Landsmót 2016

Landsmót skáta með gjörbreyttu sniði

Landsmót skáta sem haldið verður í júlí á næsta ári verður haldið með gjörbreyttu sniði og er það til að mæta breyttum aðstæðum vegna heimsfaraldursins. Ákveðið hefur verið á vettvangi skáta að skipta landsmótinu upp í fjögur smærri skátamót sem öll verða haldin í júlí. Gert er ráð fyrir að hvert skátafélag mæti sem ein heild á eitt af mótunum fjórum og verður sú skipting ákveðin innan tíðar svo skátafélögin geti betur undirbúið þátttöku sína.
Með þessu fyrirkomulagi er verið draga úr áhættu af því að blása þurfi mótið af eða fresta því. Með því að fækka þátttakendum sem eru á staðnum á hverjum tíma sé verið að "fletja út kúrfuna".  Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi segir að ákvörðunin hafi ekki verið létt fyrir stjórnir Bandalags íslenska skáta og Skátamóta ehf. því hluti af Landsmóti skáta er krafturinn sem kemur með fjöldanum, en nú verði að leggja áherslu á aðra þætti. Hún telur að með þessu fyrirkomulagi sé komin raunhæf áætlun sem eykur líkur á að halda Landsmót sumarið 2021.
Landsmótið verður haldið á Úlfljótsvatni og koma starfsmenn þar að undirbúningi mótsins með sjálfboðaliðum. Nú er kallað eftir þátttöku allra þeirra sem vilja taka þátt í að skapa Landsmót með breyttu sniði og eru þau beðin um að hafa samband við Jakob Guðnason, staðarhaldara á Úlfljótsvatni (jakob@skatar.is).

Hugmyndasamkeppni um nafn á stefnu BÍS

Stjórn BÍS óskar eftir hugmyndum að nafni á stefnu BÍS til næstu fimm ára. Færni til framtíðar er höfundarréttarvarið og getum við því ekki notað það.

Hefur þú kynnt þér nýju stefnuna á skatarnir.is/stefna ?
Gerðu það endilega og taktu einnig þátt í smá verðlaunaleik. Sendu þína tillögu um heiti á stefnunni á netfangið skatar@skatar.is
Stefnan verður lögð fram á Skátaþingi til samþykktar, og við kjósum einnig um besta heitið.

Skátasafnið Úlfljótsvatni

Fræðasetur skáta fékk styrk úr Styrktarsjóði skáta

Styrktarsjóður skáta styrkti Fræðasetur skáta um 100.000 krónur til efniskaupa en í sumar flutti Fræðasetrið sýningu sína og starfsaðstöðu í KSÚ á Úlfljótsvatni.  Flutningarnir og uppsetning sýningarinnar gekk vel.  Að sögn Atla Bachmann nýttist styrkurinn vel og var nýttur m.a. til kaupa á hillum sem notaðar eru í geymslum Skátasafnsins og plexigleri fyrir sýningarborð.

Fræðasetur skáta

Skátasafnið er ekki með reglulegan opnunartíma á veturna en tilkynnt er á Facebook síðu safnsins hvenær opið er hverju sinni. Skátar geta þó alltaf óskað eftir opnun fyrir hópa til að skoða setrið og jafnvel halda endurfundi gamla skátaflokksins.

Hægt er að sækja um styrki á síðu styrktarsjóðsins.


við getum ekki stoppað skátastarf

Rafrænt skátastarf

Við stoppum ekki skátastarf -> Við færum það á netið!

Þegar Covid-19 byrjaði að færast aftur í aukana í seinustu viku var ákveðið að hvetja öll skátafélög til að færa starfið sitt á netið. Þetta átti sérstaklega við fyrir eldri skáta sem eiga flest auðvelt með að eiga samskipti við aðra á netinu. Ákveðið var að setja áherslu á rafræna viðburði fyrir drótt-, rekka- og róverskáta og tókum við það að okkur, við verandi Ásgerður og Kolbrún. Þetta hefur verið skemmtileg áskorun fyrir okkur og höfum við lært margt í ferlinu, t.d. vissum við ekki hvað Discord-server er.. en við vitum það svona sirka núna!

Rafrænir viðburðir

Mörg skátafélög hafa verið að nota Discord-servera sem vettvang fyrir skátafundi og var því ákveðið að nýta þann vettvang og búa til svæði fyrir drótt-, rekka- og róverskáta. Við vissum lítið um þennan server og fengum því góða hjálp frá skátum sem kunnu vel á forritið (skáti er svo sannarlega hjálpsamur! Takk!). 

