Landsmóti skáta frestað til 2021

Gleðilegt sumar.

Eins og við vitum öll þá stóð til að halda Landsmót skáta að Hömrum á Akureyri í sumar. Mikill undirbúningur er búinn að eiga sér stað og stefndi í virkilega gott mót. Aðstæður í samfélaginu hafa hins vegar sett strik í reikninginn og fengið okkur til að endurskoða ákvörðun um mótahald í sumar. Við höfum verið í mjög góðu samstarfi við yfirvöld í þessu ferli og fengið liðsinni þeirra í þessari vinnu.

Stjórn BÍS hefur í ljósi aðstæðna ákveðið að fresta Landsmóti skáta 2020 til næsta sumars. Óvissuþættirnir eru of margir til að geta réttlætt þessa framkvæmd í sumar.

Á næstu vikum munum við kynna betur hvernig verður staðið að Landsmóti skáta að Hömrum 2021. Nánari upplýsingar um endurgreiðslur og skráningu munu koma eigi síðar en 15. maí n.k.

Þessi ákvörðun var erfið en við trúum því að hún hafi verið rétt. Það er mikilvægt að við stöndum saman og vinnum okkur í gegnum þessa veiru.

Með skátakveðju
Stjórn BÍS


Drekaskátamóti aflýst

Vegna óviðráðanlegra aðstæðna í samfélaginu hefur verið ákveðið að aflýsa Drekaskátamótinu í ár, en óttist ekki, Drekaskátamót verður haldið í júní 2021 með pompi og pragt! Sólstrandaþemað verður á sínum stað og við hlökkum til að sjá ykkur við ströndina á Úlfljótsvatni!

Í tilefni af sólstrandaþemanu viljum við hvetja alla tilvonandi þátttakendur Drekaskátamóts og aðra velunnara að taka þátt í stuttu myndbandi sem verður birt 7. júní kl. 15:00 þegar Drekaskátamóti hefði átt að vera að ljúka í ár.

Til að taka þátt þarft þú að klæða þig upp í sólstrandaþema. Þú gætir til dæmis sett upp sólhatt og sólgleraugu, farið í strápils, vafið um þig stóru strandhandklæði eða annað skemmtilegt sem þér dettur í hug!

Síðan tekur þú mynd af þér og sendir hana á drekaskatamot@skatar.is fyrir 1. júní 2020, þá verður myndin sett inn í Sólstrandamyndbandið mikla!


ís í poka

Verkefni 39 - Heimagerður ís í poka

Verkefni 39 – Heimagerður ís í poka

Gleðileg sumar! Nú er sumarið, sem flestir eru búin að bíða spennt eftir, loksins komið 😀 Gott er að nýta daginn í eitthvað skemmtilegt, fara út að leika og búa til heimagerðan ís. Njótið dagsins og skemmtið ykkur vel 🙂

Uppskrift:

  • 2 teskeiðar af sykri
  • 1 bolli af mjólk
  • 1/2 teskeið vanilludropar
  • 1 1/2 teskeið af bragðefni af þínu vali
    • Þú getur sett það bragðefni sem þú vilt, súkkulaðisósa, sýróp, karmellusósa eða það sem þig langar í

Áhöld til að nota:

  • Klakar
  • Hálfur bolli af grófu salti
  • Tveir lásapokar (ziplock)
    • Einn þarf að vera stærri en hinn

En hvernig bý ég til ísinn?

Fyrsta skref: Taktu minni lásapokann og settu í hann mjólkina, sykurinn, vanilludropa og bragðefnið sem þú valdir. Lokaðu pokanum vel.

Annað skref: Taktu stærri lásapokann og fylltu hann til hálfs með klaka. Dreifðu saltinu yfir klakann.

Þriðja skref: Settu minni lásapokann ofan í stærri lásapokann og lokaðu vel fyrir.

Passaðu að báðir pokarnir séu lokaðir mjög vel. 

Fjórða skref: Nú er komið að því að hrista! Hrista eins mikið og þú getur. Settu á góða tónlist og dansaðu eins og enginn sé morgundagurinn. Hristu þangað til ísinn er tilbúinn.

