurnar á þessu námskeiði eru enda býsna frábrugðnar þeim á íslenska námskeiðinu, þó svo að unnið sé að sama markmiði. Þess háttar fjölbreytni styrkir hreyfinguna og meðlmi hennar.

Það ætti því að vera keppikefli fyrir skátafélög og -bandalög að senda foringja sína vítt og breytt um heiminn. Þátttaka í Slóveníu-Gilwelli er einmitt ein birtingarmynd þeirrar stefnu.

Í ágúst byrjar nýtt námskeið, sem Íslendingar taka ekki þátt í, en þess í stað fara íslenskir þátttakendur á norrænt Gilwell-námskeið. Það verður spennandi að sjá hvað þau læra þar!


Nýr framkvæmdastjóri Grænna skáta

Jón Ingvar Bragason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Grænna skáta. Jón Ingvar tekur við af Kristni Ólafssyni sem óskaði eftir starfslokum þar sem hann tekur sér nýtt starf fyrir hendur á sumarmánuðum. Nýr framkvæmdastjóri mun byrja með vorinu eftir nánara samkomulagi. Grænir skátar þakka Kristni kærlega fyrir vel unnin störf í uppbyggingu félagsins undanfarin ár.
Stjórn Grænna skáta hóf ráðningarferli á nýjum framkvæmdastjóra í byrjun janúar og var starfið auglýst í aldreifingu prentmiðla, á vefsíðu, Alfreð og samskiptamiðlum sem skátahreyfingin notar. Viðtöl við umsækjendur fóru fram í febrúar.
Jón Ingvar er viðskiptafræðingur og hefur verið skáti frá unga aldri. Síðastliðin þrjú ár starfaði hann sem rekstrarstjóri Heimaleigu sem er með um 400 íbúðir í skammtímaleigu fyrir ferðamenn. Jón Ingvar hefur unnið í fjölbreyttum störfum innan skátahreyfingarinnar lengst af sem viðburðastjóri, var framkvæmdastjóri World Scout Moot 2017 sem haldið var á Íslandi.
Um Græna skáta
Grænir skátar er endurvinnslufyrirtæki í eigu Skátahreyfingarinnar á Íslandi. Helstu verkefni þess er söfnun skilagjaldsskyldra umbúða frá fólki og fyrirtækjum. Fyrirtækið rekur 150 söfnunargáma á stór-höfuðborgarsvæðinu, móttökustöð fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir auk söfnunar- og flokkunarstöðvar. Hjá fyrirtækinu starfa 40 starfsmenn í 20 stöðugildum. Fyrirtækið hefur langa sögu af því að bjóða fólki með skerta starfsgetu atvinnu. Allur ágóði af starfsemi félagsins fer til uppbyggingar skátastarfs á Íslandi. Fjölmörg skátafélög nýta jafnframt Græna skáta til fjáröflunar.


Skátapósturinn snýr aftur!

Mánaðarlega fréttabréfið okkar eða skátapósturinn snýr aftur!
Í skátapóstinum geta skátar og öll sem hafa áhuga séð yfirlit yfir helstu fréttir, viðburði, útköll og margt fleira spennandi sem er að gerast í skátastarfi á Íslandi.
Hér er hægt að lesa febrúar skátapóstinn og skrá sig á póstlistann til að fá pósta næstkomandi mánuði.


Nýtt ungmennaráð kjörið á Ungmennaþingi á Akranesi

Helgina 3.- 4. febrúar var haldið ungmennaþing fyrir skáta 25 ára og yngri í skátaheimili Skátafélags Akraness. Á þinginu var talað um hvernig ungmenni geta haft áhrif, ásamt því hvernig þing virka. Þau mál sem kosið var um á ungmennaþingi munu síðan vera borin fram á Skátaþingi. Það var mikið fjör, skemmtilegur félagsskapur og æðislegur matur. Saddir skátar eru sáttir skátar!

Upphaflega átti þingið að vera á Sauðárkróki en vegna vandræða með rútu var það fært á Akranes. Einnig frestaðist þingið um einn dag vegna veðurs. Það gekk misvel hjá fólki að komast á þingið, ferðin hjá sumum var vandræðalaus en aðrir áttu í veseni með bilaða bíla. Til þess að komast á þingið, sameinaðist fólk í bíla og notfærði sér strætó og voru þá komin klukkan 10:00 á laugardagsmorgni. Fólk kom sér og dótinu sínu fyrir og það tók ekki langan tíma fyrir masið að byrja!