Fyrsti viðburðurinn sem var haldinn var rafrænt spilakvöld. Við vissum í raun ekkert hversu mörgum við áttum að búast við og fór það fram úr öllum væntingum þar sem hátt í 60 skátar mættu, spjölluðu saman og spiluðu. Flestir fóru í leikinn Among us, sem svipar til Varúlfs sem margir þekkja úr skátastarfi. Skemmtilegur andi var yfir öllu og gaman hversu vel til tókst!

rafrænt spilakvöld viðburður

Nýir samfélagsmiðlar prófaðir

Við settum okkur í skó yngri kynslóðanna og þá var auðvitað ekki annað hægt en að skella í TikTok áskorun! Fyrsta áskorunin sem var sett fram er #klútaflipp og hvetjum við alla til að taka þátt! Við vekjum athygli á því að ekki þarf að eiga TikTok til að taka þátt, það má einfaldlega taka myndband og senda á Kolbrúnu 🙂 

Swisskviss

Auðvitað var svo skellt í skemmtilegar spurningakeppnir, önnur sem var sérstaklega beint að fjölskyldum og hin að drótt-, rekka- og róverskátum. Mætingin var mjög góð og einstaklega skemmtilegt að “hitta” svona marga skáta og eiga góða kvöldstund saman 🙂 Það mátti sjá kakóbolla hjá mörgum, gleðin var allsráðandi og miklar pælingar í gangi! Takk allir fyrir þátttökuna!

Höldum stuðinu gangandi

Framundan eru spennandi viðburðir og má til dæmis nefna Minecraft og PowerPoint kynningar. Fyrir ykkur sem finnst það ekki hljóma spennandi, þá mælum við með að fylgjast vel með því! Þetta verða sko ekki venjulegar PowerPoint kynningar…

Við látum ykkur vita hvað er í gangi á samfélagsmiðlum skátanna og hvetjum ykkur til að fylgjast með okkur þar! Skátarnir á Facebook, Instagram og TikTok! 

Hlökkum til að sjá ykkur á netinu á næstu dögum! Fylgist vel með hvað kemur næst!

Kveðja,
Ásgerður og Kolbrún


Útkall - framboð í fastaráð BÍS

Frá uppstillingarnefnd BÍS fyrir Skátaþing 2020,

Vegna forfalla köllum við eftir framboðum í tvö fastaráð BÍS, alþjóðaráð og starfsráð, eitt sæti í hvort ráð til tveggja ára.  Um er að ræða spennandi verkefni í ráðunum og tækifæri til að hafa með skemmtilegu fólki, áhrif á skátastarf landsvísu á sviðum dagskrármála annars vegar og alþjóðamála hins vegar.

Hlutverk ráðanna skv. lögum BÍS:

- Hlutverk starfsráðs er að styðja við og efla starf skátafélaganna í samráði við stjórnir skátafélaga, sveitarforingja og flokksforingja.

- Hlutverk alþjóðaráðs er að stuðla að því að BÍS fylgi stefnum og nýti sér stuðningsefni frá alþjóðasamtökum skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt því að annast samskipti við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.

Framboðsfrestur er til hádegis næsta miðvikudag, 21. október 2020.

Framboð berist á netfang uppstillingarnefndar: uppstilling@skatar.is.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Viktor Úlfarsson formaður uppstillingarnefndar | n. siggiulfars@gmail.com | s. 854-0074.


hrafnkell úlfur, þrymur, skátaskáli, featured image

Að vera einn með sjálfum sér

Að vera einn með sjálfum sér

Hrafnkell Úlfur Ragnarsson, Fossbúi og einbúi

“Öll vandamál mannsins stafa frá vangetu hans til þess að sitja einn í þöglu herbergi.”

-Blaise Pascal

Hringferð í kringum sjálfan sig

Sú alda hófst þegar árið var hálfnað og mánuðurinn það líka og öll ungmenni landsins höfðu klárað sinn skólaskammt og veðrið varð betra að þau hópuðu sig mörg saman í sitthvoru lagi með það fyrir stafni að keyra hringinn í kringum landið. Þessi alda skvettist yfir alla þá samfélagsmiðla sem fyrirfundust og var enginn öruggur fyrir myndum af þeim mörgum náttúruperlum sem að Ísland hefur að geyma. 