Fimmta skref: Svo er bara að njóta 🙂 Settu ísinn í skál og þú getur bætt við ávextum eða það kurl sem þig langar í.

Mundu svo að þrífa pokana svo þú getir notað þá aftur 🙂 

Gleðilegt sumar 😀


Hvernig búa á til appelsínukerti

Verkefni 38 - Heimagert kerti úr appelsínu

Verkefni 38 – Heimagert kerti úr appelsínu

Flest erum við að gera okkar besta til að hugsa vel um jörðina okkar og þarf af leiðandi erum við að reyna að finna hluti sem fara betur með jörðina okkar. Verkefni dagsins er einmitt ein hugmynd um hvernig þið getið nýtt heila appelsínu, meira að segja börkinn og þegar þið eruð búin með verkefnið þá er hægt að molta appelsínuna. En fyrir ykkur sem þekkið ekki moltun þá er molta jarðvegur unnin úr lífrænum úrgangi. En það er efni í annað verkefni 🙂

appelsínur

Leiðbeiningar:

Auðvelt er að búa til appelsínukerti en gott er að fá hjálp frá fullorðnum við verkefnið. Mikilvægt er að hafa eitthvað undir appelsínunni svo þetta sullist ekki út um allt.

 

Það sem þið þurfið er:

  • Appelsína (megið gera úr fleiri en einni appelsínu)
  • Ólífuolía
  • Skeið

Leiðbeiningar til að búa til kertið:

  1. Taktu appelsínuna úr berkinum og skildu miðjuna eftir. Gott er að nota skeið í þetta verkefni.
  2. Fylltu hálfa appelsínuna með ólífuolíu.
  3. Svo er bara að að kveikja á kertinu og njóta.
  4. Mundu að þegar kertið klárast þá getur þú moltað börkinn.

Hvernig búa á til appelsínukerti

Sumardagurinn fyrsti 2020

Sumardagurinn fyrsti 2020

Sumardagurinn fyrsti 2020

Í ár verður sumardagurinn fyrsti haldinn með breyttu sniði en undanfarin ár. Á flestum stöðum hafa hátíðarhöld verið felld niður en þó hvetjum við alla landsmenn til að nýta daginn með fjölskyldunni, fara út og njóta dagsins (bara muna tveggja metra regluna). Auk þess eru verkefni úr #stuðkví sem þið getið framkvæmt og Skátafélagið Mosverjar munu standa fyrir ratleik í Mosfellsbæ og Skátasamband Reykjavíkur stendur fyrir ratleik í Öskjuhlíðinni.

Leitin að sumrinu – fjölskylduratleikur fyrir alla

Í tilefni sumarkomu stendur Skátafélagið Mosverjar, í samstarfi við Mosfellsbæ, fyrir fjölskylduratleik innan hverfa bæjarins. Leikurinn byrjar kl 10:00 á sumardaginn fyrsta, 23. apríl, og lýkur kl 18:00 sunnudaginn 26. apríl.

Inn á viðburðarsíðu fjölskylduratleiksins verður birt slóð á kort með staðetningu þrautanna en leysa þarf a.mk. 5 þrautir af 10 í því hverfi sem fólk býr í. Þátttakendur birta myndir af þrautunum og hvernig þær voru leystar á Instagram undir myllumerkjunum #leitinadsumrinu og #mosverjar. Frekari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér.

leitin að sumrinu - mosverjar

Mörg stuðkví verkefni henta vel fyrir sumardaginn fyrsta og auðvitað kemur út nýtt verkefni á sjálfan daginn sem þið getið kíkt á. Sem dæmi um skemmtilegan dag gætu þið unnið þessi verkefni:

  1. Byrjið daginn á hláturjóga. Frábær leið til að byrja daginn með bros á vör.
  2. Þá er gaman að kíkja út þar sem það er komið sumar! (er þá ekki alltaf gott veður?). Hér eru nokkur skemmtileg verkefni sem þið getið unnið að úti:
    1. Knús og músarhús: Hér er verkefnið að fara út, knúsa tré og búa til músarhús.
    2. Alvöru gönguferð: Hér er farið yfir hvernig á að skipuleggja gönguferð.
    3. Náttúrubingó: Hver er fyrst/ur að finna alla hlutina á spjaldinu?
  3. Eftir góða útiveru er gott að koma inn og fá sér eitthvað gott í gogginn. Þið getið til dæmis skellt í eina örbylgjuskátabollaköku eða bakað bananabrauð!