Þingstörf hófust með stæl klukkan 11:00 og kosið var um fundarstjóra, fundarritara og dagskránna. Næst var framsaga, umræður og afgreiðsla áskoranna. Þær voru margar og fjölbreyttar til dæmis kom sú áskorun um aukna vetrarskátun á höfuðborgarsvæðinu ásamt áskoruninni um nýja útgáfu skátahandbókar.

Lagabreytingartillögurnar fóru fram á sama hátt og áskoranirnar. Dæmi um lagabreytingartillögu sem borinn var fram á þinginu er: Að bæta skildi við efnisyfirliti í lög BÍS.

Nokkur met voru sleginn í ár! Fleiri buðu sig fram í ungmennaráð í ár en nokkru sinni fyrr, eða tíu frábærir skátar. Í núverandi og splunkunýja ungmennaráðinu er yngsti meðlimur í sögu ungmennaþings, sem er fæddur árið 2009. Fjórir af fimm meðlimum ungmennaráðs eru staðsettir utan Höfuðborgarsvæðisins og hafa þeir aldrei verið svo margir. Einnig er það í fyrsta sinn sem ein manneskja hlýtur hlutverk bæði sem meðlimur ungmennaráðs og sem áheyrnarfulltrúi ungmenna.

Næsti dagur fór í það að skemmta sér og njóta síðustu stundanna. Gerðar voru smiðjur fyrir ungmennin: eitt um fyrrverandi ungmennaþing sem Högni Gylfason sá um, hvernig á að skipuleggja viðburð? sem Jóhann Thomasson Viderö sá um og smiðja um svefn og mikilvægi þess sem Huldar Hlynsson sá um. Einnig var farið í menningarferð upp í Akranesveita og sund áður en við kvöddum hópinn sem við höfðum eytt skemmtilegri helgi með!

Ps. pítsan var æðisleg

Texti: Ungmennaráð


Skátar halda upp á 22. febrúar - Þankadaginn

Víðsvegar um heiminn er haldið upp á 22. febrúar en hann er kallaður Þankadagur og Stofnendadagurinn (e. Founder's day).

Íslenskir skátar héldu upp á þennan dag á ýmsan hátt, sumir báru skátaklútinn eða skiptu um prófílmynd á facebook. Einnig fóru Harpa Ósk skátahöfðingi og Kolbrún Ósk Landsmótsstýra í skemmtilegt viðtal á Rás 1.
Harpa Ósk skrifaði grein um mikilvægi skátastarfs og geðheilbrigði barna og birtist hún á vísi. Skátafélagið Mosverjar hélt hátíðarkvöldvöku og skátafélagið Kópar og Gildi héldu saman kvöldvöku sem var vel sótt.


Fundarboð Skátaþings 2024

Sækja fundarboð í pdf formi

Stjórn Bandalags íslenskra skáta boðar til Skátaþings 2024.

Þingið verður haldið dagana 5.-7. apríl á Sóleimum í Grímsnesi og á Úlfljótsvatni. Þingið hefst með setningu kl. 19:00 föstudaginn 5. apríl á Sólheimum og lýkur sunnudaginn 7. apríl kl. 13:00 á Úlfljótsvatni. Aðstaðan opnar kl. 18:00 og frá þeim tíma er hægt að fá þinggögn afhent. Vakin er athygli á að ekki verður boðið upp á kvöldmat á föstudegi af þinginu. Hægt verður að kaupa kvöldmat í kaffihúsinu á Sólheimum fyrir setningu þingsins á föstudag. Maturinn kostar 3.000 krónur og fer skráning fram í Sportabler viðburði.

Dagskrá þingsins er skv. 21. grein laga BÍS og er sérstök athygli vakin á því að skv. 17. grein laga BÍS er kosningaár.

Einnig er rétt að vekja athygli á greinum 18.-20. í lögum BÍS sem fjalla um Skátaþing. Starfandi skátar hafa rétt til að sitja Skátaþing með málfrelsi og tillögurétt óháð aðildarleið. Fulltrúar skátafélaga með aðild A fara með 4 atkvæði, þar af skal eitt atkvæði bundið félagsforingja eða öðrum stjórnarmeðlim skátafélagsins í hans stað og æskilegt er að minnst eitt atkvæði sé í höndum einstaklings á aldrinum 13-25 ára.

