Kynningarfundir um nýja stefnu skáta

Hver eru mikilvægustu málin fyrir starfandi skáta og skátaforingja og nær ný stefna að mæta óskum og áherslum þeirra? Þessar spurnignar verða ofarlega á baugi á opnum umræðufundum sem stjórn Bandalags íslenskra skáta efnir til á þessu hausti. Vinna við nýja stefnu hófst með opnum vinnustofum á liðnum vetri og nú vill stjórnin loka hringnum með opnum veffundum áður en endanleg tillaga að nýrri framtíðarsýn verður lögð fyrir Skátaþing í lok október undir yfirskriftinni Færni til framtíðar. 

Fjórir fjörugir kynningarfundir

Stefnunni er skipt í nokkra kafla og býður stjórn skátum til fjögurra og fjörugra umræðufunda á netinu þar sem farið verður á dýptina í einstaka þætti stefnunnar:

Fólk

Í þessum kafla stefnunnar verður fjallað um mannauðinn og hvernig skátarnir munu bjóða sjálfboðaliðum og starfsfólki upp á heilbrigt og uppbyggilegt starfsumhverfi. Haldinn verður netfundur 15. september. Smelltu hér fyrir tengil á viðburðinn.

Framsýni

Í þessum kafla stefnunnar verður fjallað um hvernig skátarnir munu starfa í takt við tímann og oftar en ekki einu skrefi á undan, eins og segir í drögum að stefnunni. Haldinn verður netfundur 21. september. Smelltu hér fyrir tengil á viðburðinn.

Færni

Í þessum kafla stefnunnar verður fjallað um hvernig skátarnir ætla með vandaðri dagskrá og þjálfun að veita þátttakendum tækifæri til að öðlast færni til framtíðar. Haldinn verður netfundur 30. september. Smelltu hér fyrir tengil á viðburðinn.

Stefnan í heild

Á síðasta netfundinum verður stefnan í heild til umræðu og er það jafnframt síðasti séns til breytinga á þeirri tillögu sem lögð verður fyrir skátaþing. Haldinn verður netfundur 8. október. Smelltu hér fyrir tengil á viðburðinn.

Hvað er skátastarf?

„Flestir eru sammála um hver séu stóru málin í skátahreyfingunni, en við þurfum öll að vera saman í að keyra þau áfram,“ sagði Harpa Ósk Valgeirsdóttir, formaður dagskrárráðs í viðtali fyrr í sumar um mikilvægi þess að skátar kynni sér stefnuna. „Við þurfum öll að vera meðvituð um hvert við erum að fara og þessi stefna hjálpar okkur við að vita það og hjálpar okkur við að svara spurningunni hvað er skátastarf“