Framkvæmdastjóri & Skátahöfðingi sóttu fund í Gilwell park

Helgina 9.-11. febrúar síðastliðinn sóttu Ragnar og Harpa fund skátahöfðingja og framkvæmdastjóra Evrópu í Gilwell Park á vegum Evrópustjórnar WOSM. Yfirskrift fundarins var sjálfbærni í skátastarfi og voru vinnulotur og fundir helgarinnar tileinkaðar því mest alla helgina. Í Gilwell park er góð aðstaða fyrir samkomur af þessu tagi, mörg skemmtileg og óhefðbundin rými í boði og hópurinn gisti í hefðbundnum skátaskálum á svæðinu. Fundinn sóttu yfir 50 fulltrúar 26 Evrópulanda auk fulltrúa Evrópustjórnar WOSM.

Fundir helgarinnar voru samkeyrðir að nokkru leiti á milli skátahöfðingja og framkvæmdastjóra en einnig voru vinnustofur sértaklega tileinkaðar öðrum hvorum hópnum. Það er frábært tækifæri að fá að mæta á fund þar sem aðrir einstaklingar sem sinna sömu stöðu í öðrum bandalögum ná að hittast og kynnast, deila hugmyndum og fá speglun á vandamál þvert á menningu og landsvæði.

Meðal fyrirlestra og vinnusmiðja voru
· Innleiðing sjálfbærnihugsjónar í skátastarf
· Seigla bandalaga
· Gagnadrivin ákvarðanataka
· Geðræn heils
· Sjálfbærni í rekstri
· Skautun í þjóðfélögum í Evrópu
· Gegnsæji í stjórnun bandalaga
· Þátttaka ungmenna í stjórnun bandalaga

Umræður um stefnumótun lituðu stóran hluta föstudags og laugardags og komu þá fram að mikilvægustu þættir flestra bandalaga voru vöxtur, dagskrármál, fjárhagslegur stöðugleiki, efling sjálfboðaliða og sjálfbærni.

 

Það var góð tilfinning og heilmikil upplifun að funda og ræða við alþjóðlega kollega á stað sem hefur mikla þýðingu fyrir upphaf skátastarfs í heiminum. Ekki skemmdi fyrir að við fengum að sjá Kúdúhornið fræga og silfurúlf BP sjálfs. Samkoman skilaði okkur miklum innblæstri og nýjum hugmyndum, auk þess var gott að fá staðfestingu að íslenskt skátastarf er á góðri leið í samanburði við nágrannaþjóðir okkar. Einnig er mikilvægt að átta sig á því að sameiginlegar áskoranir skátastarfs í Evrópu, hvort sem þátttakendafjöldi landsins sé 1000 eða 100.000. Frábær og vel skipulögð helgi að baki þar sem skátahöfðingi og framkvæmdastjóri koma til baka innblásin og betur tengdari en fyrir fund.