En hvað með einstakling sem finnst fátt leiðinlegra en að keyra bíl? Hvað getur hán gert? Hán getur í stað þess að fara vikulanga hringferð í kringum landið ákveðið að halda sér á sama stað og farið í hringferð í kringum sjálfan sig innra með sér. Hringferð þar sem engar náttúruperlur eru að finna heldur er einungis að finna margar mismunandi hliðar á sjálfum sér. Hán getur gert eins og ég gerði og prófað að vera eitt með sjálfum sér í viku.

Ég fór því í málið og sendi póst á Stefán skálavörð Þryms sem tók afar vel í hugmyndina og fyrr en varir var ég búinn að leigja Þrym út í viku. Þetta myndi verða vika þar sem ég myndi ekki hafa aðgang að rafmagni, klukku, rennandi vatn né klósetti. En í stað þess að einblína á allt það sem ég myndi ekki hafa aðgang að í viku hugsaði ég mun frekar um það sem ég gæti gert yfir vikuna. Því þetta myndi verða vika af einsetu, lestri, göngum, frelsi, næði og rólegheitum.

þrymur skátaskáli - Hrafnkell Úlfur tók myndina

Kvikmyndafólk í leit að aðstoð

Upp rann brottfarardagur án mikils undirbúnings og var pakkað því mikilvæga, fötum, stafla af bókum og haldið út í búð til að fylla kerruna af mat þangað til að hrúgan leit út fyrir að vera sjö daga virði af næringu. Eftir það var yfirgefið siðmenninguna og haldið á leið til Þrymheima. Þegar komið var voru allir kvaddir á einn hátt eða annan og svo slökkt á símanum og yrði hann svo ekki notaður út vikuna, og var einveran þar með hafin og mundi hún ekki vera brotin nema tvisvar yfir alla vikuna. Í báðum tilfellum voru þetta örstuttar utanaðkomandi heimsóknir sem að entust samanlagt ekki nema um 10 mínútur. Í fyrra tilfellinu kom kvikmyndatökufólk í leit að aðstoð vegna þess að þau fundu ekki Bæli, en höfðu þó fundið Kút, og seinna tilfellið var fjölskylda sem átti leið hjá og ákvað því að banka upp á Þrym til að sjá hvað var um að vera, og bjóst líklega ekki við einbúa.

Hrafnkell, einvera í skátaskála, þrymur, hugvekja
Hrafnkell, einvera í skátaskála, þrymur, hugvekja. Mynd frá Hrafnkeli Ragnarssyni

Frelsandi og einfalt líf

En í hverju fólst þessi vikulanga einvera? Fyrst og fremst fólst hún í miklum lestri samhliða því að kanna þá náttúru sem í nærumhverfinu var, og einfaldlega því að vera einn og gera ekki neitt. Þessi einvera var gífurlega frelsandi og róleg. Ég var ekki með neitt skipulag yfir vikuna að því frátöldu að ganga í og baða mig í Reykjadal sem að ég gerði á fimmtudeginum. Þetta skipulagsleysi leiddi til þess að ég bar ekki ábyrgð á neinu og þurfti því ekki að hafa áhyggjur af neinu. Einnig hjálpaði það að ég var ekki með neina klukku á mér og vissi því aldrei hvað klukkan var og gat því aldrei skipulagt neitt almennilega. Dagurinn skiptist því í þrjú mislöng tímabil, þegar sólin var uppi, þegar sólin var komin fyrir fjall og þegar sólin var sest. Þetta þýddi að ég fór yfirleitt að sofa stuttu eftir að sólin sast og vaknaði þegar hún byrjaði að skína í gegnum gluggana hjá mér, aldrei vitandi hvað klukkan var í raun.

Lífið yfir þessa viku snérist um að vakna, gera mér hafragraut, lesa bækur, fara í göngur, saga niður eldivið, kynda kamínuna þegar sólin var farin fyrir fjall og það byrjaði að kólna, elda mér kvöldmat. Þetta var afar einfalt líf, en mér leiddist aldrei heldur var það þveröfugt. Þetta var allt afar fljótt að líða og áður en ég vissi af var dvöl minni í Þrym lokið. Ég lærði margt um sjálfan mig og lífið almennt í þessari ferð, og var það ekki bara í gegnum lestur á bókum sem það gerðist heldur var það vegna einsetu minnar sem að ég náði að kynnast sjálfum mér svona vel. Þetta var einfalt líf, en þetta var gott og kósý líf.