Öll sem hyggjast taka þátt skulu skv. 18. grein laga BÍS skrá sig á skraning.skatarnir.is fyrir 29. mars klukkan 19:00. Félagsforingjar eða annað stjórnarfólk skátafélaganna skal skila kjörbréfum rafrænt fyrir setningu þar sem tilgreindir eru aðal- og varafulltrúar skátafélags á þinginu.

Þátttökugjald er 9.500 kr., innifalin eru þinggögn, léttar veitingar á föstudagskvöldi, morgunverður og  hádegisverður á laugardegi og sunnudegi ásamt almennri dagskrá sem verður boðið upp á samhliða þinginu.

Skátafélag Sólheima er gestgjafi þingsins.

Hægt verður að bóka svefnpláss í herbergjum á Sólheimum og Úlfljótsvatni fyrir einstaklinga eða hópa. Verður það auglýst sérstaklega þegar lokatala á laus gistirými er komin. Þá verður sérstakur hátíðarkvöldverður á laugardegi þingsins. Öll skráning fyrir slíkt mun fara fram í Sportabler og verður eingöngu aðgengileg þeim sem eru þegar skráð á Skátaþing.

Eftirfarandi embætti eru laus til kjörs á Skátaþingi 2024:

Stjórn

Skátahöfðingi
Gjaldkeri
Fimm meðstjórnendur

Fastaráð

Fjögur sæti í alþjóðaráði
Fjögur sæti í starfsráði
Fimm sæti í stjórn Skátaskólans
Þrjú sæti í útilífsráði

Annað

Fimm sæti í uppstillingarnefnd
Þrír félagslegir skoðunarmenn reikninga
Löggiltur endurskoðandi

Kjörin á Ungmennaþingi 2024

Áheyrnarfulltrúi ungmenna í stjórn BÍS
Fimm sæti í ungmennaráði

Framboðstilkynningar og tillögur um fólk í þessi hlutverk óskast sendar hið fyrsta og eigi síðar en 15. mars kl. 12:00 á netfangið uppstillingarnefnd@skatarnir.is. Með fundarboði fylgir tilkynning frá Uppstillingarnefnd þar sem má finna nánari upplýsingar og lýsingu á hverju hlutverki fyrir sig.

Sérstök athygli er vakin á því að ekki er hægt að skila framboðum á þinginu sjálfu.

Uppstillingarnefnd skipa:
Berglind Lilja Björnsdóttir, form s. +45 50 18 13 25 berglind@skatarnir.is
Hafdís Bára Kristmundsdóttir s. 617-1591 barahafdis@gmail.com
Jón Ingvar Bragason s. 699-3642 joningvarbragason@gmail.com
Reynir Tómas Reynisson s. 698-6226 reynirtomas@gmail.com
Sædís Ósk Helgadóttir s. 661-6433 saedis@skatarnir.is

Mikilvægar dagsetningar fram að Skátaþingi:

Rétt er að vekja athygli á eftirfarandi dagsetningum fram að þingi samkvæmt gildandi lögum BÍS.  

8. mars kl. 19:00– Fresti til að skila tillögum að lagabreytingum til stjórnar BÍS lýkur.
15. mars kl. 19:00– Fresti til að skila beiðnum um upptöku mála á Skátaþingi til stjórnar BÍS lýkur.
15. mars kl. 12:00 – Framboðsfrestur í stjórn og fastaráð BÍS rennur út.
22. mars kl. 19:00 – Fresti stjórnar BÍS til að senda félagsforingjum þinggögn og drög að dagskrá Skátaþings lýkur.
29. mars kl. 19:00 Fresti til að skila athugasemdum um útsend gögn til Skátamiðstöðvarinnar lýkur.
29. mars kl. 19:00  – Skráning á Skátaþing lýkur.
5. apríl kl. 19:00 Fresti skátafélaga til að skila gögnum og kjörbréfum til skrifstofu BÍS lýkur.
5. apríl kl. 19:00
  – Skátaþing er sett.

Upplýsingasíðu Skátaþings má finna á skatarnir.is/skatathing en þar má finna allar upplýsingar um Skátaþing í rauntíma, þangað verður gögnum hlaðið upp þegar þau berast og í síðasta lagi fyrir tilgreindan frest samkvæmt lögum. Öll þinggögn verða aðgengileg þar á rafrænu formi þegar Skátaþing verður sett.

