Nýtt ungmennaráð kjörið á Ungmennaþingi á Akranesi

Helgina 3.- 4. febrúar var haldið ungmennaþing fyrir skáta 25 ára og yngri í skátaheimili Skátafélags Akraness. Á þinginu var talað um hvernig ungmenni geta haft áhrif, ásamt því hvernig þing virka. Þau mál sem kosið var um á ungmennaþingi munu síðan vera borin fram á Skátaþingi. Það var mikið fjör, skemmtilegur félagsskapur og æðislegur matur. Saddir skátar eru sáttir skátar!

Upphaflega átti þingið að vera á Sauðárkróki en vegna vandræða með rútu var það fært á Akranes. Einnig frestaðist þingið um einn dag vegna veðurs. Það gekk misvel hjá fólki að komast á þingið, ferðin hjá sumum var vandræðalaus en aðrir áttu í veseni með bilaða bíla. Til þess að komast á þingið, sameinaðist fólk í bíla og notfærði sér strætó og voru þá komin klukkan 10:00 á laugardagsmorgni. Fólk kom sér og dótinu sínu fyrir og það tók ekki langan tíma fyrir masið að byrja!

Þingstörf hófust með stæl klukkan 11:00 og kosið var um fundarstjóra, fundarritara og dagskránna. Næst var framsaga, umræður og afgreiðsla áskoranna. Þær voru margar og fjölbreyttar til dæmis kom sú áskorun um aukna vetrarskátun á höfuðborgarsvæðinu ásamt áskoruninni um nýja útgáfu skátahandbókar.

Lagabreytingartillögurnar fóru fram á sama hátt og áskoranirnar. Dæmi um lagabreytingartillögu sem borinn var fram á þinginu er: Að bæta skildi við efnisyfirliti í lög BÍS.

Nokkur met voru sleginn í ár! Fleiri buðu sig fram í ungmennaráð í ár en nokkru sinni fyrr, eða tíu frábærir skátar. Í núverandi og splunkunýja ungmennaráðinu er yngsti meðlimur í sögu ungmennaþings, sem er fæddur árið 2009. Fjórir af fimm meðlimum ungmennaráðs eru staðsettir utan Höfuðborgarsvæðisins og hafa þeir aldrei verið svo margir. Einnig er það í fyrsta sinn sem ein manneskja hlýtur hlutverk bæði sem meðlimur ungmennaráðs og sem áheyrnarfulltrúi ungmenna.

Næsti dagur fór í það að skemmta sér og njóta síðustu stundanna. Gerðar voru smiðjur fyrir ungmennin: eitt um fyrrverandi ungmennaþing sem Högni Gylfason sá um, hvernig á að skipuleggja viðburð? sem Jóhann Thomasson Viderö sá um og smiðja um svefn og mikilvægi þess sem Huldar Hlynsson sá um. Einnig var farið í menningarferð upp í Akranesveita og sund áður en við kvöddum hópinn sem við höfðum eytt skemmtilegri helgi með!

Ps. pítsan var æðisleg

Texti: Ungmennaráð