Af nógu er að taka og þið megið endilega deila því sem þið gerið undir myllumerkjunum #skátarnir og #stuðkví

Betri tíð – fjölskylduratleikur skátanna

Harpa er orðin mjög þreytt á því að bíða eftir sumrinu, en á sumardaginn fyrsta kveður einmánuður og sumarið hefur loksins innreið sína. Getið þið hjálpað Hörpu að skapa betri tíð með blóm í haga?

Betri tíð, fjölskylduratleikur skátanna, er tilvalinn fyrir fjölskyldur til að vinna saman að á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 23. apríl 2020, leysa verkefni, stunda útivist og lífga upp á lífið. Leikurinn fer fram í Öskjuhlíð og það eina sem þið þurfið er snjallsími og appið Actionbound. Leikurinn verður gerður aðgengilegur á aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Appið er hægt að sækja hér: https://en.actionbound.com/download/

Leikurinn er í boði Skátasambands Reykjavíkur. Þátttakendur sem klára ratleikinn geta skráð nafn sitt í pott og unnið skemmtilega vinninga. Frekari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér.

Harpa sumardagurinn fyrsti 2020

Útivistarárskorun og happdrætti á Grundarfirði

Skátafélagið Örninn býður upp á þrjár skemmtilegar útivistaráskoranir þar sem fólk getur sett nafnið sitt í bauk og er dregið úr honum nafn sem vinnur verðlaun!

1. Gönguferð í skógræktarlundinn

Útivist sem hentar yngstu kynslóðinni. Farðu í lautarferð, feluleik og gerðu músarhús, skoðaðu gróðurinn.

Baukurinn er í lundinum.

2. Gönguferð að vitanum við Kirkjufell

Meira krefjandi ferðalag og margt að skoða, sérstaklega undir steinum í flæðarmálinu. Rannsakið það!

Gleymum ekki tækifærinu til að vaða, gera sandkastala og borða nesti við Breiðarfjörðinn. Baukurinn verður við vitann.

3. Gönguferð upp á Klakk

Mest krefjandi gangan og mikilvægt að taka með sér orkuríkt nesti og vökva.

Slóðin er vel stikuð frá bílastæðinu við Bárarfoss. Baukurinn verður við Klakkstjörn uppi á fjallinu.

Það sem þarf að gera:

Ákveða hvaða gönguferð á að fara í – Búa til miða með nöfnum allra – Gera nesti, allir taka þátt – Búa sig eftir veðri – Leggja af stað

Takið myndir og póstið undir myllumerkinu #grundosumar

Fylgist með útdrætti kl 18:00 á Facebook hópnum: Umræðu- og hugmyndabanki Grunarfjarðar.

Skátamiðstöðin óskar öllum gleðilegs sumars!


Kort með fræjum

Verkefni 37 - Kort til að gróðursetja

Verkefni 37 – Kort til að gróðusetja

Verkefni dagins er að búa til kort sem viðtakandi getur gróðursett og fengið fallegt blóm í staðinn. Kortið er hægt að nota sem afmæliskort, jólakort, senda vinum eða ættingjum póstkort eða til að senda vinum góðar kveðjur. Þetta er auðveld leið til að nýta afganga af pappír sem fellur til á heimilum og minnka úrgang sem kemur úr keyptum kortum. Þetta tengist vel inn á heimsmarkmið 12 (Ábyrg framleiðsla) og heimsmarkmið 15 (Líf á landi). Þið getið lesið um heimsmarkmiðin og undirmarkið þeirra hér.

Kort sem hægt er að gróðursetja

Fyrsta skref: Finna pappír

Til að byrja verkefnið þarf að finna góðan pappír til að nota í kortagerðina. Þú þarft að finna fullt af endurvinnanlegum pappír. Góður pappír til að nota í verkið er til dæmis dagblöð, eggjabakki, bréfpoki úr búðinni eða hvít blöð. Þegar þú ert búin að finna góðan bunka af blöðum þá skalt rífa þau niður í mjög litla bita. Settu bitana í blandara þangað til þú ert búin að fylla upp að helmingi.