Reykjavík,  21. febrúar 2024
Fyrir hönd stjórnar BÍS

Harpa Ósk Valgeirsdóttir
Skátahöfðingi

 


Nýtt ungmennaráð kosið á ungmennaþingi

Ungmennaþing var haldið fyrstu helgina í febrúar á Akranesi þar sem kosið var í ungmennaráð Bandalag íslenskra skáta.  Fimm sæti voru laus til kjörs í ungmennaráði auk þess sem kosið var í stöðu sérstaks áheyrnafulltrúa ungmenna í stjórn BÍS. Þau ungmenni sem voru kosin í embætti og myndi því nýtt ungmennaráð eru:

  • Annika Daníelsdóttir Schnell - Skátafélagið Akraness
  • Grímur Chunkuo Ólafsson - Skátafélagið Fossbúar
  • Hafdís Rún Sveinsdóttir - Skátafélagið Fossbúar
  • Lára Marheiður Karlsdóttir - Skátafélagið Fossbúar - Áheyrnafulltrúi ungmenna í stjórn BÍS.
  • Þorkell Grímur Jónsson - Skátafélagið Garðbúar

Nýja ungmennaráðið hefur þegar hafið störf og héldu þau fyrsta ungmennaráðsfundinn strax í vikunni eftir ungmennaþing ásamt fráfarandi meðlimum sem munu vera nýja ráðinu innan handar fyrst um sinn.

Við óskum nýju ungmennaráði innilega til hamingju með kjörið og óskum þeim velfarnaðar í nýju hlutverki.


Skátaævintýri á Útilífsnámskeiði

Helgina 9.-11. febrúar síðastliðinn stóðu Skíðasamband skáta og skátafélagið Klakkur fyrir Útilífsnámskeiði í Eyjafirði fyrir drótt- og rekkaskáta.

Námskeiðið er haldið árlega og að þessu sinni voru 20 þátttakendur á námskeiðinu, 11 skátar frá Klakki og 9 skátar af höfuðborgarsvæðinu ásamt foringjum.

Hópurinn að sunnan lagði af stað með rútu frá Skátamiðstöðinni í hádeginu föstudaginn 9. febrúar og voru mætt í Valhöll tilbúin í verkefni helgarinnar þegar námskeiðið var sett klukkan 18.

Markmið námskeiðsins er að vera hvatning til skátanna að stunda útivist að vetri til og kenna þeim hvernig best er að undirbúa sig fyrir slík ævintýri.

Til þess fá þau fræðslu um ýmislegt sem nauðsynlegt er að vita, meðal annars um viðeigandi klæðnað og búnað ásamt því að þjálfast í rötun og á gönguskíðum.

Að auki gerðu þátttakendur eldhús úr snjónum, sem nóg var af, en þar elduðu þau og borðuðu flestar máltíðir á meðan námskeiðinu stóð.

Einnig tjölduðu þau í snjónum og létu kuldan ekki á sig fá þegar þau gistu í tjöldunum seinni nóttina.

Það voru sáttir skátar sem héldu heim á sunnudegi.

 

 

 

 


Framkvæmdastjóri & Skátahöfðingi sóttu fund í Gilwell park

Helgina 9.-11. febrúar síðastliðinn sóttu Ragnar og Harpa fund skátahöfðingja og framkvæmdastjóra Evrópu í Gilwell Park á vegum Evrópustjórnar WOSM. Yfirskrift fundarins var sjálfbærni í skátastarfi og voru vinnulotur og fundir helgarinnar tileinkaðar því mest alla helgina. Í Gilwell park er góð aðstaða fyrir samkomur af þessu tagi, mörg skemmtileg og óhefðbundin rými í boði og hópurinn gisti í hefðbundnum skátaskálum á svæðinu. Fundinn sóttu yfir 50 fulltrúar 26 Evrópulanda auk fulltrúa Evrópustjórnar WOSM.

Fundir helgarinnar voru samkeyrðir að nokkru leiti á milli skátahöfðingja og framkvæmdastjóra en einnig voru vinnustofur sértaklega tileinkaðar öðrum hvorum hópnum. Það er frábært tækifæri að fá að mæta á fund þar sem aðrir einstaklingar sem sinna sömu stöðu í öðrum bandalögum ná að hittast og kynnast, deila hugmyndum og fá speglun á vandamál þvert á menningu og landsvæði.

Meðal fyrirlestra og vinnusmiðja voru
· Innleiðing sjálfbærnihugsjónar í skátastarf
· Seigla bandalaga
· Gagnadrivin ákvarðanataka
· Geðræn heils
· Sjálfbærni í rekstri
· Skautun í þjóðfélögum í Evrópu
· Gegnsæji í stjórnun bandalaga
· Þátttaka ungmenna í stjórnun bandalaga

Umræður um stefnumótun lituðu stóran hluta föstudags og laugardags og komu þá fram að mikilvægustu þættir flestra bandalaga voru vöxtur, dagskrármál, fjárhagslegur stöðugleiki, efling sjálfboðaliða og sjálfbærni.