Hrafnkell, einvera í skátaskála, þrymur, hugvekja

“Einungis í einsetu getur maður upplifað raunverulegt frelsi”

-Michel Montaigne


Nýr alþjóðafulltrúi WAGGGS

Þórey Lovísa og Sunna Líf Alþjóðafulltrúar BÍS

Við kynnum með stolti nýjan alþjóðafulltrúa BÍS. Sunna Líf Þórarinsdóttir verður fyrsti tengiliður BÍS við heimssamtök kvenskáta og Þórey verður fyrsti tengiliður BÍS við heimssamtök skáta. Stjórn BÍS hefur skipað þær í hlutverkin til Skátaþings 2022 og munu þær að sjálfsögðu einnig starfa með alþjóðaráði. Við viljum jafnframt þakka Eriku Eik fyrir að hafa staðið vaktina sem alþjóðafulltrúi síðasta hálfa árið og óskum henni góðs gengis í háskólanámi í Finnlandi.

Fyrsta verkefni Sunnu var að mæta á fund hjá Norðurlandasamstarfi skáta um síðustu helgi, í fjarfundi að sjálfsögðu.


Fjölskylduskátasveit Skjöldunga tók á móti tilnefningu

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla voru afhent í 25. sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu á afmælisdegi samtakanna, 17. september 2020. Þar tók Helga Þórey, félagsforingi Skjöldunga við tilnefningu um Foreldraverðlaunin fyrir verkefnið Fjölskylduskátasveit Skjöldunga.

Ljósmyndari: Jón Svavarsson
Ljósmyndari: Jón Svavarsson

 

Við á Skátamiðstöðinni óskum þeim innilega til hamingju með þessa flottu tilnefningu!

 


Skátaþing 2020 - Fundarboð

Stjórn Bandalags íslenskra skáta hefur sent fundarboð og boðað til Skátaþings 2020.

Fundarboðið er svohljóðandi:

Með bréfi þessu boðar stjórn Bandalags íslenskra skáta til Skátaþings 2020.

Þingið verður haldið þann 31. október 2020 í félagsheimili Fáks, Vatnsveituvegi í Víðidal.  Fulltrúar með atkvæðisrétt geta tekið þátt í gegnum fjarfundabúnað og gildir sami skráningarfrestur á þingið.  Streymt verður frá þinginu á vefsíðu skátanna.  Þingsetning er klukkan 9:00 og húsið opnar 8:30.

Sérstök athygli er vakin á því að aftur er hægt að skila inn framboðum, beiðnum um upptöku mála og lagabreytingum en þessi frestur færist með breyttri dagsetningu líkt og 17. og 18. grein laga BÍS kveða á um.

Afhending þinggagna fer fram á fundarstað, þangað til eru þau aðgengileg á vefsvæði skátaþings sem má finna á slóðinni: https://skatarnir.is/skatathing.

Dagskrá þingsins er skv. 20. grein laga BÍS en einnig er rétt að vekja sérstaka athygli á greinum 16 – 19 í lögum BÍS sem fjalla um Skátaþing.

Við undirbúning þingsins verður lögð áhersla á að virkja alla þátttakendur. Til þess að þetta megi takast sem best er nauðsynlegt að skráning þátttakenda berist tímanlega. Allir starfandi skátar hafa rétt til að sitja Skátaþing með málfrelsi og tillögurétti. Skátafélög eru hvött til þess að vekja athygli sinna skáta á þinginu.

Þátttökugjald er 2.500 kr. og innifalin eru þinggögn og léttar veitingar á meðan á þingi stendur.  Ekkert þátttökugjald er fyrir fulltrúa sem taka þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Skráning þingfulltrúa er hafin á: https://sportabler.com/shop/skatarnir og skulu þingfulltrúar hafa skráð sig eigi síðar en laugardaginn 24. október 2020. Rétt er að ítreka að ALLIR skátar sem hyggjast taka þátt í þinginu skrái þátttöku sína.

Rétt er að minna á að lokafrestur til að skila stjórn BÍS tillögum til breytinga á lögum BÍS er 4 vikum fyrir þing, þ.e. 3. október og lokafrestur til að skila beiðnum til stjórnar BÍS um upptöku mála á Skátaþingi er 3 vikum fyrir þing, þ.e. 10. október.