 

Annað skref: Blanda saman við vatn

Næst skalt þú hella volgu vatni yfir blöðin og fylla eins mikið og blandarinn leyfir. Svo skaltu setja blandarann í gang á lága stillingu og blanda í um 10 sekúndur. Svo skaltu auka hraðann og blanda í 30 sekúndur í viðbót. Þá ætti pappírinn að hafa blandast vel við vatnið og engar pappír flygsur að sjást.

 

Þriðja skref: Blanda fræ við pappírinn

Nú er komið að því að setja inn fræ. Við mælum með að nota kál, en kál er fljótt að vaxa og miklar líkur á að þau spíri og því gaman að fylgjast með því vaxa. Settu teskeið af fræjum og hrærðu. Ekki nota blandara í þetta verk heldur notaðu skeið og hrærðu fræunum rólega við. Þegar þú ert búin að blanda fræunum við, sigtaðu blönduna og reyndu að losna við eins mikið vatn og þú getur. Þú getur notað skeið eða sleif til að þrýsta á blönduna til að ná sem mestu vatni úr.

 

Fjórða skref: Þerra pappírskvoðann

Nú þarftu að leggja gróft handklæði, míkrófíber klúta eða annað svipað efni á flatt yfirborð. Settu pappírskvoðann (því sem þú varst að blanda saman) á efnið og notaðu skeið eða sleif til að dreifa pappírskvoðanum um efnið. Þú getur búið til hvaða form sem þú vilt, kassa, hring eða jafnvel hjarta. Eina sem þú þarft að passa er að reyna að dreifa því eins þunnt og þú getur svo það þorni fljótt og vel. Þegar formið er tilbúið getur þú notað svamp til að tryggja að yfirborðið á pappírskvoðanum sé eins flatt og mögulegt er og til að þerra vatn ef það er enn í pappírskvoðanum. Þegar pappírskvoðinn er alveg þurr á einni hliðinni, snúðu honum þá við til að leyfa hinni hliðinni að þorna alveg. Þegar báðar hliðarnar eru orðnar alveg þurrar, þá er kortið þitt tilbúið.

 

Nú getur þú skreytt kortið þitt eins og þú vilt. Þessi kort eru sniðug sem boðskort, afmæliskort, jólakort og gjafamiða. Mundu bara að láta viðtakanda vita að þau geta sett kortin í mold og vökvað þau og þá byrja fræin að vaxa og dafna.

Sýndu okkur þín kort undir myllumerkjunum #skátarnir og #stuðkví


Stígvél sem blómapottur

Verkefni 36 - Endurnota, minnka, endurvinna

Verkefni 36 – Endurnota, minnka, endurnýta

Eins og við höfum farið yfir í seinustu verkefnunum er skáti nýtinn, náttúruvinur og tillitsamur, ásamt mörgum öðrum góðum eiginleikum. Því höfum við verið að vinna mikið með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, en fyrir þau sem þekkja þessi markmið ekki þá geti þið lesið um þau hér.  Flest verkefni sem við vinnum að í skátunum tengjast á einn eða annan máta inn á heimsmarkmiðin. Ef þú skoðar þau vel finnur þú örugglega fullt af hlutum sem þú ert að gera til að ná heimsmarkmiðunum og til að hjálpa jörðinni okkar. Þetta verkefni tengist markmiði 9, Nýsköpun og uppbygging og markmiði 12, ábyrg neysla og framleiðsla.

Nú fer að líða að sumardeginum fyrsta (hann er á fimmtudaginn!) og eflaust margir farnir að hlakka til 😀 Nú er góður tími til að fara yfir búnaðinn sem við eigum fyrir sumarið og passa að allt sé tilbúið. Ef eitthvað er bilað, rifið eða brotið þá ætlum við að byrja á því að laga það. Hér kemur listi yfir hluti sem þið getið farið yfir og hvernig hægt er að endurnýta hluti.