 

Það var góð tilfinning og heilmikil upplifun að funda og ræða við alþjóðlega kollega á stað sem hefur mikla þýðingu fyrir upphaf skátastarfs í heiminum. Ekki skemmdi fyrir að við fengum að sjá Kúdúhornið fræga og silfurúlf BP sjálfs. Samkoman skilaði okkur miklum innblæstri og nýjum hugmyndum, auk þess var gott að fá staðfestingu að íslenskt skátastarf er á góðri leið í samanburði við nágrannaþjóðir okkar. Einnig er mikilvægt að átta sig á því að sameiginlegar áskoranir skátastarfs í Evrópu, hvort sem þátttakendafjöldi landsins sé 1000 eða 100.000. Frábær og vel skipulögð helgi að baki þar sem skátahöfðingi og framkvæmdastjóri koma til baka innblásin og betur tengdari en fyrir fund.

 

 


Sex dróttskátar feta fótspor Suðurskautsfara

Sex dróttskátar frá félögunum Árbúum, Fossbúum, Garðbúum og Kópum sóttu um síðastliðinn ágúst um á fá að taka þátt í Vetraráskorun Crean, þá hófust 4 undirbúningshelgar þar sem krakkarnir fengu allan þann grunn sem þau þurftu fyrir aðalvikuna.

Þann 9. febrúar byrjaði aðalvikan með því að allir mættu á úlfljótsvatn, Íslendingarnir hittu loks Írana og kepptust við að ná að tala við alla.

Yfir vikuna var farið í æfingargöngur, fyrst upp í Fossbúð svo Írarnir gætu áttað sig á aðstæðum og veðri, seinni gangan var stór hringur gegnum skóglendi, meðfram vatni, yfir tún og fjall.

Þess á milli var ýmis konar kennsla og fræðsla, veðurfræði, hvernig á að ganga í línu í fjallafæri og sagt frá ferðum Tom Crean.

Miðvikudagsmorgunn 14. febrúar vöknuðu allir eldsnemma til að klæða sig upp og borða morgunmat. 4 flokkar biðu eftir því að byrja að ganga, kl 07:00 fór fyrsti flokkurinn, kl 07:20 fór næsti flokkur, kl 07:40 fór þriðji flokkurinn og kl 08:00 fór síðasti flokkurinn. Flokkarnir gengu með flokksforingjum og björgunarsveitarmönnum, héldu fyrst upp að Fossbúð og þaðan í Grafningsrétt upp í fjöll og að hellisheiðinni. Stefnan var tekin á skátaskálana 3 sem eru saman á heiðinni: Þrym, Kút og Bæli.

Gangan var krefjandi og þegar komið var niður að skálunum um kl 17:00, fögnuðu margir þeim risastóra áfanga sem þau höfðu náð, mánuðir af þjálfun hafði þarna skilað sér í risastóru afreki sem var að feta fótspor Tom Crean. Allir elduðu sér kvöldmat og fóru þreytt og sátt að sofa eftir viðburðaríkan dag. Daginn eftir var allur búnaður tekinn saman og hópuðu sér allir saman fyrir framan Kút til að taka hópmyndir. Eftir fallegar pósur héldu allir af stað í áttina að Hellisheiðavirkjun þar sem rútan myndi taka alla í bæinn. Þegar komið var að virkjuninni tóku allir bakpokana sína af sér, fengu sér að borða og nutu þess að setjast niður. Þegar komið var í bæinn tóku allir sundfötin sín og haldið af stað í laugardalslaug enda fátt betra eftir slíka göngu.

Lokadaginn fóru allir í menningargöngu um Reykjavík, þegar líða fór að kvöldi var komið að loka athöfninni, Harpa Ósk Skátahöfðingi kom þá í heimsókn og afhenti viðurkenningarnar fyrir þátttöku á vetraráskorun Crean, allir þátttakendur hlutu viðurkenningu, enda óstöðvandi hópur.

Fagnað var með pizzaveislu og síðan var kveðjustundin mikla og haldið var heim á leið eftir langa, krefjandi og góða viku.

 

Við þökkum írsku skátunum frá Crean Challenge fyrir þennan magnaða viðburð.


Privacy Preference Center