Ógleymanlegt Gilwell-ævintýri í Slóveníu

Íslenski fararhópurinn. Frá vinstri: Elín (Fossbúum), Tero (Úlfljótsvatni), Steinar Logi (Kópum), Hinrik (Vogabúum), Sebastian (Klakki), Hjálmar (Kópum) og Thelma (Hraunbúum).

Síðustu helgina í febrúar fóru sex skátaforingjar frá Íslandi, og einn leiðbeinandi, til Postojna í Slóveníu til að taka þátt í seinni hluta Gilwell-námskeiðs. Ferðin var hin eftirminnilegasta í alla staði og á námskeiðinu fengu foringjarnir gott veganesti fyrir foringjastörf sín, og fyrir síðasta hluta þjálfunarinnar – Gilwell-verkefnið.

Þetta er í annað sinn sem íslenskur hópur fer á Gilwell í Slóveníu, en um er að ræða fjölþjóðlegt námskeið sem styrkt er af Erasmus+, og hét fullu nafni International Wood Badge course – Bohinj 2023. Samhliða fjölþjóðlega námskeiðinu eru keyrð tvö önnur námskeið á sama tíma og undir sama hatti. Á þeim er lögð áhersla á dagskrármál annars vegar og stjórnun skátafélaga og viðburða hins vegar. Á alþjóðlega námskeiðinu er áherslan hins vegar á að foringinn læri að þekkja sjálfan sig – hver gildi hans eru og hvernig þau nýtast í leiðtogastörfum.

Fyrri hluti námskeiðsins fór fram í skátamiðstöð við Bohinj-vatn í ágúst á síðasta ári. Auk Íslendinga og Slóvena sóttu foringjar frá Svartfjallalandi og Serbíu námskeiðið líka. Gilwell-námskeið eru alltaf mikil upplifun, en að sitja slíkt námskeið í suður-evrópskri náttúruperlu og fá í leiðinni tækifæri til að kynnast vel skátaforingjum með allt annan bakgrunn, það er ævintýri líkast!

 

Fyrri hluti námskeiðsins fór fram í Bohinj í ágúst sl. Hér má sjá Tero og Sebastian vinna verkefni með flokknum sínum, úti í skógi.

Hópurinn flaug út á fimmtudegi. Eftir stutt næturstopp í höfuðborginni Ljubljana var farið með lest til Postojna-borgar, sem er hvað frægust fyrir samnefndan helli sem er alls um 23 km langur og fullur af dropsteinum. Fyrir námskeiðið gafst hópnum tími til að fara í skoðunarferð um hellinn, sem var sannarlega fyrirhafnarinnar virði.

Íslensku þátttakendurnir fóru að sjálfsögðu í Postojna-helli, sem er ævintýraheimur út af fyrir sig.

Á námskeiðinu sjálfu var að þessu sinni kafað dýpra ofan í verkefnastjórnun, fullorðna í skátastarfi, leiðtogahlutverkið, sögu Gilwell-námskeiða og fleira. Auk þess var sérstök vinnustofa þar sem þátttakendur reyndu að festa hönd á því hvað þeir höfðu lært á fyrri hluta námskeiðsins. Það getur nefnilega verið auðveldara að átta sig á slíku þegar smá tími hefur liðið og reynsla er komin á að nýta fróðleikinn af námskeiðinu.

Seinni hluti námskeiðsins fór fram í hosteli sem er líka menntaskóli fyrir verðandi skógfræðinga.

Eftir slit á sunnudegi beið svo leigubíll eftir hópnum. Leiðin lá í Predjama kastala, sem er steinsnar frá Postojna. Kastalans er fyrst getið í heimildum árið 1274, en hann er byggður að hluta inni í kletti. Eftir stutta en mjög áhugaverða heimsókn til miðalda lá leiðin aftur til Ljubljana og beint upp í flugvél.

Ferðin endaði svo á heimsókn í Predjama-kastala. Þetta væri nú ágætis skátaheimili!

Við tekur vinna við Gilwell-verkefnin, en hver þátttakandi þarf að klára verkefni sem reynir á verkefnastjórnunar- og leiðtogahæfileika viðkomandi. Verkefnin eru fjölbreytt, allt frá því að skipuleggja útilegu fyrir dróttskáta í tveimur félögum, yfir í viðamiklar rannsóknir eða bókaútgáfu.

Fyrir hvern og einn þátttakanda er ferð eins og þessi ógleymanlegt ævintýri. Fyrir utan það sem hægt er að læra á svona námskeiði fara skátaforingjarnir heim af því með nýja vini frá öðrum heimshornum. Slík vinátta getur enst alla ævi og býður upp á alls konar samstarf, skoðanaskipti, ferðalög og fleira. Þetta vita allir skátar sem hafa ferðast. Balkanlöndin kunna að virðast óralangt frá Íslandi, bæði menningarlega og landafræðilega, en eftir stutt kynni kemur auðvitað í ljós að fólk er meira og minna eins alls staðar. Við borðum morgunmat á morgnanna og kvöldmat á kvöldin.

Fyrir hreyfinguna sjálfa er svo dýrmætt að foringjar sækji sér þjálfun og reynslu sem víðast. Það auðgar flóruna heima við og kemur í veg fyrir stöðnun og fábreytni. Áherslurnar á þessu námskeiði eru enda býsna frábrugðnar þeim á íslenska námskeiðinu, þó svo að unnið sé að sama markmiði. Þess háttar fjölbreytni styrkir hreyfinguna og meðlmi hennar.

Það ætti því að vera keppikefli fyrir skátafélög og -bandalög að senda foringja sína vítt og breytt um heiminn. Þátttaka í Slóveníu-Gilwelli er einmitt ein birtingarmynd þeirrar stefnu.

Í ágúst byrjar nýtt námskeið, sem Íslendingar taka ekki þátt í, en þess í stað fara íslenskir þátttakendur á norrænt Gilwell-námskeið. Það verður spennandi að sjá hvað þau læra þar!