Eftirtalin hlutverk eru laus til kjörs:

Stjórn:
Skátahöfðingi
Gjaldkeri
5 meðstjórnendur
Fastaráð:
3 sæti í alþjóðaráði
3 sæti í starfsráði
3 sæti í stjórn Skátaskólans
3 sæti í ungmennaráði
Önnur hlutverk:
5 sæti í uppstillinganefnd
3 félagslegir skoðunarmenn reikninga
Löggiltur endurskoðandi

Uppstillinganefnd lagði fram lista með frambjóðendum í öll ofangreind embætti fyrir Skátaþing sem átti að vera í apríl í samræmi við lög BÍS. Sjálfkjörið hefði verið í öll embætti og í vor gaf félagsforingjafundur heimild til að þeir hópar hæfu störf sem óformlegir vinnuhópar fram að Skátaþingi.

Engu að síður er framboðsfrestur til klukkan 12:00 laugardaginn 10. október. Þau sem eru áhugasöm um einhver þessara embætta skulu senda tilkynningu um framboð sitt á netfangið uppstilling@skatar.is.

Uppstillinganefnd skipa:
Andri Týr Kristleifsson            andri@kopar.is                        860-1923
Berglind Lilja Björnsdóttir       berglind@skatar.is                  659-1366
Birgir Þór Ómarsson               biggiomars@gmail.com          895-7551
Helga Rós Einarsdóttir            helgaros@gmail.com              659-4949
Sigurður Viktor Úlfarsson        siggiulfars@gmail.com            854-0074

Skátafélög með aðild A og B skulu skila kjörbréfum fyrir setningu Skátaþings en það skal gert rafrænt á slóðinni: https://skatarnir.is/kjorbref.

Vert er að nefna að þau sem skiluðu framboðum og tillögum fyrir þingið í vor þurfa ekki að gera það aftur.

Reykjavík, 11. september 2020.

F.h. stjórnar BÍS,
Guðmundur S.
Fjármála- og verkefnastjóri BÍS


Kynningarfundir um nýja stefnu skáta

Kynningarfundir um nýja stefnu skáta

Hver eru mikilvægustu málin fyrir starfandi skáta og skátaforingja og nær ný stefna að mæta óskum og áherslum þeirra? Þessar spurnignar verða ofarlega á baugi á opnum umræðufundum sem stjórn Bandalags íslenskra skáta efnir til á þessu hausti. Vinna við nýja stefnu hófst með opnum vinnustofum á liðnum vetri og nú vill stjórnin loka hringnum með opnum veffundum áður en endanleg tillaga að nýrri framtíðarsýn verður lögð fyrir Skátaþing í lok október undir yfirskriftinni Færni til framtíðar. 

Fjórir fjörugir kynningarfundir

Stefnunni er skipt í nokkra kafla og býður stjórn skátum til fjögurra og fjörugra umræðufunda á netinu þar sem farið verður á dýptina í einstaka þætti stefnunnar:

Fólk

Í þessum kafla stefnunnar verður fjallað um mannauðinn og hvernig skátarnir munu bjóða sjálfboðaliðum og starfsfólki upp á heilbrigt og uppbyggilegt starfsumhverfi. Haldinn verður netfundur 15. september. Smelltu hér fyrir tengil á viðburðinn.

Framsýni

Í þessum kafla stefnunnar verður fjallað um hvernig skátarnir munu starfa í takt við tímann og oftar en ekki einu skrefi á undan, eins og segir í drögum að stefnunni. Haldinn verður netfundur 21. september. Smelltu hér fyrir tengil á viðburðinn.

Færni

Í þessum kafla stefnunnar verður fjallað um hvernig skátarnir ætla með vandaðri dagskrá og þjálfun að veita þátttakendum tækifæri til að öðlast færni til framtíðar. Haldinn verður netfundur 30. september. Smelltu hér fyrir tengil á viðburðinn.

Stefnan í heild

Á síðasta netfundinum verður stefnan í heild til umræðu og er það jafnframt síðasti séns til breytinga á þeirri tillögu sem lögð verður fyrir skátaþing. Haldinn verður netfundur 8. október. Smelltu hér fyrir tengil á viðburðinn.

Hvað er skátastarf?

„Flestir eru sammála um hver séu stóru málin í skátahreyfingunni, en við þurfum öll að vera saman í að keyra þau áfram,“ sagði Harpa Ósk Valgeirsdóttir, formaður dagskrárráðs í viðtali fyrr í sumar um mikilvægi þess að skátar kynni sér stefnuna. „Við þurfum öll að vera meðvituð um hvert við erum að fara og þessi stefna hjálpar okkur við að vita það og hjálpar okkur við að svara spurningunni hvað er skátastarf“


Privacy Preference Center