Landsmót skáta með gjörbreyttu sniði

Landsmót skáta sem haldið verður í júlí á næsta ári verður haldið með gjörbreyttu sniði og er það til að mæta breyttum aðstæðum vegna heimsfaraldursins. Ákveðið hefur verið á vettvangi skáta að skipta landsmótinu upp í fjögur smærri skátamót sem öll verða haldin í júlí. Gert er ráð fyrir að hvert skátafélag mæti sem ein heild á eitt af mótunum fjórum og verður sú skipting ákveðin innan tíðar svo skátafélögin geti betur undirbúið þátttöku sína.
Með þessu fyrirkomulagi er verið draga úr áhættu af því að blása þurfi mótið af eða fresta því. Með því að fækka þátttakendum sem eru á staðnum á hverjum tíma sé verið að „fletja út kúrfuna“.  Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi segir að ákvörðunin hafi ekki verið létt fyrir stjórnir Bandalags íslenska skáta og Skátamóta ehf. því hluti af Landsmóti skáta er krafturinn sem kemur með fjöldanum, en nú verði að leggja áherslu á aðra þætti. Hún telur að með þessu fyrirkomulagi sé komin raunhæf áætlun sem eykur líkur á að halda Landsmót sumarið 2021.
Landsmótið verður haldið á Úlfljótsvatni og koma starfsmenn þar að undirbúningi mótsins með sjálfboðaliðum. Nú er kallað eftir þátttöku allra þeirra sem vilja taka þátt í að skapa Landsmót með breyttu sniði og eru þau beðin um að hafa samband við Jakob Guðnason, staðarhaldara á Úlfljótsvatni (jakob@skatar.is).