Endurnýta útilegubúnað

Skoðið útilegubúnaðinn ykkar. Ef það er eitthvað bilað, byrjið á því að reyna að laga það. Ef það er gat þá er hægt að sauma það eða líma fyrir gatið. Ef hluturinn er mjög skítugur þá er gott að byrja á því að þrífa hann. En ef ekki er hægt að laga hlutinn og nota þá geti þið prófað að búa til eitthvað nýtt úr hlutnum.

Segjum til dæmis að þið eigið tjald sem er orðið mjög slitið og þið eruð búin að prófa að laga það en ekkert virkar. Þá geti þið endurnotað tjaldið og búið til úr því ýmsa hluti. Sem dæmi er hægt að gera:

  • Innkaupanet (t.d. fyrir ávexti eða brauð)
  • Hælapoka
  • Poka undir útilegupottasettið
  • Flokkunarpoka sem hægt er að nýta aftur og aftur
  • Höfuðflugnanet fyrir ykkur (getið notað flugnanetið sem er í tjaldinu)

sauma

Þegar þið farið í gegnum búnaðinn ykkar, skoðið hvernig þið geymið hann. Búnaðurinn endist lengur ef honum er haldið við og hann er geymdur á góðum stað.

Fleiri hugmyndir

Stundum er hægt að nýta hluti í eitthvað allt annað. Hvað á til dæmis að gera við stígvélin þegar þau eru byrjuð að leka eða orðin of lítil?

Þú getur til dæmis málað þau og sett blóm ofan í þau og skreytt þannig pallinn/svalirnar/garðinn þinn.

Stígvél sem blómapottur

Veist þú um fleiri leiðir til að endurnota og endurnýta útilegubúnað? Endilega sendu okkur og láttu einnig vita hvernig gengur að fara yfir þinn búnað!

#skátarnir #stuðkví


bananabrauð

Verkefni 35 - Skáti er sjálfstæður

Verkefni 35 – Skáti er sjálfstæður

Verkefni dagsins í dag er tileinkað tíundu, og seinustu, grein skátalaganna ‘Skáti er sjálfstæður. Því er verkefni dagsins að baka bananabrauð, skemmtilegt verkefni sem þarf alls ekki að vera erfitt né flókið. En mikilvægt er að undirbúa verkefnið vel áður en þið byrjið:

  1. Fáðu leyfi og aðstoð hjá foreldrum
  2. Gakktu úr skugga um að þú eigir það sem þarf í uppskriftina, líka áhöldin.
  3. Þvoðu hendur vel og gættu þess að vinnusvæðið sé hreint. 
  4. Finndu til allt hráefnið og settu það á vinnusvæðið. 
  5. Byrjaðu verkefnið og fylgdu leiðbeiningunum vel.

Eftir baksturinn er mikilvægt að ganga vel frá. Þvo upp eða setja allt í uppþvottavélina og þurrka vel af borðinu.

Hér er uppskrift að einföldu (en ljúffengu) bananabrauði. 

Áhöld:

  • Skál
  • Desilítramál
  • Mæliskeiðar
  • Sleif
  • Diskur
  • Gaffall
  • Kökuform (eitt stórt brauðform)

Hráefni

  • 1 egg
  • 2 dl sykur
  • 4 dl hveiti
  • ½ tsk matarsódi
  • 2-3 vel þroskaðir bananar
  • 1 dl mjólk

Aðferð

  1. Stilltu ofninn á 180°C og blástur ef hægt er, annars á yfir- og undirhita.
  2. Hrærðu vel saman egg og sykur, þar til blandan verður ljós á litinn. Það er gott að nota hrærirvél í þetta verkefni en mundu að fá aðstoð hjá fullorðnum. 
  3. Stappaðu bananana vel á disknum og bættu þeim út í blönduna. 
  4. Bættu hveitinu og matarsódanum saman við og hrærðu aðeins saman. Þetta má gera með sleif ef þú hefur verið að nota hrærivélina hingað til. 
  5. Bættu mjólkinni saman við og hrærðu aðeins þar til að deigið er orðið vel samlagað. 
  6. Helltu öllu saman í eitt aflangt brauðform eða tvö lítil. Það er gott að smyrja formin aðeins með olíu eða smjöri. 
  7. Bakaðu í miðjum ofni í um 35-45 mínútur. Eitt stórt brauð er lengur að bakast en tvö lítil. Til að vita hvort brauðið er tilbúið er hægt að stinga í það prjóni. Ef hann kemur hreinn upp þá er brauðið til en ef á honum er blautt deig þarf að baka brauðið lengur. 
  8. Láttu brauðið kólna vel áður en þú tekur það úr forminu. 

Bónus: Ef þú vilt getur þú bætt við um 70 gr af niður söxuðu súkkulaði í deigið um leið og þú setur hveitið saman við. 

Eftir bakstur:

  • Þvo allt og ganga frá.
  • Þurrka af borðunum
  • Þvo hendur
  • Borða brauðið t.d. með smá smjöri. 

 

Verði ykkur að góðu 🙂

#skátarnir #stuðkví


leikhús

Verkefni 34 - Skáti er réttsýnn

Verkefni 34 – Skáti er réttsýnn

Verkefni dagsins er tileinkað níundu grein skátalaganna ‘Skáti er réttsýnn’. En hvað er að vera réttsýnn? Ein útskýringin er að sjá muninn á réttu og röngu og reyna að velja „réttu“ leiðina, þrátt fyrir að hún geti verið erfiðari. Í verkefni dagsins ætlum við að æfa okkur í að bregðast við aðstæðum sem okkur finnast erfiðar að tækla og sjá hvernig við getum unnið með fólkinu í kringum okkur til að vinna vel úr þeim aðstæðum.

 

Opið leikhús

Opið leikhús er aðeins öðruvísi leikhús en flestir eru vanir. Það byrjar þannig að tveir eða fleiri byrja á því að leika atriði sem tengist erfiðri stöðu. Þau ná ekki að leysa vel úr vandamálinu þannig það endar illa og er ekki höndlað vel.

Svo leikur sami hópurinn aðstæðurnar aftur. Nema í þetta skipti geta áhorfendur stoppað atburðarásina þegar þau vilja, stigið inn í þær og sýnt fram á hvernig þau myndu finna góða lausn á því sem er í gangi.

Þessi tegund af leikhúsi er til í að æfa okkur að skilja mismunandi aðstæður og hvernig hægt er að leysa þær á mismunandi máta. Þetta æfir líka hóp í að finna sameiginlega út úr því hvernig er rétt að bregðast við í mismunandi aðstæðum.

Þó eru nokkrar reglur sem þarf að fylgja til að leikhúsið gangi vel:

  • Þú þarft að klappa til að fá að stíga inn í aðstæðurnar.
  • Ef þú ert beðinn um að stíga úr aðstæðunum, þá þarftu að hlusta.
  • Notum inniröddina og tölum saman á blíðum nótum. Ef við erum ekki sammála þá ræðum við málin.
  • Mikilvægt er að taka vel eftir og hlusta á alla.


BÍÐUM AUGLÝSINGAR STJÓRNVALDA

Þessa dagana berst Bandalagi íslenskra skáta, útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni og skátafélögum um allt land ýmsar fyrirspurnir um hvernig starfsemi okkar verði háttað eftir 4. maí.

Um þessar mundir bíðum við eins og annað æskulýðs- og frístundastastarf eftir auglýsingu stjórnvalda þar sem við vonumst til þess að skýrari tilmæli og leiðbeiningar verði settar fram um hvernig skuli hegða tómstundastarfi barna öðru en íþróttastarfi. Þangað til erum við í góðum samskiptum við ráðuneyti mennta og menningarmála ásamt því sem við höfum komið spurningum sem okkur þykir vanta svör við áfram til almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.

Vænta má upplýsinga frá yfirvöldum í næstu viku sem við vitum að vinna mjög hörðum höndum að þeim um þessar mundir. Skátarnir munu reyna að vera eins fljót og kostur er að aðlaga starfsemi sína í samærmi við formleg fyrirmæli stjórnvalda og koma síðan upplýsingum áfram til okkar skáta og aðstandenda þeirra.

 

 


Privacy Preference Center